5.11.2016 | 22:17
Steypt list
Ein af þeim byggingum sem setja svip á Egilsstaði er menntaskólinn. Þó svo að skólinn standi ekki hátt þar sem hann hvílir í hvarfi norðan undan Gálgaklettinum og kirkjunni þá ætti þessi bygging ekki að fara fram hjá neinum þeim sem til Egilsstaða koma, svo vel blasir hún við frá Egilsstaðanesinu þar sem hringvegurinn liggur og flugvöllurinn er staðsettur. Eftir því sem árin líða þá finnst mér meira til þessa mannvirkis koma. Mér finnst þetta mannvirki bera íslenskri byggingalist verðugt vitni.
Það var árið 1965 sem sett voru lög er heimiluðu stofnun menntaskóla á Austurlandi. Árið 1971 ákvað Gylfi Þ Gíslason að menntaskólinn skyldi verða á Egilsstöðum, og 1972 tók til starfa undirbúningsnefnd sem í voru; Lúðvík Ingvarsson, Vilhjálmur Sigurbjörnsson og Sigurður Blöndal. Þann 13. október 1975 tók svo Vilhjálmur Hjálmarsson þáverandi menntmálaráðherra fyrstu skóflustungu að tilvonandi menntaskóla, þá höfðu setið í byggingarnefnd skólans frá 1973 þeir Þórður Benediktsson, Þorsteinn Sveinsson og Hjörleifur Guttormsson.
Fjórum árum seinna, haustið 1979 tók skólinn til starfa í þeim áfanga sem Vilhjálmur tók skóflustunguna af 1975. Sá áfangi var um 760 m2 að grunnfleti en heildarflatarmálið um 1550 m2 og hýsti heimavist, eldhús og matsal en kennslustofur voru allstaðar sem þeim var við komið í sölum, á göngum og í skúmaskotum. Hótel Valaskjaálf var nýtt á vetrum í tengslum við skólann á meðan húsnæði skorti. Árið 1983 var tekin í notkun nýr áfangi við heimavist sem í var einnig íbúð. Það var ekki fyrr en 1989 sem fyrstu eiginlegu kennslustofur skólans, sem byggðar voru sem slíkar, voru teknar í notkun. Árið 2006 var svo byggt enn frekar við kennsluálmu skólans.
Arkitektar voru þeir Ormar Þór og Örnólfur Hall. Hvað þeim gekk til með útliti bygginganna hef ég ekki heyrt um. En auðvelt var að geta sér þess til að þær ættu að falla vel að klettunum sem þær standa næst, enda voru húsin upphaflega ómáluð steypugrá, og þannig heyrði maður að þau ættu að verða til framtíðar. Um tíu árum eftir að fyrstu húsin risu voru þau máluð hvít. Hefur mér eftir það dottið í hug að þessi húsaþyrping eigi að líkjast jökullóni. Allavega er útlitið ramm íslenskt.
Þó svo að ég hafi aldrei sest á skólabekki menntaskólans á Egilsstöðum né annarra menntaskóla þá hóf ég nám við það sem ég hef haft lífsviðurværi mitt af síðustu 40 árin eða svo í menntaskólanum. En þar fór ég á samning í múrverki 17 árar gamall og hef komið að múrverki á hverjum einasta byggingar áfanga menntaskólans frá byrjun. Síðustu árin hef ég haft byggingarnar fyrir augunum þegar ég vakna á morgnanna því þær eru fyrir utan stofugluggann, ásamt Gálgaklettinum, kirkjunni og Snæfellinu.
Það er ekki hægt að segja annað en að hver einasta mínúta í tilveru menntaskólans á Egilsstöðum hafi verið nýtt til þess ýtrasta. Þegar ekki hefur verið um hefðbundna skólastarfsemi að ræða hafa byggingarnar verið nýttar til hótelreksturs, en um hann hefur Hótel Edda séð frá upphafi. Yfirleitt er það svo að í byrjun sumars tekur Hótel Edda við helgina eftir að skóla líkur og að hausti líður helgi frá því að Edda skilar og skóli tekur við.
Umhverfi skólans hefur tekið miklum stakkafskiptum frá því að hann var byggður í túninu við Búbót, sem var samyrkjubú frumbyggja í Egilsstaðakauptúni. Að austan birgja himinháar aspir sýn þar sem skurðbakkinn var áður og inn á milli bygginganna eru skrúðgarðar. Því verður ekki á móti mælt að Menntaskólinn á Egilsstöðum er íslenskt listaverk. Þar sem steypumölin fenginn úr hinni fornu Jöklu, innveggir hlaðnir úr gjósku íslenskra eldfjalla og vinnuaflið til byggingarinnar fengið fyrir tíma erlendra starfsmannaleiga. Það eina sem skyggir á sögu skólans er að nú vill ekki nokkurt skólað ungmenni vinna með höndunum að því að skapa listaverk til gagns landi og þjóð.
Flokkur: Hús og híbýli | Breytt 27.12.2016 kl. 17:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.