18.9.2015 | 20:14
Fljótið frá Eiðum að Ósi
Lagarfljót "mesta vatnsfall Íslands", ritaði Eggert Ólafsson í reisuabók sína og Bjarna Pálssonar 1772. Þessi nafngift prýðir svo bók náttúrufræðingsins Helga Hallgrímssonar sem er einhver vandaðasta samantekt sem fram hefur komið um Lagarfljót. Bókin kom út árið 2005 og fæst hjá bókaútgáfunni Skruddu, ekki ætla ég að gera frábærri bók Helga frekari skil eða vitna til hennar, því hún er þess eðlis að hún á lítið skylt við þær hugrenningar sem hér á eftir fara.
Ástæða þessar hugleiðinga eru þær að þegar ég kom úr Noregs útlegðinni hafði ég hugsað mér að ganga eftir bökkum Lagarfljóts í áföngum þar til hringnum yrði lokað. Af ýmsum ástæðum þá hefur orðið minna úr þessari göngutúrum en til stóð. En þess í stað buðust mér nú í sumar flugferðir með æskufélaga mínum Stefán Scheving sem spönnuðu endilangt Lagarfljótið auk þess að fara yfir það vatnasvæði sem hefur breytt ásýnd þess mest í seinni tíð. Þar hafa umdeildar breytingar af mannavöldum á lit og vatnasviði Lagarfljóts orðið þess valdandi að fljótið er meira og gruggugra vatnsfall en Eggert Ólafsson kom að forðum daga. Þar hefur "stærsta framkvæmd Íslandssögunnar" orðið þess valdandi að nú fellur annað stórfljót í Lagarfljót, þ.e.a.s. Jökulsá á dal sem stundum er kölluð Jökulsá á Brú eða bara Jökla, í gegnum u.m.b. 40 km jarðgöng úr Hálslóni við Kárahnjúka.
Mynd 1, séð út eftir Hálslóni þar sem Sandfell og Kárahnjúkur standa uppúr í baksýn. Mynd 2,stíflan þar sem hún hangir utan í Kárahnjúknum. Mynd 3, umhverfislistaverk við Kárahnjúkastíflu, séð inn Hálslón að Sandfelli. Smella má á myndirnar til að fá þær stærri og skýrari.
En eru álíka breytingar á Lagarfljóti einsdæmi í sögunni, þó svo að þær hafi tæplega orðið af mannavöldum?
Í Fljótsdælu má finna þennan texta; Selfljót gengur fyrir austan úr heiðinni milli Gilsárteigs og Ormsstaða, og svo fellur það ofan í Lagarfljót. Stuttur texti, jafnvel eitt orð, getur verið þess valdandi að heil saga verði álitin skáldsaga. Þetta má sjá þegar Fljótsdæla á í hlut enda hefur hún ekki verið hátt skrifuð sem heimild á meðal fræðimanna í gegnum tíðina. Þó þessi fáu orð hafi kannski ekki ein og sér gert hana að hreinum skáldskap þá hafa þau verið notuð til að benda á að henni sé trauðla trúandi. Selfljót fellur nefnilega til sjávar út við Héraðsflóa um Unaós. Ekki einu sinni þeir sem hafa haft allan vilja til að upphefja sannleiksgildi Austfirðingasagna hafa komist fram hjá þeirri staðreynd.
Fornar sögur greina einnig frá ferðum manna neðan við fljót sem erfitt er að heimfæra landfræðilega. Hvernig farið var fyrir neðan fljót rökstuddi Halldór Pjetursson í Múlaþingsgrein og bar að nokkru í bætifláka fyrir ambögur fornsagna sem virðist við fyrsta lestur hafa verið skráðar af vanþekkingu um staðhætti á Héraði. Bendir hann á í því sambandi að áttirnar austur og norður standist á á Fljótsdalshéraði. Það viti allir innfæddir að annaðhvort sé farið austur eða norður yfir fljót, þó svo máltækið fyrir neðan fljót sé horfið úr málinu.
Gilsá sem heitir Selfljót eftir S-beygjurnar. Úthéraðsvegur og Hleinargarður til vinstri á miðri mynd, Héraðsflói í fjarska
Halldór Pjetursson segir í þessu sambandi: Hvað Útmannasveit hefur náð langt upp, er ekki gott að dæma um. Mannaforráðum Þiðranda í Njarðvík er þannig lýst í Fljótsdælu: Þiðrandi átti mannaforráð um Njarðvík og upp í hérað að Selfljóti. Selfljót gengur fyrir austan úr heiðinni milli Gilsárteigs og Ormsstaða, og svo fellur það ofan í Lagarfljót (.Ísl.fornrit XI,218) Öllu er hér rétt lýst, vantar bara skýringu á því hvar er farið að kalla Gilsá Selfljót. Trúlegt er samt að það hafi verið á líkum mörkum og sýslumörkin eru nú. Hitt er svo meinloka að Gilsá hafi fallið í Lagarfljót milli Gilsárteigs og Ormsstaða. Það er Lagarfljót sem fellur í Selfljót úti í Hjaltastaðaþinghá á þessum tíma, en að því verður nánar vikið síðar. Múlaþing 11-1981, bls. 93
Steinbogaflúðin í Lagarfljóti við minni Jökullækjar, Halldór Pjetursson vill meina að þar hafi hátt klapparhaft í fyrndinni, stýrt rennsli Lagarfljóts og Jöklu um Jökullæk sem þverar Hjaltastaðaþinghá yfir í Selfljót
Halldór bendir á að utarlega í Útmannasveit, á milli Móbergs og Hóls og fyrir innan Sand, sé gamall farvegur sem heitir Jökullækur sem mætir Selfljóti á móts við Jórvík, þó svo að ekki hafi runnið vatn um hann í mannaminnum. Þessi farvegur sem liggur frá Lagarfljóti, þar sem það rennur nú standist á við hvísl sem komi frá Jöklu neðan við Geirastaði í Tungu og rann í Lagarfljót þar sem það rennur núna. Eftir að Geirastaða hvísl var stífluð hætti Húsey að vera eyja í eignlegri merkingu. Vegna Steinboga flúðarinnar, klapparhafts sem horfið er úr núverandi farvegi Lagarfljóts, hafi fljótið og Jökla í fyrndinni þverað Hjaltastaðaþinghá um farveg Jökullækjar þar sem leið þess lá yfir í Selfljót. Þar fyrir utan hafi menn farið neðan við fljót (Eyjar, Héraðssandur) og því sé málfar sagna fyrir neðan fljót rökrétt.
Um vettvangsrannsókn sína á þessum slóðum segir Halldór; Þetta sannar raunverulega þátt Jöklu í samruna vatnanna. Hún var alltaf kólgufull af jökulleðju og hefur það ráðið litnum. Lagarfljót, sem er þó talið jökulvatn, er aðeins skollitt og framburður lítill. Lagarfljót hefur samt ráðið nafninu og talist stærri aðilinn, enda hefur það Lagarfljótsnafnið bæði í Fljótsdælu og Njálu. Í þessum Jökullæk var afbragðs engi eins og allstaðar þar sem Jökla hefur vatnað yfir. Við Fljótskjaftinn (mynni Jöklulækjar) er nú tekin steypumöl; efnið þekkti ég strax af lyktinni og líka mölina, svo mikið áttum við Jökla saman að sælda. Múlaþing 11-1981, bls. 101
Annar staðkunnugur alþýðufræðimaður, Sævar Sigbjörnsson í Rauðholti, hefur einnig reynt að bera í bætifláka fyrir þessa meinloku sögunnar um að Selfljót hafi runnið í Lagarfljót þar sem því hafi í raun verið öfugt farið. En ef Jökullækur sé forn farvegur Lagarfljótsins bendir hann á í því sambandi; Það veldur nokkrum heilabrotum að breiddin á Jökullæknum er minni en svo að þar hafi rúmast allt rennsli Lagarfljóts hvað þá beggja jökulfljótanna,. Múlaþing 29-2002 bls.69 / Selfljót í Útmannasveit
Því koma Eiðar upp í hugann, en það er í grennd við Eiða sem Fljótsdæla gefur til kynna að Selfljót hafi runnið í Lagarfljót. Í sveitarlýsingu Eiðaþinghár, sem liggur á mörkum Útmannasveitar, þar sem Selfljótið á upptök sín í Gilsá má lesa þetta: Um og utan við Eiða einkennist landið mjög af vötnum milli lágra hæða, og ganga víða tangar í og eið á milli. Bæjarnafnið Eiðar skýrist af þessum staðháttum, myndað af eið á sama hátt og Hrísar af hrís. Sveitir og jarðir í Múlaþingi II bindi, bls. 219.
Benedikt Gíslason frá Hofteigi gerði að því skóna að allt landsvæðið frá núverandi Eiðastað, milli Lagarfljóts og Gilsá/Selfljóts alla leið út í Héraðsflóa hafi verið kallað á Eiðum. Þetta land gæti heitið eiði á milli þessara vatna, og er þó ekki dæmi um það í landi hér, að svo mikið land sé nefnt eiði. En land þetta er ásland, og á milli þeirra er mikil fjöldi stöðuvatna og tjarna, og eitt hið stærsta Eiðavatn, snertispöl fyrir utan Eiða, og milli þess og Lagarfljóts er eiði, og vatnið þar að auki mjög vogskorið, svo nálega er eins og um fleiri vötn sé að ræða. Og á milli þessara vatna og fljótanna er fullt af eiðum á þessu landsvæði öllu saman, og svo, auk þess, á milli vatnanna sjálfra hér og þar. Það vaknar sú spurning, hvort í fyrndinni hafi ekki allt þetta landsvæði heitið á Eiðum. Eiðasaga bls.10
Eiði er er sagt vera í orðskýringum landbrú eða grandi, mjó landræma, sem tengir tvo stærri landmassa. Ætla má í því sambandi að Eiðar sé eiði í fleirtölu. Norður af Osló í Noregi er Eidsvoll (Eiðisvöllur)skilgreiningin á nafninu þar er sú að þjóðbraut sé umflotin vatnsfalli. Þegar fólkið á svæðinu í kringum Mjosavatn sigldi niður Voma ána og fólk frá Romerike sigldi upp sömu á, varð það að stoppa við Eidvoll sem er við Sundfossen. Eidsvoll varð því mikilvægur áningastaður þessa fólks, en ekki eiði í bókstaflegri meiningu þess orðs.
Því er þetta tiltekið hér, þar sem Eiðar eru u.þ.b. þar sem sagan segir að Selfljót/Gilsá hafi fallið í Lagarfljót. Hæðarpunktar á þessu svæði verða sérlega áhugaverðir í því sambandi. Eiðahólmarnir í Lagarfljóti eru 36 metra yfir sjávarmáli, Eiðavatn er sagt 41 mys enda hefur vatnsborð þess verið hækkað af manna völdum vegna virkjunar í Fiskilæk sem fellur úr því í Lagarfljót. Bærinn Straumur í Hróarstungu, sem stendur við Straumflóanum neðan við Eiða, þar sem Lagarfljót hefur auðsjáanlega grafið þröngan farveg í gegnum landið á leið sinni til sjávar er 41 mys. Bærinn Gröf austan Lagarfljóts rétt utan við Eiðavatn 39 mys og bærinn Hleinargarður rétt austan við Gilsá/Selfljót er 39 mys. Mýrarnar sem eru á milli Grafar og Hleinargarðs liggja á milli klapparása og virðast í svipaðri hæð og þessir tveir bæir.
Vötnin fyrir utan Eiða þar sem landið er aðeins um 3 m hærra en Eiðahólmarnir, rétt fyrir utan. Við Straum, þar sem farvegur fljótsins hefur grafið sér mjóann farveg, er landið 5 - 10 m hærra
Það má því vel ímynda sér að áður en Lagarfljót gróf sig í gegnum landið við Straum hafi yfirfall verið á því sem þveraði mýrarnar milli Grafar og Hleinargarðs því rétt þar fyrir utan er landið komið í 45 mys við Tjarnarland í Hjaltastaðaþinghá. Ef farvegur Lagarfljóts hefur legið þarna um í fyrndinni skírir það ekki einungis það sem nú virðist staðlausir stafir í söguni, einnig verður það sem kallað var að fara fyrir neðan fljót á mun stærra og fjölfarnara landsvæði en Halldór Pjetursson tilgreindi í sinni skýringu.
Í Austfirðingasögum má einnig finna; Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Í sjálfu sér rétt en einkennilegt að nefna ekki næsta fljót sem viðmið, sem er í dag ekki Lagarfljót heldur Selfljót.
Við það að Lagarfljót hafi í fyrndinni haft farveg um Gröf við Eiða verðu nafnið á bænum Hleinargarði auðskilið, en þar hafa menn lengi velt vöngum yfir því hvernig nafn á því sem þekkt er sem boðar í flæðarmáli sjávar eða flúðir er haft um bæ langt inn í landi þar sem engin merki um slíkt er að finna. Hefur nafni Hleinargarðs þráfaldlega verið breytt í gegnum tíðina eins og lesa má um í Sveitir og jarðir þegar bærinn var í manntali 1703 nefndur Hleiðargarður og frá 19.öld einkum ritaður Hleiðargarður sem á sér stoð í fornu staðarheiti í Danmörku (Lerje). Hef ég einhverstaðar rekist á þá tilgátu að Uni danski landnámsmaður Útmannasveitar hafi haft það nafn í farteskinu. En alltaf hefur það samt farið svo að nafnið Hleinargarður hefur yfirhöndina.
Lagarfljót rétt fyrir utan Eiðahólmana, þar sem það hefur grafið sig í gegnum landið við Straum á núverandi leið sinni til sjávar
Það má líka benda á það að bæjarnafnið Mýnes í Eiðaþinghá verður skiljanafnlegt, en þar hafa menn velt vöngum við hvaða nes þessi sögualdar bær sé kenndur og helst látið sér detta í hug það sem nú heitir Finnstaðanes. Ef yfirborð Lagarfljóts hefur verið hærra þá en nú er, þá hefur Finnstaðanes verið á kafi og það nes sem skagaði suður í Finnstaðaflóann verið fyrir neðan Mýnesbæinn, þar sem nú eru Mýnesgrúsir. Þar er ekki ólíklegt að mýflugnastrókar hafi stigið til himins yfir grunnu vatni í Finnstaðanesinu sem þá hefur verð flói álíka djúpur og kjöraðstæður mýsins í Mývatni.
Það má velta því fyrir sér hvort frásögnin sé því ekki hárnákvæm í Austfirðingasögum, Lagarfljót hafi til forna haft þveran farveg um Eiða og síðan sameiginlegan farveg með Selfljóti að Ósi.
Það hefði ég nú haldið
Flokkur: Umhverfismál | Breytt 19.9.2015 kl. 08:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.