Síðan eru liðin mörg ár.

IMG 2027 

Liðin eru 40 ár frá því að fyrsta fermingin fór fram í Egilsstaðakirkju, 1960 árgangurinn á Egilsstöðum varð þess heiðurs aðnjótandi 17 júní 1974. Í tilefni þessa hittumst við nokkur fermingarsystkinin í gærkveldi en það höfðum við einnig gert á 15 og 25 ára fermingarafmælinu. Að venju var þar rifjað upp hvað þjóðhátíðardagurinn væri eftirminnilegur vegna þessa atburðar.

En það er ekki 1960 árgangurinn sem er áberandi á Egilsstöðum, þó svo að u.þ.b. helmingurinn af þeim fjölmenna barnahóp búi hér enn, heldur kirkjan sem eitt helsta kennileiti bæarins. Bygging hennar hófst 1968 og hafði staðið í nokkur ár þegar hún var vígð 16.júní 1974.

Egilsstaðakirkja er með ótal andlit, teiknuð af Hilmari Ólafssyni arkitekt, föður Hilmars Arnar Hilmarssonar núverandi allsherjargoða. Hún er margbrotið meistaraverk sama hvernig á hana er litið, íslenskri byggingalist til mikils sóma og þeim sem höfðu forgöngu um byggingu hennar. Kemur þar nafn Margrétar Gísladóttir þá fyrst upp í hugann.    

Hvort sem Egilsstaðakirkja hefði verið byggð Jesú Kristi til dýrðar, eða þá sem hof í heiðni - jafnvel sem moska Múhameðs, þá er hún glæsileg. Á æskuárum blasti framhliðin við út um stofugluggann heima en síðustu 10 árin hefur reisuleg norðurhliðin skreytt útsýnið úr stofuglugganaum. Allar hliðar kirkjunnar hafa síbreytilegt útlit yfir daginn eftir því hvernig sólin fellur á og býr til skugga.

Fyrir 10 dögum síðan lét ég loksins verða að því að hringganga hana með það í huga að festa brot af þeim fjölda andlita sem hún hefur á mynd, mig grunar að engir tveir festi sömu mynd í sína huga.

Það sem er m.a. minnistætt frá því fyrir 40 árum, er að kvöldi  17. júní var skemmtun undir klettunum við norður hlið kirkjunnar. Þar kom í fyrsta skipti fram opinberlega Guðgeir "Blúsari" Björnsson ásamt hljómsveit ungra Egilsstaðabúa sem frændi minn Emil Thoroddsen söng í og fluttu þeir m.a. lagið Black Magic Woman af tærri snilld. En fram að því höfðu gítarsólóin hans Guðgeirs einungis heyrst á Selásnum.

Þar sem ekki eru til youtube klippur frá eftirminnilegum tónleikum félagana þá er hér ein frá síðari tíma Egilsstaðabúum, og jafnaldra þeirra Guðgeirs og félaga, sem haldið hafa merki íslenskrar alþýðumenningar á lofti.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll vertu Magnús. Ekki vil ég kasta nokkurri rýrð á framgöngu Margrétar Gísladóttur, þeirrar miklu sómakonu, varðandi byggingu Egilsstaðakirkju, en vil þó vekja þó athygli þína á því að á þessum tíma var amma mín, Sigríður Fanney Jónsdóttir húsfreyja á Egilsstöðum, formaður sóknarnefndar og helsti hvatamaður að byggingu kirkjunnar. Naut hún þar vissulega fulls stuðnings Margrétar en það var t.d. Sigríður Fanney sem fékk Hilmar Ólafsson arkitekt til að teikna kirkjuna. Ef ég man rétt, þá var áður komin önnur teikning að kirkju á Egilsstöðum sem sóknarnefnd og hreppsnefnd fannst ekki nógu góð og voru nokkuð með böggum hildar út af hvað gera skyldi, en þá var það Sigríður Fanney sem tók af skarið, tilkynnti viðkomandi arkitekt að teikningin þætti ekki nógu góð og hafði samband við Hilmar. Ég man líka eftir því og nefni hér til gamans, að þegar búið var að steypa upp kirkjuna en engin handrið komin á stigann í turninum, þá fór amma mín alla leið upp til að athuga útsýnið - smiðirnir stóðu skjálfandi af ótta um hana  á jörðu niðri á meðan, þá stóð hún á áttræðu. Og þegar sonarsonur hennar, Gunnar Snælundur Ingimarsson, var fermdur - einn af þessum fyrsta fermingarhóp - þá fannst henni hún geta dáið í friði, þótt hún hafi svo reyndar frestað því um aldarfjórðung :-)

Ingunn Ásdísardóttir (IP-tala skráð) 20.6.2014 kl. 14:56

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Ingunn, þakka þér fyrir að greina frá þessu hér, því ég er alls ekki vel að mér í sögu Egilstaðakirkju þó svo hann Völundur hafi einu sinni sagt mér hver arkitektinn væri og ég síðan munað það.

Það má kannski segja að það fari betur á því að vera ekki að nefna neina þegar maður hefur ekki skinbragð á söguna svo neinu nemi.

Ég hef það kannski til afsökunar að ein fermingarsystir okkar Monna frænda þíns er alnafna Margrétar Gísladóttir.

En mikið á ég góðar minningar um ömmu þína og afa. Frá sjö ára aldri og fram undir 12 ár aldurinn bar ég út blöðin á hæðina og niður í Egilsstaði. Mér hefur oft verið hugsað til þess eftir að ég komst til vits og ára, eins og það er kallað, hve miklir höfðingjar þau voru, alltaf tóku þau þannig á móti litla blaðburðardrengnum að honum fannst hann vera stærri á eftir.

Þakka þér enn og aftur fyrir að upplýsa þetta. Ekkert af þessu kemur mér á óvart, þó svo vitneskjan hafa ekki verið til staðar, ekki einu sinni það að amma þín hafi farið upp í topp á turninum þegar hann var á byggingastigi því það fór ekki fram hjá mér að Sigríður Fanney var skörungur.

Magnús Sigurðsson, 21.6.2014 kl. 06:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband