31.8.2014 | 07:11
Undraland ævintýra.
"Nútíminn er trunta með tóman grautarhaus" var sungið í denn. Undanfarið hef ég reynt að notast við tóman grautarhausinn, vera í núinu og berast um á bylgjum tíðarandans með því einu að taka túristann á lífið og tilveruna.
Síðasta hálfa árið hefur tilveran snúist um ferðamenn, fyrst með vinnu við hótelbyggingar og svo með flækingi um landið. Það hefur ekki farið fram hjá mér þegar augunum er gjóað á ferðalanga erlendis frá að Ísland er undraland ævintýra, kannski eitthvað sem mann grunaði innst inni en var ekki viss fyrr en útlendingar benda á það.
Melgresiskollar í Sandey, Djúpivogur undir Búlandstindi með regnbogann upp úr miðjum bæ.
Í sumar hef ég nokkru sinnum gist minn gamla heimabæ Djúpavog. Breytingarnar þar síðustu árin eru svipaðar og gengið hafa yfir Ísland, túrismi. Nú er ekki bara Hótel Framtíð, sem var verbúð fyrir nokkrum áratugum þar sem þreyttir ferðalangar gátu fengið gistingu í neyð, sneisafull af túristum heldur er heimavist skólans komin undir Framtíðina, elliheimilið sem lokað var í kreppunni orðið að gistiheimili og pósthúsið líka. Ferðamenn fylla götur með myndavélarnar á lofti.
Við Matthildur fórum að leita gamalla spora í Sandey sem er landföst utan við Djúpavog. Sporin höfðu afmáðst eins og árin. Þar sem áður var hægt að eigra um einn í sandfjörunum var nú fullt af ferðamönnum. Svartur sandur er víst merkilegt myndefni enda fer þeim stöðum fækkandi þar sem hann ber fyrir augu, meir að segja á Íslandi.
Eðalsteinarnir láta oft ekki mikið fyrir sér fara en það getur þurft glöggt auga til að finna þá. Þessir steinar lágu allir á sama blettinum fyrir manna fótum þar til glöggt auga tók þá upp og slípaði þessa liti í gráu grjóti.
Á flækingnum í sumar kom á óvart hvað gróður er farin að breyta ásýnd landsins. Heilu héruðin eru að sökkva í Síberíu lerki, Alaska ösp og meir að segja fjalla víðirinn í Víðidal á fjöllum er að hverfa í Beringspunt. Mýrdalssandur er orðin að Alaskalúpínu akri, Skógasandur er horfin og ekki sést lengur til Skógarfoss frá þjóðveginum vegna trjágróðurs. Ekki einu sinni Mývatnssveit fer varhluta af herlegheitunum, þar má sjá Síberíulerkið teygja sig til himins.
Ef fer sem horfir munu stórir hlutar Íslands breytast innan skamms í skógi vaxna Svíþjóð, þar sem ekkert er að sjá nema tré og útsýnið út um hliðarrúðuna á ferð er eins og að horfa í strikamerki stórmarkaða. Það fer því hver að verða síðastur til að sjá gamla góða Frón sem urð og grjót, nema þá að hamfara gos verði til að bjarga víðáttum auðnanna.
Margir af gimsteinunum hans Aua eru ekki til sýnis á safninu því þá væri það einfaldlega allt of stórt.
Sem betur fer eru enn til svartir sandar, urð og grjót við Djúpavog til að gleðja augað. Þar geta ferðamenn fundið fólk sem býður afþreyingu í grjótinu sem þarf svo sem ekki að koma á óvart ef litið er til nágrannastaðarins Stöðvarfjarðar þar sem rúturnar streyma með tug þúsundir ferðamanna til að skoða steina í Steinasafninu hennar Petru heitinnar.
Á Djúpavogi er eitt merkilegasta steinasafn sem ég hef séð, steinasafn Auðuns Baldurssonar. Það fór svo að ég eyddi bróðurpartinum úr degi við að skoða safnið hans Aua, fyrst góða morgunnstund svo með Matthildi eftir hádegi. Það að heyra Aua segja frá því hvernig þeir bræður fundu steinana og komu þeim til byggða eru lífsins ævintýri. Sennilega eru stærstu bergkristalar sem uppgötvaðir hafa verið á Íslandi í þessu safni.
Aui, Auðunn Baldursson við stóra bergkristala í sýningarsalnum sínum.
Steinasafn Aua á Djúpavogi hefur að geyma gimsteina austfirskrar náttúru. Það sem í fyrstu sýn getur virst grátt grjót en getur haft demant að geyma. Á safninu eru auk stórra bergkristala; amethyst, agat, chalcedon, calcite, opal, jaspis liparit, ofl. ofl. flest úr austfirskri náttúru og mest úr næsta nágrenni Djúpvogs, fjöllunum við Berfjörð og Álftafjörð.
Stærsti Bergkristalinn sem vegur rúm 400 kg fannst í fjöllunum fyrir ofan Kelduskóga við Berufjörð og voru þeir bræður, Auðunn og Brynjar heitinn sem lést langt fyrir aldur fram s.l. haust, tvo daga að draga hann á nokkhverskonar fólksvagen húddloki niður úr fjöllunum án þess að vera búnir að sjá hverskonar gersemar þeir voru með í næstum hálfu tonni af gráu grjóti. En Aui lýsir því listavel hvaða tilfinning gefur innsæi til að vita hvers vegna grár steinn er eftirsóknarverður.
Eftir að þeir bræður komu steininum til byggða á húddlokinu var hann fluttur til Reykjavíkur og sagaður í tvennt til að sjá hvað hann hafði að geyma, sem var ekkert annað en hreinn bergkristall í gegn. Þegar steinninn kom aftur á Djúpavog var demanturinn slípaður á heimasmíðuðum pönnum fyrir slípimassa. Þegar slípaðir steinarnir á safninu eru skoðaðir sést inn í aðrar víddir sem helst má líkja við ævintýraveraldir stjörnuhiminsins.
En nú er að verða komið fyrir mér eins og lesblinda prófessornum sem ætlaði að ferðast þvert yfir Ameríku í sumarfríinu sínu en komst ekki nema yfir í næsta fylki því það var svo margt að skoða í næsta nágrenni. Til stóða að segja frá hringferð um Ísland, en í þessari langloku er ég bara kominn örstuttan spöl á Djúpavog.
Athugasemdir
þu ert orðin ansi snjall i myndbanda gerð meistari Magnus
Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 1.9.2014 kl. 04:10
Takk fyrir það Helgi, en það er lítill vandi þegar myndefnið sem hefur verið fyrir augunum þetta sumarið er svona magnað.
Magnús Sigurðsson, 1.9.2014 kl. 06:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.