Vorjafndægur.

IMG_4103

Það rökkvaði stutta sund í Reykjavík við sólmyrkvann í morgunn.

Í dag eru jafndægur að vori, þá eru dagur og nótt jafnlöng. Með orðinu jafndægur er átt við þá stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar, sem í fornu máli hét jafndægurshringur, og dagur og nótt eru jafnlöng um alla jörðina.

Notuð eru orðin og orðasamböndin vorjafndægur, vorjafndægri, jafndægur á vori og jafndægri á vori og eru þau á tímabilinu frá 19.-21. mars en haustjafndægur, haustjafndægri, jafndægur á hausti eða jafndægri á hausti eru á bilinu 21.-24. september.

Orðið jafndægur er til í skyldum málum. Í dönsku er til dæmis talað um jævndøgn. Í latínu var talað um aeqvinoctium af aeqvus "jafn" og -noctium sem leitt er af nox "nótt". Í hinu forna Rómaríki var því miðað við nóttina en hér í norðri við daginn.

Til forna var upphafsdagur ársins ýmist miðaður við vorjafndægur , haustjafndægur eða vetrarsólstöður. Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu segir um vorið að það sé frá jafndægri að vori til fardaga en þá taki við sumar til jafndægurs á hausti. Vorið nær því samkvæmt því frá 19. til 21 mars og fram að fardögum sem voru á fimmtudegi í 7. viku sumars eða á bilinu 31. maí til 6. júní.

Í dag var jafnframt sólmyrkvi kl. 10:37 þannig að á þessum vetri ríkti myrkrið örlítið lengur en vanalega, ef tekið er tillit til þess að sól er yfir miðbaug klukkan 22:45 að kvöldi.

Það má segja að veturinn í vetur hafi einnig verið hryssingslegri en undanfarin ár. því læt ég fylgja með ljóð eftir Egilsstaðabúann Svein Snorra Sveinsson sem má finna á vegg vallarhúss Vilhjálmsvallar á Egilsstöðum. Þar hef ég notað upphitaðar hlaupabrautir til að staulast í hringi frekar en að paufast á svelli. Það má segja að þetta ljóð lýsi vel mínum vetri.

 

Von

Í frosnu vetrarhjarta

býr ævagamalt loforð

um að vorið

leysi klakabönd

og hjartað slái

á ný.

                                Sveinn Snorri Sveinsson

 

Heimild: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=53774

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband