7.9.2014 | 22:51
Undir bláhimni.
Sólarupprás á Stöðvarfirði 7.september 2014.
Í heiðríkjunni austanlands um helgina, hefur lagst yfir láð og lög blá móða sem menn vilja kenna um bungunni hans Bárðar. Þó skyggnið sé skrautlegt læðist að manni óþægilegur grunur um hvernig umhorfs hafi verið á fyrstu dögum móðuharðinda.
Í Fáskrúðsfirði um hádegisbil.
Um helgina dvöldum við í Sólhól úti við ysta haf, blámóðan var hvert sem litið var, vissulega var birtan bæði skrýtin og skrautleg. Nú segja vísindamenn að ekki hafi mælst eins mikið brennisteins dioxið í lofti síðan mælingar hófust árið 1970.
Á brún Fjarðarheiði seinnipartinn, Egilsstaðir við Lagarfljótið niður í móðunni.
Þegar ég dvel við ysta haf tek ég venjulega sólarupprásinni fagnandi með fuglunum úti á Sólhólnum. Í morgunn var hún sérstök. Það sérstaka auk birtunnar var að fuglarnir sungu ekki þegar sólin kom upp á sjóndeildarhringinn og ylinn vantaði frá fyrstu sólargeislunum.
Einu fuglahljóðin lengi vel voru frá dúnuðum æðarkollu ungum í flæðamálinu, eins og júní væri. Ég minnist þess ekki að hafa séð áður kolluunga nýskriðna úr eggi viku af september.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.