22.10.2011 | 04:29
Guð einn veit.
Í dag verður Ægir borinn til grafar. Í dag ætti ég að vera á Djúpavogi ásamt fólkinu þar til að votta hinstu kveðju. Í dag er ég staddur í Norður Noregi með tárin í augunum og kökkinn í hálsinum.
Þau voru óumræðanlega sár tíðindin sem hún Matthildur mín flutti yfir hafið miðvikudaginn 12. október. .......Maggi ......hann Ægir er dáinn........ Hann Ægir einn af þessum hjartahreinu mönnum sem ég hélt að yrði á veginum á meðan ég væri þar sjálfur. Hann Jón Ægir Ingimundarson sem fórst við vinnu sína í hræðilegu slysi í höfninni við Innri Gleðivík á Djúpavogi þennan örlagaríka október dag á Austurlandi.
Ægir var einn af þeim sem vakti athygli við fyrstu kynni, ekki vegna þess að hann ætlaði það, heldur fyrir að vera öðlingur. Ég vissi fyrst hver Ægir var þegar hann var á unglingsárum, örlögin höguðu því þannig að móðursystir hans varð lífsförunautur minn og mér féll sá heiður í skaut að kynnast Ægi og hans fjölskyldu í gegnum tíðina. Claudiu þegar þeirra sambúð hófst, börnunum þeirra Hafrúnu Alexiu, sem var mér eins og kær afmæliskveðja fyrir níu árum og Emilio Sæ sem fyrir rúmum sex árum átti þá skemmtilegustu skírnarveislu sem ég hef setið.
Í dag get ég aðeins vottað samúð mína með því að senda í huganum yfir hafið og heim mínar dýpstu samúðarkveðjur til hans kæru fjölskyldu; Claudiu, Hafrúnar, Emilio; foreldranna Unnar og Ingimundar auk alls fólksins á Djúpavogi, staðarins sem hefur misst einn af sínum kærustu sonum.
Í dag eru öll mín orð fátækleg því ég á ekki að vera hér heldur á Djúpavogi, þess vegna ætla ég að gera orð einnar af dætrum Djúpavogs að mínum við að tjá hinn ólýsanlega missi.
"Sonur, faðir, unnusti, ástvinur....á svipstundu fallinn frá, í faðmi fjalla ,í bláma sjávar í rödd vindsins þann dag.....
Sorgin breiðir yfir blæju sína, þorpið sem lamað....
Tárin streyma, söknuðurinn er sárastur..
... ...Tíminn læðist hægt til ykkar...áfram biður lífið ykkur um að horfa fram á veginn.
Vegurinn er endalaus,brattur...erfiður,
Vegurinn er líka beinn og breiður.
Með sameinuðu ferðalagi samfélags í sorg er
Leiðin greið.
Minningar vakna, tónlist ,hlátur,gleði...lítil falleg börn....
Þakklát fyrir að hafa fengið þó þessi ár
Þakklæti fyrir hlýjuna...
Þökkum fyrir manninn sem er kenndur við öldur hafsins...hafið sem var honum svo kært.
Hann fer með tónlistina á nýjan stað.
Hann horfir yfir...
Þorpið kveður...með einlægri hjartans kveðju..."
(höfundur Jóhanna Másdóttir)
Athugasemdir
Falleg kveðjuorð Magnús. Sorgin er mikil hér við voginn og hún teygir anga sína víða. Við huggum okkur við góðar minningar um góðan dreng.
Kveðja,
Kristján Ingimarsson.
S Kristján Ingimarsson, 22.10.2011 kl. 08:50
falleg ord vid soknum tin pabbi ...
Systa (IP-tala skráð) 22.10.2011 kl. 18:35
Síður en svo fátækleg orð Magnús, einlægt og fallegt.... en auðvitað þá skortir manni orð á svona stundu. Það eru líka bara engin orð sem í raun lýsa þessum erfiðu tilfinningum...það er ekki hægt að ganga í gegn um erfiðari stundir en að kveðja ástvin að eilífu. Minningin lifir. Góðar kveðjur Magnús yfir hafið. Kv Jóhanna
Jóhanna Másdóttir (IP-tala skráð) 23.10.2011 kl. 08:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.