1.5.2015 | 08:41
Hvaðan kom nafnið?
Þau eru mörg til staðarnöfnin sem hafa haldið sér frá því landið byggðist og jafnframt til heimildir um tilurð þeirra. Svo eru önnur nöfn sem virðast hafa verið til frá landnámi, en aðeins óljósar sagnir þeim tengdum má þar nefna nöfn eins og Papey, Papaós, Papafjörður ofl. En mörg nöfn eiga sér einungis stoð í þjóðsögum má þar nefna Vattarnes sem þjóðsagan segir að hafi fyrst verið numið af heljarmenni sem hét Vöttur og Kolfreyjustað sem sagan segir að hafi fyrst verið byggður af skessunni Kolfreyju.
Fossárvík í Berufirði
Í sautján ár bjó ég á Djúpavogi við Berufjörð, það var ekki flókið á átta sig á nafngiftinni Djúpivogur. En Berufjörður flæktist fyrir mér árum saman. Bera er að vísu þekkt íslenskt kvenmannsnafn sem samkvæmt nafnskýringum merkir birna. Berufirðirnir eru tveir á Íslandi en engar sagnir um birni hef ég rekist á þeim tengdum.
Lítið hef ég heyrt um tilurð nafnsins annað en Bera átti að hafa búið á bænum Berufirði, heimildir um þá búsetu er einungis þjóðsagan. Söguna heyrði ég fyrst á fundi fyrir mörgum árum á Djúpavogi þar sem stofna átti til félagsskaparins Axarvinir. Þar upplýsti einn fundarmanna Berufjarðarnafnið með skýringu sem ég hef látið mér nægja í gegnum árin.
Það eftirminnilegasta frá þeim fundi var snilldarfrásögn af ferðalagi hjónakornanna Beru og Sóta yfir erfiðan fjallveg í botni Berufjarðar. Þessa frásögn rakst ég á í Þjóðsögum Jóns Árnasonar án stórskemmtilegra stílfæringa sagnamannsins á fundinum forðum. Þar er fjallvegurinn sem um ræðir ekki Öxi og dalurinn er ekki Skriðdalur en allt kemur heim og saman í botni Berufjarðar;
Berufjörður dregur nafn sitt af Beru sem bjó í Berufirði. Bera var auðug af gangandi fé og sjást enn kvíatóftir hennar í túninu á Berufirði; tóftin er fjórðungur úr dagsláttu og er kölluð Berukví. Sóti hét bóndi Beru. Einu sinni fóru þau að heimboði upp í Breiðdal, en á heimleiðinni villtust þau á fjallinu og margt manna með þeim. Veður var svo illt að allir förunautar þeirra dóu á hjalla þeim sem síðan er kallaður Mannabeinahjalli.
Þau héldu nú áfram tvö ein og urðu loks aðskila á fjallinu. Sóti komst rétt á móts við bæinn í Berufirði og þrammaði þar fram af fjallinu sem heitir Sótabotnsbrún. Af því beið hann bana og er þar dys hans í Sótabotni. Bera lét hest sinn og hund ráða förinni eftir það hún var ein orðin og vissi hún eigi fyrr en hesturinn fór inn í hesthúsið í Berufirði. Var þá svo mikil ferð á hestinum að hún skall aftur af honum og rotaðist. Hún er heygð í Beruhóli, en sá hóll stendur fram undan bænum í Berufirði.
Þessi skýring á Berufjarðarnafninu dugði mér fullkomlega þar til í vetur en þá fóru að renna á mig tvær grímur þess efnis að nafnið gæti verið gamall misskilningur.
Valgerður H Bjarnadóttir magister í femínískri menningar og trúarsögu, kom fram með þá tilgátu að tröllkonan Grýla hafi hafi verið landnámskessa frá Skotlandi og hafi þar gengið undir nafninu Bhéara.
Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar má finna sögn tengda nafninu Bera sem skýtur stoðum undir tilgátu Valgerðar og skýrir einnig það sem mér hefur verið hulin ráðgáta í gegnum árin hvers vegna áin í Skriðdal er kennd við Grím.
Í tilefni þess að til stendur að minnast 160 ára árstíðar austfirska þjóðsagnaritarans Sigfúsar Sigfússonar á þessu ári læt ég fylgja sögu sem skýrir vel hvers eðlis Bera var.
Það er til eldgömul alþýðusögn að í fyrndinni hafi tröllkarl og tröllkona búið undir fossinum í Grímsá á Völlum í helli þeim er gengur inn undir bergið og verður illa í komist nema á ís þegar hylurinn er lagður. Þessi tröll voru ektapar og hétu Grímur og Bera. Þau áttu að sumra sögn tíu syni og þótti lýður þessi umfangsmikill í grenndinni. Löngum sáust reykir þar úr gljúfrinu er þau suðu sér til matar. Mest fóru þau til fanga á nóttu því þau voru nátttröll.
Þegar fram liðu tímar leiddist þeim veran undir fossinum og fastréðu að flytja sig í svonefnt Tunghagaklif handan ár gagnvart bænum. Hófu þau nú ferð sína á nýársnótt á svartasta lágnættinu. Tók hvert sína byrði og afréðu að þræða eftir ánni því eigi sér þar sól fyrr en hún hækkar nokkuð á lofti vegna dýptar gilsins. Grímur varð fyrstur, þar næst fóru synir hans í einfaldri fylkingu en Bera seinust.
Stóðst það á endum að þá er Grímur var kominn út að Tunghagatúninu þegar Bera byrjaði för sína. En þegar hún kom út úr hellinum varð henni bilt við því þá kastaði morgunsólin sínum fyrstu árgeislum í norðurbarm gilsins. Varð hún þá að dranga þeim er þar stendur og sömu urðu forlög hinna allra að þau urðu til í réttri röð þar sem þau voru þá komin og er þar halarófan með jöfnu millibili. Af Grími þessum dregur áin nafn sitt.
Flokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt 28.2.2016 kl. 10:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.