16.11.2013 | 20:13
Draumahallir og mykjuhaugar.
Það þætti sjálfsagt óðs manns æði að halda því fram að hagvöxturinn sé að fara með allt til helvítis. En gæti verið að það megi framkalla hagvöxt með verðhækkunum? Allavega virðist eitt mesta hagvaxtarskeið þessarar aldar hafa átt sér stað með því að blása út fasteignabólu sem ekki reyndist innistæða fyrir án þess að lánastofnanir fjármögnuðu hana. Eftir að bólan sprakk hafa skuldsettir íbúðaeigendur haldið uppi hagvexti bankanna þar sem þeir eru tregir til að færa niður verðmæti lána og þar með að lækka fasteignaverð.
Eins hefur ekki farið framhjá þeim sem standa í húsbyggingum, að á síðustu árum hafa verið settar íþyngjandi reglur bundnar í byggingareglugerðum sem hækka hjúsnæðisverð stórlega. Það hefur í raun verið sett margþætt lög um það að skjól fjölskyldunnar skuli halda uppi hagvextinum. Samræmdum reglum frá ESB er útbýtt og skulu þjóðir ESS einnig fara eftir regluverkinu. Þetta regluverk sýnir færni sýna þegar kemur t.d. að orkusparandi aðgerðum s.s. einangrun húsa. Jafnvel þar sem varminn er ódýr sem á Íslandi eru settar reglur svo ekki tapist varmaorka, þeim skal framfylgja jafnvel þó heita vatnið velli upp úr jörðinni utan við húsvegginn sem veita má inn í húsið með slöngubút. Einangrun sem halda á hitanum inni skal vera allt að 25 cm þykk.
Svona reglur sem eru íþyngjandi fyrir almenning efla aftur á móti hagvöxt. Á Íslandi mun nýja byggingareglugerðin hreinlega stórhækka hitunarkostnað þetta kunna gömlu verkfræðingarnir betur að skýra, sjá hér. Ef einhver heldur að þetta sé eitthvað rugl þá er þessum reglum nú þegar framfylgt hér í Noregi sem á samt gnægð orkugjafa s.s. afgangs gas til að hita upp hús almennings því sem næst frítt. Nú er unnið að því að innleiða samræmdu ESB reglugerðina einnig á Íslandi.
Svona hefur hagvöxturinn verið trekktur áfram m.a. í gegnum byggingariðnað þannig að nú er svo komið að fólki endist ekki ævin til að greiða fyrir sómasamlegt þak yfir höfuðið og er þá ein lausnin að bjóða ungu fólki upp á Kínverska iðnaðargáma til búsetu fyrir 60 þús á mánuði. Það er af sem áður var að ungu fólki gagnist aðferðir Bjarts í Sumarhúsum, það að fara til óbyggða með skófluna að vopni og koma sér þar upp þaki án þess að uppfylla skyldur sínar við hagvöxtinn. Það má kannski segja að einhver millivegur megi vera á torfkofa og ströngustu reglugerðum, en það ætti aldrei að vera millivegur á því að þakið á að þjóna heimilinu en ekki regluverki hagvaxtarins.
Undanfarið ár hefur annað slagið komið til þess að við Afríku höfðinginn Juma höfum haft þann starfa að lagfæra gamla Samíska kofa, eins og mátt hefur lesa um á þessari síðu. Juma sagði mér frá húsi sem hann byggði sem barn í Sudan ásamt sínu fólki en þar var byrjað á að búa til múrsteina með því að hræra saman í vatni, kúamykju, sandi og mold sem sett var í nokkhverskonar kökuform sem svo þornaði í sólinni eins og drullukökur. Síðan var hlaðið hús úr skorpnum drullukökunum og veggir pússaðir. Þegar hann heimsótti heimahagana áratugum seinna þá svaf hann vært í þessu húsi sem hann sagði að hefði verið eins og nýtt.
Þarna var notuð sama aðferð í pússningu og steina, þ.e. er blanda af vatni, leir, sandi og kúaskít. Hann sagði að þeir sem hefðu peninga ættu það til að nota sement og sand í pússninguna. En skítur úr grasbítum hefur þann eiginleika að innihalda trefjar sem binda saman sandinn og leirinn. Eins sagði hann mér að ef svona hús væru hvítmáluð þá væri það gert með því að brenna vissa trjátegund og blanda öskunni sem er skjannahvít út í vatna og bera í þurra taðpússninguna.
Það er erfitt að sjá það fyrir sér að ungu fólki liðist að byggja þaki yfir höfuðið nú til dags með því að notast við skóflu, steina og torf án þess að eiga það á hættu að lenda á Hrauninu fyrir það að hundsa reglugerðir hagvaxtarins. Hvað þá ef því dytti í huga að notast við drullukökur úr mykju þá væri sennilega orðið stutt í hvítu sloppana. Eftir athuganir á netinu fann ég heimildamynd á youtube um það hvernig mykjuhaugur verður að draumahöll án þess að það kosti krónu. Ef einhver endist til að kynna sér myndina til enda þá má sjá að mykjuhaugur getur þar að auki orðið að samfélagslegu listaverki.
Flokkur: Hús og híbýli | Breytt 18.1.2018 kl. 20:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.