29.11.2013 | 16:06
Draumar úr drullu.
Þegar litið er til þess hvað kostnaðurinn sem fylgir íbúðarhúsnæði er orðinn stjarnfræðilegur þá er ekki ólíklegt að skinsamlegast sé að grafa sér holu og bíða þar af sér svartanættið líkt og skógarbjörn sefur af sér skammdegið. Það versta við þá skinsamlegu ákvörðun er að það gæti þurft að sofa býsna lengi miðað við hvað verðtryggðar lántökurnar eru lífseigar. En aftur á móti gæti það komið til að reglugerðar farganið þvældist ekki fyrir byggingakostnaðinum ef hann er niður á við, þó er það aldrei að vita nema mætti koma við ákvæðum samræmdrar byggingareglugerðar efnahagssvæðisins og fasteignagjöldum yfir holu, allavega ekki útilokað að þar væri í það minnsta hægt að innheimta gistináttagjald.
Undanfarin blogg hefur mér verið húsakostur hugleikinn eftir að ég sá fréttir af því að vörugámar væru leigðir til búsetu í London og að þetta þætti álitlegur kostur fyrir ungt fólk á Íslandi því leigan væri ekki nema 60 þúsund krónur á mánuði. Þegar svo er komið að ódýrasta íbúðarhúsnæðið er 15 fermetra gámur frá Kína þá hlýtur eittvað að vera orðið bogið í veröldinni. Alla vega er reglugerðar farganið búið að svipta ungt fólk hugmyndafluginu til sjálfsbjargar Bjarts í Sumarhúsum. Þó ennþá megi finna í afkimum landsins fólk sem byggir hús án þess að spyrja Kóng né prest líkt og fréttir voru nýlega af frá Borgarfirði Eystra.
Máltækin segja "sjálfs er höndin hollust" og "hollur er heimafenginn baggi", en einhvern veginn hafa lög og reglugerðir þróast á þann hátt að flestu fólki er fyrirmunað að uppfylla þörf sína fyrir þak yfir höfuðið öðruvísi en að steypa sér í lífstíðar skuldir. Þetta hefur leitt til þess að alltaf verður það byggingarefni sem er hendinni næst torfengnara til notkunar því það þarf að uppfylla kröfur fjórfrelsisins innan lagarammans þannig að endingu er hægt að reikna tilbúnar gámaeiningar frá Kína sem ódýrasta kostinn.
Torfbærinn lætur ekki mikið yfir sér og þarf ekki að vera svo afleitur með nútímalegri hönnun og tækni.
Mágur minn spurði mig að því fyrir nokkrum árum þegar flutningar stóðu til hjá minni fjölskyldu úr höfuðborginni austur í fyrirheitna landið; "byggirðu svo ekki bara hús í snarheitum yfir ykkur fyrir austan?" Eftir að hafa jánkað því þá sagði hann; "þú verður ekki lengi að því, þú varst nú ekki nema 10 ár síðast er það?" Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki ennþá komið því í verk að byrja á húsinu þrátt fyrir að nær því 10 ár séu liðin frá því þetta samtal átti sér stað.
Á verganginum hérna í Noregi hef ég verið að vinna undanfarna daga í húsum sem flytja á í u.þ.b. 6 mánuðum eftir að framkvæmdir við þau hófust. Þessi hús kosta ekki nema um 115 milljónir einbýlishúsið og um 60 milljónir parhúsíbúðin að öllum kúnstarinnar reglum uppfylltum. Þó svo að byggingartíminn sé stuttur þá hef ég hug á að halda mig við gamla lagið og komast með einhverju móti austur á land þó svo að núna þurfi ég að fara í vestur til að byggja draumafbæ úr drullu utan við lög og rétt.
Draumahallir nútímans sem uppfylla vottaðar kröfur reglugerðasamfélagsins eru yfirleitt það dýr design monster að ungafólkið verður að gera sér að góðu harðlem útgáfuna.
Reglugerða farganið þegar þak yfir höfuðið er annars vergar er komið á það stig að vert er að hafa varnaðarorð Vilhjálms Hjálmarssonar aldna héraðshöfðingjans í Mjóafirði í huga, sem sennilega hefur aldrei sótt um leifi til annars en sjálfs sín þegar kemur að húsaskjóli. En hann sagði; "þó svo Bakkabræður hafi stundað mögnuð heimskupör hefði þeim aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka". Sennilega hefði þeim ekki heldur dottið í hug að taka verðtryggt lán til að uppfylla lög og reglur.
Flokkur: Hús og híbýli | Breytt 18.1.2018 kl. 20:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.