Myrkurtíð

IMG 6016

Passið ykkur á myrkrinu var hinn þjóðkunni útvarpsmaður, Jónas Jónasson, vanur að segja við gesti sína í lok þátta á gufunni í denn. Árni Tryggvason leikari átti gott með að fá fólk til að hlæja, en talaði líka um svarta hundinn sem ætti það til að glefsa í skammdeginu. Þó rétt sé að passa sig á svörtum hundum myrkursins, þá felst sú þversögnin í ógnum skammdegis myrkursins að það getur þurft að draga sig úr erli dagsins og stíga út fyrir raflýsingu borga og bæja til að sjá ljós dagsins, svo skær er sjónhverfing rafljósanna.

Það virðist vera fjarlægt íslensku þjóðarsálinni að njóta kyrrðar hinnar myrku árstíðar og hægja á erli dagsins í takt við sólarganginn, líkt og náttúran gerir um þetta leiti. Fyrir norðan heimsskautsbaug kemst sólin ekki einu sinni upp yfir hafflötinn um nokkurt skeið á ári hverju. Margar byggðir Noregs eru langt fyrir norðan heimskautsbaug og því eiga norðmenn sér angurværa söngva um fallega bláa ljósið sem fylgir dimmri árstíðinni. Nú mætti halda að þar sem skammdegið er svo mikið að sólin nái ekki einu sinni að kíkja upp fyrir hafflötinn ríki algert myrkur jafnt á lofti og láði, sem í sál og sinni, en svo er ekki bjartur dagurinn er á himninum og kastar blárri birtu yfir freðna jörð.

Þó svo skammdegið eigi það til að vera erfitt með öllum sínum andans truntum þá er það sá tími sem mér finnst maður komast einna næst kjarna tilverunnar. Þetta er sá tími sem ég hugsa venju fremur til þeirra sem horfnir eru og voru mér kærir. Því er það kannski bara eðlilegt að það dragi úr athafnaþránni í myrkrinu og tíminn fari í að leita inn á við. Það er kannski líka heldur ekki undarlegt að vísindin hafi lagt talsvert á sig með gleðipillum og skærum ljósum við að forða fólki frá skammdegis hugans mórum og skottum, sem þjóðsagan hefur gert skil í gegnum tíðina. Það væri nefnilega stórvarasamt fyrir hagvöxtinn ef við kæmumst ævinlega að þeirri niðurstöðu að það sem er dýrmætast fáist ekki fyrir peninga.

Þegar ég var í þriggja ára Noregs útlegð, og saknaði fjölskyldunnar hvað mest heima á landinu bláa, þá bjó ég án sjónvarps og útvarps, en með skaftpott og örbylgjuofn. Þar gafst tími til að uppgötva aftur skammdegi bernskunnar, með því að stíga út fyrir raflýsinguna og paufast á svellum um nes niður við sjó og horfa út yfir Vogsfjörðinn. Það var eitthvað þarna í skímunni, sem gerði að það sást út yfir allan tíma, ég var aftur orðinn þriggja ára drengur í heimsókn með mömmu og pabba hjá afa og ömmu í Vallanesinu. Þarna í fjörunni sá ég alla leið yfir hafið og heim, þar sem augnablikið er alltaf það sama þó svo það komi aldrei til baka.

Á 69°N, þar sem sólin kemur ekki upp úr sjónum vikum saman, er þessi bláa angurværa og  órafmagnaða birta kölluð mørketid sem mundi útleggjast á íslensku myrkurtíð.

Ps. Myrkan norskan sálm má nálgast hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband