Vinar kveðja.

 IMG 3049

Í dag var kær vinur, Már Karlsson á Djúpavogi kvaddur í Djúpavogskirkju. Hann varð bráðkvaddur þann 25. júní. Már var nýlega orðinn 79 ára gamall í fullu fjöri við rekstur Papeyjarferða. Við spjölluðum saman í síma á Jónsmessukvöld, en vegna anna við pantanir útí Papey daginn eftir varð símtalið í styttra lagi, ákváðum við að heyrast fljótlega aftur, kom því fréttin af fráfalli hans að óvart. 

Már var ljúfur nágranni á meðan ég var á Djúpavogi og minn besti vinur.  Er mér til efa að það hafi liðið dagur án þess að við hittumst til að spjalla. Eftir að ég flutti frá Djúpavogi voru þau ófá kvöldin sem við heyrðumst í síma enda Már minn helsti ráðgjafi í gegnum tíðina. Vinskapur Más var ómetanlegur, hann var manna flinkastur við að setja fram dæmisögur til að skýra mál. Eins var það heiður að fá að heyra sögurnar sem komu í bókinni hans "Fólkið í plássinu" um leið og hann skrifaði þær. Mikið hefur birts opinberlega eftir Má um lífið á Djúpavogi. Velferð fólksins þar var honum hjartans mál.

 IMG NEW

Eitt af því sem Már ritstýrði var Djúpivogur Fréttablað sem áhugafólk um blaðaútgáfu á Djúpavogi kom að árið 1991. Vorblaðið var tileinkað ferðaþjónustu, á forsíðu gaf að líta grein ritstjórans með fyrirsögninni "Djúpivogur ferðamannastaður framtíðarinnar þar sem gamli og nýi tíminn mætast" Í niðurlagi segist Már hafa trú á að Djúpivogur eigi mikla framtíð fyrir sér sem áningastaður ferðamanna. Már varð forspár, því í dag er Djúpivogur einn af vinsælu ferðamannastöðunum á Íslandi og  fyrirtæki fjölskyldu hans Papeyjarferðir rekur flaggskip staðarins, Gísla í Papey.

Það er svo ótal margt sem vert væri að tína til úr lífshlaupi Más; manns sem var í áratugi kjörinn í sveitarstjórn, manns sem var náinn samverkamaður þriggja kaupfélagstjóra á Djúpavogi um áratuga skeið, manns sem sat langtímum í stjórn stærsta atvinnufyrirtækis staðarins, manns sem gjörþekkti sögu Djúpavogs og var virkur við að skapa hana allt til loka dags. Djúpivogur hefur misst mikið við fráfall Más Karlssonar.

Um leið og ég votta fólkinu þínu mína dýpstu samúð óska ég þér góðrar ferðar kæri vinur.

 

Papeyjarferðir    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Falleg orð og sammála að Már var einstakur og góður maður. Þótti alltaf vænt um hann. Sendi fjölskyldu og vinum samúðarkveðju. Blessuð sé minning hans.

Hafdís Erla Bogadóttir (IP-tala skráð) 5.7.2014 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband