Úr blackout í smoking

Það er bara svona allt í einu smollið á sumar einn ganginn enn, kemur alltaf jafn skemmtilega á óvart.  Ég sem kveið þessi ósköp fyrir vetrinum hérna á 69°N í haust og hafði ekki grænan grun um hvernig sjónvarpslaus fáráðlingur gæti látið veturinn líða einsamall næstum alla leið norður í rassgati.  Það eina sem mér datt í hug til að drepa tímann  var að gera það sama og indíánarnir í denn, að horfa á milli stjarnanna frekar enn á þær, þannig væri meira að sjá, eða þá að kveikja á útvarpinu, en í það hef ég ekki haft mig síðan í júlí í fyrra, hef grun um að enn sé verið að tala um þennan Breivik.

Hér hefur varla sést stjarna í allan vetur hvað þá norðurljós, ef frá eru taldir nokkrir éljalausir dagar í janúar, það var því eins gott að ég tók þessa ákvörðun.  Á svona vetri hefði maður þurft  að halda sig öllum stundum utandyra til að stunda stjörnuskoðun því það er ekki svo gott að reikna það út hvenær éljunum slotar.   Það má því segja að enn einu sinni hafi ég rambað á rétt með það að horfa á milli stjarnanna og hafa slökkt á útvarpinu.  Þannig hafi ég séð lengra án þess að  krókna úr kulda fullur af hryllingi. 

Það sem ég tók samt eftir þegar líða tók á veturinn var að ekki var allt með felldu hérna innandyra.  Þar á ég  ekki við mýsnar sem brutust inn í eldhússkápinn hjá mér, rétt á meðan ég fór heim til Íslands í jólafrí, stálu sykurpokanum og vafra nú um íbúðina síspikaðar.  Þær sáu því sjálfar um að losa mig við áhyggjurnar af því hvernig þeim reiddi af úr því hún Matthildur mín væri ekki hérna í vetur til að halda í þeim lífinu.   Nei það sem ég tók eftir í sjónvarpsleysinu var að hér eru ekki bara mýs.  Því annað slagið glytti í gráan kall á milli stjarnanna, eða kannski réttara sagt innan um akfeitar mýsnar.   Langt fram eftir vetri setti að mér hroll þegar ég varð var við kall skrattann og kom sér þá vel sú ákvörðun að horfa á milli stjarnanna en ekki beint á þær. 

En þegar var komið fram undir páska og óvænt frí var boðað í vinnunni alla páskavikuna í glórulausum éljagangi sat ég einn uppi með mýsnar og kall skrattann í heila 10 daga.  Það var helst þegar ég gekk fram hjá spegli að ég sá honum bregða fyrir þegar ég horfði ekki beint á stjörnuna mig heldur á framhjá henni.  Svo var það þegar einu élinu slotaði að ég kannaðist við kauða þetta var þá eftir allt saman bara ég sjálfur ekki lengur glókollurinn í stjörnunni heldur orðinn grár kall.  Hugsa sér hvað tíminn flýgur og það um hávetur, en nú er sem betur fer aftur komið bjart sumar.

 

Það er fleira en grái kallinn og mýsnar sem hefur ekki verið með felldu efir að ég kom hingað á 69. gráðuna.  Ég hélt fyrir ári síðan að ég væri að fara til N-Noregs að vinna með Norðmönnum.  En komst fljótlega á snoður um það að helmingur vinnufélagana eru múslímar frá Afganistan og Súdan.   Í húsinu sem ég bý í eru tvær íbúðir, ég með mínar spikfeitu mýs upp í risi og þrennt er  frá Pakistan í hinni, sjálfur jafnvel farinn að fíla mig sem múslima norðursins.  Ég hef Pakistanana reyndar grunaða um að fita fyrir mér mýsnar, það sé ekki bara sykurpokinn sem þær stálu.  Í íbúðinni fyrir neðan er nefnilega buffið barið þrisvar á dag og í hvert skipti rétt á eftir bankið leggur þennan líka fína matarilminn um allt húsið.

Pakistönsku félagarnir vinna á Pizza stað hérna skammt frá en húsmóðirin er heima og eldar.  Þeim dettur ekki í hug að éta Pizzunnar sem þeir eru að malla sjálfir eftir alþjóðlegri uppskrift ofan í Norsarana, heldur skjótast þeir heim í Austurlenskan mat þrisvar á dag.  Mér hefur dottið það í hug, rétt eins og músunum,  að semja um að komast í fæði hjá frúnni.  Færði það reyndar varfærnislega í tal við húsbóndann hann Roomi hvort honum hefði ekki komið til hugar að opna veitingahús.  Það er allt í vinnslu sagði hann því hann sagðist halda að vantaði Pakistanskan veitingastað hérna í snjóskaflinn á 69°N, ég tók undir það með honum og sagðist verða sá fyrsti til að mæta þó ég þyrfti að moka mig inn.  Lengra hef ég ekki komist með þetta mál og verð að gera mér að góðu bakaðar baunir og grjón á meðan málið er í vinnslu.

Annars upplýstu Búdda fræðin hans Sindra bróðir mig um það að maður þyrfti ekkert að éta, þetta væri bara gamall ávani.  Ég hef meir að segja reynt að miðla þeirri visku til vinnufélaga minna, þeirra Yasin og Juma en það er í sambandi við það hvað þeim gengur illa að safna sér fyrir konu.  Samkvæmt þeirra ritúali er algert grundvallaratriði að karl geti boðið konu upp á hús til að elda í áður en kemur til hjónabands. 

Ég er margbúinn að fara fram og til baka yfir þetta reikningsdæmi með þeim,  þegar við nögum handabökin yfir kveinmannsleysi og gulræturnar upp úr nestisboxunum í hádeginu.  Ég ráðlegg þeim að slá margar flugur í einu höggi, henda bílnum, slökkva á sjónvarpinu, hætta þar með að éta Lay's snakk yfir sjónvarpinu og geta um leið sagt upp ársáskrift af ræktinni þar sem þeir skokka á hlaupabretti fyrir morðfé, en labba þess í stað við fuglasöng í vinnuna.  En allt kemur fyrir ekki dæmið gengur ekki upp í konu.  Svo var það neyðarúrræði hjá mér að upplýsa þá um leyndarmál Búdda munkanna sem hefðu komist að því að þeir væru étandi út af röngum misskilning.  Juma sagði að þetta stæðist ekki því þegar hann hefði komið yfir til Evrópu frá Afríku hefðu tugir manna verið á sama bát í ellefu daga án matar og vatns, ekki hefðu allir verið lifandi þegar yfir Miðjarðarhafið var komið og það væri til lítils að eignast konu eftir að vera sjálfur orðinn liðið lík.

Það er svolítið undarlegt að ég skuli vera að reyna að ráðleggja þeim piltum í kvennamálum svo þeir sleppi við gifta sig samkvæmt greiðslumati frá bankanum til húsakaupa,  maður sem gengur með þær grillur í höfðinu að hann geti bitið af sér banka með því þvælast nógu langt að heiman til að afla tekna vegna fasteignaviðskipta fyrir gjörsamlega gjaldþrota bankakerfi.  Sjáandi þó samt þann frábæra árangur af afborgununum að eign bankans í húsinu dafnar jafnvel um 50 þúsundkall við hvern 100 þúsundkall sem er greiddur.  Það er náttúrulega einstök umhyggja fyrir bankakerfinu sem fær mann til að standa í svona nema þetta sé rangur misskilningur sem geti hugsanlega stafað af elliglöpum á milli afborgana.  Alltaf allt í þessu fína nema rétt á meðan maður gerir skattframtalið og sér að öllu steini léttar hefur verið stolið í skjóli stjórnvalda sem maður getur sem betur fer huggað sig við að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Það var ekki svona flókið greiðslumatið þegar við Matthildur mín gengum í það heilaga.  Þá dugði að skýjaglópurinn ég gengi með hugmyndir í höfðinu af húsi með eldavél, til þess að hún snaraðist í eitt Burda blaðið sitt til að finna snið af smoking sem hún saumaði svo ég væri sómasamlega klæddur á brúðkaupsdaginn.  Það er nokkuð ljóst að ég hef hvorki fyrr né síðar verið eins vel til fara, í sérsaumuðum svörtum silkifóðruðum smoking, en eitthvað minna hefur orðið úr að skýjaborgirnar hafi komist af teikniborðinu.   Maður spyr sig svo;  "hvernig stendur á því að maður lendir í svona um hábjartan dag",að ranka við sér í N-Noregi  á sumardaginn fyrsta 25 árum seinna hugsandi um skýjaborgir en ekki bara heima hjá henni Matthildi.  Já maður spyr sig rétt eins og maðurinn sem keyrði útúrdrukkinn á ljósastaur í myrkrinu en hélt að það væri hábjartur dagur.  Manni dettur óneitanlega í hug blackout fyrri ára þegar það kom fyrir að maður rankaði við sér við meira en lítið ókunnuglegar aðstæður.

En það að lenda í einhverju þarf samt ekki alltaf að gerast um leið og maður lendir í því, eða kannski réttara sagt hugmyndir verða að veruleika um leið og þær kvikna, tími þeirra getur hins vegar verið allt annar.  Það rann t.d. upp fyrir mér að hingað til N-Noregs hafði ég haft hugmyndir um að koma áður.  Það var 1994 eða 5, þá fórum við tveir félagar í viðskiptaferð til fyrirtækis Osló sem seldi okkur gólfefni.  Þeir vildu endilega sýna okkur frystihús í N-Noregi með svona gólfefni og voru ekkert að tvínóna við það.  Við upp í flugvél og Noregur flogin endilangt til Kirkenes uppi við Rússnesku landamærin.  Síðan var keyrt í febrúar hríðinni í nyrsta fjörð Noregs, Bátsfjörð, þaðan farið til Hammerfest og fleiri frystihús skoðuð, blindhríð allan tímann svo varla sást í næsta tré og ég röflandi um að gáfulegra hefði verið að skoða sláturhús í S-Frakklandi á þessum árstíma.  Svo var það núna einn hríðardaginn í febrúar s.l. sem ég var að taka mynd af einu élinu á milli trjágreinanna sem ég uppgötvaði að þetta él hafði ég séð áður fyrir hátt í 20 árum síðan og þá hugsað sem svo, hingað væri gaman að koma aftur til að sjá eitthvað annað en en snjóél og frystihús.  Nú styttist í að ég sé búin að vera árið í N-Noregi. Svona koma sumir draumar út úr blackout-inu vegna hreinræktaðs fávitagangs.

Það heldur því í manni voninni, hvernig lögnu liðnir draumar rætast mörgum árum seinna, um að eiga eftir að detta niður í skýjaborgirnar sem álfur á milli stjarnanna.  Þó ætla ég rétt að vona að það verði ekki eins þegar ég sný heim úr þessari sjálskipuðu útlegð minni, og lögnu liðið blakcout frá unglingsárunum.  Þá taldi ég mig ranka við í næsta húsi við heima og fannst ekki taka því að fara skóna né finna jakkann þegar ég fór út úr dyrunum, því það væri bara yfir nokkur börð að fara á milli húsa.  Þegar ég hafði komist á sokkaleistunum á flughálum svellunnum upp síðasta barðið, vel vaknaður í stutterma bolnum, brá mér í brún, rétt eins og þessum sem keyrði á ljósataurinn um hábjartan dag, það var búið að rífa húsið heima og á þeirri lóð stóð ekkert nema myrkrið og ljósastaurar lengst í burtu.  Þarna fyrir 35 árum síðan reyndist þetta vera Alcoalaus Reyðarfjörður um kl. 4 að desembernóttu í hörkufrosti.  En sem betur fer voru innfæddir það vel aflögufærir á þessum árum að þeim munaði ekki um að láta bæði ljósin loga og að skutla vandræðagemlingnum bæjarleið heim um hánótt. 

Í dag aðskilja okkur Matthildi mína eitt haf, heill himinn og fjórar breiddargráður, sennilega skutlar mér enginn heim þó ég væri kominn í kjól og hvítt sem hver annar frímúrari og hábjart sé orðið.  Ég sem hét henni því þennan dag fyrir 25 árum síðan, klæddur sérsaumuðum svörtum smoking uppi við altarið í litlu kirkjunni sem stendur á Aurnum á Djúpavogi,  að verða hennar í blíðu og stríðu uns dauðinn aðskildi.  En það má kannski með góðum vilja hafa um efndirnar á því heiti sömu orð og um sjómanninn sem var að heimann langdvölum frá konu með fullt hús af börnum, hún getur prísað sig sæla að hafa ekki stóra barnið heima alla daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

tad er nu ekki langt tangad til Matthildur faer stora barnid sitt heim

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 08:07

2 identicon

Hæ Maggi, alltaf gaman að lesa bloggið þitt. Myndbandið frábært í lokin:)

Held nú að Matthildur þín sakni þín nú stundum.

Hafðu það gott og komdu heill heim!!

Kv. Védís

Védís Klara (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband