Að afloknum fjósverkum

IMG 3232

Það er kannski eins og að bera í bakkafullan lækinn að koma með enn eina langlokuna frá samíska fjósinu í Evenesmarka. En úr því að maður byrjaði á annað borð að þvæla um þetta fjós þá er varla um annað að ræða en að steypa saman lokaritgerð um þessa steina. 

Hinn sterki Súdani, Juma frá Darfur, ásamt mér gamla safnvíkingnum erum búnir að koma björgunum fyrir í múrinn. Eftir að hafa rifið niður 120 ára fallandi fjósmúrinn á samíska safninu á Gallogiedde og staflað honum upp aftur erum við sammála um að tækninni í byggingalist fer aftur í hárnákvæmu samræmi við það hvað menntun múrara fleytir fram. Það má sjá  best á því að með öllum tæknibúnaði og þekkingu dagsins í dag hafa múrarar aldrei verið eins langt frá því að geta reist mannvirki á við pýramídana.  Þess vega erum við bara nokkuð ánægðir með að hafa getað farið aftur í tímann við að endurhlaða fjósmúr Samana og teljum okkur þannig hafa komist 120 árum nær því að geta reyst pýramída.

Annars vorum við báðir farnir að hafa orð á því í lokin að réttast væri að treina sér jobbið.  Það væri lúxus að klappa steinunum upp í fjallshlíðum, sötra kaffi þess á milli og virða fyrir okkur sveitina niður í dalnum meðan ernirnir hnituðu hringi í uppstreyminu fyrir ofan fjallsbrúnina.  Elgirnir voru að vísu fyrir löngu búnir að naga það sem þeir náðu í úr trjánum í túnfætinum og farnir í aðra haga.  En í þeirra stað mættu hrafnarnir til þinghalds svo þá gafst mér færi á að láta ljós mitt skína varðandi visku hrafnsins, jafnvel fara með vísuna um krumma sem krunkar úti og kallar á nafna sinn.

Ég gat  frætt Afríkumanninn á hrikalegri greind hrafnsins hvernig hann hefði fundið Ameríku fyrir víkingana langt á undan Kolumbusi.  Einn daginn að loknum fjósverkum stóð Juma fyrir framan fjósdyrnar tilbúin til heimferðar og beið eftir að ég drattaðist upp túnið, en ég hafði farið í ljósmyndaleiðangur niður að girðingu.  Þá renndi hrafn sér niður hlíðina, þegar hann var rétt fyrir ofan höfuðið á Juma snéri hann sér á bakið í fluginu og skellti í góm með bjölluhljóm.  Svo þegar hann kom yfir mig nokkrum vængjatökum neðar  gerði hann nákvæmlega það sama nema þá snéri hann sér á hinni hliðinni.  Ég þurfti ekki að sannfæra Súdanan frekar um það að hrafninn væri fjölkunnugur fugl.

Aðalstræti 1 2003

En núna hafa semsagt hversdaglegri tímar tekið við hérna á 69°N og má segja að það sé svolítill söknuður yfir því að fara ekki lengur upp í hlíðar Evenesmarka að klappa steinum og krunka með krummunum.  Það er heldur ekki oft sem býðst að sinna svona gælu verkefnum.  Það eru orðin 10 ár síðan að ámóta verkefni rak upp á fjörur en það var í 101 Reykjavík við Aðalstræti  í húsi sem hýsti á árum áður verslunina Geysir en heitir nú Ingólfsnaust eftir Ingólfi syni Arnar.  Þar fékk ég að leika mér við steina og flísar aðallega við að vaska þá upp og  sparsla á milli þeirra. 

Þetta var í kjallarakompu sem síðan hýsti veitingastaðinn Sjávarkjallarann.  Mér var sagt að sumir steinarnir hefðu verið hluti af Reykjavíkurhöfn á árum áður.  Ég var því feiminn við steinana og hafði á orði við Þorstein Bergsson hjá Minjavernd að ég vissi ekki alveg til hvers væri ætlast ég gæti leikandi gleymt mér dögum saman við að snurfusa þá.  Hafðu ekki áhyggjur af því, sagði þorsteinn valdsmannslega, við stoppum þig ef okkur lýst ekki á, en þeir Hjörleifur Stefánsson arkitekt höfðu með endurnýjun Aðalstrætis að gera. 

Á endanum var ég búin að leika mér þarna Aðalstrætinu í hálft ár m.a. hreinsa upp gamla múrsteina á hæðinni fyrir ofan Sjávarkjallarann.  Þar lék ég mér í tvær vikur við að vaska steina og fúga sem höfðu verið notaðir sem púkk þegar gólfplata hafði verð steypt í bakhús sem hefur kannski enn að geyma Tapas barinn, en þeir voru eins og ormur í miðjum vegg Aðalstrætismegin í bland við fornfárlegt burðarvirki úr tré.  Það voru sumir hissa á því að ég fengi að leika lausum hala við að gera ekki neitt að viti.  

Þegar verslunin Rammagerðin flutti inn í rýmið þá voru jafnvel þeir sömu  aftur svo gáttaðir á því þegar veggurinn með rauða múrsteinagorminum  var klæddu af með plötum að þeir höfðu á orði við verslunarstýruna; "veistu hvað það er búið að eyða mikilli vinnu í að varðveita þessi múrsteinsbrot sem þú setur á bak við veggplötur".  Hún lét þá vita af því að þarna stæði til að reka verslun en ekki minjasafn um múrsteina. Seinna þegar ég hitti Þorstein og hafði uppi afsakanir yfir því að þarna hefði mikil vinna farið fyrir lítið þá sagði hann; "þetta er allt í lagi Maggi minn við vitum báðir að þetta er þarna á bak við plöturnar". 

101 2002

Það er ekki á hverjum degi sem maður fær að leika lausum hala bak við vegg og því var fjósmúrinn á Gallogiedde ánægjuleg tilbreyting jafnvel þó að vinnufélagarnir hafa flestir mært Mette eiganda Murbygg fyrir þá visku að láta mig um að halda þræðinum við verkið því þeir kærðu sig lítið um verkið sjálfir.  Það þarf því ekki að koma á óvart að sælar minningar um kúluvegg í 101 hótel hafi bankað upp á við fjósverkin. 

Við Hverfisgötu dingluðum við kolleikarnir frá Egilsstöðum löppunum fram af vinnupöllum sumarlangt við að pússa kúlur fyrir meira en 10 árum síðan.  Þar hafði Hrólfur múrarameistari Gunnlaugsson fengið að sjá um múrverk og flísalagnir í draumasmiðju Ingibjargar Pálmadóttir.  Hann hafði svo fengið gamla meistarann sinn, Braga Guðjónsson og mig gamla handlangarann sinn, sér til halds og trausts.  Hrólfur var á þessum árum nokkhversskonar spari múrari hjá latte liðinu í 101 Reykjavík. Ingibjörgu Pálmadóttir hafði dottið í hug að gera Lilju systur sinni þann heiður að setja listaverkið hennar "Klak" á 15 m háan Óperu vegginn í portinu á milli Gamla bíó við Ingólfsstræti og Alþýðuhússins við Hverfisgötu. 

Á þessum árum sat Davíð í Stjórnarráðinu neðan við kúlnaportið og í Fréttablaðinu auglýsti Bónus steinlaus vínber á kostakjörum við geðillsku og gillinæð.  Már nokkur Guðmundsson sat svo norðan við Arnarhólinn í Seðlabankanum og skipulagði stöðuleikann með undraverðum árangri sem aðalhagfræðingur.  Ríkissaksóknari var í næsta húsi fyrir neðan portið, Hæstiréttur í Ingólfsstrætinu á milli Alþýðuhússins og Seðlabankans við hliðina á Þjóðmenningarhúsinu með þjóðleikhúsið næst, Héraðsdóm Reykjavíkur mátti svo sjá fyrir mynni portsins.  Tilsýndar hefur sviði ekki svo mikið breyst þó óperan sé nú flutt á stað sem ber nafn hljóðfærisins sem leikið var á þegar Róm brann.  

Til að sjá listaverkið hennar Lilju "Klak" þarf að fara inn á resturantinn á 101 hótel þar sem það blandast blámanum þegar horft er til himins út um þakgluggann. Þó svo að litagleðinni sé ekki fyrir að fara á 101 hótel þá var þeim mun meiri hugmyndaauðgi lögð í það hvað skyldi vera hvítt og hvað svart.  Það sem var svart þennan daginn gat verið hvítt þann næsta.  Þarna lék ég mér því ásamt tugum annarra iðnaðarmanna um árabil við að múra hvítar kúlur og leggja svartar flísar.  Á þessum árum höfðu málararnir margsinnis málað það sem var hvítt svart og öfugt.  Þegar ég sagði þeim svo til uppörvunar að mig grunaði að þeir myndu fá einn daginn að mála lyftudyrnar fjólubláar hristu þeir vonlitlir höfuðið.  En eftir að sá dagur kom töldu þeir mig vera einn af innmúrúðum.

Svarti liturinn á flísunum og sá hvíti á kúlunum fengu þó að halda sér, en það þurfti að flísaleggja 5. hæðina tvisvar því Ingibjörg vildi hafa sturtu gólfin 3 mm lægri og klósett gólfin 4 mm hærri en upphaflegar teikningar gerðu ráð fyrir, eftir fyrri umferð flísalagningar.   Sturta og klósett eru þó ekki sama rýmið heldur sitt hvor glerskápurinn, sturtan út í horni og klósettin með þremur glerveggjum fyrir miðju herbergi þar sem má virða fyrir sér Esjuna út um gluggann á meðan setið er.  Það fór því ekki hjá því að manni dytti í hug hugmyndaríki strákurinn sem hugðist fjármagna drauma sína með því að selja aðgang að gjörningi í gamla hænsnakofanum á Djúpavogi. Eftir að það var uppselt í kofann þá skeyt hann í glerkrukku áhorfendum til óblandinnar.

Þegar að sturtu gólfin í 101 höfðu verið lækkuð um 3 mm hafði það ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Það höfðu nefnilega verið tekin mál af speglum sem klæða áttu veggi sturtuklefana sem höfðu svo glerveggi fyrir framan.  Þetta kannski hljómar ekki sem stór mál, en þessir speglar voru um 3 m á hæð og klæddu veggi sem vor 1,6 m á lengd. Glerveggurinn kom síðan upp úr gólfinu og hvarf upp í gegnum loftið. Eftir að speglagerðarmennirnir höfðu borið spegla og gler  í tvo daga upp þrönga stiga Alþýðuhússins alla leið upp á 5. hæð máttu þeir nota annan eins tíma í að bera speglana niður, þegar í ljós kom að þeir voru 3 mm of stuttir.  Gler veggina settu þeir samt upp en sögðu að það tæki mánuð að búa til nýja spegla.  Af eðlislægri forvitni spurði ég þá hvernig þeir ætluðu að koma speglunum inn um 80 cm opið á sturtuklefanum eftir að hafa sett upp glerveggina. Þeir sögðu mér ekki að vera að brjóta heilann að óþörfu. 

Mánuði seinna hófst svo aftur speglaburður upp þrönga stiga húss alþýðunnar við Hverfisgötu alla leið upp á 5. hæð og ekki var vandræðagangurinn við að koma þeim á sinn stað eftir að upp var komið.  En nokkrum dögum seinna mátti sjá ógleymanlega sjón á 5. hæðinni, við blöstu sturtuklefar úr gleri með hálfs meters lagi af mölbrotnum speglum.  Það hafði ekki farið fram hjá glöggu auga Ingibjargar að speglaburðarmennirnir höfðu ætlað að svindla á henni.  Í stað þess að hafa spegilinn í tvennu lagi hafði hann verið hafður í þrennu með ólíðandi auka fúgu á milli.  Því tók við speglaburður í bölum niður stiga Alþýðuhússins, ný spegla smíði auk þess sem það þurfti að rífa niður glerveggina til að koma speglunum fyrir samkvæmt máli.  Svona geta 3 mm verið stórir, enda hafði Bragi kolleiki minn það á orði dag hvern að við værum komnir í draumaverkefnið, það væri nefnilega alltaf miklu meiri eftir að kvöldi heldur en þegar við mættum að morgni.

