19.10.2017 | 15:52
Veturnætur
Þessir tveir síðustu dagar sumars, fimmtudagurinn í dag og föstudagurinn á morgunn, voru kallaðir veturnætur samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Íslenska tímatalið var notað þar til það júlíanska, eða nýi stíll, tók við og hlutar þess jafnvel fram á 20.öldina. Mánaðaheiti gamla tímatalsins miðast við árstíðir náttúrunnar. Því er skipt í sex vetrarmánuði og sex sumarmánuði. Það miðast annars vegar við vikur og hins vegar við mánuði, sem hver um sig taldi 30 nætur. Þannig hefst mánuðurinn á ákveðnum vikudegi, en ekki á föstum tölusettum degi ársins.
Árið var talið í 52 vikum og 364 dögum. Til þess að jafna út skekkjuna sem varð til vegna of stutts árs var m.a. skotið inn svokölluðum sumarauka. Þannig var sumarið talið 27 vikur þau ár sem höfðu sumarauka, en 26 vikur annars. Í lok sumars voru tvær veturnætur og varð sumarið því alls 26 - 27 vikur og tveir dagar. Í mánuðum taldist árið vera 12 mánuðir þrjátíu nátta og auk þeirra svonefndar aukanætur, 4 talsins, sem ekki tilheyrðu neinum mánuði. Þær komu inn á milli sólmánaðar og heyanna á miðju sumri. Sumaraukinn taldist heldur ekki til neins mánaðar.
Veturnætur voru forn tímamótahátíð sem haldin var hátíðleg á Norðurlöndunum áður en þau tóku Kristni. Heimaboða, sem kölluðust dísarblót, er getið í fornsögum og eiga að hafa átt sér stað fyrir kristnitöku. Blót þessi munu hafa verið haldin í námunda við veturnætur eða á þeim og gætu þessar tvær hátíðir því hafa verið hinar sömu eða svipaðar hvað varðar siði og athafnir. Heimboða um veturnætur er oft getið í fornsögum, sem eiga að gerast fyrir eða um kristnitöku, svo sem Gísla sögu Súrssonar, Laxdælu, Reykdæla sögu, Njálu og Landnámu.
En í rauninni var lítil ástæða til að fagna komu Vetur konungs, sem síst hefur þótt neinn aufúsugestur. Svo mjög hafa menn óttast þessa árstíð, að í gamalli vísu frá 17. öld stendur, öllu verri er veturinn en Tyrkinn. Ekki er vitað hve hefðin er gömul, minnst er á veturnætur í ýmsum íslenskum handritum þótt ekki komi fram nema mjög lítið um hvernig hátíðin fór fram. Í Egils sögu, Víga-Glúms sögu og fleiri handritum er þar einnig minnst á dísablót sem haldin voru í Skandinavíu í október og má skilja á samhengi textanna þar að þau hafi verið haldin í námunda við vetrarnætur.
Dísir voru kvenkyns vættir, hugsanlega gyðjur eða valkyrjur og vetrarnætur því oft kenndar við kvenleika. Talið er að kvenvættir líkar Grýlu og nornum úr evrópskri þjóðtrú séu leifar af þessum fornu dísum. Veturnætur virðast hafa verið tengdar dauða sláturdýra og þeirrar gnægta sem þau gáfu, einnig myrkri og kulda komandi vetrar. Eftir að norðurlönd tóku kristni yfirtók allraheilagramessa kirkjunnar, sem var frá 8. öld og haldin 1. nóvember, ímynd þessara hausthátíða. Ýmsir hrekkjavökusiðir kunna því að eiga rætur í siðum sem tengjast veturnóttum og dísablótum eða öðrum heiðnum hausthátíðum.
Helsta einkenni gamla íslenska tímatalsins er hversu nátengt það var hringrás náttúrunnar. Á meðan tímatal seinni tíma er tengt trúarhátíðum kirkju og nú síðast neyslu. Reyndar er tímatal nútímans svo ótengt hringrás náttúrunnar að við notumst enn þann dag í dag við gamla tímatalið til skipta árstíðum náttúrunnar, t.d. sumardaginn fyrsta og fyrsta vetrardag. Tímatal nútímans heggur sífellt nær neytandanum með sínum svarta föstudegi og trúarhátíð vantrúar, sem barðist fyrir bingói föstudaginn langan svo megi hafa búðina opna dagana alla. Hafa þannig trúarhátíðir kirkjunnar smá saman orðið að hátíðum Mammons. Þannig má nú varla finna orðið dag allan ársins hring, sem ekki er helgaður neytandanum. Svo ágeng er neyslan hina myrku daga eftir veturnætur, að jafnvel hátíð ljóssins getur orðið sumum fyrirkvíðanleg.
Hægt ég feta hálan veg,
heldur letjast fætur.
Kuldahretum kvíði ég,
komnar veturnætur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.