Höfuðlausn í Hálogalandi.

IMGP6146  

Eftir að hafa eigrað um verganginn í vel á þriðja ár á söguslóðum víkinga er ekki úr vegi að birta hugleiðingu tengda landsvæði sem stundum er nefnt Hálogaland. Enda má hér í Harstad og víðar í N-Noregi sjá fyrirtæki og stofnanir kenna sig við þetta landsvæði. 

Á Wikipedia er Hálogaland sagt vera vera gamalt nafn á landsvæði norðarlega í Noregi . Á 9. og 10. öld var það nafn á sjálfstæðu smákonungdæmi sem náði yfir hluta af fylkjunum Troms, Norland og Norður Þrándheim, eða allt frá Namdalen í Norður Þrándheimi í suðri, til Lyngen í Troms í norðri. Það er sagt hafa náð yfir þann þann hluta Norður-Noregs sem byggður var norrænum mönnum. Norðan við Hálogaland var svo Finnmörk, þar sem Samar bjuggu. Það virðist líka hafa náð langt til austurs, inn í Norður-Svíþjóð og Finnland. Hálogaland er oft nefnt í Íslendinga og Noregskonunga sögum. Þetta má finna um Hálogaland á alfræðiriti almennings Wikipedia.

 

Hálogaland 

Til samanburðar þá nær Hálogaland frá 64°N - 69°N en Ísland nær frá 63°N - 66°N. 

Það er kannski ekkert skrítið að Hálogalands sé oft getið í Íslendingasögum enda kom mikið af landnámsfólki Íslands þaðan er það yfirgaf Noreg vegna ofríkis Haraldar Hárfagra. Hálogaland féll að lokum undir ríki Haraldar, Noreg.

Egilssaga Skalla-Grímssonar er ein af Íslendingasögunum sem greinir frá sögu Noregs frá því um árið 850 - 1000. Reyndar gerast fyrstu 27 kaflarnir alfarið í Noregi og stór hluti þeirra í Hálogalandi þar sem sagt er m.a. frá höfðingjanum Þórólfi Kveld-Úlfssyni bróður Skalla-Gríms.

Þórólfur er sagður hafa verið handgenginn Haraldi Hárfagra öfugt við þá feðga Kveld-Úlf og Skalla-Grím. Samkvæmt sögunni sat Þórólfur í Hálogalandi að boði Haraldar, bjó fyrst að Torgum síðar á Sandnesi, en Sandnesin má finna víða í Hálogalandi. Hann sigldi suður í víking á sumrum en reið á fjall um vetur, hafði kaupskap við Sama í Finnmörku og sótti þangað skatt til handa Haraldi konungi.Egilssaga greinir svo frá;

"Þórólfur gerði um veturinn ferð sína á fjall upp og hafði með sér lið mikið, eigi minna en níu tigu manna. En áður hafði vandi á verið, að sýslumenn höfðu haft þrjá tigu manna, en stundum færra; hann hafði með sér kaupskap mikinn. Hann gerði brátt stefnulag við Finna og tók af þeim skatt og átti við þá kaupstefnu; fór með þeim allt í makindum og í vinskap; en sumt með hræðslugæði". 

Þórólfur fór marga vetur í Finnmörk og sótti skatt fyrir Harald, meiri en áður hafði þekkst. Hann koma sér vel við Sama sem og flesta sem hann kynntist. Þrátt fyrir trygglyndi Þórólfs við Harald taldi hann sér standa ógn af Þórólfi fór því svo að Haraldur konungur réði honum bana með því að brenna hann inni að Sandnesi. Eftir það héldu þeir Kveld-Úlfur og Skalla-Grímur til Íslands.

Við lestur Egilssögu og lýsinga hennar á Finnmerkur ferðum Þórólfs kviknaði hugmynd um að Þórólfur hefði verið búsettur á svipuðum slóðum og ég er staddur, nánast við 69°N upp undir Finnmörk. Allt eins að hann hefði verið hér við víðfeðman Vogsfjörðinn, allavega ekki mikið sunnar en á Lófóten.

Samt má sjá á Wikipedia að Þórólfur Kveldúlfsson hafi verið búsettur suður við Brønnøysund sem er syðst í Norland fylki og sunnarlega í hinu forna Hálogalandi. Heimilisfangið passaði einhvern veginn ekki við þann hluta Egilssögu sem greinir frá að Þórólfur hafi farið á fjall á vetrum til að stunda kaupskap í Finnmörk þar sem hún er núna. Það er einfaldlega of torsótt að fara slíka leiðangra um langan veg að vetrarlagi.

Þó svo að ég hafi tröllatrú á wikipedia, alfræði almennings, þá hef ég meiri trú á Íslendinga sögum þær eru nánast heilagur sannleikur. Eins hafði ég orðið var við það í rannsókn á rúninni Ægishjálmi, að wikipedia á það til að fara með fleipur. Ægishjálminn segir hún að Sigurður Fáfnisbani hafi borið þegar hann banaði drekanum Fáfni á Gnitheiði. Þessa visku um Ægishjálminn tekur svo hver upp eftir öðrum þannig að hún tröllríður netheimum. En ef Völsungasaga er lesin þá kemur fram að Ægishjálmurinn tilheyrði fjársjóði Fáfnis, það sama segir í Eddukvæðum.

Þessar vangaveltur um heimilisfang Þórólfs Kveld-Úlfssonar létu mig ekki í friði. Þó svo að ég hafi lesið Egilssögu í fyrravetur þá var hún að þvælast í hausnum á mér langt fram á sumar. Þeir Norðmenn sem ég spurði höfðu ekki hugmynd um Þórólf enda virðist einn víkingahöfðingi eiga hug þeirra allan sem búa hér við Vogsfjörðinn. Það er hann Tore Hund sem bjó í Bjarkey og vann sér það til frægðar að drepa Ólaf-Helga Noregskonung fyrir hana Sigríði systur sína að mér skilst.

Svo komu þau hingað norður á 69°N í sumar Tóti og Dúna, svo ég spurði hvort þau hefðu nokkuð rekist á Þórólf eftir að hafa keyrt Hálogaland endilangt. Dúna var snögg til að svars um að það hefðu þau gert á víkingasafninu að Borg í Lófóten, þar hefði hún séð lesningu á vegg þar sem Þórólfs Kveld-Úlfssonar var getið og hugsanlega gæti ég fundið heimilisfangið hans þar.

Þegar fyrstu vindar haustsins blésu ákvað ég að halda suður í Borg, bjartsýnn um að þar fengist botn í heimilisfang Þórólfs. Meir að segja datt mér í hug að nafnið Borg í Lófóten gæti átt tengingu við Borg á Mýrum, Þórólfur var jú bróðir Skalla-Gríms sem nefndi sitt bú Borg á Íslandi. Ekki var annað að finna á Borg í Lófóten en það sama og stendur í Egilssögu að Þórólfur Kveld-Úlfsson hefði verið mikil víkinga höfðingi norður á Hálogalandi.

Í safninu á Borg var sýnd stílfærð heimildamynd um fyrrum íbúa höfðigasetursins sem áttu sammerkt fleirum að hafa lent upp á kannt við Harald Hárfagra og neyðst til að yfirgefa Hálogaland. Þar er sagður hafa verið húsbóndi Ólafur Tvennumbrúni. Heimildamyndin sem sýnd er við innganginn gerir því skil þegar Ólafur flytur með sitt fólk til Íslands. Myndinni lýkur svo á þeim hjartnæmu nótum að dóttir Ólafs sem með honum fór, snýr ein frá Íslandi aftur til Lófóten og giftist syni þess manns sem Haraldur Hárfagri eftirlét Borg, þannig hélst Borg í ættinni ef svo má segja. þetta er nú kannski ekki akkúrat það sem stendur í Landnámu og þó;

"Óláfur tvennumbrúni hét maður; hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár (og Hvítár og) til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög. Óláfur bjó á Óláfsvöllum; hann liggur í Brúnahaugi undir Vörðufelli".

  

Borg

Borg í Lófóten t.v. og þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal t.h.. Við svona húsakost er hinn heiðni höfðingi Ólafur Tvennumbrúni talinn hafa búið í Hálogalandi og á Íslandi.     

Einn stað vissi ég um þar sem næsta víst væri að upplýsingar um heimilisfang Þórólfs lægju fyrir, en það er á Trondenes hér í útjaðri Harstad. Trondenes var eitt af fornum höfðingjasetrum Hálogalands sem um er getið í Heimskringlu Snorra. Á Trondenes er Historiske Senter, en þangað hafði ég farið veturinn 2012 á fyrirlestur hjá Ásborgu Árnþórsdóttir um sögutengda ferðaþjónustu á Íslandi. Þegar Grettir Ásmundarson barst í tal kom það fram hjá einum áheyrenda að Grettir hafi verið ættaður úr Hálogalandi og þegar hann hefði verið dæmdur í útlegð frá Íslandi hefði hann dvalið um tíma hjá sínu fólki hér út í Vesterålen, að mig minnir. Þannig að allan tíman sem ég braut heilann um heimilisfesti Þórólfs hafði ég Trondenes í bakhöndinni ef í harðbakkann slægi.

Það var svo ekki fyrr en núna í október að við Matthildur mín spásseruðum úr á Trondenes til að skoða sýninguna "Með kross og sverð í gegnum þúsund ár". Á upplýsingaskilti sem var á milli víkingaheimsins og samískaheimsins var vitnað í Egilssögu þar sem Finnaskattinum voru gerð skil og þar greint frá að Finnmörk hefði náð suður með öllu Hálogalandi á tímum Þórólfs. Þetta búsetusvæði Sama hefði nú endanlega verið staðfest með fornleifarannsóknum. Þannig að þó svo Egilssaga hafi ekki verið rituð fyrr en um árið 1200 á Íslandi, og af sumum talin mögnuð lygasaga færð í letur eftir munnmælasögum, þá greindi hún nákvæmlega frá búsetu fólks í Noregi, Hálogalandi og Finnmörku 300 árum fyrr.

Þannig að ég get andað léttar yfir því að alfræðirit almennings Wikipedia hefur á réttu að standa með hversu sunnarlega heimilisfang Þórólfs mun vera að finna. Þar að auki er búið staðfesta það með nútíma vísindum að Þórólfur hafði bara þurft að fara út um bakdyrnar hjá sér til að komast upp í Finnmörk þó hann hafi verið alla leið suður við Brønnøysund. Um þetta bar þeim saman hinum helgu bókum Íslendingasagna og almannarómi á Wikipedia svo engu skeikar.

 

Noregur 

Einhvernvegin svona gæti munurinn verið á Noregi í dag og á tímum Egilssögu. 

Eins fór ekki fram hjá mér við lestur Egilssögu að Egill var hund heiðinn og landnámsmenn Íslands nokkhverskonar flóttamenn undan ægivaldi kirkjunnar. Heiðni goðafræðinnar virðist hafa verið kominn í nauðvörn efst upp í Evrópu á landsvæði sem nú gengur undir heitinu Skandinavía. Noregskonungar erindrekar hins miðstýrða vestræna valds sem með undarlegum hætti kenndi sig við Krist. Goðafræðin var kannski ekki trúarbrögð í eiginlegri merkingu þess orðs heldur lífsgildi og menning sem átti sér skírskotanir í hina ýmsu heima s.s. Miðgarð, Ásgarð, Jötunheima, Dvergheima, Eldheima osfv. í það minnsta 9 heima. 

