Af kynjum og víddum... og loftbólum andans.

Það hefur ekki oft komið fyrir á þessari síðu að vakin hefur verið athygli á ritverkum annarra. Þó hefur það komið fyrir s.s. þegar bókin hans Más vinar míns Karlssonar kom út "Fólkið í plássinu". Í það skiptið þorði ég að vekja athygli á bókinni hans Más þar sem ég hafði tryggt mér eintak í gegnum klíku áður en bókin kom út.

Það vill oft verða sammerkt með góðum bókum að það fer lítið fyrir þeim í markaðsetningu og eru ekki gefnar út í risaupplagi. Enda fór svo sem mig grunaði með bókina "Fólkið í plássinu", hún seldist upp á skömmum tíma og hefur verið ófáanleg síðan.

Ég tel mig hafa nú þegar tryggt mér eintak af ljóða bókinni hans Péturs Arnar og treysti á að hann tíni ekki minnismiðanum, því ljóðanna ætla ég að njóta þegar ég kem heim um jólin.

 

Af kynjum og víddum..og loftbólum andans er fyrsta ljóðabók Péturs Arnar Björnssonar arktítekts. 

Í ljóðabókinni flæða yrkisefnin milli himins og jarðar, frá fortíð til nútíðar. Pétur Örn hefur fengist við ljóðaskrif frá unglingsárum. Samhliða námi skrifað mikið af ljóðum og hafa nokkur þeirra birst í blöðum og tímaritum.

Ljóðaskrifin urðu strjálli með árunum en í kjölfar þess tíma sem gafst við hrunið haustið 2008 hófust þau aftur af krafti. Núna fannst Pétri mál til komið að taka fyrsta þversnið í hinn mikla ljóðahaug sem safnast hefur upp í gegnum árin og gera aðgengilegan bókarformi.

Pétur Örn Björnsson er fæddur á Sauðárkróki árið 1955. Að afloknu stúdentsprófi frá MT árið 1975 nam hann almenna bókmenntafræði við HÍ og lauk BA prófi þaðan árið 1980 með lokaritgerð sinni um list og veruleika í Flateyjar-Frey, ljóðfórnum Guðbergs Bergssonar. Eftir það lærði hann arkitektúr við Arkitektskolen i Aarhus, lauk þaðan Cand. Arch. prófi árið 1986 og hefur síðan starfað samfellt sem arkitekt. Nú arkar hann inn á ritvöllinn með sinni fyrstu ljóðabók.

Eins og ég gat um í upphafi þá hefur þessi síða ekki gert mikið af því að vekja athygli á hugðarefnum annarra þó svo að öllum hafi verið frjálst að viðra sín hugðarefni hér í athugasemdum sem Pétur Örn hefur gert af og til.

Það eru ekki nema andans menn með hjartað á réttum stað sem koma saman ljóði og það þarf fjölkunnuga kjarkmenn á við Egil sterka til að gefa út ljóðabók. Pétur Örn er hvoru tveggja ef marka má ummæli hans við útkomu bókarinnar Af kynjum og víddum... og loftbólum andans.

"Fyrsta fjallið er hverjum manni ætíð það erfiðasta að klífa. Eftir það fer maður væntanlega í stóra ljóðahauginn sem safnast hefur upp í gegnum árin og tekur næstu þversnið og prjónar hverju sinni einhverju nýju við svo úr verður ljóð ... hús."

 

Í SVARBLÁMA

Hljóður
getur alvarleiki 
barnsins 
verið - í leik 

í djúpri skynjun vitundar
um að fyrr en síðar
muni það leita 
sjálft sig (aftur) uppi

með tunglið og stjörnurnar
og Norðurljósin
og allar ljóstýrur heimsins
í augunum

að rýna út í loftið
út yfir hafið
yfir móa og mela 
og yfir landið allt

í hljóðum svarbláma
að finna sjálft sig aftur
í skynjun vitundar í leik
bak við þunnofna slæðu.


(Úr bókinni "Af kynjum og víddum ... og loftbólum andans, sem komin er út á vegum forlagsins Bókabeitan og er 92. bls. kilja. Bókin fæst nú í öllum "betri bókabúðum") 

Mynd af Af kynjum og víddum ... og

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband