Útlægar sálir á Íslandi

Þjóðsögurnar varðveita sagnir um útilegumenn en tæpast eru allar þær sagnir taldar áreiðanlegar heimildir. En hvaða heimildir af alþýðufólki eru svo sem sannleikanum samkvæmar? Sennileg væri svarið við þeirri spurningu; þær sagnir sem skjalfestar hafa verið af yfirvaldinu í gegnum tíðina, s.s. dómsmál og annað því um líkt. Það er sigurvegarinn skráir opinberu útgáfu sögunnar, en sú sanna getur samt allt eins haldið áfram að lifa með fólkinu sem þjóðasaga. 

Þeir útilegumenn sem ekki er efast um að hafi verið uppi á Íslandi eru t.d. Halla og Eyvindur og svo náttúrulega Grettir. En þjóðsögurnar segja frá miklu fleira fólki og jafnvel heilu byggðarlögunum í afdölum inn á hálendi landsins. Stundum hafa þessi byggðalög uppgötvast í seinni tíð með því að til eru skráðar opinberar heimildir um fólk sem þar bjó og þá er hvorki um útilegumenn né þjóðsögu að ræða.

Lónsöræfi kort

Einn af þeim afdölum sem líklegt er að hafi verið byggður útilegufólki í gegnum aldirnar er Víðidalur á Lónsöræfum. Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1963 var dalnum gerð rækileg skil með tveimur greinum. Sú fyrri heitir Litizt um í Víðidal og byggir að miklu leiti á ferðabókum Þorvaldar Thoroddsen, þar má m.a. lesa;

"Víðidalur í Stafafellsfjöllum er óraleið frá mannabyggðum, og er mikið torleiði þangað að sækja um reginfjöll og jafnvel jökla. En hann er gróðursæll og á liðinni öld freistaði hann jarðnæðislausra manna. Hvað eftir annað tóku menn sig upp niðri í byggðum, fluttu í dalinn og reistu þar bú. En öræfadalurinn var harður börnum sínum, þótt hvönnin angaði ljúft á fitjum og lækjarbökkum á sumrin. Þar gerðust miklar harmsögur, og þaðan komust ekki allir lifandi. Enn er þar í gömlum túnfæti kuml þeirra, er þar biðu bana með válegum atvikum."

"Landslag er um þessar slóðir stórhrikalegra en víðast annars staðar á Íslandi, fjallstindarnir hvassir og himinháir, gljúfrin ægileg, bergtegundirnar margbreyttar og marglitar, klungrin óteljandi, skriðjöklar og hjarn skaflar í lautunum innan um eggjar og kamba. Ljósið skrámir í augu manns, er það kastast aftur frá hinum marglitu fjallshlíðum, og í fljótu bragði sýnist ófært að ferðast um slík klungur."

Illikambur

 Göngufólk á Illakambi við minni Víðidals mynd Iceland Magazine

þetta hrikalega landslag sem þarna er lýst hefur orðið vinsæl gönguleið á seinni tíð, þar sem gengið er jafnvel alla leið úr Lóni í Austur-Saftafellssýslu að Snæfelli í Norður-Múlasýslu og er sú leið nú kölluð Austurstræti. Á heimasíðu Vegagerðarinnar má einnig sjá frásögnina "Fundinn forn fjallvegur á Austurlandi" sem ætla má að hafi verið fjölfarinn til forna, en þar liggur leiðin upp úr suðurdal í Fljótsdal og suður í Lón með viðkomu í Víðidal.

Frásagnir af þeirri byggð sem vitað er með vissu að var í Víðidal eru þjóðsögum líkastar. þaðan sem dagleið var til byggða hið minnsta og harðir vetur.  Ekki var búið í Víðidal Þegar náttúrufræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen kom í dalinn árið 1882 í fylgd Sigfúsar Jónssonar, bónda á Hvannavöllum í Geithellnadal. Er talið að sú för og gróskan í dalnum hafi átt drjúgan þátt í ákvörðun Sigfúsar á Hvannavöllum að flytja í dalinn vorið eftir ásamt eiginkonu sinni, Ragnhildi Jónsdóttur, og tvítugum syni þeirra, Jóni. Voru þau þriðju og síðustu ábúendurnir í dalnum sem vitað er um á 19. öld og af þeim fara mestar frásagnir.

Í sendibréfi frá Sigfúsi á Grund sem birtist í Austra 27.08.1884 lýsir hann aðdraganda flutninganna í Víðidal. "Það þótti mikið áræði af mér, jafngömlum –og ónýtum að flytja búferlum í Víðidal, jafnvondan veg sem yfir þarf að fara. Ég tók þetta fyrir því að ég fékk ekkert jarðnæði sem mér líkaði og hægt var að flytja á." Byggðu þau bæ sinn fyrst á rústum fyrri bæjar en fljótlega nokkru neðar í túninu. Bæinn nefndu þau Grund og bjuggu þar ellefu manns er flest var við þokkalegan hag í fjórtán ár eða til vors 1897. Fjárfellir í harðindum þann vetur mun hafa ráðið mestu um að þau yfirgáfu dalinn.

Kollumúli

Kollumúli við Víðidal, mynd pahuljica.blog.is

Þar áður höfðu búið í dalnum Þorsteinn Hinriksson frá Hafursá í Skógum og Ólöf Nikulásdóttir, ættuð af Síðu. Fluttu þau í Víðidal úr vinnumennsku árið 1847, með tvo kornunga syni sína og dóttur Ólafar á fermingaraldri. Settust þau að í eyðibæ eftir fyrri íbúa dalsins. Búseta þeirra hlaut hörmulegan endi á öðrum eða þriðja vetri.

"Á þrettánda degi jóla ... hljóp snjóflóð á bæinn er Þorsteinn hafði lokið húslestrinum og fórst hann ásamt báðum drengjunum. Mæðgurnar sluppu ... Ólöf viðbeinsbrotin. Lifðu þær við harmkvæli í rústunum og höfðu helst hrátt hangikjöt og slátur sér til matar, en húsdýr öll fórust ... Eru þær taldar hafa verið þarna 5-6 vikur uns þær afréðu að koma sér til byggða sökum vistaskorts. Þær villtust og grófu sig í fönn en þremur dægrum eftir það komu þær fram á svonefnda Sniðabrún fyrir ofan bæinn Hvannavelli ... Fundust mæðgurnar þarna aðframkomnar en þó tókst að bjarga þeim." (-Úr bókinni "Svei þér þokan gráa" eftir Stefaníu Gísladóttir í Seldal um ævi austfirsku skáldkonunnar Guðrúnar Ólafsdóttur).

Minnisvarði er í túninu um Þorstein og drengina tvo, þar sem talið er að bærinn hafi staðið.

Grund í Víðidal

Grund í Víðidal, mynd eirag.blog.is

Íbúar dalsins þar á undan voru þau Stefán sterki Ólafsson úr Húsavík eystri og Anna Guðmundsdóttir frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Komu þau sér upp nýbýli í Víðidal sumarið 1835 en höfðu líklega flutt þangað sumarið áður og því búið þar sem útilegufólk í eitt ár. Með þeim flutti vinnukona og smali.

Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar eru nokkrar af þessum hjónum og sennilega er saga þeirra óvíða svo vel skráð annarsstaðar. Samkvæmt þjóðsögunum á Stefán sterki að hafa verið viðsjálvert skrautmenni, rólegur og latur. Hann var grunaður um að hafa átt þátt í dauða Eiríks á Aðalbóli, fyrri manns Önnu. Þau Anna héldust ekki við á Aðalbóli eftir dauða Eiríks, kom þar til óvild ættmenna Önnu út í Stefán.

Þau fluttust þá niður í Húsavík til Ólafs föður Stefáns sem eftirlét þeim Litlu-Breiðuvík. Ólánið elti þau, Stefán gerði hverja vinnukonuna á eftir aðra ólétta. Önnur þeirra var tilvonandi tengdadóttir Hafnarbróðirins Hjörleifs sterka og fóru þeir feðgar í heimsókn í Breiðuvík þegar þeir fréttu af óléttunni. En þá var Guðrún orðin léttar og höfðu Stefán og Anna ákveðið að láta sem Anna ætti barnið. Við þetta reiddust þeir feðgar Hjörleifur og Árni og tóku með sér þaðan Guðrúnu og barnið og hófu málaferli á hendur Stefáni. Þegar þau Stefán og Anna höfðu búið 10 ár í Breiðuvík voru þau búin að koma sér þannig að ekki var um annað að gera en að láta sig hverfa. 

Þá fór Stefán að kynna sér Víðidal því hann hafði heyrt að þar hefðu útilegumenn búið í gegnum aldirnar, hann komst að því að engin hafði eignarhald á dalnum og flutti þangað. Þau Anna bjuggu í dalnum fram undir 1840 en þá var vinnukonan farin og smalinn allur. Í þjóðsögum Sigfúsar segir svo um þetta; "Smali sá er hjá þeim hafði verið varð nú leiður á leti og ásælni Stefáns og bar þeim á milli og svo fór að drengurinn andaðist þar með skjótum og tortryggilegum atburði; gróf Stefán hann hjá kofunum. En síðar, þegar loks þau Stefán sáu sig engan fengið geta sér til aðstoðar og óhróður um lát drengsins barst til byggða, þá sáu þau sér nauðugan einn kost að flytja þaðan. Höfðu þau bein drengsins með sér og létu jarða þau að Stafafelli. Varð engin rannsókn hafin út af hans snögga fráfalli. Það var árið 1840 að þau flosnuðu upp í Víðidal. Fór Anna þá að Aðalbóli til dóttur sinnar en Stefán á flæking."  

Tröllakrókar

Tröllakrókar, mynd; Vatnajökulsþjóðgarður

Samkvæmt þjóðsögunni frétti Stefán af því að Þorsteinn og Ólöf hefðu flust í Víðidal eftir hans og Önnu daga í þá kofa sem þau höfðu byggt og sagði við það tækifæri; "Hum, hum, vel mátti hann flytja í dalinn án míns leyfis en kofana átti ég og hefði hann getað fengið leyfi mitt til þess að búa í þeim því þá á ég með öllum rétti. Mun þetta hann til ills draga." Þessi ummæli Stefáns festu margir í minni og þóttu all--ægileg því sumir hugðu hann vita fleira en almenning frá sér. Varð mönnum að trú sinni því á þriðja ári sínu þar var þorsteinn að lesa húslestur á helgidegi; þá hljóp snjó- og aurhlaup úr fjallinu og braut bæjarkofana. (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar)

Í Þjóðsögum Sigfúsar er sagt frá Gerðissystkinunum, þeim Jóni og Sigríði sem bjuggu eftir foreldra sína í Víðivallagerði í Fljótsdal seinnihluta 17. aldar. Þegar þjóðsagan gerist "voru bæði fríð sýnum og atgerfisfólk, fullþroska, vinsæl og vel látin". Sveitungar þeirra tóku eftir því að Sigríður var ófrísk án þess að nokkur vissi til að hún hefði verið við karlmann kennd og því kom upp sú getgáta að það væri eftir Jón bróðir hennar. Á þessum árum var Jón Þorláksson sýslumaður í Fljótsdal, "eftirgangsamur um smábrot sem siður var margra stórmenna á þeirri tíð" (Stóridómur tók hart á sifjaspellsmálum). Sýlslumaður og Fljótsdælingar vildu taka Sigríði og yfirheyra hana. Á þessum tíma var Böðvar Sturluson prestur á Valþjófsstað, vinur þeirra Gerðisyssystkina. Hann taldi ekkert liggja á best væri að gefa Sigríði næði til að eiga barnið og feðra það í framhaldinu.

Þegar kom að því að sýslumaður heimsótti Víðivallagerði voru þau systkinin horfin og auðsjáanlegt á því sem þau tóku með sér að þau gerðu ekki ráð fyrir því að koma aftur, framkvæmd var ítarleg leit en árangurslaust. Sagan segir að Þorlákur prestur hafi látið gera margt undarleg næstu áratugina, m.a. látið reka fé á fjall í þeim tilgangi að það skilaði sér ekki aftur. Sent trúnaðarmann sinn um ókunnan fjallveg um há vetur uppfrá Sturluflöt í suðurdal Fljótsdal suður öræfin í þeim tilgangi að færa kolleiga sínum á Hofi í Álftafirði bréf.

Lónsöræfi

Göngufólk á Lónsöræfum, mynd; Land og saga

Eins og þjóðsagan lýsir þeim fjallvegi leynir sér ekki að um sama forna fjallveg er að ræða og má lesa um á síðu Vegagerðarinnar. Enda villtist þessi trúnaðarmaður prestsins á Valþjófstað í óveðri í afskektan dal þar sem tveir bæir voru með útilegufólki. Annar bæinn taldi hann vera byggðan af þeim systkinum í Víðivallagerði og dóttur þeirra.

Mörgum áratugum eftir að systkinin hurfu frá Víðivallagerði kom ung kona í Fljótsdal sem flestir töldu sig kannast við, var þar á ferð Sigríður dóttir þeirra Jóns og Sigríðar Víðivallagerðis systkina. Voru foreldrar hennar þá bæði dáin, lét þá Þorlákur prestur gera leiðangur eftir þeim í afskekta dalinn og voru þau jarðsett að Valþjófsstað. Þarna telur Sigfús þjóðsagnaritari um Víðidal að ræða. Margar fleiri þjóðsögur um útilegumenn í safni Sigfúsar gætu átt við Víðidal.

Eins og ætla má þá eru til mestar heimildir af síðustu íbúum Víðidals, fjölskyldum þeirra feðga Sigfúsar og Jóns sem bjuggu þar á síðustu áratugum 19. aldar. Í Sunnudagsblaði Tímans er frásögn eftir Helga Einarssona bónda og hreppstjóra á Melrakkanesi, síðar Djúpavogi, þar sem hann segir frá lífinu í Víðidal en þar ólst hann upp hjá skyldfólki á fyrstu árum ævi sinnar. Hann telur að búskapurinn í Víðidal hafi ekki verið frábrugðin þess tíma, nema hvað þar var afskekkt og erfitt með aðföng. "Fólk fékk hvort tveggja, fæði og klæði, nær eingöngu af jörðinni og sauðkindinni. Veiðiskapur var enginn, nema hvað rjúpur voru skotnar við og við að vetrinum".

Einnig vitnar Helgi í bréf sem Jón Sigfússon skrifaði honum, en Jón mun hafa haldið dagbók mest allan þann tíma sem þeir feðgar bjuggu í Víðidal. Auðbjörg Jónsdóttir vinnukona í Víðidal dó árið 1887, þar vitnar Helgi í bréf Jóns . "Dauða Auðbjargar bar með voveiflegum hætti, og hefur Jón Sigfússon sagt svo frá tildrögum þess atburðar í bréfi til mín: "Auðbjörg heitin villtist úr grasatínslu 5. Ágúst 1887, og leituðum við í viku og fundum ekki. En 20. sama mánaðar fannst hún af pabba sálaða í húsi í Þormóðshvömmum, þá með lífsmarki. Pabbi reið strax í hasti út í Kambsel. Þar bjó þá Jón Árnason, hálfbróðir pabba, og var hún dáin, þegar þeir komu inn eftir." í embættisbókum Hofsprestakalls segir og, að hún hafi dáið 20. ágúst, "varð úti á grasaheiði, fannst á Geithellnadal".

Eins segir Jón Sigfússon frá því hvað skíði voru mikið notuð af Víðidalsmönnum t.d. til dægrastyttinga. "Það bjargaði okkur í Víðidal, að við vorum allir góðir á skíðum, enda gafst okkur færi á að æfa vel skíðaferðir. Einu sinn kom mikill snjór í Víðidal. Þá var öllu gefið inni. Þá sagði ég við Bjarna frænda, að nú skyldum við taka okkur skíðatúr. "Já, hvert skulum við þá fara?" "Upp á há-Hofsjökul"; sagði ég. "Það er þá aldeilis sprettur", sagði Bjarni. Svo lögðum við af stað og gengum alltaf á skíðunum upp og alveg upp á jökulinn, þar sem hann er hæstur. Þaðan sáum við út á sjó í Álftarfirði og Búlandstind og norður á Fljótsdalsheiði. Alls staðar var hvítt, nema Kverkfjöllin voru að sjá mikið auð og randir meðfram Fellunum, helzt í Snæfellshálsinum. Ekki man ég, hvað við vorum lengi upp á jökulinn neðan frá bænum. En fimmtán mínútur vorum við niður að bænum. Úr Víðidal mátti fara til byggða á skíðum, þegar mikill snjór var, út í Lón, Álftarfjarðardali alla, til Fljótsdals og Skriðdals og Hrafnkelsdals, án þess að fara fyrst til Fljótsdals. Það var bein leið af Marköldunni í Laugarfjall, yzta hnúkinn af Fellunum og úr Laugarfelli út og norður í Aðalból".

Það er nokkuð ljóst að útilegumenn til fjalla á Íslandi hafa verið fleiri í gegnum aldirnar en Grettir, Eyvindur og Halla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband