22.6.2015 | 06:48
Sólmánuður
Miðnætursól á Borgarfirði-eystri 20. júní 2015
Í dag hefst sólmánuður sem er þriðji mánuður sumars samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst alltaf á mánudegi í 9. Viku sumars (18 24 júní). Nafn mánaðarins skýrir sig sjálft þar sem hann hefst um sumarsólstöður, þegar sól er hæst á lofti og hlýjasti tíminn er framundan á norður hveli jarðar. Sólmánuður sem einnig er nefndur selmánuður í Snorra-Eddu, er níundi mánuður ársins samkvæmt gamla tímatalinu.
Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um sólmánuð, að hann byrjar á sólstöðum og fyrst í honum fara menn á grasafjall. Um það leyti safna menn þeim jurtum, sem til lækninga eru ætlaðar og lömb gelda menn nálægt Jónsmessu er færa frá viku seinna. Engi, sem maður vill tvíslá, sé nú slegið í 10. viku sumars. Vilji maður uppræta skóg skal það nú gjörast; þá vex hann ei aftur. Einnig er hvannskurður bestur síðast í þessum mánuði.
Sumar sólstöður voru í gær 21. júní, þannig að í dag, fyrsta dag sólmánaðar, tekur daginn aftur að stytta. En jafnframt er hlýjasti tími ársins fram undan. Það sem af er þessu sumri hefur birtan verið blökk, flestir dagar þungskýjaðir og svalir, þannig að himin og haf hafa verið dökk á að líta. Þó hafa komið hlýir og bjartir dagar inn á milli. Veður spillti ekki blakkri birtu sumarsólstaðanna, andvöku bjart var víða um land að venju. Það er vel þess virði fyrir sálina að sleppa svefni eina og eina nótt á þessum árstíma.
Hér má sjá sumar 2015 í myndum.
Það er andvökubjart
himinn kvöldsólarskart,
finnum læk, litla laut,
tínum grös, sjóðum graut.
Finnum göldróttan hval
og fyndinn sel í smá dal
lækjarnið, lítinn foss,
skeinusár, mömmukoss.
Hoppum út í bláinn,
kveðjum stress og skjáinn,
syngjum lag, spilum spil,
þá er gott að vera til.
Tínum skeljar, fjallagrös,
látum pabba blása úr nös,
við grjótahól í feluleik,
á hleðslu lambasteik.
Stingum af -
í spegilsléttan fjörð
stingum af -
smá fjölskylduhjörð
senn fjúka barnaár
upp í loft, út á sjó
verðmæt gleðitár,
- elli ró, elli ró.
Heimild; https://is.wikipedia.org
Flokkur: Gamla tímatalið | Breytt 5.12.2015 kl. 19:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.