7.12.2017 | 21:21
Hvers vegna Öræfi?
Það þarf sjálfsagt ekki að hafa mörg orð um það hvernig nafnið Öræfi kom til, svo oft hefur eldgosinu 1362 verið gerð skil, sem gjöreyddi Litla-Héraði. Þó svo að ekki séu til um þetta stórgos, nema mjög takmarkaðar samtímaheimildir í annálum, telja seinna tíma rannsóknir að þá hafi orðið eitt mesta eldgos á Íslandi á sögulegum tíma og sennilega stærsta og mannskæðasta sprengigos frá því land byggðist.
Vitað er að annað eldgos varð í Öræfajökli 1727 og er það talið hafa verið mun minna. Sama gildir um það gos, um það eru mjög takmarkaðar heimildir í annálum. En um það gos er þó til lýsing sjónarvotts á upptökum og afleiðingum. Þar er um að ræða lýsingu séra Jóns Þorlákssonar sóknarprests í Sandfelli.
Sandfell í Öræfum
Jón var fæddur árið 1700 á Kolmúla við Reyðarfjörð og var prestur í Sandfelli í Öræfum 1723-1732, því aðeins 27 ára þegar eldumbrotin urðu. Hann skrifar samt ekki lýsingu sína á því sem gerðist fyrr en um 50 árum seinna, þegar hann er sóknarprestur á Hólmum í Reyðarfirði.
Sagt er var um séra Jón, "hann var mikilfengur og hraustmenni, fastlyndur og geðríkur, og lét lítt hlut sinn." Fer frásögn hans hér á eftir:
"Árið 1727, hinn 7 ágúst, er var 10. sunnudagur eftir trinitatis, þá er guðsþjónusta var byrjuð í heimakirkjunni á Sandfelli og ég stóð þar fyrir altarinu, fann ég hreyfingu undir fótum mér. Gaf ég henni eigi gaum í fyrstu, en undir prédikun fóru hræringar þessar mjög vaxandi, og greip menn þá felmtur, en samt sögðu menn, að slíkt hefði áður við borið. Gamall maður og örvasa gekk niður að lind, sem er fyrir neðan bæinn og kraup þar á kné stundarkorn, og hlógu menn að þessu atferli hans. Þegar hann kom aftur og ég spurði hann, hvers hann hefði verið að leita, svaraði hann: Gætið yðar vel, herra prestur, það er kominn upp jarðeldur. Í sama bili varð mér litið til kirkjudyranna, og sýndist mér þá eins og öðrum, sem viðstaddir voru, líkt og húsið herptist og beygðist saman.
Ég reið frá kirkjunni en gerði eigi annað en að hugsa um orð öldungsins. Þegar ég var fyrir neðan miðjan Flögujökul og varð litið upp á jökultindinn, virtist mér sem jökullinn hækkaði og belgdist út aðra stundina, en lækkaði og félli saman hina. Þetta var ekki heldur missýning, og kom það brátt í ljós, hvað þetta boðaði. Morguninn eftir, mánudaginn 8. ágúst, fundu menn eigi aðeins tíða og ægilega landskjálftakippi, en heyrðu einnig ógnabresti, sem ekki voru minni en þrumuhljóð. Í þessum látum féll allt, sem lauslegt var í húsum inni, og var ekki annað sýnna en allt mundi hrynja, bæði húsin og fjöllin sjálf. Húsin hrundu þó eigi. En það jók mjög á skelfingu fólksins, að enginn vissi, hvaðan ógnin mundi koma né hvar hún dyndi yfir. Klukkan 9 um morguninn heyrðust 3 miklir brestir, sem báru af hinum; þeim fylgdu nokkur vatnshlaup eða gos og var hið síðasta mest, sópuðu þau brott hestum og öðrum peningi, er fyrir þeim urðu, í einu vetfangi.
Þar á eftir seig sjálfur jökullinn niður á jafnsléttu, líkt og þegar bráðnum málmi er hellt úr deiglu. Hann var svo hár, er hann var kominn niður á jafnsléttuna, að yfir hann sá ég ekki meira af Lómagnúpi en á stærð við fugl. Að þessu búnu tók vatnið að fossa fram fyrir austan jöklana og eyddi því litla, sem eftir var af graslendi. Þyngst féll mér að horfa á kvenfólkið grátandi og nágranna mína ráðþrota og kjarklausa. En þegar ég sá, að vatnsflóðið leitaði í áttina til bæjar míns, flutti ég fólk mitt og börn upp á háan hjalla í fjallinu, sem Dalskarðstorfa heitir. Þar lét ég reisa tjald og flytja þangað alla muni kirkjunnar, matvæli, föt og aðrar nauðsynjar, því að ég þóttist sjá, að þótt jökullinn brytist fram á öðrum stað, mundi þó hæð þess standa lengst, ef guði þóknaðist; fólum við okkur honum á vald og dvöldumst þar.
Ástandið breyttist nú enn við það, að sjálfur jökullinn braust fram og bárust sumir jakarnir allt á sjó fram, en hinir stærri stóðu rétt við fjallsræturnar. Þessu næst fylltist loftið af eldi og ösku, með óaflátanlegum brestum og braki; var askan svo heit, að engin sást munur dags og nætur og af myrkri því, er hún olli; hið eina ljós er sást, var bjarminn af eldi þeim sem upp var kominn í 5 eða 6 fjallaskorum. Í 3 daga samfellt var Öræfasókn þjáð á þennan hátt með eldi, vatni og öskufalli. Þó er ekki létt að lýsa þessu eins og í raun réttri var, því að öll jörðin var svört af vikursandi og ekki var hættulaust að ganga úti sakir glóandi steina, sem rigndi úr loftinu, og báru því ýmsir fötur og kollur á höfðinu sér til hlífðar.
Hinn 11. sama mánaðar tók ögn að rofa til í byggðinni, en eldur og reykur stóð enn upp úr jöklinum. Þennan dag fór ég við fjórða mann til þess að líta eftir, hversu sakir stæðu á kirkjustaðnum Sandfelli, sem var í hinni mestu hættu. Þetta var hin mesta hættuferð, því að hvergi varð farið nema milli fjallsins og hins hlaupna jökuls, og var vatnið svo heitt, að við lá, að hestarnir fældust. En þegar við vorum komnir svo langt, að fram úr sá, leit ég við. Sá ég þá, hvar vatnsflaumur fossaði ofan frá jöklinum, og hefði hann sennilega orðið bani okkar, ef við hefðum lent í honum. Ég tók því það til bragðs að ríða fram á ísbreiðuna og hrópaði til förunauta minna að fylgja mér hið skjótasta. Með þeim hætti sluppum við og náðum heilu og höldnu að Sandfelli. Jörðin ásamt tveimur hjáleigum var að fullu eydd, og var ekkert eftir nema bæjarhúsin og smáspildur af túninu. Fólkið var grátandi úti í kirkju.
En gagnstætt því, sem allir héldu, höfðu kýrnar á Sandfelli og fleiri bæjum komist lífs af, og stóðu þær öskrandi hjá ónýtum heystökkum. Helmingur fólksins á prestsetrinu hafði verið í seli með 4 nýlega reistum húsum. Tvær fullorðnar stúlkur og unglingspiltur flýðu upp á þak hæsta hússins, en skjótt þar á eftir hreif vatnsflaumurinn húsið, þar sem það, eftir sögn þeirra, er á horfðu, stóðst ekki þunga aurflóðsins, sem féll að því. Og meðan menn sáu til stóðu þessar þrjár vesalings manneskjur á þakinu. Lík annarrar stúlkunnar fannst seinna á aurunum, það var brennt og líkast sem það væri soðið. Var varla unnt að snerta hið skaddaða lík, svo var það meyrt orðið. Allt ástand sveitarinnar var hið hörmulegasta. Sauðféð hafði flest farist, sumt af því rak seinna á fjörur í þriðju sókn frá Öræfum. Hey skorti handa kúnum, svo að ekki var unnt að setja nema fimmta hluta þeirra á vetur.
Eldurinn brann án afláts í fjallinu frá 8. ágúst fram til sumarmála í apríl árið eftir. Fram á sumar voru steinar svo heitir, að af þeim rauk, og var ekki unnt að snerta þá í fyrstu. Sumir þeirra voru fullbrenndir og orðnir að kalki, aðrir voru svartir á lit og holóttir, en í gegnum suma var unnt að blása. Flestir þeir hestar, sem hlaupið hafði ekki borið út á sjó, voru stórkostlega beinbrotnir, er þeir fundust. Austasti hluti Síðusóknar skemmdist svo af vikri, að menn urðu að slátra miklu af búpeningi.
Á sumardaginn fyrsta árið eftir, 1728, fékk ég nefndarmann einn með mér til að kanna sprungurnar í fjallinu; var þá hægt að skríða um þar. Ég fann þar dálítið af saltpétri og hefði getað safnað nokkuð af honum, ef hitinn hefði ekki verið svo mikill, að ég var tregur til að haldast þar við. Á einum stað var stór, brunninn steinn á sprungubarmi; af því að hann stóð tæpt, hrundum við honum niður í sprunguna, en ómögulegt var okkur að heyra, er hann nam við botn. Þetta, sem nú er sagt, er hið markverðasta, sem ég hef frá að skýra um þennan jarðeld.
Þó skal því við bætt, að húsmaður einn sagði mér, að hann hefði nokkru áður en eldurinn kom upp heyrt hljóð í fjallinu, sem líktust andvörpum og málæði margra manna, en þegar hann fór að hlusta betur, heyrði hann ekkert. Ég tók þetta til íhugunar og vildi ekki reynast miður forvitinn, og ég get ekki borið á móti því, að ég heyrði hið sama. Þetta kvað og hafa gerst víðar, þar sem eldur var uppi með sama hætti. Þannig hefur guð leitt mig í gegnum eld og vatnagang, ótal óhöpp og andstreymi allt fram til 80. æviárs. Hann sé lofaður, prísaður og í heiðri hafður að eilífu."
Frásön séra Jóns Þorlákssonar er fengin af stjörnufræðivefnum.
Heldur áfram að dýpka og stækka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk Magnús, mjög fróðlegt að lesa þessa frásögn.
Og þetta var "litla" gosið.
Hvað skyldi gerast ef hið stóra kæmi??
Svo heyrir maður því klínt á jarðfræðingana að þeir séu í einhverskonar eftirlitsiðnaði.
Þegar aðvaranir þeirra í tíma eru kannski eina lífsvon fjölda fólks.
Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.12.2017 kl. 08:47
Sæll Ómar, já það er sagt að þetta hafi verið "miklu minna" gosið af þeim tveim sem hafa átt sér stað frá landnámi, engar frásagnir eru til af stærra gosinu 1362, þó svo að í Litla-Héraði hafi fram að því búið helstu höfðingjar landsins. Það bendir til að það hafi hreinlega engin verið eftir til frásagnar.
Það er svipað með jarðfræðinga og veðurfræðinga betra að taka mið af spánni, þó svo hyggjuvit hvers og eins fái að ráða fyrir rest. Því varla er rétt að banna fólki alfarið að fara sér að voða, þegar aðeins eitt er víst í þessu jarðlífi hvort eð er.
Magnús Sigurðsson, 8.12.2017 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.