17. júní mynd.

17.júní 83

Myndin í tilefni dagsins er tekin fyrir 30 árum síðan. Hana fann ég þegar ég var að grúska í gömlu myndunum úr safni föður míns, í maí heimsókninni til Íslands, og komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að hún hefði verið tekin árið 1983. Það merkilega við það að muna ártalið er að þetta var sumarið sem ég missti minnið.

Skömmu eftir 17. júní 1983 var ég að vinna við múrverk í íþróttahúsinu á Egilsstöðum og datt aftur fyrir mig af ástandi þannig að hnakkinn skall fyrstur á steinsteypt gólfið.  Þegar ég stóð upp, sem gerðist snarlega, var ekkert í höfðinu, ekki ein minning.  Var þar að auki hvorki áttaður á stað né stund, þekkti ekki vinnufélagana, en var altalandi á íslensku sem ég notaði til að Guð sverja fyrir að allt væri í þessu fína.

Ég man eins og gerst hafi í gær hvað það var mikið hjartans mál að engin kæmist að því allt hefði þurrkast út af harða diskinum. Benni Jónasar múrarameistarinn minn, sem ég þekkti ekki baun þá stundina, spurði hvort ég vildi ekki taka því rólega sem eftir væri dags sem mér fannst ekki ólíklegt að eðlilegt væri að svara játandi.

Benni keyrði mig svo heim að húsdyrum í götu sem ég þekkti ekki, en vissi að ætlast var til að ég færi inn um dyrnar. Þegar ég kom inn settist ég í fyrsta sætið sem ég sá, pabbi vildi vita hvers vegna ég kæmi svona snemma heim en fékk svar út í hött. Enda kannaðist ég hvorki við manninn né tvö yngstu systkini mín sem enn voru í föðurhúsum. Annað slagið þegar lítið bar á fór ég út í glugga til að horfa út ef það kynni að verða til þess að sjá eitthvað kunnuglegt.

Eftir að pabbi hafði farið út í íþróttahús og spurt Benna hvers vegna ég hefði komið heim ákvað hann að fá mig með sér út á sjúkrahús. Læknirinn sem skoðaði mig var þáverandi Borgarlæknir sem leysti af á Egilsstöðum tímabundið. Hann spurði pabba hvernig hann hefði komist að því að ekkert væri í kollinum á mér, því þegar svona gerðist væru þeir sem fyrir því yrðu líklegastir til að fela það með öllum tiltækum ráðum.

Pabbi sagðist hafa séð að persónuleikinn var horfinn, það hefði lítið minnt á elsta son hans í manninum sem kom inn úr dyrunum allt of snemma heim úr vinnunni. Læknirinn sagði að högg á hnakka gæti hitt á minnisstöð með þeim afleiðingum að hún þurrkaðist út tímabundið en þetta ætti allt eftir að koma til baka á innan við sólarhring, sem stóðst nákvæmlega eftir því sem ég best veit.

Einnig er ártalið 1983 minnisstætt varðandi myndina vegna þess að það þótti ráðlegt að ég dveldi á sjúkrahúsinu í sólarhring eftir höfuðhöggið. Í glugganum yst til hægri á gula hluta sjúkrahússins stóðum við Björg amma en hún hafði komið þennan sama dag á sjúkrahúsið vegna  lasleika í höfði. Þarna stóðum við og virtum fyrir okkur útsýnið inn Héraðið horfandi yfir byggingarframkvæmdirnar við sjúkrahúsið. Ekki datt mér í hug þá að amma hefði farið að heiman í síðasta sinn og ætti ekki afturkvæmt vegna minnisleysis, svo skýrar voru samræður okkar um það sem fyrir augu bar út um gluggann.

En þessar hugrenningar voru samt ekki fyrstar til að fljúga í gegnum kollinn þegar ég sá þessa mynd. Það sem flaug fyrst í gegnum hugann tengist tilefni myndarinnar og fánaberanum á hestinum. Á augnabliki komu upp það margar minningar að vonlaust er að rifja þær allar upp, hvað þá að gera þeim skil í rituðu máli. Fánaberinn á hestinum er Ármann Guðmundsson sem ásamt Guðfinnu sinni komu upp einum af stærsta systkinahóp þorpsins á Egilsstöðum. Þessi systkini eru mörg hver á sama reiki og ég, því voru minningar augnabliksins skiljanlega óendanlegar. 

Ég þykist muna eftir því að hafa komið í húsið á Selás 22 þegar bílskúrin var fullur af kindum og hestum, með kartöflugarð á baklóðinni ásamt vappandi hænum. Þetta var reyndar ekkert einsdæmi á Egilsstöðum á þeim árum, hænur og suðfé mátti sjá við fleiri hús, kartöflugarða við flest. Húsasmíði var starfsgrein Ármanns og synirnir fjórir urðu allir húsasmiðir í læri hjá föðurnum að ég best man, sá frækni flokkur gekk stundum undir nafninu Ármenningar í byggingabransanum. Hestar voru áhugamál Ármanns og sona hans sem sumir hverjir eru flinkir knapar.

Þó svo að ég hafi stundað byggingavinnu frá unglingsárum þá var það ekki fyrr en næstum 10 árum eftir að þessi mynd var tekin sem við Ármann unnum fyrst við sömu byggingu. Það var þegar var verið að byggja Kleinuna við Miðvang 2-4. Verktaki var byggingafyrirtækið Baldur & Óskar hf, það sama og byggði þann hluta sjúkrahússins sem sést í byggingu á myndinni. Baldur Sigfússon var þar yfirsmiður og naut útsjónasemi Ármanns við uppsteypu Kleinunnar. Við Ármann tókum þar stundum tal saman um fyrri tíma og sagði hann mér m.a. frá því að hann og móður mín kæmu úr sömu sveit að norðan hann væri jafnaldri eldri systkina hennar. Gamlar minningar rifjuðum við oftar upp þegar við hittumst á förnum vegi.

Undanfarið hefur talsvert verið rætt um hvernig skuli fara með hugtakið þjóðmenning, sem um er getið í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, hvort hana má t.d. finna í flatkökum, pönnsum og kleinum. Að sjálfsögðu verður þjóðlegum kræsingunum gerð skil í dag, blómsveigar lagðir og haldnar hátíðar ræður. En þegar ég sá þessa 30 ára gömlu 17, júní mynd greyptist það enn dýpra í vitund mína að það er fólk eins og Ármann sem gerir okkur að þjóð. 

 

IMGP5339

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband