Rosalega er orðið dýrt að vera í vinnu

IMG 2514 

Það er ekki á hverjum degi sem múrarar verða þess heiðurs aðnjótandi að vera settir á safn.  En nú er svo komið á 69°N að við félagarnir frá landi ísa og úr myrkviðum Afríku hefur verið komið til vetrar dvalar á safni Samana upp í fjallshlíðum Evenesmarka.  Þarna eiðum við dögunum við fallandi fjósmúrinn, inn af stalli hestsins, gengt básunum sem geiturnar þrjár voru geymdar í denn.  Til svona verks dugir ekkert minna en fölþjóðlegur vinnukraftur enda nóg að gera hjá Norðmönnum við að þéna á olíu þó þeir fari ekki að eyða dýrmætum tímanum í að gera upp gamalt samískt fjós.  Ekki veit ég hvernig að ég gamli safnvíkingurinn kæmist frá því að rogast með björgin úr fjósveggnum ef ekki væri fyrir jötuninn Juma, hinn öfluga Afríkumann sem er kominn alla leið frá víðernum Darfur í Sudan.

Það fór ekki hjá því við fjósverkin að í gegnum hugann hafi flogið setning sem Siggi sonur minn sagði fyrir margt löngu síðan þegar hann var um fimm ára aldurinn "pabbi er ekki rosalega dýrt að vera í svona vinnu eins og þú?".  Þessi settningu rann reyndar fyrst á milli eyranna á mér þegar ég var að höndla flugmiðana yfir hafið og heim fyrir hátíð ljóssins og komst að því að það var ekki nokkur leið að komast fyrir minni hækkun en þriðjungs frá fyrra ári.  Um árið þegar Siggi spurði datt mér í hug eitt augnablik að skýra það út fyrir blessuðu barninu hvernig peningar yrðu til, en efaðist um að ég gæti gert það á nógu sannfærandi hátt með því að setja það í samhengi við mína vinnu.  Svo ég sleppti því, sem betur fer, enda löngu komið í ljós að hann Sigurður er miklu slyngari en ég í lífsins póker.

Það fer ekki hjá því að það örli aðeins á kvíða við þá röskun sem verður á grjótburðinum í fjósvegginn við það að fyrir höndum er flugferð yfir himin og haf.  Síðast þegar ég fór þessa leið mátti ég gjöra svo vel að stíga til hliðar á Evenesflyplass á skokkaleistunum, með vasana ranghverfa og buxurnar á hælunum vegna skerandi óhljóða frá leitahliðinu.  Eftir að hafa verið þuklaður átt og lágt af kallmanni fékk ég að halda áfram för, en það sama gerðist svo í Gardemoen.  Þegar ég kom til Keflavíkur reiknaði ég með að þetta yrði eins og í gamla daga að tollararnir byðu glaðlega góðan daginn og ef maður svaraði rétt á íslensku þá yrði málinu lokið með "velkominn heim". 

En það var nú aldeilis ekki, þarna stóðu þær tvær svartklæddar í tollinum, önnur gekk í veg fyrir mig og spurði um vegabréf á ensku.  Eins og illa gerður hlutur í grárri lopapeysu svaraði ég á ástkæra og ylhýra, "svo þú ert íslendingur" sagði daman þegar hún hafði skoðað vegabréfið, "þú mátt fara í gegn".  En þá brá svo við að hin daman gekk ennig í veg fyrir mig og skipaði mér á ensku að koma afsíðis þar sem taskan mín var sett í skanna, "hvað er þetta" spurði hún á ensku og aftur greip lopapeysan til þess að svara skilmekilega á ástkæra og ylhýra.  "Svo þú talar bara íslensku" sagði svartklædda daman "þú mátt fara í gegn".

Þegar ég kom í gegnum tollinn heyrði ég háreysti sem mér fannst ég kannast etthvað við og jú þarna var náungi sem ég hafði séð nokkrum mánuðum áður við vopnaleitarhliðið í Keflavík.  Hann hafði tilkynnt þar að það kæmi ekki til greina að hann tæki af sér skó og buxnabelti, hvað þá að hann tæmdi vasana að óþörfu.  Þegar það átti svo að leita á honum lét hann þá vita með gargandi snilld að þessu skyldu þeir sleppa því hann væri nefnilega ekki glæpamaður.  Fjöldi manns mátti bíða á sokkaleistunum með buxurnar á hælunum meðan serímónían fór fram.  Ég er ekki frá því að það hafi flogið í gegnum hugann á fleirum en mér, þegar svona góður tími gafst til að doka við og líta yfir sviðið, að þessi maður væri sá eini með fulle femm á öllu svæðinu.  En hann er, það sem sennilega er kallað á fagmáli, misþroska.  Þannig að hjá honum hefur varðveist viska barnsins allt til fullorðins ára.

Það sem helst truflar kvíðann vegna væntanlegrar flugferðar er tilhlökkunin yfir því að komast heim.  Því eins og hún Lea frænka mín komst að orði í sögunni sem hún skrifaði á leikskólanum um árið, þá bakaði stelpan svo góða köku handa stráknum að hann bað hana um að giftast sér.  Það er tilhugsunin um kókosterturnar hennar Matthildar minnar sem gera það að ég ferðast úr rándýrri vinnu yfir himinn og haf með buxurnar á hælunum grunaður um hryðjuverkaáform.  Með þá von í hjarta að í aðdraganda hátíðar ljóssins hafi blessuð börnin eins og ævinlega á réttu að standa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband