7.2.2012 | 19:33
Fagra veröld, þar sem við erum.
Alan Wilson Watts (1915 - 1973) var breskur heimspekingur, rithöfundur og ræðumaður, best þekktur sem vinsæll fyrirlesari í Austurlenskri heimspeki. Honum voru trúarbrögð hugleikin og þá einkum munur Austurs og Vesturs. Hann gerði Zen Búddisma góð skil og lagði til að Búddismi yrði gerður að einu formi sálfræðimeðferðar, Búddismi væri mikið meira en bara trúarbrögð.
Watts benti á að þó svo Vesturlönd aðhylltust Kristin gildi þá færu þau ekki endilega eftir þeim og benti meðal annars á þá kenningu Krists í því sambandi "Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?" sem alls ekki gæti samræmst efnahagsmódelinu um hagvöxt. Eins benti hann á að peningar væru aðeins mæliening á verðmæti og hversu einkennilegt það hefði verið í kreppunni miklu að þá hefði verið til meira en nóg af öllu nema peningum. Kreppu af þessu tægi mætti líka við að smiðir gætu ekki byggt hús vegna þess að þeim vantaði ekkert nema sentímetrana.
Það er mikið til af efni eftir Alan Watts á internetinu, fjöldi fyrirlestra og myndbanda. Alan Watts er einn af þessum orðheppnu tímalausu mönnum sem á erindi við fólk á öllum tímum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.