16.10.2016 | 11:35
Ferðin á Font
Nú þegar skuggarnir eru farnir að lengjast og daginn tekið að stytta fer ferðalögunum fækkandi. Síðast liðinn vetur fjárfesti ég í gömlum Cherokee sem átti að nota til 4X4 ferða þetta sumarið. Einn af þeim stöðum sem voru á dagskránni var Fontur á Langanesi, eða réttara sagt allt Langanesið því það er einu sinnu svo að það er ferðalagið sem sem skiptir máli en ekki áfangastaðurinn. Þess vegna förum við Matthildur allra okkar ferða án landakorts, hvað þá að GPS sé haft með í för, sólin er eina leiðsögutækið. Í gær var svo ferðin farin á Font með sólina í sigtinu allan tímann.
Þegar komið er að Langanesinu að austan blasir Gunnólfsvíkurfjall við
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég kemst í námunda við Langanesið þó svo að aldrei hafi verið farið á Font. Á árunum 1988-1993 var ég mánuðum saman við vinnu á Þórshöfn við Þistilfjörð, en Langanesið nær 50 km út í haf norðaustur af Þórshöfn. Þegar komið er að Langanesinu Bakkaflóa megin þá rifjaðist upp í kollinum að sumarið og haustið 1988 vorum við steypu-félagarnir við störf á Gunnólfsvíkurfjalli þar sem verið var að byggja ratsjárstöð fyrir NATO. Mér fannst við hæfi að bjóða Matthildi upp á Gunnólfsvíkurfjall á svona heiðskírum sólardegi því þá myndum við rata betur út Langanesið. En vegurinn upp á fjallið var lokaður með keðju og þó við værum á fjallabíl þá þorðum við ekki í gegnum keðju Landhelgisgæslunnar sem hefur í seinni tíð tekið upp á því að loka hlutum landsins fyrir íbúum þess með því að bera fyrir sig "valdstjórninni".
Á Þórshöfn rifjaðist upp hvar lunganu úr sumrinu 1993 var varið
Blessuð sólin sá um að lýsa okkur út allt Langanes þar sem sjórinn er blárri en blátt en á það til að sjást ekki fyrir rekavið sem þekur alla fjörukamba, þess á milli eru þverhnípt fuglabjörgin í sjó fram. Undirlendið á útnesinu er urð og grjót en þó eru grasbali í fjöru hér og þar sem hafa staðið bæir á árum áður, þekktastir eru Skoruvík og Skálar. Víða eru rústir gamalla torfbæja sem litlar sögur fara af, saga fólksins sem byggði þetta nes fer ekki hátt enda hefur það verið alþýðufólk. Það tók tímann að keyra þessa 50 km leið enda þurfti að stoppa og skoða margt. Í Skoruvíkur fjörunni var félagslyndur músarindill sem þurfti að spjalla við í góða stund og á Fonti var það Fálki sýndi ferðalöngum áhuga.
Fontur er ysti hluti Langaness þar er 50-70 m hátt bjarg á því stendur viti byggður árið 1950. Við Font hafa orðið skipskaðar síðast hausti 1907. Þá fórst þar norskt skip,sem var að koma frá Jan Mayen með 17 menn í áhöfn allir fórust nema einn. Í bjarginu stutt frá vitanum er rauf sem kölluð er Engelskagjá. Sagan segir að áhöfn af ensku skipi, sem strandaði endur fyrir löngu undir Fontinum, hafi komist í land og upp gjána. Á leiðinni til bæja varð áhöfnin úti, nema skipstjórinn einn sem komst lífs af. Stendur kross á miðju nesinu milli bæjanna Skoruvíkur og Skála, þar sem lík Englendinganna eru heygð.
Á krossinum stendur "Hér hvíla 11 enskir menn"
Skálar eru stórmerkilegt eyðiþorp á austanverðu nesinu. Þar var vísir að kauptúni og töluvert útræði á fyrri hluta 20.aldar. Árið 1910 hófst útgerð fyrir alvöru með hafnarbótum, byggingu verbúða, frystihúss( eitt af fyrstu vélfrystihúsum landsins), saltverkunarhúss og bræðslu auk verslunarhúsa. Voru 117 manns heimilisfastir þar 1924 auk lausafólks. Leituðu menn þangað úr ýmsum landshlutum til sjóróðra og jafnvel frá Færeyjum. Munu 50-60 áraskip hafa róið þaðan er flest var.
Á árum síðari heimstyrjaldarinnar ráku á land tundurdufl sem höfðu losnað úr tundurduflagirðingu bandamanna við Austfirði. Tvö dufl sprungu í fjörunni á Skálum veturinn 1941-42 og eyðilögðu tvö hús. Sumarið eftir fluttu síðustu fjölskyldurnar, veturinn 1943 var því engin búsettur á Skálum. Þá kom hópur bandarískra hermanna sem dvöldu þar til stríðsloka. Flestar minjar verstöðvarinnar á Skálum eru nú horfnar nema helst húsgrunnar og gamall grafreitur. Sunnan við Skála er Skálabjarg, fuglabjarg, rúmlega 130 m hátt.
Ofan við fjöruna á Skálum eru björgunarskýli og kamar
Á skálum hittum við einn "lonely rider" á mótorhjóli, vinalegan íslending á sjötugs aldri, sem sagði okkur að hann hefði verið hjá gæslunni árið 1969 og hefði þá tekið þátt í að ferja girðingastaura klofna úr rekaviði úr fjörunni í Skoruvík. Þetta hefði verið mikið ævintýri því gúmmíbátnum sem notaður var til flutninganna út í varðskipið hefði hvolft og höfðu þeir þurft að synda í land áður en þeir hefðu getað haldið áfram að koma rekanum fyrir Skoruvíkurbóndann um borð í Þór. Það var sama sagan með þennan fyrrverandi sjóliða Landhelgisgæslunnar og okkur, hann hafði ekki treyst sér til að keyra í gegnum keðju valdstjórnarinnar við Gunnólfsvíkurfjall til að njóta útsýnisins yfir Langanes.
Eins og ævinlega urðum við Matthildur dagþrota á Langanesi enda kannski ekki skrýtið þegar daginn er tekið að stytta. Það verður því að bíða betri tíma að keyra upp á Heiðarfjall þar sem Ameríski herinn hafði aðsetur um árabil, en þar má víst njóta góðs útsýnis yfir Langanes þó að ekki sé það jafn hástemmt og af Gunnólfsvíkurfjalli.
Athugasemdir
Óhemju gaman að lesa þessa grein þína og vel og skemmtilega skrifuð.
Jóhann Elíasson, 16.10.2016 kl. 14:05
Takk fyrir Jóhann.
Magnús Sigurðsson, 16.10.2016 kl. 16:21
Alltaf gaman að lesa allt eftir þig Maggi minn.
Já það var gaman að byggja ratsjárstöðina á Gunnólfsvíkurfjalli fyrir margt löngu.
Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 16.10.2016 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.