13.11.2012 | 20:23
Ægishjálmur - lengra að kominn en Goðin og Darwin æðstiprestur.
Fyrir nokkrum mánuðum barst mér sérkennileg sending hingað á 69°N. þetta voru tveir píramídar hlaðnir dularfullri orku komnir alla leið úr heimsálfunni "down under". Frá þessu greindi ég í bloggi "Organite og orkuflögur" stuttu eftir að þeir bárust. Það sem síðan hefur gerst er um margt merkilegt og mörgu varla hægt að segja frá nema eiga það á hættu að vera talinn snarruglaður. En þær leiðbeiningar fylgdu svo sem þessum organite píramídum að þeir gögnuðust þeim betur sem væru ekki alveg samkvæmt norminu.
Píramídarnir hafa vísað mér á undarlega heima þar sem ýmislegt kynngimagnað hefur átt sér stað. Fyrir það fyrsta þá birtist hér fluga sama dag og þeir voru teknir úr umbúðunum. Flugan sú hnitaði hringi í kringum þá á stofuborðinu en virtist auk þess eiga mikið erindi við okkur Matthildi mína með suði sínu, sem var þá hérna hjá mér í norðurhjara sólinni. Jafnvel eftir að henni hafði verið vísað kurteislega út um stofugluggann og lokuð úti um tíma, þá kom hún inn með hálfu stærra erindi en áður þegar glugginn var opnaður næst.
Eftir að Matthildur yfirgaf 69°N snemma í ágúst hélt flugan sig enn innandyra, hafði orðið sér úti um herbergi í hinum stafninum á risinu, en kom annað slagið út úr því til að spjalla og lét sig aldrei vanta ef ég var að bauka í eldhúsinu. Einu sinni heimsótti ég hana í herbergið sitt, opnaði gluggann eldsnöggt tókst að koma henni út og loka. Þegar ég var svo á leiðinni eftir ganginum inn í stofu sem er í hinum stafninum fékk ég það á tilfinninguna að ég myndi mæta henni, þar sem ég var með opinn stofugluggann. Það passaði hún var þegar komin inn og þusaðist með suði og vængjaslætti eftir endilöngu ganginum inn í sitt herbergi.
Á þessum tíma fór ég í fjögurra daga vinnuúthöld norður í nes Finnanna. Þó svo að ég hafi verið frekar ógestrisin við fluguna þá brást það ekki að hún fylgdi mér niður að útidyrunum til að kveðja á mánudagsmorgnum og tók mér fagnandi á móti á fimmtudagskvöldum. Þetta gerðist í tvær vikur en eftir það hvarf hún. Sérfræðingar segja, en þess má finna stað einhverstaðar í sérfræðikverinu sem hefur hlotið löggildingu í fávisku fabrikkum ríkisins, að meðalaldur húsflugu sé sex vikur sem gæti hugsanlega skýrt hvarf hennar úr mínum híbýlum og jafnvel þessum heimi.
Einnig fékk ég um þær mundir sterkt hugboð að setja fram hér á síðunni bloggið "Huliðsheimar og galdrastafir" um ægishjálm, það væru tengsl á milli hans, píramídana og flugunnar. Þetta blogg virtist kannski vera sett fram í hálfkæringi, en þegar ægishjálmur er annars vegar er betra að vera ekki með neinn hálfkæring. Þetta var gert til að fiska upplýsingar um töfratáknið sem mér hefur verð hugleikið í gegnum tíðina og fannst lítið vera til um á alheimsnetinu. Þetta blogg virtist kannski ekki skilaði miklu, en þó vísbendingu sem ég hef fylgt eftir og ætla m.a. að segja frá hérna á síðunni. Að vísu er fyrirboðinn ekki hagstæður því þegar ég ætlaði að koma þessu frá s.l. fimmtudag læsti tölvan mig úti og það lengur en ég fluguna, kemst því ekki með nokkru móti í upplýsingarnar sem hún hefur að geima um ægishjálminn. Ég varð að draga fram gömlu tölvuna sem er sjö ára forngripur, er því með nokkhverskonar morstæki hérna í loftkeytaklefanum miðað við nýjustu samskiptagræjur í netheimum og þar að auki að notast við mitt stopula minni.
Á wikibedia (alfræðiriti almennings) segir svo frá ægishjálmi; "Ægishjálmur er gamall íslenskur galdrastafur sem er til í fjölmörgum gerðum og útgáfum. Hans er getið í Eddukvæðum, Sigurður Fáfnisbani bar Ægishjálm þegar hann sigraði drekann Fáfni á Gnitaheiði. Ægishjálmurinn er öflugur varnarstafur, bæði gegn öllu illu og einnig örugg vörn gegn reiði og yfirgangi höfðingja. Honum fylgir svohljóðandi formáli:
- Fjón þvæ ég af mér
- fjanda minna
- rán og reiði
- ríkra manna.
Það mætti kannski ætla að beinast lægi við að komast að töfrum ægishjálmsins með því að skoða þær vísbendingar sem koma fram í wikipedia úr goðafræðinni. Eins og þar kemur fram á Sigurður Fáfnisbani að hafa borið hjálminn þegar hann drap drekann Fáfni, fara þessar upplýsingar víða um í netheimum. Þannig að ég varð mér úti um Völsunga sögu en þar segir m.a. frá þvi þegar Reginn egnir Sigurð "síðasta Völsunginn" Sigmundsson til að vega Fáfnir bróðir sinn til fjár. En Fáfnir hafði sér það til saka unnið að hafa myrt Hreiðmar föður þeirra Regins til að komast yfir gull sem hálfjötuninn Loki hafði stolið af dvergnum Andvara til að bæta Hreiðmari sonarmissi þegar Loki drap son hans Otur (bróðir þeirra Regins og Fáfnis) af misgáningi þegar Loki var á ferð með Óðni æðstum goða við Andvarafoss.
Reginn setti saman sverðið Gram fyrir Sigurð, nokkurskonar ættargrip sem hafði hrokkið í tvo hluta í lokaorrustu Völsunga. Síðan hvetur hann Sigurð til að grafa sér holu við vatnsból Fáfnis og stinga hann með sverðinu þegar hann skríður yfir holuna á leið sinni til vatnsbólsins. Allt gengur þetta eftir, en á eftir drepur Sigurður einnig Reginn með sverðinu Gram þar sem þeir sitja að sumbli við að drekka blóð Fáfnis, voru þeir ekki einhuga um hvor þeirra ætti að éta hjartað. Þetta gerir hann til að þurfa ekki að deila með honum fjársjóð Fáfnis. Verður ekki annað séð af Völsunga sögu en fjársjóður Fáfnis hafi haft ægishjálminn að geyma. Á samtali Sigurðar og Fáfnis á banabeði Fáfnis kemur m.a.fram;
Eftir að Fáfnir hafði fengið banasár spurði hann m.a: "Hver eggjaði þig þessa verks eða hví léstu að eggjast? Hafðir þú eigi frétt það hversu allt fólk er hrætt við mig og við minn ægishjálm? Hinn fráneygi sveinn, þú áttir föður snarpan."
Sigurður svarar: "Til þessa hvatti mig hinn harði hugur, og stoðaði til að gert yrði þessi hin sterka hönd og þetta hið snarpa sverð er nú kenndir þú. Og fár er gamall harður ef hann er í bernsku blautur."-----
Einnig segir Fáfnir: "Heiftyrði tekur þú hvetvetna því er eg mæli. En gull þetta mun þér að bana verða, er eg hefi átt."
Sigurður svarar: "Hver vill fé hafa allt til hins eina dags, en eitt sinn skal hver deyja." -------
Enn mælti Fáfnir: "Eg bar ægishjálm yfir öllu fólki síðan eg lá á arfi míns bróður. Og svo fnýsti eg eitri alla vega frá mér í brott að engi þorði að koma í nánd mér og engi vopn hræddist eg og aldrei fann eg svo margan mann fyrir mér að eg þættist eigi miklu sterkari, en allir voru hræddir við mig."
Sigurður mælti: "Sá ægishjálmur, er þú sagðir frá, gefur fáum sigur því að hver sá er með mörgum kemur má það finna eitthvert sinn að engi er einna hvatastur."
Fáfnir svarar: "Það ræð eg þér að þú takir hest þinn og ríðir á brott sem skjótast, því að það hendir oft að sá er banasár fær, hefnir sín sjálfur."
Eftir að Sigurður hafði afhöfðað Reginn; "etur hann suman hlut hjartans ormsins en sumt hirðir hann. Hleypur síðan á hest sinn og reið eftir slóð Fáfnis og til hans herbergis og fann að það var opið, og af járni hurðirnar allar og þar með allur dyraumbúningurinn og af járni allir stokkar í húsinu, og grafið í jörð niður. Sigurður fann þar stórmikið gull og sverðið Hrotta, og þar tók hann ægishjálm og gullbrynjuna og marga dýrgripi. Hann fann þar svo mikið gull að honum þótti von að eigi mundi meira bera tveir hestar eða þrír. Það gull tekur hann allt og ber í tvær kistur miklar, tekur nú í tauma hestinum Grana. Hesturinn vill nú eigi ganga og ekki tjár að keyra. Sigurður finnur nú hvað hesturinn vill. Hleypur hann á bak og lýstur hann sporum og rennur sjá hestur sem laus væri."
Síðar í sögunni kemur ægishjálmurinn aftur til tals þegar Sigurður leitar til Brynhildar örlaganornar sinnar til að gefa sér heilræði. En þegar Sigurður kemur á hennar fund og vekur hana spyr hún; "hvað svo var máttugt er beit brynjuna "og brá mínum svefni. Eða mun hér kominn Sigurður Sigmundarson er hefir hjálm Fáfnis og hans bana í hendi?"
Svo mörg voru þau orð um ægishjálm, fimm sinnum er hans getið og ekki með nokkru móti hægt að ráða í það hvernig hann kemur að gagni. Vísbendingin sem sem var gefin um að Sigurður Fáfnisbani hafði borði ægishjálm þegar hann banaði Fáfni reyndust því ekki réttar samkvæmt Völsungasögu. Ægishjálmurinn kemur ekki meira við sögu en fjársjóður Fáfnis er síður en svo til gæfu því hver harmleikurinn af öðru ríður þar röftum uns Svanhildur dóttir Sigurðar Fáfnisbana er að lokum drepin með því að hleypt er á hana hestum og líkur með því sögu Völsunga.
En til hvers er þá ægishjálmurinn sem sagður er vera máttugur verndarstafur sem m.a. færði Sigurði sigurinn yfir Fáfni og hvaðan kemur hann?
Eftir að hafa lagst í rannsóknir í netheimum báru þær mig fljótlega út til stjarnanna. Ef drekinn Fáfnir hafði ægishjálminn að geyma í sínum fjársjóði þá getur hann allt eins verið mun eldri en norræn goðafræði. Þegar ægishjálmur er teiknaður kemur margt upp í hugann, hann hefur jafn fullkominn hlutföll og þegar dropinn gárar vatnsflötinn. Hann minnir á vegvísi og til eru hugmyndir um að hann hafi vísað á hina ýmsu heima norrænnar goðafræði, sé jafnvel útgáfa af Yggdrasill (lífsins tré). Einnig minnir hann hann á stjörnu sem hefur það umfram festar aðrar að hafa átta arma. Og ekki síður minnir hann á kaungulóravef sem beinir athyglinni að miðju vefsins, getur því verið vegvísir inn á við til sjálfshjálpar líkt og vísan í formála ægishjálmsins gefur til kynna, "Fjón þvæ ég af mér fjanda minna,,," ofv..
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkur: Galdur | Breytt 18.3.2017 kl. 11:29 | Facebook
Athugasemdir
Það er bæði erfitt og snúið fyrir okkur mann skepnurnar að viðurkenna það hvað við stöndum dýrunum langt að bali í því að skynja orkuna í náttúrunni og umhverfinu.. Ein lítil fluga er okkur jafnvel fremri þegar að kemur að því.Orkan sem Nikola Tessal virkjaði er allt í kring um okkur. Og ef uppfindingum hans hefði ekki verið stolið af FBI þá væri her hæg orka þráðlaus fyrir alla jarðarbúa og engin olíutríð eða Emron flórar til að mioka. Né O.R.
AÐ NÝTA ORKUNA SEM ER ALLT Í KRINGUM OKKUR
Í STAÐ ÞESS AÐ RÍFA Í SUNDUR JÖRÐINA OKKAR
OG EYÐILEGGJA ORKU JARÐARINNAR MEÐ ÞVÍ
hefði verið vænlegri kostur en það fyrirkomulag hefði ekki boðið upp á að hafa þrælahald og stríð....
Sólrún (IP-tala skráð) 14.11.2012 kl. 17:36
Það gerir hagvöxturinn Sólrún. Hinn heilagi hagvöxtur sem enginn skilur frekar en stöðugleika stjórnmálamanna og banka á Íslandi. Hagvöxturinn fær nefnilega ekki þrifist nema á neytendanum. Þess vegna er fólk ekki til í hagtölum bara neytendur.
Til að búa til hagvavxna neytendur er miklu kostað. Auk þess sem þú tiltekur með orkuna og jörðina, þá fær ekki nokkur manneskja sem inn í þennan heim kemur að vera með sjálfri sér nema rétt á meðan hún er ómálga barn og svo þegar hún er komin það sem kallað er út úr heiminum fyrir aldurs sakir. Um leið og barið lærir einföldustu orð þá er það sett í hagvaxtar hakkavélina því það skal ekki nokkur manneskja fá að fæðast inn í þennan heim nema fá að borga fyrir það, ekki bara með lífi sínu heldur skal hún vera upptein við að trekkja áfram hagvöxtinn frá vöggu til grafar.
Það er satt sem þú segir hvað við manneskjurnar viðumst standa dýrunu langt að baki þegar kemur að því að nýta okkur orku jarðar til velsældar. Eða ímyndaðu þér ef rollurnar byrjuðu á því að kenna lömbunum að þau fengu ekkert að drekka nema kl. 7-7.30, 12-13 osfv. þetta dettur ekki nokkru dýri til hugar frekar en það að haf peninga á sér til að geta greitt fyrir það að vera til.
Ég hef verið að vinna þessar vikurnar niður við Harstad höfn og hef tekið eftir því að krákurnar gefa sér góðan tíma yfir hádaginn til að velta vöngum yfir tiltektum mannfólksins, jafnvel máfarnir líka og ég er ekki frá því að þeim finnist þetta vera vitleysingar.
Í dag þá smyglaði ég mér inn á fund þar sem var verið að fara yfir hvernig staðið yrði að því að rífa hálft fjögurra hæða hús á kæjanum svo hugsanlega verði hægt að byggja nýtt 2017 af því að hluti hússins, sem hefur einu orginal fiskbúðina hérna hefur leyfi til að standa þangað til. Það sem við eigum hugsanlega að gera, ef tilboðið verður nógu hagstætt, er að byggja vegg sem lokar bakhlutanum á fiskbúðinni þegar fjögurra hæða húsið verður horfið.
Um þetta var hægt að fílesófera fram og til baka, fundurinn ætlaði engan enda að taka. Svona hagvöxt hefði engri kráku dottið til hugar, það að rífa gamalt hreiður til að byggja hugsanlega nýtt 2017. Svo var okkur litið út um gluggann og sáum stóran otur synda tigurlega á milli kæjana og hverfa svo undir gamla staurabryggju. Ég þarf ekki að taka það fram að fundinum lauk í snarhasti.
Otur hafði hafnarstjórinn ekki séð fyrr í höfninni, en sumir mundu eftir honum fyrr á árum þegar nóg var um að vera við höfnina annað en að rífa hús til hagvaxtar. Við vinnufélagarnir höfðum ekki nokkurn áhuga á að tala um væntanlegt vetrarverkefni heldur sögðum hvor öðrum sögur af skynsömum dýru það sem eftir lifði dags.
Magnús Sigurðsson, 14.11.2012 kl. 18:56
þetta er skemmtilegt hjá ykkur þarna og gaman væri nú að vita hvort að viska dýranna se svipuð hvort sem þau eru í Afríku Afganistan Íslandi eða Noregi.
Skyldu dýrin taka mið af hugsunum mannann á hverjum stað að einhverju leyti.? ætli að það seu hrafnar á öllum þessum löndum til dæmis.
Sólrún (IP-tala skráð) 14.11.2012 kl. 20:52
Já það væri gaman að vita það og væri ég vís til að bera þetta undir þá félaga mína.
En í dag var vinnufélaginn nosrkur og óspurður gat hann sér rétt til hver af þrem hundum tengdadóttur minnar réði á því heimili, en þar eru tveir stórir boxer og einn ponsulítill sjáaáa.
Auðvitað kom hrafninn til tals milli okkar afkomenda víkinga og vorum við sammál með það að þar væri um greindan fugl að ræða.
Magnús Sigurðsson, 14.11.2012 kl. 21:28
Ég hef nú ekki borið þetta ennþá undir félaga mína hvort dýrin taki mið af hugsunum mannanna í hverjum heimshluta fyrir sig. Hef ekki haft tækifæri til þess þar sem þeir eru að vinna í öðrum bæ hérna sunnan við Teldsundið þannig að við hittumst bara rétt í morgunnsárið. Við erum svo tveir að vinna niður við höfn í húsi sem hýsir Hurtigbåd terminalinn hérna í Harstad, en bátarnir ganga norður til Tromsö svo er hægt að taka Hurtigbáta þar norður í Finnmörk alla leið til Kirkenes uppi við Rússnesku landamærin.
Það rifjaðist samt upp fyrir mér í dag að við Juma vorum nýbúnir að spjalla um dýrin en hann vildi meina það að margt af því sem kæmi fram í fræðslumyndum í sjónvarpi um dýr merkurinnar ætti ekki við rök að styðjast samkvæmt hans upplifun. Hann sagði t.d. að á meðan hann fylgdi sauðfé föður síns suður í Darfurhéraði í Súdan hefði hann aldrei þuft að óttast ljónin undir stjörnubjörtum Afríkuhimninum. Það væri óþekkt að þau legðust á menn og búsmala, svoleiðis hefði þetta verið með flest dýr sem hann hefði kynnst, en hann sagist hafa verið allt upp í þrjá mánuði að heiman á eftir rolluhópnum. Einu dýrin sem honum hefði ekki litist á voru hýenur.
Í dag var ég svolítið að gjóa augunum til máfana fyrir utan gluggann þar sem þeir sátu á staurum og bryggjupollum við að filgjast með mannfólkinu. Svo sá ég allt í einu máfasger fara fram hjá gluggunum og fór að athuga hverju sætti. Þá hafði lítill fiskibátur, en fisibátar eru vanalega ekki við þessar bryggjur, lagt frá og máfunum þótti vissara að fylgja honum eftir sem þeim dettur ekki í hug að gera þegar hurtigbátarnir leggja frá. Jú ég held að dýrin taki mið af hugsunum mannanna þó svo að þeim geti dottið það annað slagið í hug að þetta séu óttalegir vitleysingar.
Magnús Sigurðsson, 15.11.2012 kl. 19:09
Það gerir lífið ólíkt litrókara þegar maður hefur áttað sig á því hvað dýrin hafa margt fram að bjóða okkur með sínum felagsskap.Og svo merkilegt sem það er þá er til fólk sem skilur ekki að þetta eru jarðarbúar sem ber að virða til jafns við okkur þó þau hafi aðra siði og venjur.Og hvað við værum mikið fátækari ef við hefðum ekki nærveru þeirra.Ef ekki væru aðrar skepnur á jörðinni en við mennirnir mikið ógeðslega væri þá leiðinlegt að vera hér.Það er mikið mysterý hvernig múkkinn og mávarnir vita hlutina þegar kemur að veiðum og fiski og eg held að þeir hafi verið komnir með farsíma löngu á undan okkur miðað við hvað þeir eru fljótir að mæta alveg um leið og rekinn er öngull í sjó.En hvernig þeir vita hvaða bátur er að fara að veiða og hver ekki um leið og lagt er úr höfn það er nú önnur saga.
Sólrún (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.