8.7.2011 | 20:10
Hér eru engir njólar!
Í vetur hafði ég hugsað mér að nota sumarið í að rannsaka njóla. Til undirbúnings hafði ég hlaðið á náttborðið bókum um nytjajurtir og grasafræði. Njólinn er til margra hluta nytsamlegur þó svo að hann hafi hálfgert óorð á sér. Það er helst að njóli sé nefndur í annarri merkingu en niðrandi, þegar menn um miðjan aldur minnast æsku afreka sinna við það að þróa með sér tækni ti tóbaksreykinga. Ég varð reyndar aldrei þeirrar reynslu aðnjótandi að reykja njóla, ég notaði te til að þróa reykingatæknina. Það var nefnilega þannig að móðir mín heitin gerðist áskrifandi að Æskunni, því fyrirmyndar blaði, og hélt því að okkur systkinunum sem hollri lesningu. Í einu tölublaðinu var heilsusemi te-reykinga gerð skil í örfáum setningum. Þar sem pabbi var í reykbindindi og pípusafnið safnaði bara ryki, fannst mér tilvalið að skella mér í heilsuátak og mökkreykti te dagana langa mömmu til mikilla leiðinda. Það var sama hvað hún reyndi að fá mig ofan af þessu, alltaf gat ég vitnað í hið ágæta barna blað, Æskuna.
Þetta var í þá daga þegar eldspítur voru á hvers manns færi, en nú er búið að banna að bera eld að flestu og er þær því að verða úreltar, kerti og útigrill eru að verða það eina sem er undanskilið. Ruslatunnan, sinan, sígaretturnar og varðeldurinn heyra nú brátt sögunni til að viðlögðum fjársektum eða jafnvel fangelsi. Þannig þróaðist ein helsta tækniframför mannfólksins eldurinn á hálfum mannsaldri. Enda er nú svo komið að ef ungt fólk og eldfæri fara saman endar það yfirleitt með ósköpum, ef það næst að kveikja eldinn virðist kunnáttan um það hvernig hann hagar sér og hvernig á að slökkva hann hafa glatast á nokkrum áratugum. Það þarf orðið sérfræðinga með háskólagráður til að fara með eld. Öll notkun á eldi er svo háð leyfisveitingum frá hinu opinbera sem kosta sitt, t.d. kostar um 400 þúsund að fá leyfi til að kveikja varðeld en sektin er 80 þúsund fyrir að gera það í leyfisleysi, hvað það kostar að kveikja í njóla, um það hef ég ekki upplýsingar, en sjálfsagt má afla þeirra hjá Umhverfisstofnun.
En hvað um það það var ekki meiningin að þvæla hér um eldspítur og njólareykingar. Kveikjan að þessum pistli var önnur, sú að ég hafði hugsað mér að nota sumarið í rannsaka njóla til fæðu. Ég hef nefnilega smásaman verið að átta mig á því eftir því sem á ævina hefur liðið að það er eins og praktísk þekking kynslóðanna sé að glatast, ef ekki af hreinni leti þá vegna regluverks sérfræðingasamfélagsins í boði ríkisins. Sem dæmi þá gátu afi og amma að ala skepnur og slátra auk þess sem veiddur var silungur yfir sumartímann, sáð kartöflum, rabbabarinn spratt eins og af sjálfu sér, svo má ekki gleyma blessuðum hænunum og berjamónum á haustin. Heimilið var einhvern veginn alveg sjálfbært og leið aldrei skort það eina sem var skilda að kaupa var dagblaðið Tíminn en hann kom margra daga gamall í sveitina og var notaður í skeinispappír. Pappi og mamma tóku mikið af kunnáttunni úr foreldrahúsum, en þó ekki þá að ala skepnur og praktíska notkun á áróðursskrifum dagblaðanna. Þau tóku slátur að hausti, leigðu pláss í frysti þar sem þau byrgðu sig upp af kjöti og fisk fyrir veturinn, ekki má gleyma rabbabaranum, kartöflugarðinum og berjamónum.
Það flaug því gegnum hugann fyrir nokkrum árum þegar við hjónakornin vorum að versla í Bónus, að ef Bónus lokaði í viku þá upplifðum við sennilega hungursneið sem yrði tvísýnt um að við lifðum af. Ekki minnkaði svartnættið í huga mínum þegar ég hugsaði fram í tímann til blessaðra barnanna, hvað yrði um þau ef mötuneytunum á bensínstöðvunum, Dominos og Subway yrði lokað vegna rafmagnsleysis. Þau sem kynnu ekki einu sinni að tendra upp eld í njóla og ekki yrði iphone-inn notaður til að skeina sér á með nokkrum árangri. Það var akkúrat í kælinum á Bónus sem vegferðin að njólarannsókninni hófst. Það var upp frá því sem ég fór að sjá að það væri vissara að eiga allavega matarbirgðir til vikunnar heima í ísskáp.
Síðan hefur þessi árátta smá saman undið upp á sig og eftir að kreppan skall á þá fór ég að taka aftur eftir því sem manni fannst best í gamla daga en engum með sjálfsvirðingu datt í hug að láta spyrjast að hann æti í gróðærinu. Berjamórinn varð vinsæll, rabbabaragrauturinn eitt það besta sem ég man eftir frá bernskuárunum varð aftur á mínum borðum og kartöflugarður með ruðum íslenskum hefur verið áhugmál. Síðasta vetur dugði rabbarin og berin fram í janúar, reiknast mér til að rabbabari hafi verið ca. tvö mál í viku að jafnaði, sælkeramáltíð sem kostar ca. sjötíu og fimm kall. Kartöflurnar dugðu fram í apríl og þá er komið að mikilvægi njólans einu sinni enn.
Jóhanna á Skorrastað sagði mér einu sinni að njólinn hefði verið notaður sem meðæti í stað kartafla hér áður fyrr, enda geymast kartöflur illa út árið og voru annaðhvort ónýtar eða búnar í sumarbyrjun. Eins hafði ég heyrt það í útvarpserindi að ætihvönn og ýmsar jurtir, njólinn þar á meðal, hafi upphaflega komið til landsins sem garðjurtir og grænmeti. Þær hefðu svo dreift sér um landið og fólk væri búið að gleyma því að hver upphaflega hlutverk þeirra var og væri nú flokkaðar sem illgresi. Grænlendingar kynnu þó ennþá að nýta sér þessa búbót og er t.d. hvönnin talin úrvals grænmeti þar yfir sumartímann. Það var semsagt meiningin að prófa sig áfram með njóla og afla sér uppskrifta til matargerðar. Hvað hvönnina varðar þá hef ég heyrt að Grænlendingar leggi hana í nokkurskonar marineringu þannig að minni á súrkál.
Þessi njóla rannsókn mín virðast því miður vera komin á fullri ferð út um þúfur í bili. Snemma í maí þegar ég var nýbúinn að setja niður kartöflurnar og u.þ.b. var að verða tímabært að líta eftir njóla, álpaðist ég til að spyrjast fyrir vegna atvinnuauglýsingar hérna í Noregi og þar sem vantar fólk til starfa. Hérna hef ég alveg gleymt mér ásamt öllum njólaáformum þangað til um daginn að ég var að vinna með vinnufélaga sem man tímana tvenna og segir mér þessar hrikalegu kreppusögur frá Rússlandi, nánar tiltekið Múrmansk en þaðan er konan hans. Í nokkra daga höfðum við þann starfa að múra kanta á heilu íbúðahverfi þar sem endurnýjaðir voru gluggar í því sem næst hverju einasta húsi hérna upp í skógivöxnum hæðunum. Vinnufélagi minn er mikill matmaður þó mjósleginn sé enda mallar hann sígarettur líkt og Lukku Láki og keðjureykir þær, við getum rætt matbjargir út í eitt.
Þegar við lágum í kaffi í skógi vaxinni brekku og rannsökuðum berja vísana, fór hann að segja mér að þangað til fyrir nokkrum árum síðan hefðu verið þrjú stór fiskvinnslufyrirtæki hérna í Harstad en nú væri búið að loka þeim öllum. En í staðinn væru komnar þrjár risastórar byggingavöruverslanir sem gæða hafnarbakkana nýju lífi. En fiskurinn sem veiðist hérna fyrir utan og í Barentshafinu væri sendur til Kína og unnin þar. Fyrir hvert eitt kíló sem sent væri af óunnum fiski kæmi eitt kíló til baka "hvis du transportar en kilo, en kilo skal kome til bake, sodan skal det være" segir hann. Það sem hann undraði sig samt á var að þetta skildi vera flokkað sem matvæli eftir allt þetta transport.
Ég fræddi hann á því að á Íslandi væri árangurinn gott betur en kíló, og sæjum við alfarið um það sjálf, það væri algilt að eitt kíló af fiski upp úr sjó yrðu að einu og hálfu í vinnslu. Auk þess að nota Kínversku aðferðina, sem hann sagði að fælist í því að hirða allan afskurð og bein hakka það í marningssoppu og sprauta því í flökin, þá væri mikil tækni á Íslandi við að þyngja fisk með efnafræðiformúlum auk þess sem hann væri hvíttaður þó heiðgulur væri orðinn. Eftir vísindaafrekin gæti hann svo staðið árum saman við stofuhita án þess að nokkuð sæist á útlitinu, ein gallinn væri að hann bragðaðist bæði nýr og gamall eins og korkur, en því mætti kippa í liðinn með góðu kryddi. Þessi aðferð hefði verið þróuð úr kjúklingaiðnaðnum þar sem kjúklingabringurnar væru seldar á uppsprengdu verði sem heilsufæði enda væru þær alltaf eins og nýslitnar úr hænsninu sama hvað þær væru gamlar og nú væri búið að þróa sumt af tækninni í lambakjötið, lærin í frystinum í Bónus hefðu verið eins og útstungnir sparautufíklar nýkomnir úr vaxtarækt síðast þegar ég fór þangað. Nei, ef menn ætluðu að borða hollan mat þá væri best að halda sig við rabbbarann og annað heimafengið sagði félagi minn.
Vinnufélaga mínum leist ekkert orðið á að reyna að toppa upplýsingar mínar um matargerðarlist og fór að tala um að sennilega myndum við fljótlega lenda að vinna við skólabyggingu sem hann benti mér á og blasti við úr brekkunni þar sem við sátum, það eina sem ætti eftir að gera áður en verkið hæfist væri að rífa skólann sem stendur þar fyrir sem er fjögurra hæða steinhús ca. 40 ára gamalt. Því nú ætti að byggja miklu flottara skólahús sem uppfylltu kröfur nútímans. Ég fræddi hann á því að í mínu heimabæ á Íslandi væru menn búnir að prófa svona framfarir, menn hefðu rifið bæði skóla og þessi fínu hús til að byggja fínni, vegna þessa að landið var svo verðmætt, þó óbyggðirnar hefðu kallað allt um kring. Það hefði varla verið liðið árið þegar allt var hrunið og menn hefðu tyrft yfir herlegheitin og leitað til nágrannanna um fjárhagsaðstoð til að hægt væri a koma börnunum í skóla sem hefði þak. Það hefði nefnilega gleymst að spyrjast fyrir um hvort einhver hefði efni á að borga fyrir svona framfarir.
Þegar við stóðum upp frá og röltum niður brekkuna með nestisboxin og kaffibrúsana, vinnufélagi minn nýbúinn að kveikja í einni handgerðri sem gæti hafa verið gerð úr njóla, tók ég eftir því að eitthvað kannaðist ég við umhverfið. Úrelt útigrill, garðhúsgögn sem tilheyrðu tískunni frá því í fyrra, tengdamömmubox og fleira dót rann eins og skriða niður frá bakhliðum íbúðarhúsanna í kring, samt var rétt svo að draslið næði að standa upp úr trénuðum rabbabaranum. Þessir úreltu nytjahlutir höfðu þurft að rýma til fyrir verðmætum sem þjónuðum nútímanum betur, s.s. hjólhýsum, húsbílum, mótorhjólum, kæjökum og nýjustu sortum af útigillum sem prýddu aðaldyramegin. Allt í einu fattaði ég á hvað þetta minnti mig, þetta minnti mig á árið 2007. Og þá mundi ég eftir fyrirhugaðri njólarannsókn í sumar og uppgötvaði mér til mikillar skelfingar að hér eru engir njólar.
Athugasemdir
Frábær pistill hjá þér nafni
ég hló oft af sumu hérna t.d þessu "" Þar sem pabbi var í reykbindindi og pípusafnið safnaði bara ryki, fannst mér tilvalið að skella mér í heilsuátak og mökkreykti te dagana langa mömmu til mikilla leiðinda. Það var sama hvað hún reyndi að fá mig ofan af þessu, alltaf gat ég vitnað í hið ágæta barna blað, Æskuna.
og þessu
Öll notkun á eldi er svo háð leyfisveitingum frá hinu opinbera sem kosta sitt, t.d. kostar um 400 þúsund að fá leyfi til að kveikja varðeld en sektin er 80 þúsund fyrir að gera það í leyfisleysi, hvað það kostar að kveikja í njóla, um það hef ég ekki upplýsingar, en sjálfsagt má afla þeirra hjá Umhverfisstofnun.
og mörgu öðru hjá þér
en sem betur fer er ekki öll vitleysan eins
Magnús Ágústsson, 9.7.2011 kl. 23:43
Þakka þér fyrir jákvæða umsögn nafni. Það er víst örugglega satt hjá þér að það er ekki öll vitleysan eins, þetta með varðeldinn er reyndar ekki vitleysa nema reglunum hafi verið breytt. Hvernig það var svo hægt að banna fólki að kveikja eld er svo kapítuli út af fyrir sig.
Annars er það sem mér langaði til að benda þér á með pistlinum þetta; fáðu þér hænu, kartöflugarð, og veiðistöng þegar þú ferð aftur til Filippseyja og það sakar ekki að tékka á því hvort þar er njóli. Þú færð svo miklu hollara fæði þannig heldur en vísindafæðið er.
Magnús Sigurðsson, 10.7.2011 kl. 07:24
Ég er þegar orðin eigandi að geit og kálgarði og viðistöngin verður með í farteskinu það er spurning um að taka með sér fræ af njól (kannski ekki sennilega er það bannað)
mjór er mikils vísir
Magnús Ágústsson, 10.7.2011 kl. 20:24
Þú ert vel settur nafni og svo kanntu þar að auki á veiðistöngina. Það sakar ekki að hafa með sér nokkur fræ til að prufa.
Magnús Sigurðsson, 10.7.2011 kl. 20:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.