1.12.2011 | 17:07
Af manni og mús, sem kann ekki strauja
Frá því að ég kom hingað á 69°N ,eftir að hafa verið þjakaður af atvinnuleysi, gluggaumslögum og stefnuvottum heima á Fróni, mætti ætla að það hafi verið einmanalegt í kotinu. Koti sem er fjarri heimahögunum á stað sem ég sem þekkti ekki eina einustu hræðu þegar ég kom. Þetta væri annað líf en þar sem einhver er til að tala við og kettirnir sjá um móttökur við útidyrnar, eða það sem við köllum heimili. Jafnvel þó svo að hér banka ekki einu sinni stefnuvottar á dyrnar hvað þá sölumenn sem hægt væri að taka stutt spjall um daginn og veginn. Meir að segja þó sannist þar hið fornkveðna "engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur" og þó það megi svo sem segja að varla hafi hræða komið inn fyrir dyr síðan ég kom hingað í maí ef frá eru taldir dagarnir sem hún Matthildur mín var hérna í ágúst. Aðeins Pakistanarnir á hæðinni fyrir neðan rétt á meðan á samningaumleitunum stóð um hvernig við deildum með okkur nettengingu, eftir að ég uppgötvaði að það var hægt að nota hana og þeir að það var einhver farin að narta í hana.
Þetta hús sem ég bý í er samt allt annað en lífvana. Auk Pakistanana á hæðinni fyrir neðan er ökuskóli á götuhæðinni, Salberg Kjöreskole A/S, þar er margt um manninn yfir daginn. Vöruflutningabílstjórar framtíðarinnar námsfúsir samankomnir eða bara þrælvanir bílstjórar í hinni margrómuðu endurmenntun. Á neðstu hæðinni er svo Murbygg A/S, fyrirtækið sem ég starfa hjá með sína aðstöðu. Þar hefst dagurinn í rólegheitunum rétt fyrir 7:00 á því að vinnufélagarnir taka spjall og fá sér smá kaffisopa í morgunnsárið. Vinnudeginum líkur svo á sama stað kl.15:30 en þá yfirleitt í snatri hjá vinnufélögunum sem fara hver til síns heima. Eftir það er ekki mikið um mannleg samskipti þann daginn nema þá að drattast út í búð til að kaupa í matinn sem er ekki flókið verkefni fyrir eina hræðu.
En það er meira líf í húsinu en þetta. Annað kvöldið hérna lá ég upp í sófa og íhugaði hvernig í ósköpunum rúmlega fimmtugum manni hefði dottið það í hug að yfirgefa heimili sitt til að fara að vinna í þræla múrverki norður við heimskautsbaug illa á sig kominn líkamlega. Þá fannst mér einhver standa í stofudyrunum og horfa á mig, en þar var engin við nánari athugun. Þessi tilfinning fór samt ekki og ég var farin að hugsa, hver andskotinn er þá reimt hérna. Svo datt mér í hug að líta niður á gólf ef vera kynni að ég sæi skugga draugsins. Þar sat þá lítil mús og virti mig fyrir sér í rólegheitum. Einnig varð ég fljótlega var við fugla sem höfðu komið sér upp hreiðri upp í þakskegginu fyrir ofan útidyrnar, ekki ósjaldan sem fjaðrir og drit rigndi niður á dyrapallinn. Aðal hávaðaseggirnir voru samt mávar sem höfðu gert sér hreiður á gámi við húsvegginn, þeir gerðu aðflugstilraunir á hausinn á hverjum sem það nálgaðist með tilheyrandi óhljóðum. Þarna vildu þeir vera enda stutt í næsta pizzustað en því fylgdi sá ókostur að þegar ungarnir komust á legg þurftu þeir að fara ófleygir yfir umferðargötu til að komast á pizzahlaðborð. Það var ekki ósjaldan sem heyra mátti máfana leiðbeina ungunum yfir götuna þegar þeir sátu upp á mæninum við herbergisgluggann.
Mér hefði ekki þótt það ónýtt þegar ég var polli að búa nánast í dýragarði. Það að hafa átt þess kost að vera hjá afa og ömmu í Vallanesinu var ómetanlegur tími í sannkölluðum dýragarði. Það var ekki ónýtt fyrir sjö ára gutta fá að fara einn að sækja kýrnar og fá höfðinglega heimferð eftir að hafa verið boðið á bak af ferfættri vinkonu. Eftir að afi og amma fluttu í þorpið var fátæklegri bragur á dýrakynnum mínum. Eitt sumarið áskotnaðist mér samt gæsarungi sem hafði verið tekin hálf stálpaður af kunningja mínum í næsta húsi en kom ekki til greina að hann fengi að halda. Þessi fugl elti mig fram á haust en lét sig svo hverfa með hinum farfuglunum. Vængbrotinn stelk reyndi ég einu sinni að gera hændan að mér en gafst fljótlega upp á hávaðanum og styggðinni í honum en þegar ég ætlaði að skila honum við Löngutjörnina elti hann mig hálfa leiðina heim. Rjúpa var það svo einn veturinn, svo auðvitað hundurinn Tító, kötturinn Sigurlína, páfagaukarnir Napóleon og Jósefína sem voru meðlimir á bernskuheimili mínu.
En það var semsagt músin sem olli mér hugarangri og síðar samviskubiti núna í vor. Ég minntist á þetta við húseigandann sem sagðist þá þegar fara út í búð og útvega mér tæki og tól til að drepa kvikindið. Ég sagði að það kæmi ekki til greina hún hefði búið þarna á undan mér og yrði ekki myrt með blóðsúthellingu á sínu eigin heimili. En ég væri til í að fá gildru til að ná henni lifandi, fara svo með henni í berjamó þegar liði á sumarið og athuga hvort hún hefði nokkurn áhuga á að koma heim aftur. Þetta var í mínum huga nógu djöfullegt ráðabrugg við að hafa af henni heimilið. Húseigandinn kom úr verslunarleiðangrinum með rottueitur í poka, sagði að það hefði verið hlegið að sér þegar hún bað um gildru sem næði mús lifandi og treysti mér til að losa fasteign hennar við þessa óværu. Ég tók við eitrinu í kurteisisskini og setti það upp á hillu niðri í þvottahúsi þar sem var gulltryggt að engin óviti kæmist í það.
Svo var það einn morgunninn þegar ég kom fram að ég heyrði þrusk í ruslapokanum undir eldhúsvaskinum. Nývaknaður að vanhugsuðu máli greip ég fyrir pokann, fór með hann út og hélt að málið væri leyst með tilheyrandi samviskubiti. Tveimur morgnum seinna var aftur þrusk í ruslapokanum og ég endurtók leikinn nema núna henti ég honum í ruslatunnuna og lokaði vandlega á eftir með óbærilegu samviskubiti. Það voru afdrifarík mistök því þá fylltist allt af litlum svöngum músum sem kunnu ekki neina mannasiði. Þær voru undir örbylgjuofninum ofan í spaghetti pakkanum og rallandi um alla íbúð. Ég bara fékk mig ekki til að henda þessu saklausa ungviði út á Guð og gaddinn. Einn daginn róaðist liðið og ég var að spá í hvað hefði gerst þegar ég sá fullorðna mús sem mér fannst ég eitthvað kannast við snúast fyrir framan ruslaskápinn. Eftir það passaði ég uppá að hafa nóg í ruslaskápnum og fékk í staðinn frið fyrir ólátabelgjum.
Matthildi var búið að hlakka til að sjá músabúskapinn hjá mér þegar hún kom í ágúst en þá brá svo við að þær létu ekki sjá sig enda berjatíminn í hámarki. Í staðinn mætti elgur til að heilsa upp á hana fyrsta morguninn. Hún hafði verið að spyrja að því heim af flugvellinum hvort þetta ætti að vera hreindýr sem væri mynd af á umferðaskiltunum meðfram veginum. Nei sagði ég þetta á að vera elgur, hún spurði strax hvort ég hefði séð svoleiðis dýr, nei aldrei svaraði ég, mikið vildi ég sjá svona elg sagði hún. Snemma morguninn eftir vakti hún mig og sagði Maggi veistu hvað dýrið á umferðarskiltunum er hérna utan við gluggann að naga tré, og er það í eina skiptið sem ég hef séð elg hérna. Mér er sagt af innfæddum að ég skuli ekki búast við því aftur að sjá elg inn í miðju Harstad. Það var svo ekki fyrr en seint í september að ég tók eftir að það var farið að eiga við pokann í ruslafötunni og stuttu seinna sá ég að hafragrjónapokinn hafði orðið fyrir tjóni svo það var ekki um annað að ræða en að splæsa á mýsnar að éta í ruslaskápnum til að hafa skikk á heimilishaldinu.
Annars var svo sem ekki fyrir Matthildi af miklu að missa með músabúskapinn hjá mér enda hefur heimilishald okkar í gegnum tíðina verið eins og gangandi dýragarður. Lengst af hafa kettir fylgt okkur eins og álög. Hundurinn Rustikus var að vísu eina dýrið sem ég lagði með mér í þann búskap, þar sem köttur og fuglar voru í aðalhlutverki fyrir, auk músanna tveggja sem ég kom með heim til að gleðja hana gömlu kisu áratugum seinna.
Gamla kisa var þeim gáfum gædd að gera ekki flugu mein. Mýsnar gátu verið óhræddar því hún sat bara dáleidd og horfð á þær. Sama var það með fugla sem voru hennar aðal áhugamál svo mikið að ég fór og keypti handa henni margverðlaunuðu Frönsku fuglamyndina á DVD í einu skammdegisþunglyndinu hennar þegar hún var kominn við aldur. Fyrsta kvöldið sat hún í þrjá tíma fyrir framan sjónvarpið og þegar ég fór á stjá morguninn eftir kom kisa röltandi og settist fyrir framan sjónvarpið og leit á mig með augum sem ekki var hægt misskilja, "fuglamyndina í DVD spilarann". Þegar kisa dó næstum 16 ára, södd lífdaga eftir að hafa fylgt okkur sem álög þvers og kruss um landið hafði Matthildur á orði að hún gæti sennilega aldrei haft annan kött. Það leist mér ágætlega á því að þó kettir séu einstaklega sjálfstæðir þá er erfitt að sýna sama sjálfstæði gagnvart þeim.
Akkúrat hálfu ári eftir að kisa var öll fór Matthildur að tala um að nú hefði kisa orðið 16 ára og hún væri farin að sakna þess svo að hafa ekki kött sem tæki á móti henni við útidyrnar. Rétt á eftir þessa yfirlýsingu fór hún út í búð. Það voru ekki liðnar margar mínútur þegar dyrabjöllunni var hringt og við útidyrnar stóðu tveir krakkar úr blokkinni með tvo kettlinga og vildu fá að vita hjá formanni húsfélagsins hvað ætti að gera við þá, þeir hefðu verið í sameigninni. Formaðurinn leit flóttalega fram af svalahandriðinu til að athuga hvort frú Matthildur væri nokkuð í nágrenninu og sagði þeim að kannski ætti Skúli þá sem býr í hinum endanum á neðstu hæðinni eins gætu þau farið með þá í næsta hús því ég hefði grun um að þar væri köttur.
Tíu mínútum seinna birtist Matthildur inn úr dyrunum og sagði "Maggi veistu hvað það er bara allt fullt af kettlingum niður í sameign og mig langar alveg rosalega í einn". "Er það þessi grábröndótti" spurði ég; "já hvernig vissirðu það". Ég sagði að hann væri ekki einn því honum fylgdi annar sem ekki væri hægt að slíta frá honum, ég hafði nefnilega tekið eftir því þegar krakkarnir komu með kettlingana að annar þeirra treysti algerlega á bróðir þegar hún hjúfraði sig upp að honum. Þannig að Matthildur var kominn með tvo ketti klukkutíma eftir að hún hafði óskað sér að fá kött á afmælinu hennar gömlu kisu. Þarna var um mikla gleðigjafa aða ræða, annar grábröndóttur ofurköttur sem fékk nafnið Tiger og hitt veikburða kríli sem flutti sig um með því að draga sig áfram á framlöppunum og Matthildur þurfti að mata með mjólk úr sprautu, sem fékk nafnið Trítla.
Þú sérð það Maggi að það er eitthvað mikið að henni Trítlu, hún er eitthvað fötluð og með skúffukjaft svo hún getur ekki lapið mjólk sagði Matthildur. Ég sagði að það væri bara að láta hana ekki vita af því að hún væri þroskaheftur krypplingur þá myndi hún taka allt upp eftir Tiger því hann væri hennar hald og traust í lífinu. Trítla vildi fljótlega fara að launa mér vinskapinn og þegar hún mætti mér reyndi hún sýna það með því að nudda sér upp við lappirnar á mér, en það var allt á ranghverfunni í hausnum á henni þannig að hún datt til að byrja með út á hlið í hina áttina. Núna tveimur árum seinna er Trítla langt frá því að ver eins og fullvaxinn köttur en hún er samt orðin ofurköttur sem svífur upp gardínurnar á augabragði. Tiger telur sig stundum þurfa a setja ofaní við systur sína fyrir vitleysisganginn. Hann hefur líklegast verið maður í fyrra lífi sem hefur fengið Trítlu sem karma í þessu lífi. Þessa ályktun dreg ég af því að sjá hann liggja á bakinu uppí sófa með framloppurnar á brjóstkassanum við að horfa á sjónvarpið. Einnig eftir að hafa kynnt mér Búdda fræðin hans Sindra bróðir.
Eitt sumarið okkar á Djúpavogi fyrir löngu síðan, birtist andarungi nýskriðinn úr eggi við útidyrnar og auðvitað bauð Matthildur honum inn. Það hafði sést til andar með ungahóp í götunni og kattar. Andarunginn hafði baðkarið til umráða það sumarið og Matthildur veiddi handa honum flugur sem hann dafnaði af. Seint í ágúst þegar ég var búin að greina ungan sem kvenkyns stokkönd tók ég eftir að hún var farin að fara upp á stóla og borð til að flögra um húsið, samt var þetta pínulítið kríli. Þá fór fjölskyldan í fjöruferð og öndinni var sleppt á eina seftjörnina. Hún synti í kvakandi ánægju á þessu stóra baðkari, kom tvisvar að bakkanum þar sem við stóðum til að kveðja sumar fjölskylduna sína. Síðan hefur hún ekki sést. Seinna var okkur sagt að þetta hefði verið urtönd en ekki stokkönd, þær væru svo styggar og litlar að það sæist sjaldan til þeirra, það skýrði hvað mér fannst hún eiga langt í að verða fullvaxin þegar hún fór að fljúga um húsið. Matthildur var þar að auki talin göldrótt að hafa komið henni til fullorðins aldurs.
Þá er ég komin að kjarna málsins. Ég er sem sagt kominn með mýs í heimili hérna í N-Noregi. Er þar að auki ekki viss um að sjá fram úr því án hennar Matthildar minnar sem hefur séð um að dýr og mannfólk dafni í okkar búskap í gegnum tíðina. Þó svo að heimilishaldið samanstandi ekki af flóknum fyrirbærum, aðalega hafragrjónum, baunum, hrísgrjónum og spaghetti; heimilistækin séu pottur, örbylgjuofn og samlokugrill þá verður það að segjast alveg eins og er að þetta er að verða fullflókið fyrir karlamann sem kann ekki að strauja. Enda er það löngu vísindalega sannað að karlmenn geta ekki straujað heilabúið ræður einfaldlega ekki við það.
Athugasemdir
Magnus eg æatla að kaupa bókina.
Sólrún (IP-tala skráð) 1.12.2011 kl. 17:43
ég líka.Flott hjá þér..
Ásdís Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 1.12.2011 kl. 18:31
Þú ert skemmtilegur penni Maggi :)
Gunnar Thor Ármannsson (IP-tala skráð) 1.12.2011 kl. 19:04
Þetta fannst mér æðisleg lesning :) Hlakka til að fá þig heim
Systa (IP-tala skráð) 1.12.2011 kl. 19:32
Maggi minn, heldur þú að þú sért of mikið einn, þá meina ég hvort þú þurfir ekki að tala við einhvern, einhvern úr mannheimum jafnvel, jafnvel sérfræðing :) .
Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 1.12.2011 kl. 20:17
Takk, takk Maggi, þú ert æðislegur, hvenær kemur bókin?
Ásdís Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 1.12.2011 kl. 21:09
Takk fyrir að hafa nennt að lesa ruglið. Bókin var skrifuð fyrir 10 árum í Grafarvoginum meðan hausinn var í lagi, en svo hrundi tölvan og öll gögn töpuðust og ég fékk harðann disk í hausinn með engu á og missti minnið.
Mig grunar að mest úr bókinni hafa rætst á síðustu 10 árum og meðan ég hafði smá glóru um hvað stóð í henni það besta. Það er því betra að skrifa skemmtilegar bækur en ekki eitthvað bölvað þrugl um straujárn. Spurning hvort bíómyndin yrði eitthvað betri en bókin.
Ég vil enn og aftur vara alla við helvítis sjónvarpinu og útvarpinu líka. Ég slökkti á mínu útvarpi í júlí þegar annað hvert orð var Breivik og þeir hættu að tala um austfirðinginn knáa, Edvald Boason Hagen. Ég ætlaði að kveikja á útvarpinu aftur í september en ég er ansi smeykur um að þeir séu enn að tala um Breivik þannig að ég hef ekki þorað að kveikja á því enn. Sjónvarp hef ég ekki séð sem betur fer enda er sálfsagt ekki svo gæfulegra ástandið í því en þegarar ég slökkti á því síðast.
Ég tala við mýsnar á meðan þær briðja spaghetti og kinka kolli, það er á við að ræða við fimm háskólagráða sérfræðing sem hefur verið hvítskrúbbaður á milli eyrnanna og mýsnar standast allan samanburð við sálfræðing.
Magnús Sigurðsson, 1.12.2011 kl. 21:58
mikid er eg anaegdur med ad tu skulir vera buin ad venja tig af sjonvarpinu tad aettu alir ad profa ad slokva a tvi tad er agaet ad birja a tvi ad akveda ekert sjonvarp i 2 vikur . svo adur en tu veist af geturdu ekki hugsad ter ad kveikja a tvi aftur ,
Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 1.12.2011 kl. 22:19
Ótrúlega gaman að lesa....og nú ertu með tölvu,nægan tíma...það væri gaman að sjá " músasögur Magnúsar" í næsta jólabókarflóði!!! það flugu nú bara í huga mér allir kettirnir sem bjuggu í gegn um árin í Dalsmynni..jú og Sólhól! hver man ekki eftir Napoleon og Torfhildi..jú og Fjólu Karlsdóttur sem varð 15 ára og átti sérstól við borðið í Dalsmynni.......Kalli bróðir kom með hana einu sinni heim..og það var ekki aftur snúið, hún er ógleymanleg :) Mér finnst svo magnað að þú hafir keypt dvd handa kisunni þinni, bara alveg magnað! Öfunda þig ekki af músa heimsóknunum...ég væri nú ekki róleg yfir þeim. En reyndu nú að njóta tímans úti í Noregi...svo þú getir nú minnst tímans með góðu þegar að þú ert svo kominn heim!!!! Skilaðu kveðju til Matthildar :) hafðu það gott, kv Jóhanna Másd.
Jóhanna Másdóttir (IP-tala skráð) 2.12.2011 kl. 08:20
Nei Helgi þegar maður hefur sig ekki lengur í að kveikja á útvarpinu er ástandið ekki gott sem básúnað er úr þessu "viðtæki" sem er ágætis lýsingarorð á fyrirbærinu. Pabbi heitinn kallaði sjónvarpið imbakassa og ég hugsa að það hafi verið nokkuð gott framlag til íslensku á því sem nú er í tísku að kalla túbusjónvarp.
Takk fyrir þetta Jóhanna, já ég man vel eftir Fjólu Karlsdóttir. Þær vissu vel hvar lóðarmörkin voru á milli Sólhóls og Dalsmynnis Victoría og hún þó engin væri girðingin. Það er alltaf gaman að hafa tækifæri til að kynnast öðrum stöðum þó tilefnið þurfi ekki alltaf að vera skemmtilegt. Norður Noregur hefur svo sannarlega komið á óvart, hérna var þvílík sumarblíða að hún trompaði minningarnar frá sumrum bernskunnar. Í kringum jónsmessuna var sólin hátt á lofti um miðnættið vikum saman. Núna er "mörketid" og um miðjan nóvember var myrkrið orðið eins og maður sér það svartast á Íslandi, eftir 30. nóvember kemst sólin ekki einu sinni upp fyrir sjávarmál, þetta er það langt norður í rassgati að ég reikna með að þegar ég kem heim 19. desember verði viðbrigðin svipuð og að koma til sólarlanda.
Magnús Sigurðsson, 2.12.2011 kl. 13:01
Magnús í kvöld ætla eg að hlusta á útvarpið.
Klukkan 23 að íslenskum tíma.
Þá er í síðasti kvöldgesta þáttur útvarpsins.
Jónas Jónasson útvarpsmaðurinn góði
er jarðsunginn nú í dag
Og í þættinum í kvöld er nýlegt viðtal við hann
tekið eftir að hann veiktist.
Eg trúi því að það verði fróðlegt og fallegt
Viðtalið er é rás 1 og hægt að ná því
gegnum tölvuna á síðu Ruv
Sólrún (IP-tala skráð) 2.12.2011 kl. 14:53
Ég gæti trúað því að viðtalið við Jónas verði fallegt og fróðlegt Sólrún. Kannski finn ég það á RUV svona til að hlusta á síðasta kvöldgestinn.
Ég hef svo sem ekki lagt mig eftir að hlusta á viðtölin hans Jónasa heitins en Matthildur mín og Már stórvinur minn á Djúpavogi hlusta alltaf á Jónas og með það mikilli andakt að ég hef ekki séð mér annað fært en að fara snemma að sofa á föstudagskvöldum. Þá eru hreinlega engir til að tala við því ef þeir eru ekki úti á lífinu þá eru þeir að hlusta á Jónas.
En mér áskotnaðist bókin hans "Svo kom sólin upp" um árið og kannski ég fari að rifja hana upp á föstudagskvöldum úr því að ég er búin að missa af öllum þáttunum hans.
Magnús Sigurðsson, 2.12.2011 kl. 17:41
Eg var að hlusta á kvöldgesta þátt um nafna þinn Leopoldsson inni á hlaðvarpinu.Þar segir hann og konan hans frá þegar þau vöknuðu við það að 3 lögreglumenn stóðu við rúmsyokkinn til að sækja hann.Og það sem á eftir kom Ótrúleg saga og merk heimild.
Sólrún (IP-tala skráð) 2.12.2011 kl. 19:39
Maggi þetta eru frábær skrif hjá þér. Þú ættir að koma heim og gerast rithöfundur þetta leikur bókstaflega í höndunum á þér. Það er eitthvað svo skemmtilegt við stílinn. Því skyldum við ekki nota þá hæfileika sem okkur hafa verið gefnir og leyfa öðrum að njóta þess með okkur. Síðan eg hætti að vinna hef eg setið við að skrifa öðru hvoru og eg stefni á að gefa út bók hvort sem mér tekst það eða ekki. Svo.... haltu áfram á þessari braut.
Hlakka til að lesa næsta blogg. Kv. Hrönn
P.S. bið að heilsa músunum. Eg ólst upp í bæ fullum af músum og þetta urðu vinir okkar, þær gera manni ekkert þessi grey.
Hrönn Jónsdóttir (IP-tala skráð) 3.12.2011 kl. 07:34
Sólrún; núna er komið fyrir mér eins og Ziba pólska vinufélaga mínum, ég veit lítið hvað ég á af mér að gera á laugardagmorgni. Norðmennirnir eru að njóta aðvenntunnar og finnst sjálfsagt að við Zibi slöppum bara af og höfum það "bra", en séum ekki að ergja þá með því að sjá okkur fyrir verkefnum.
Því hlustaði ég á síðasta kvöldgestinn núna í morgunnsárið í fyrsta sinn og skil að Jónas hafi fenið fólk til að tala frá hjartanu. Einn af þeim vinum mínum sem Jónas hafði af mér margt föstudagskvöldið var Magnús stórvinur minn og afi, en eftir hans félagsskap sóttist ég þegar ég var á flækingi þessa lífs. Á föstudagskvöldum í denn á slaginu kl. 11 náði ég varla nokkru sambandi við hann svo það var ekki um annað að ræða en að fara að sofa. Ég segi ekki meir.
Hrönn; þakka þér fyrir og fyrir að hafa þetta álit það er ekki ónýtt að fá það frá manneskju sem kann að fara með texta í bundnu sem óbundnu máli. En þessi hæfileiki ef hæfileiki skyldi kalla kemur eins og blossar sem ég hef ekki hæfileika til að kalla fram frá kl. 8 - 5. En gamla þráhyggjan kemur alltaf um leið og ég hef sett vatn út í sement og sand. Þá er betra að láta hendur standa fram úr ermum áður en alt verður grjót hart. Það er því orðið mér fulljóst að ég er með sement í hausnum.
Ég skora á þig að koma bókinni þinni út, og hlakka til að lesa hana. Víst hún er nú þegar orðið til í huganum er hitt bara handavinna svona svipuð og setja vatn út í sement og sand.
Magnús Sigurðsson, 3.12.2011 kl. 08:32
Eg er ekki vön að hlusta á Jónas nema rett einstaka sinnum.En eitthvað sagði mér að hlusta á þennan.Eg fekk þar púslið sem mig vantaði.Veit ekki samt hvernig ég á að segja það.
Ég er MIKIÐ SAMMÁLA henni Hrönn hér á undan
Sé fyrir mér yndislega barnabók fyrir börn á öllum aldri
0-100.
Með svona óborganlegum myndum af aðalpersónunum sögunnar eins og kisumyndin hér að ofan.
Sólrún (IP-tala skráð) 3.12.2011 kl. 13:03
Þvílíka fáránlega snilldin þetta blogg þitt.
Siggi H, (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 00:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.