Ég hélt því  staðfastlega fram við vinnufélaga mína í 101 hótel úr öðrum iðngreinum að hvítu kúlurnar væru það eina sem hefði verið gert að viti í því húsi, þó svo að Ingibjörgu hafi dottið það í hug að hnika þeim til á veggnum eftir að það kom í ljós að gluggapóstur í þakglugganum skyggði óþarflega mikið á eina þeirra, þá hefði Lilja ekki tekið það í mál, verkið væri fullkomið.  Eftir því sem fram líða stundir þá hallast ég að því að kúlurnar hennar Lilju séu það eina sem gert var af viti í öllum 101 á þessum árum.

IMGP0339

Snemma beygist krókurinn segir einhverstaðar, 12 ára gamlir sátum við pollarnir sunnan undir kaupfélagsbröggunum og hjuggum til steina í ormurinn hans Hrings heitins Jóhannessonar myndlistamanns sem er utan á Kaupfélagsveggnum á Egilsstöðum.  Þar á meðal okkar pollana var kaupfélagsstjóra sonurinn Magnús Þorsteinsson, ávalt kallaður Maggi í Kóngó á þeim árum þó síðar hafi hann fengið viðurnefnið huldumaðurinn í þríeyki þeirra Björgúlfsfeðga sem kennt er við Samson.

Það má kannski ætla að álíka kærleikur og var á milli þeirra 101 systra hafi orðið til þess að sá veggur prýðir Héraðið.  Það eru þeir bræður Völundur og Hringur sem eiga heiðurinn af því að nákvæm eftirmynd úr steini er til af orminum sem nú er horfin í grugg Lagarfljótsins og þó ég muni það ekki svo gjörla þá er ekki ólíklegt að þeir Bragi og Hrólfur hafi aðstoðað við að koma honum þar fyrir svona eitthvað svipað og Finnarnir sem voru fengnir úr Samabyggðum Noregs til að ráða niðurlögum óvættarins í Lagarfljóti árþúsundi fyrr.  Steinarnir í þessum ormi eru úr austfirskri náttúru komnir víða að af austurlandi.  

Núna þegar ég var heima á Héraðinu fyrir jólin hafði ég það á orði við hana Matthildi mína þegar við fórum í kaupfélagið hvað hún væri hrikaleg sú Mafía  sem hefði gert kaupfélagið okkar gjaldþrota á 100 ára afmælisárinu til þess að koma því í hendur hyskis sem hefðu spilað stærstu rolluna í að koma Íslandi á hausinn.  Allt vegna þess að kaupfélagið skuldaði minna en glæpahyskið.  "Svona, svona, slakaðu nú aðeins á" sagði Matthildur mín "óskuðu þeir ekki eftir gjaldþroti sjálfir".  Af því að þetta var í aðdraganda hátíðar ljóssins ákvað ég að láta kyrrt liggja að svo stöddu.  En svo hrökk ég upp um miðja nótt hérna á 69°N fyrir skömmu við þá martröð að það væri búið að mála orminn hvítan.  Því hafði ég samband við Mathildi mína í snatri á skypinu, bað hana að fara eins og skot niður í kaupfélag til að taka mynd af orminum ef hann væri enn á veggnum, því fíflin ættu örugglega eftir að mála hann hvítan svo hann skyggði hvorki á Netto né N1 merkin.

Það er lítið að finna um sögu ormsins á kaupfélagsveggnum þó svo að fólk hafi hann dagsdaglega fyrir augunum er alls ekki ólíklegt að örlög hans gætu orðið þau sömu og nafna hans í Fljótinu.  Þegar ég kem að kaupfélagsveggnum með þessari stóru mynd og hitti þá jafnvel Völund sem upphefur mig ævinlega með því að kalla mig frænda, þá finnst mér ég vera heima og geri mér betur grein fyrir því að þó ég fari út um víðan völl við að klappa steina þá er Það allt gert til þess geta átt áfram heima heima.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband