31.1.2016 | 09:48
Af sem áður var
Það er kannski ofrausn að nota Airbnb könnun til að hæla Íslendingum sérstaklega fyrir gestrisni, og gera það að fyrirsögn fréttar. Það er nefnilega þannig að þegar Airbnb íbúð er tekin á leigu þá hittir gesturinn sjaldnast gestgjafann, heldu fær hann aðeins talnaröð af boxi sem geymir lykilinn af hinu leigða, svo hann komist þar inn, eftir að hann hefur gengið frá greiðslu á netinu. Það væri frekar að hæla Airnb íbúðaeigendum fyrir að útbúa húsnæði sitt svo vel að það þóknaðist sem flestum erlendum gestum.
En hvað um það svona hefur þetta ekki alltaf verið varðandi gestrisni Íslendinga þegar kemur að húsnæði, þó svo ekki séu kannanir sem staðfesta það aftur í aldir. Í bók rithöfundarins Charles Edmond, sem hann skrifaði eftir að hann kom til Íslands ásamt franska prinsinum Jerome Napoleon árið 1856, má lesa eftirfarandi;
Húsakynni íslensku þjóðarinnar eru léleg. Bóndinn gerir bæ sinn úr hraungrjóti og rekavið. Þakið er úr torfi. Dyrnar eru svo lágar, að menn verða að beygja höfuð og bak, er inn er gengið, og er þá komið í dimman og þröngan gang. Hægra megin er svefnherbergi, sameiginlegt fyrir alla, karla, konur, húsbændur og þjónustufólk. Vinstra megin er búr, þar sem matarforði er geymdur, veiðafæri og vinnutæki. Eldhúsið er innst. Bygging þessi er einföld; fjórir steinar á gólfi og op á þakinu, þar sem reykurinn fer upp. Þetta er einasti staðurinn, þar sem eldur er gerður. Hið lélega brennsluefni, er landið leggur til, nægir tæplega til matargerðar. Á veturna hita menn sér með því að þrýsta sér hver upp að öðrum. Að undanteknum hinum ríku íbúum höfuðborgarinnar eða nokkrum verslunarstjórum þekkja íbúarnir ekki trégólf. Gólfflöturinn í kofunum er ber og óhreinn. Græn mygla þekur þá að innan.
Húsgögnin bera vitni um skort og vöntun efnis. Rúmið er samsett úr fjórum fjölum, illa telgdum saman, og þykk ábreiða yfir. Sætin eru kýrhausar, er skinn hefur verið tekið af, eða skammel, gerð úr hvalbeinum. Loftið sem menn anda að sér í þessum kofum, er skaðvænt. Hin beiska lykt af þurrkuðum fiski blandast saman við óþefinn af þráu lýsi og hinni vondu lykt af súrri mjólk. Húðirnar af nýslátruðu sauðfé, dýrablóðið, er menn láta storkna í skálum til þess að blanda því saman við fæðu, allt þetta hefur þau áhrif á útlendinginn, er hann hættir sér inn í landið, að hann vill heldur þola óblíðu loftslagsins en leita hælis í íslenskum sveitabæ.
Ennfremur er þetta haft á orði um Íslendinga;
Íslendingurinn er venjulega ljóshærður, sterkbyggður, en þunglamalegur. Augu hans eru athugul en framkoma kæruleysisleg og gangur hans slyttislegur. Hann er látlaus í athöfnum og orðum. Það er sjaldgæft, að viðkvæm tilfinning endurspeglist í andlitsdráttum hans. Örlög hans hvíla þungt á honum. Það er eins og hann bogni undan þessum þunga,,. Hann er örlagatrúarmaður. Hann ber þessa trú utan á sér, í andlitssvipnum.
Búningur Íslendingsins svipar til andlits hans. Hann ber ekki vitni um neina gleði eða ímyndunarafl. Þegar hann er í landi, er hann klæddur heimagerðum jakka, ofnum úr svartri ull, sem nefnist vaðmál. Á höfði ber hann barðastóran hatt. Skór hans eru gerðir úr mjúku skinni, og eru reimaðir. Þegar hann fer til sjós, fer hann í yfirhöfn úr svörtu skinni, sem þorskalýsi hefur gert regnhelt.
Íslensku konurnar, ljóshærðar og grannar, mundu vera fagrar, ef hið sama farg hvíldi ekki á þeim og karlmönnunum. Andlitssvipur þeirra andar blíðu og auðsveipni. Þær eru rólyndar, þöglar, iðnar við vinnu sína, feimnar og hlédrægar í háttum sínum. Búningur þeirra er peysa úr svörtu vaðmáli og pils úr sama efni, sem hnígur í stórum fellingum. Ungu stúlkurnar gera fléttur úr hári sínu í sveigum og festa upp í hnakkanum. Fyrir ofan ennið bera þær á höfði litla, svarta prjónahúfu, sem lagar sig eftir höfðinu, en langur silkiskúfur liggur niður með eyranu. Giftu konurnar vefja höfuð sín marglitum klút, sem nær upp fyrir hvítt léreft, svo að höfuðbúnaður þessi minnir á rómverskan hjálm. Á hátíðisdögum er efni þetta breytilegt að fínleika og litskrauti. En búning þennan skreyta lykkjur, hnappar, krókar og doppur og skartgripir úr gylltu silfri sem eru haglega gerðir í sjálfu landinu og mönnum þykir ánægja að vegna aldurs og einkennilegrar lögunar í gotneskum stíl eða byzantískum.
Haldi svo einhver að höfuðborgin hafi státað af hámenningu fyrr á öldum þá má lesa þetta í lýsingum William Hooker á Reykvíkingum við komuna þangað, sem eru í bók sem út kom í London 1810 eða 1811 um ferðasöguna;
Nokkrum klukkustundum eftir að við höfðum gefið ljósmerki, sáum við, að bátur með nokkrum hafsögumönnum nálgaðist okkur. Það gladdi okkur að sjá einhver ný andlit, þótt mennirnir væru óþrifalegir og óþefur af þeim. Þeir voru svo skrýtnir, að við hentum að því mikið gaman. Þeir voru flestir breiðleitir og ekki sérlega ljóslitaðir. Flestir voru þeir lágvaxnir, en einn eða tveir þeirra voru fremur háir, ég held varla undir 6 fetum. Sumir þeirra voru síðskeggjaðir, en aðrir ekki meira skeggjaðir en svo, að það gátu verið leifarnar eftir raksturinn með bitlausum hníf eða skærum. Hárið var alveg óhirt, enginn kambur hafði snert það, og féll niður á bak og herðar í flókum, og sást greinilega í því vargurinn og nitin, sem hefst sífellt við á þessum hluta líkamans þegar hreinlæti er vanrækt. Í viðræðum virtust þeir vera mjög örir og höfðu allmikinn handslátt og höfuðburð. En þegar eitthvað var sagt við þá eða þeim boðið eitthvað sem gladdi þá, létu þeir ánægju sína í ljós með því að klóra sér og strjúka sig ákaflega og með því aka sér. Þessir vesalingar gleyptu matvælin, sem við gáfum þeim, með mikilli græðgi. Þeir eru mjög vel tenntir og bruddu harðasta kex okkar, svo það var meltanlegt á svipstundu,,.
Á ströndinni, þar sem við lentum, var hraungrýti, svart á lit og sumstaðar molað, svo það var fínt eins og sandur. Þarna var skotið fram í sjóinn dálítilli flotbryggju úr furuplönkum, til þess að við blotnuðum ekki. Kringum hundrað Íslendingar, aðallega konur, buðu okkur velkomna til eyjar sinnar og ráku upp óp, þegar við lentum. Við gláptum ekki síður á þetta góða fólk en það á okkur. Nú var fiskþurrkunartíminn, og fólkið önnum kafið við að breiða, þegar við komum. Sumir voru að snúa fiski, sem breiddur hafði verið til þerris á ströndina. Annar hópur var að bera fisk á handbörum frá þurrkstaðnum og hærra upp á ströndina, en þar voru aðrir að hlaða honum í stóra stakka og báru á staflann stóra steina til að fergja fiskinn og gera hann flatann. Konur unnu mesta að þessari vinnu. Sumar þeirra voru mjög stórar og þreklegar, en ákaflega óhreinar, og þegar við fórum fram hjá hópnum, lagði megnan þráaþef að vitum okkar,,. (Úr, Öldin sem leið 1801-1860)
Íslendingar sjöttu bestu gestgjafarnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Hús og híbýli | Breytt 3.4.2016 kl. 12:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.