Hrafnaþing að hausti.

IMG 2419 

Þegar ég settist út á Sólhólinn í morgunn til að taka sólarupprásina svifu fimm hrafnar hátt á lofti úti í fjarðarmynninu. Krunkið í hröfnunum var eini fuglasöngurinn sem gaf til kynna að sólarupprásinni væri fagnað. Inni í firði mátti síðan heyra í öðrum hrafni smella í góm og enn öðrum handan fjarðar. Þessi söfnuður tók sig síðan saman með stefnuna á Kambanesið sem ber við ysta haf.

Þetta vor, sumar og haust hafa fuglarnir hegðað sér um margt undarlega. Strax í vor voru túnin á Egilsstaðanesinu nánast eins og fjölþjóðlegur millilandaflugvöllur, ég minnist þess ekki að hafa áður séð aðrar eins fuglabreiður á nesinu. Lóur, gæsir, álftir, spóar öllu ægði saman innan um hreindýrin. Já og vel á minnst ekki hafa Egilsstaðabændur áður þurft, mér að vitandi, að reka hreindýr trekk í trekk úr túnunum hjá sér þar sem þau voru því sem næst kominn inn í miðbæ Egilsstaða.

Þessa óvenjulegu vor hegðun fugla og hreindýra mátti kannski skýra með miklum fönnum til fjalla. En þegar lóan var farin að draga sig saman í stóra hópa strax í byrjun ágúst skorti skýringar. Kunningi sagðist hafa tekið eftir hegðun lóunnar um mitt sumar. Fyrir stuttu spurði ég hvort hann hefði séð lóu frá því í byrjun ágúst; svarið var nei og lítið af gæs. Hann er mikill veiðimaður og sagði þetta með gæsina bagalegt. 

Þegar við ræddum þessa hegðun fuglanna nánar sagði hann mér frá því að þó svo að vorið hafi verið einstök blíða þá hefði æðarfuglinn í hans firði verpt seint. Þetta vissi hann vegna þess að hann væri vanur að gæða sér á kollueggi á hverju vori. Þegar leið á samtalið dró hann upp snjallsíma til að sækja sér upplýsingar um hvenær hann hefði fundið fyrstu kollueggin því í honum átti hann myndir af hreiðrum hinna ýmsu fugla frá varpinu í vor.

Þegar ég tók sólarupprásina á Sólhólnum um síðustu helgi lá blámóða yfir láði og legi. Söngur fuglanna lét á sér standa en tíst í æðarkollu ungum vakti athygli mína og í flæðarmálinu mátti sjá kollu kenna ungunum sínum að kafa eftir æti. Þá eins og núna í morgunn þagði máfurinn við sólarupprás eins og um vetur væri, ekkert veiðibjöllu vell. Hvort hegðun fugla og samkoma hrafna merkir eitthvað sérstakt eftir einstakt blíðviðris sumar leiðir tíminn í ljós.

Hér má sjá myndir frá haustinu 2014. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta með fuglana er virkilegt vandamal það er sagt að engin dýr hafi farist þegar floðbilgjan hitti Indonesia 2004 þau voru öll búin að forða sér

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 18.9.2014 kl. 05:46

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta sumar hefur verið einstakt hérna austanlands. Ég hef aldrei séð náttúruna í eins miklum blóma, fuglarnir voru þúsundum saman fyrir framan nefið á manni í vor, blómin blómstruðu sem aldrei fyrr í allt sumar, túnin á nesinu hefur þurft að slá 2-3 sinnum, berjasprettan var algjört met og veðurblíðan hefur verið eftir því. Núna í september hefur mælirinn farið í 17 stig hiti dag eftir dag og sjaldan mikið niður fyrir 10 stig á nóttini. Hvort þetta er óvenju einstakt vor, sumar og haust eða að náttúran er að breytast á tíminn eftir að leiða í ljós. Ég held að það sé rétt hjá þér Helgi að atferli viltra dýra geti verið meira að marka en vísindi mannana.

Magnús Sigurðsson, 18.9.2014 kl. 06:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband