18.3.2017 | 21:40
Sjö sinnum það sagt er mér
Þær fréttir sem ítrekað berast af húsnæðisvanda fólks eru þyngri en tárum taki. Meir að segja hefur þingkona nýlega lýst ráðaleysi við að komast undir eigið þak þrátt fyrir að hafa hátt í eina og hálfa milljón á mánuði.
Hvernig fólk fór að því áður fyrr við að koma þaki yfir höfuðið virðist ekki eiga við nú á dögum. Reglugerðafargan nútímans, með öllum sínum kostnaði og kröfum, virðist vera komið á það stig að ekki er neinum meðal Jóni mögulegt að byggja.
Leiði þeirra Möðrudalshjóna, Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen og Stefáns Jónsonar
Tilefni þessara vangaveltna eru að í sumar sem leið var sýning í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, um þúsundþjala smiðinn Jón Stefánsson í Möðrudal. Jón í Möðrudal var engin meðal Jón og vílaði fátt fyrir sér.
Ég hafði hugsað mér að gera þessari áhugaverðu sýningu skil hérna á síðunni, en finn ekkert af því efni sem ég var búin að viða að mér og hef þar að auki glatað flest öllum myndum frá sumrinu 2016 í tölvuóhappi.
Því verð ég að gera þessari merkilegu sýningu öðruvísi skil en ég hafði hugsað mér og er þá efst í huga kirkjan sem hann byggði í Möðrudal. Því það vafðist vel að merkja ekki fyrir Jóni að koma sér upp kirkju, frekar en þaki yfir höfuðið. Kirkjuna byggði hann með eigin höndum fyrir eigin reikning.
Ég rakst á skemmtilegt viðtal við Jón á youtube þar sem hann lýsir því fyrir Stefáni Jónssyni fréttamanni hvernig og hvers vegna hann byggði kirkjuna. Jón var einnig listamaður og málaði altaristöfluna sjálfur auk þess að smíða rammann utan um hana. Hann fékk svo biskupinn til að vígja kirkjuna.
Í þessu örstutta viðtali lýsir Jón þessu auk þess að syngja ljóð og lag um Hallgrím Pétursson. Seinni hluti viðtalsins er við annan höfðingja austanlands sem vandar ekki hagfræðingum kveðjurnar og gæti umræðuefnið eins haf verið í dag og fyrir tæpum 60 árum.
Ps. Þeir sem hafa áhuga á að heyra hvað listamenn dagsins í dag gera með söng Jóns í Möðrudal þá má smella á þetta remix hér.
Meginflokkur: Hús og híbýli | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt 19.3.2017 kl. 06:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.