Kaþólsku kirkjunni tókst að afnema vísdóm goðafræði norðursins og gera heimana sem fólki stóðu til boða þrjá, þ.e. jarðlífið, himnaríki og helvíti.  Það sama átti við síðar varðandi menningu indíána með öll sín náttúruvætti.  Bæði víkingar og indíánar eiga sammerkt að hafa verið stimplaðir hryðjuverkamenn síns tíma sem þarf ekki að koma á óvart þegar litið er til þess stríðs sem nú er háð í nafni hryðjuverkaógnar sem sögð er steðja af menningu Íslams. Vestrænni menningu er að takast að leggja heiminn að fótum sér þar sem meir að segja himnaríki og helvíti hafa nú verið tekin út af skramenntinu. Þegnunum innrætt að veruleikinn sé aðeins einn, hinn heilagi hagvöxtur með Economy æðstan goða. Víkingar á borð við Egil voru því nokkhverskonar síðustu Móhíkanar síns tíma.

Ég minntist á það að Það hefði lítið þýtt að spyrja innfædda um heimilisfang Þórólfs Kveldúlfssonar því þeir væru uppteknir af heiðna höfðingjanum í Bjarkey, Tore Hund. Þóris Hunds er getið í Stiklastaða bardaga þar sem Ólafur helgi konungur var drepinn. Það má segja að þar séu einnig líkindi með víkingum og indíánum, því þó svo heiðnir víkingar hafi unnið bug á liði Ólafi konungs þá fór svo fyrir þeim sem indíánunum við Little Big Horn að þeim var sigurinn skammvinnur, Noregur varð kristið konungsríki í kjölfarið. Líkt og Sitting Bull þá naut Þórir Hundur þess ekki að hafa lagt Ólaf konung af velli og átti aldrei afturkvæmt í Bjarkey. Mér er sagt að sögumaðurinn Snorri geti þess meir að segja að sögusagnir hermi að síðast hafi spurst til þess mikla víkings í Róm á leið til landsins helga. En um fall Ólafs helga í Stiklastaða bardaga skrifar Snorri svo; 

Þorsteinn knarrarsmiður hjó til Ólafs konungs með öxi og kom það högg á fótinn vinstra við knéið fyrir ofan. Finnur Árnason drap þegar Þorstein. En við sár það hneigðist konungur upp við stein einn og kastaði sverðinu og bað sér guð hjálpa. Þá lagði Þórir hundur spjóti til hans. Kom lagið neðan undir brynjuna og renndi upp í kviðinn. Þá hjó Kálfur til hans. Kom það högg hinum vinstra megin utan á hálsinn. Menn greinast að því hvor Kálfur veitti konungi sár. Þessi þrjú sár hafði Ólafur konungur til lífláts.En eftir fall hans þá féll sú flest öll sveitin er fram hafði gengið með konungi. (Heimskringla / Ólafs saga helga)

Einn norðmann hitti ég þó sem vissi meira um Egil Skalla-Grímsson en Þóri Hund, það var hann Leifur í Borkenes. Í Borkenes vann ég um tveggja vikna skeið seint í sumar við að gera við flísalögn í sundlaug bæjarins. Þetta sveitarfélag er með "móttak" fyrir flóttamenn sem þurfa að komast inn í norskt samfélag. Eins er þar "móttak" fyrir þá sem misstigið hafa sig á kóngsins lögum og vilja komast aftur á meðal löghlíðina borgara með því að veita samfélagsþjónustu. Í Borkenes átti ég mörg skemmtileg samtöl um heima og geyma í matar og kaffitímum.

Síðasta daginn sem ég var í Borkenes höfðum við sammælst um að ég kæmi með hákarl og íslenskt brennivín til "lunsj" í skiptum fyrir vöfflur með sultu. Leifur sem kannski ekki bar með sér að hafa verið hinn heppni eins og íslenski nafni hans ef marka mátti rúnum skorð andlitið, sá um vöfflubaksturinn heilsaði með virktum. "Ja so du er en Islanding kanskje viking som Egill Skalla-Grimsson kommen å hente din arv ". Þarna hélt ég mig himinn hafa höndum tekið við að fá botn í heimilsfang Þórólfs. Spurði því Leif hvort hann hefði lesið Egilssögu; "að minnsta kostu fjórum sinnum" sagði hann. Þegar ég færði Þórólf í tal við hann sagðist hann ekki hafa hugmynd um þann náunga en eitt vissi hann; "Egill var ikke en kriger han var en poet" (Egill var ekki vígamaður, hann var skáld).

Síðan fór Leifur yfir það hvernig Egill hefði bjargað lífi sínu með Höfuðlausn þegar hann kunni ekki við annað en að heilsa upp á  fjanda sinn  Eirík blóðöxi hinn síðasta víkinga konung í York. Eiríkur sem hafði heitið honum lífi fyrir lofrullu hefði ekki getað tekið ljóðinu öðru vísi en hóli, þó svo að allt eins hefði hver hending getað verið argasta níðvísa.

Það er til merkis um það hvað ég er kominn langt frá heiðinni hugsun á því ástkæra og ilhýra að ég þurfti að finna Höfuðlausn á ensku til að fá einhvern botn í þann kveðskap. En eitt er víst að Egill var magnað skáld sem orti með náttúrustemmingum um vígaferli.

By sun and moon

I journeyed west,

My sea-borne tune

From Odin's breast

My sing-ship packed

With poet's art:

It's word-keel cracked

The frozen heart. 

-------- 

The war-lord weaves

His web of fear,

Each man receives

His fated share:

A blood-red sun's

The warrior's shield,

The eagle scans

The battlefield.

----------

Carrion birds fly thick

To the body stack,

For eyes to pick

And flesh to hack:

The raven's beak

Is crimson-red,

The wolf goes seek

His daily bread. 

Höfuðlausn á íslensku.

Höfuðlausn á ensku. 

 

 


mbl.is Íslendingar í forréttindastöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott grein hjá þér Magnús.

Gunnr (IP-tala skráð) 3.11.2013 kl. 15:07

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Rétt er að gjalda varhug við áreiðanleika Wikipedeu. Oft eru textar settar inn af einum höfundi án þess að efnið sé yfirfarið. En svo slípast þetta allt saman og verður betrumbætt þegar einhver hnýtur um mistök og jafnvel rangfærslur, beitir sér fyrir leiðréttingum og viðaukum.

Guðjón Sigþór Jensson, 3.11.2013 kl. 16:01

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdirnar. Wikipedia er nokkhverskonar almannarómur og getur því verið mun áreiðanlegri en opinberar heimildir en rétt er að leita upplýsinga á fleiri stöðum því að hún getur vissulega verið misvísandi eða jafnvel röng.

Það má svo sem segja að Íslendingasögurnar hafi verið wikipedia síns tíma því að fæstar þeirra hefðu komið út í skjóli opinberra yfirvalda þess tíma. Þær hafa ótrúlegan fróðleik að geima um Noreg sem erfitt er að sjá fyrir sér að hefðu verið skráðar við hirð Noregskonunga. Þær eru einfaldlega ekki nógu miklar lofrullur í þeirra garð.

Öllum þessu öldum seinna er það að koma í ljós að sögurnar frá Íslandi eru ótrúlega nákvæmar þó svo að þær séu skráðar eftir munnmælasögum öldum seinna en atburðir eiga sér stað. Þetta kom t.d. vel í ljós þegar sólsteinninn var prófaður sem víkingarnir notuðu til að rata um heimsins höf. Sjá má sjá hér.

Magnús Sigurðsson, 3.11.2013 kl. 16:45

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Varðandi fréttina sjálfa sem ég smyglaði þessu bloggi við, get ég hiklaust sagt að ég finni mig sem íslendingur í Noregi í rannsókn Guðbjartar Guðjónsdóttur.

Það er þó eitt sem ég er ekki alveg sáttur við hvað orðalag varðar en það á við mismununina.

„Að skoða þennan hóp varpar ákveðnu ljósi á stöðu annarra innflytjenda. Íslendingar búa í eiginlega við viss forréttindi í norsku samfélagi, sem þýðir að það er mismunun í gangi undir niðri. Það er til dæmis mjög meðvitað sem flestir Íslendingar í húsnæðisleit taka það fram í auglýsingunni hvaðan þeir eru, því það alveg vitað mál að þá færðu jákvæðari viðbrögð. En með þessu ertu að taka þátt í og á vissan hátt að hagnýta þér kerfi sem mismunar fólki.“

Það er sjálfsagt ekki öðruvísi hér í Noregi en annarstaðar að frændrækni þykir dygð og það að leita ásjár í gegnum tengslanet hefur hingað til verið flokkað undir félagslega færni.

Norðmenn taka rausnarlega á móti innflytjendum frá öðrum menningarheimum og kosta miklu til að koma þeim inn í norskt samfélag. Það opinbera kostar mun minna til varðandi frændurna á norðurlöndunum. Þetta þekki ég af eigin raun og vegna þess að ég vinn með innflytjendum frá Afganistan og Súdan.

Magnús Sigurðsson, 3.11.2013 kl. 17:01

5 identicon

Enn einn snilldarpistillinn frá þér meistari Magnús sem hrífur mann upp úr ládeyðu kennisetninganna.  Takk.

Og athugasemdir þínar standast fullkomlega alla skoðun og munnmæli þau sem hinn íslenski almenningur geymdi með sér í gegnum aldirnar -sumir segja vegna draumóranna- og geymir enn og sækir sér enn þaðan styrkinn til að vera maður með mönnum, en ekki undirokaðir þrælar nýríku olíufurstanna.  Takk enn og aftur meistari Magnús.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 3.11.2013 kl. 17:44

6 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Blessaður, við þekkjumst nú ekkert en mér sýnist við hafa skilið þessa "rannsókn" á svipuðum nótum. Get staðfest allt sem þú bendir á um innflytjendur í Noregi. Þess utan eru athuganir þínar um Egilssögu ekki einungis áhugaverðar heldur skemmtilegar og fræðandi. Mér hefur virst að Norðmenn viti nú flestir lítið um sína sögu, en það er auðvitað afstætt. Eina innsláttarvillu þóttist ég rekast á. Grettir er talinn vera Ásmundarson (ekki Ásbjarnarson) en í útlegð sinni fór hann sannanlega til Vesteraalen og svo Lofoten í saltfiskvinnslu. Fyrsta saltfiskverkun sem sögur fara af var einmitt að Vágum sem er einn fyrsti þéttbýlisstaður og útflutningshöfn í Norðurvegi. Svolvær hefur nú tekið við keflinu af nágrönnum sínum í Vogum (Kaplavogi). Ég er í Tromsö og mér skilst að þú sért í veldi Þóris Hunds í Hörðastad, er það rétt?

Þegar saga Þórólfs eldra Úlfssonar er skoðuð er ljóst, að fyrir norðan voru í það minnst þrjár þjóðir, Samar, Kvanir og Finnar. Ég hef hitt fólk í Tromsö sem var móðgað ef það var kallað Samísk, sagðist vera af Kvaniskum uppruna (ef svo er hægt að komast að orði).Þótti mér það vera enn ein sönnun þess að allt er satt og rétt sem sögurnar segja. hafðu þökk.

Sigurjón Benediktsson, 3.11.2013 kl. 22:17

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdirnar.

Pétur; það er alltaf að koma betur í ljós hversu sannar sögurnar er frá sögueyjunni. Þær eru í reynd sannari en mankynsagan sem flaggaði ekki Leifi heppna sem Ameríkufara um aldir. Núna er búið að staðfesta með vísindalegum hætti að Ameríku fundu norrænir menn á undan Kolumbusi auk þess sem þeir bjuggu yfir siglingatæki sem var nákvæmara en áttaviti nánast sem gps. Eins er gaman að rekast á það hér í Noregi hvað sögurnar frá Íslandi greina nákvæmleg frá staðháttum, lifnaðarháttum og fólki þess tíma sem kenndur er við víkinga.

Sigurjón; ég frétti af því að þú hefðir verið hérna í Harstad þegar ég kom 2011 sú frétt barst frá Húsavík og síðar fékk ég það staðfest hér, en að sennilega hefðir þú flutt þig suður á Lófóten. Ég kippi þessu í lag með faðernið á Gretti takk fyrir ábendinguna. Þetta mundi ég ekki nákvæmlega frekar en hvar hann hefði verið í Vesterålen. Þetta er stórskemmtileg viðbót sem þú kemur með varðandi veru hann í Kapelvåg við saltfiskvinnslu það hafði ég ekki heyrt. Eins þetta sem þú segir um Sama, Finna og Kvani. Ég hef staðið í þeirri trú að Finnar og Samar hafi verið mismunandi nöfn yfir sömu þjóðina sem er með búsetu langt austur í Rússland.

Þó svo sögukunnátta norðmanna sé kannski ekki upp á marga fiska almennt þá vita þeir nánast allir að Íslendingar eru náfrændur þeirra og sumir telja að einu ekta Norðmennirnir búi á Íslandi. 

Magnús Sigurðsson, 4.11.2013 kl. 15:26

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Magnús fyrir afar skemmtilegan pistil.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.11.2013 kl. 15:31

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Við skulum ekki gleyma því að Íslendingar eru að öllum líkindum með meira af keltnesku blóði en frá Skandinavíu. O blóðflokkur meðal Íslendinga er mun algengari hér en í Noregi. Má m.a. geta þess að víkingarnir litu á uppeldi barna sem starf þræla. Ætli ambáttirnar og þrælarnir hafi ekki sagt víkingabörnunum töluvert frá menningu sinni? Svo blönduðust þessi þjóðarbrot smámsaman og úr varð íslensk þjóð.

Annars er svo margt sem er enn órannsakað. Mikið hefði verið æskilegt að eitthvað af þeim gríðarlegu verðmætum sem glötuðust í græðgishruninu hefði ratað í fornleifauppgrefti. Þar er nánast óplægður akur.

Guðjón Sigþór Jensson, 4.11.2013 kl. 22:18

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdirnar.

Guðjón þetta var normaður sem tjáði mér að hann teldi mrira ekta norðmenn búa á Ísland, í Noregi væri fólkið oðrið blandaðara. Eins kynntist ég norðmanni fyrir áratugum síðan sem sagði að hans uppáhalds lönd til ferðalga væru Noregur, Bretlandseyjar og Ísland því þarna byggi sama fólkið.

Ég heirði þetta um O blóðflokkinn fyrir mörgum áratugum síðan og það væri ein þjóð sem væri í þeim blóðflokki í svipuðum mæli og íslendingar en það eru írar. Síðan hef ég heyrt að ástæðurnar gætu verið tvær. Það er skildleikinn og eins það að þjóðir sem lenda í miklum hremmingum s.s. hungursneiðum eigi það til að O blóðflokkur verði ríkandi. Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það en kannski ekki ólíklegt að hvorutveggja geti átt við, báðar þjóðirnar voru því sem næst dauðar úr óáran og hungri oftar en einu sinni.

En eitt er víst norðmenn telja almennt íslendinga vera frændur sína. Eins er það jafnvíst eins og norski kunningi minn sagði að það er sama hvort maður er í Skotlandi, Írlandi, Noregi, Færeyjum eða Íslandi manni finns maður kannast við annann hvern mann.

Magnús Sigurðsson, 5.11.2013 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband