Bölvaður sé sá er mígur upp við vegg

IMG 1662

Það kannast flestir iðnaðarmenn við hvað aðstöðuleysi til að létta á sér getur verið bagalegt. Þó svo að sumir verið sér úti um færanlegan kamar þá er sjaldnast gert ráð fyrir slíkum kostanaði þegar unnið er fyrir Pétur og Pál út um borg og bý. Eitt sinn þegar ég vann utanhúss múrverk við íbúðarhús víðlesins spekings kom til umræðu lögmál sem hefur leitað á hugann þegar mér verður mál utandyra allar götur síðan. Í meira en 30 ár þar til í gær að ráðgátan upplýstist.

Eins og oft vill verða á vinnustað þar sem er ekkert klósett þá hafði ég farið bak við hús til að míga og vonaðist til að ekki sæist til mín. Þegar ég var rétt byrjaður þá kom húseigandinn fyrir hornið. Hann sagði ábúðarfullur „bölvaður sé sá er mígur upp við vegg“. Um afleiðingar þessa gæti ég lesið mig til um í Biblíunni.

Ég var snöggur að svara honum að því lygi hann, ég væri búin að lesa Biblíuna spjaldanna á milli og þetta stæði hvergi í henni. Hann þagði í smástund en sagði svo íbygginn á svip að þetta stæði kannski ekki í allra nýjustu útgáfu hennar. Auðvita laug ég því að hafa lesið Biblíuna spjaldanna á milli. En þetta samtal varð til þess þegar ég lét verða af því hafði ég það í huga hvort það gæti virkilega verið að þetta stæði í hinni helgu bók.

Eftir lestur næst nýjustu útgáfu Biblíunnar gat ég hvergi greint að ígildi þessarar bölbænar væri þar finna. Svo var það í gær að ég las bók Stefáns Jónssonar, Ljós í róunni. Þar er áhugaverð úttekt á þessari biblíutilvitnun og það sem meira er Stefán hafði rannsakað, gjörsamlega út í hörgul, sannleiksgildi þess að hana mætti finna í hinni helgu bók. Því rétt eins og ég trúði hann því ekki að óséðu.

Rannsókn Stefáns leiddi það í ljós að þessi tilvísun í bölvunina fyrir að míga upp við vegg væri í erlendum útgáfum Biblíunnar, en hefði af einhverju undarlegum ástæðum ævinlega verið sleppt við þýðingu hinnar helgu bókar yfir á íslensku. Tilvitnunina mætti finna í annarri konungabók þar sem Guð talaði í gegnum Elísa spámann um Jeróbam konung.

Komst Stefán helst að því að ástæða þess að þetta vantaði í íslensku útgáfur Biblíunnar væri af svipuðum toga og það að austfirðingar eru öðruvísi en annað fólk. En austfirðingurinn lætur segja sér það þrisvar sem nægir að ljúga einu sinni í suma aðra. Og sumu trúir hann aldrei hvað oft sem hann heyrir því logið.

Það er oft þannig með lausn á ráðgátum að þegar ein leysist þá virðist svar við annarri berast á undarlegan hátt á sama tíma og þá oft úr ólíkri átt. En nú var það ekki svo í þetta sinn, heldur rakst ég fyrir stuttu á texta Þórbergs Þórðarsonar, sem einnig er rithöfundur úr austfirðingafjórðungi. Þar varpar hann ljósi á það sem margir telja landlæga plágu nú á tímum þó svo að ekki séu bölbænir við gjörningnum að finna í Biblíunni.

Þó að iðnaðarmenn eigi til að leggja metnað sinn í að míga úti þá er fáheyrt að þeir geri stærri stykki utandyra. En eins og flestir hafa frétt, eða jafnvel séð myndbirtingar af á facebook, þá hefur borið á því að túristar skíti á víðavangi þrátt fyrir að salerni séu á næsta leiti. Jafnvel hefur mörgum komið til hugar að réttast væri að láta þá borga fyrir að gera þarfir sínar því svo vel sé fólk skólað í að greiða fyrir að vera til, að því detti ekki í hug að fara á salerni ókeypis.

En texti Þórbergs í Bréfi til Láru upplýsir hvað fer raunverulega fram í sálarlífi túristans við þessar aðstæður. Og við því geta hvorki fjársektir né Biblían átt nægilega sterkar viðvaranir, hvað þá að gjaldskyldir kamrar komi að gagni.

Það var logn og heiður himinn. Sól skein í suðri. Sumarfuglarnir sungu suðræn ástarljóð í runnum og móum. Fram undan blasir við fagurt hérað, skrýtt skógarkjarri og grösugum eldfjöllum. Fjöllin eru frumlega gerð og einkennileg, rétt eins og forsjónin hefði skapað þau með sáru samviskubiti út af hrákasmíð sinni á Rangárvöllum. Fyrir neðan skógarbrekkurnar glampar á hafið himinblátt, alsett eyjum og vogum, - helgi og fegurð svo langt sem augað eygir.

Þetta er dásamlegur heimur. Þessi mjúka stemming yfir hafi og hauðri, ilmur úr grænu grasi og skógarangan. Hvar er ég? Er ég komin suður á Ítalíu? Er þetta hið himinbláa Miðjarðarhaf, sem Davíð Stefánsson kvað um pervislegt kvæði? Eða er þetta kannski sumarlandið, þar sem Raymond drakk himnesk vín og reykti vindla sáluhólpinna tóbakssala? Ég settist niður í skógarrunn og skeit. Á setum sínum kemst maður í andlegt samfélag við náttúruna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Sjá:

     https://claudemariottini.com/2011/09/01/%E2%80%9Chim-that-pisseth-against-the-wall%E2%80%9D-2/

Flosi Kristjánsson, 2.5.2017 kl. 14:29

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Stefán Jónsson spurði séra Jakob Jónsson út í þetta, en séra Jakob hafði skrifað lærða ritgerð um kímni í Biblíunni og Stefán vildi vita hvort þessi tilvitnun fyndist þar. Fátt varð víst um svör. 

Flosi Kristjánsson, 2.5.2017 kl. 14:31

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þennan fróðleik Flosi.

Ég sé að þessi Biblíutilvitnun hefur verið fleirum en Stefáni hugleikið rannsóknar efni. Kannski ekki mikið að velta vöngum yfir henni upp við vegg í meira en 30 ár eins og í mínu tilfelli, án þess þó að gera neitt raunhæft í að kanna sannleiksgildi hennar. Allt kemur til þess sem bíður sagði einhver spekingurinn.

Í þessari grein sem þú linkar á er sagt að tilvitnunin komi hvorki meira né minna en sex sinnum fyrir á frummálinu. Það er spurning hvort þeir hafa haft eitthvað fyrir sér með þetta.

Stefán lét sér detta í hug að þetta gæti verið vegna þess að húsin hefðu verið byggð úr gljúpum sandsteini í landinu helga og því ekki æskilegt að míga mikið utan í þau. Allt annað gilti um íslenska torfbæinn því hefði verið sleppt að þýða þetta yfir á ástkæra og ylhýra.

Stefán giskaði á að séra Jakob hefði ekkert viljað um þetta segja vegna þess að hann hefði spurt hann út í þetta 1. apríl.

Magnús Sigurðsson, 2.5.2017 kl. 15:44

4 identicon

https://www.youtube.com/watch?v=EmQYXU0q3Gs

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 5.5.2017 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband