24.8.2019 | 09:29
Sorry speak english
Hvað ætli það hafi margir þjónustustaðir breyst Sorry speak english staði á landinu bláa undanfarin ár? Mér varð hugsað til þessa í gær þegar ég þurfti vegna vinnu að heimsækja stað sem fyrir nokkrum vikum síðan var töluð íslenska og enska. En í gær bar svo við að íslensku kunnáttan virtist vera fyrir bý. Í nágrannalöndum s.s Noregi er lögð áhersla á það að þeir sem komi fram fyrir hönd fyrirtækis tali hið opinbera tungumál.
Þegar hið svokallaða hrun dundi á landanum þurfti síðuhöfundur á endanum að flýja til Noregs til að losna við íslenskumælandi stefnuvottana af útidyrasnerlinum. Þar réði ég mig hjá norsku múrarafyrirtæki og var áður spurður hvort ég kynni norsku. Þó svo að ég svaraði á ensku þá sagðist ég ekki vera í nokkrum vandræðum með norskuna þyrfti bara smá æfingu. Annan daginn hjá fyrirtækinu í Noregi var ég spurður hvenær ég ætlaði að fara að tala norsku. Ég svaraði á ensku eftir viku en meiri þolinmæði þyrfti með múrverkið það gæti tekið mig mun lengri tíma að læra það.
Fljótlega var ég settur inn í verkefni sem ég átti að vinna mig fram úr einn en norskur vinnufélagi var mér til halds og trausts fyrstu klukkutímana. Þar var verið að byggja kyndistöð fyrir fjarvarmaveitu og átti ég að hlaða veggi, sem þurfti að hífa hleðslusteininn í og forfæra á lyftara. Við vinnufélaginn töluðumst við á ensku. Sá sem var í hífingunum sagði yggldur á brún við mig hvis du skal jobbe her i norge, må du snakke norsk.
Ég svaraði honum eins vel og ég gat á barnaskóla dönskunni minni; að það væri norski vinnufélagi minn sem talaði við mig á ensku því hann væri að æfa sig í henni. Og bara svo að hann vissi það þá væri ég sá eini af okkur þrem sem talaði ekta norsku en hana skildu þeir tveir ekki lengur. Þessi aldni kranabílstjóri heilsaði mér kumpánlega í hvert skipti sem við hittumst eftir þetta og ég komst fljótlega að því að norskan hefur orðið yfir ósvífni sem smitast hefur inn í íslenskuna, þ.e. orðið gálgahúmor.
Fyrsta daginn í nýja starfinu komst ég að því að vinnufélagarnir voru jafnmargir af erlendu bergi brotnir og norsku. Helmingurinn af þeim var frá Afganistan og Súdan, en þeir töluðu norsku. Þessir vinnufélagar hjálpuðu mér mikið með norskuna því enskan var þeim flestum framandi og eina ráðið til þess að skilja hvern annan var að tala saman á norsku. Fljótlega bættist málgefinn pólverji í vinnufélaga hópinn sem var búin að vera í fjölda ára í Noregi en talaði bara lélega ensku.
Við unnum tveir saman um tíma og þá sagði hann mér að hann hefði verið skildaður á norsku námskeið oftar en einu sinni og skildi vel norsku. Ég sagði honum þá að eftirleiðis talaði ég bara við hann á norsku. Hann þrjóskaðist við í þögn fyrsta daginn en fór svo að reyna að ná sambandi. Eftir nokkra daga vorum við farnir að rífast um það þegar við keyrðum yfir Tjadsundsbrúna, hvort málvenjan væri að segja Tjeldsundsbrua eða bru á norsku. Þessi vinnufélagi sem talaði ekki norsku við aðra en mig, var á lægri launum en við hinir þrátt fyrir að vera með sömu afköst, og var sá fyrsti sem tók pokann sinn þegar verkefnin drógust saman.
Framkvæmdastýra fyrirtækisins hafði það oft á orði að það hefði verið furðulegt að verða vitni af því hvað ég varð fljótt altalandi á norsku eftir að hafa orðið uppvís af því að skrökva til um það á ensku að ég kynni hana. Einn norski vinnufélaginn, sá sem elstur og sigldastur var, sagði þá að hann grunaði mig um græsku. Hvort ekki gæti verið að danska væri kennd í íslenskum barnaskólum?
Þessi lífsreyndi norski vinnufélagi var u.þ.b. að ljúka sinni starfsæfi á þeim tíma sem ég var þarna við störf. Við spjölluðum oft um heima og geima og einu sinni sagði hann við mig Magnús heldurðu að það hefði þýtt að segja mér það árið 1999, þegar fáheyrt var að útlendingur starfaði í norskum byggingaiðnaði, að um áratug seinna myndi ég vinna með eintómum útlendingum sem ekki væri hægt að tala við um norsk málefni.
Þó svo að ég tæki þetta ekki til mín, því íslendingur í Noregi er fyrir norðmönnum nokkurskonar litli bróðir, þá fauk nett í mig og ég sagði honum það að norðmenn ættu kannski að hugsa aðeins út í hverskonar pólitíkusa þeir veldu sér og láta aðrar þjóðir í friði. Þegar ég sagði upp eftir þriggja ára veru til að halda heim á landið bláa, þá sagði sá gamli upp rétt á eftir. það var stutt í eftirlaunaaldurinn hjá honum og hann sagðist ekki lengur nenna að vera félagslega fatlaður á norskum vinnumarkaði.
Þetta rann allt saman eins og ísaldarleir á milli eyrnanna í gær þegar ég kom óundirbúinn inn á sorry speak english stað. Þarna höfðu verið fyrir aðeins nokkrum vikum eintómir íslendingar við störf. Sennilega hafa einhverjir þeirra verið í sumarvinnu og eru nú komnir í æðri menntastofnanir, jafnvel til að læra að kenna ungdómnum hvernig á að stafa sorry speake english. Eða jafnvel að ná sér um háskólagráður, sem kannski nýtast ekki til annars en atvinnuleysisbóta, nema þau læri að segja sorry á fleiri tungumálum en ensku. Því acctually er það svo að basically þarf að tala þjóðtunguna hvar sem er í heiminum til að eiga góðan séns.
Varla verður því trúaða að auravonin ein stýri þar sem landsliðið í kúlu hefur haft hönd í bagga, að sorry speak english sé gert að opinberri kveðju á Íslandi. Nema að það sé meiningin að Fly Bus4You rúturnar flytji einungis enskumælandi Greyline túrista inn á sorry speak english staðina. Það gæti á endanum orðið erfiðara fyrir kúluspilarana að snúa sig út úr því en fyrir Air Iceland Conect að verða aftur að Flugfélagi Íslands.
Jafnvel erfiðara en það var fyrir óskabarn þjóðarinnar Eimskip að halda upp á 100 ára afmælið á splunku nýju kennitölunni um árið með angurværum auglýsingum á öllum sjónvarpsstöðvum, þar sem kona og börn tóku á móti fjölskylduföðurnum í íslenskri lopapeysu með viðlaginu sértu velkominn heim, yfir hafið og heim .
Hefur áhyggjur af íslenskunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Satt segirðu. Maður kemur svo varla inn í verslun, að það mæti manni ekki enskutalandi afgreiðslufólk frá hinum og þessum löndum. Ef maður þarf að spyrja að einhverju, þá er oftar en ekki sagt við mann: "English please." En það, sem verra er, að þegar það hefur verið nefnt, sem mann vantar, þá er alveg undir hælinn lagt, hvort fólkið skilur, hvað um er að ræða. Ég hef tvisvar lent í slíku, annars vegar í Krónunni á Grandanum, þar sem ég þurfti að spyrja, hvar tiltekna vöru var að finna. "English please," var það fyrsta, sem stúlkan sagði við mig. Þegar ég nefndi það á ensku, þá virtist hún ekki kunna ensku betur en svo, að hún ranghvolfdi í sér augunum, meðan hún var að hugsa, hvað það væri nú, sem ég væri að spyrja um, en sagðist síðan ætla að ná í vinkonu sína, sem vissi áreiðanlega, hvað ég væri að meina. Sú var íslensk og benti mér þegar í stað á hilluna, sem vöruna var að finna. Í 10-11 í Austurstrætinu vildi ég athuga, hvort væru til teljós eða kerti, sá þau ekki í augnablikinu, en spurði eina afgreiðslustúlkuna, hvort þau hefðu ekki slíka vöru á boðstólum. Hún var greinilega útlensk en virtist kunna íslensku, þó að kunnátta hennar í tungumálinu virtist ekki betri en svo, að þegar ég nefndi teljós, þá sýndi hún mér tesortirnar, sem voru á boðstólum í búðinni, en þegar ég sagði orðið kerti, þá sýndi hún mér ljósaperur, og hefur sennilega heyrt talað um svo og svo margra kerta ljósaperur. Þá velti ég nú fyrir mér, hvort við húsmæðurnar þyrftum að læra rússnesku eða pólsku til þess að geta gert okkar innkaup í verslununum. Hennar hátign, Margrét Þórhildur Danadrottning, hefur oftar en ekki sagt það bæði í ræðu og riti, að það fólk, sem til Danmerkur kæmi, bæri að aðlaga sig að þjóðlífi og menningu landsins og kunna vel tungumálið, ef það væri alvara þeirra að búsetja sig og stunda atvinnu þar til frambúðar, en ekki öfugt. Sömu kröfur eru gerðar á hinum Norðurlöndunum, en við erum alltof værukær og máttlaus í þessum efnum, finnst mér. Auðvitað eiga þeir, sem koma hingað og vilja lifa og starfa hérna, að aðlagast íslenskum aðstæðum og kunna vel íslenskuna. Annað gengur ekki. Ég get nefnt enn eitt dæmi. Fyrir nokkrum árum létum við í húsinu, sem ég bý í, taka húsið í gegn að utan. Vinnuflokkur kom hér, sem samanstóð af fjórum mönnum, helmingurinn var íslenskur og hinn helmingurinn sennilega frá einhverju Austantjaldslandi svokölluðu. Verkstjórinn og eigandi fyrirtækisins var íslenskur, en skildi ekki nema annan útlendinginn, sem talaði ensku og var þýðandi fyrir félaga sinn. Að þeir vissu nokkuð, hvað maður segði, þegar maður bauð góðan dag á íslensku, var útilokað. Sín í milli töluðu þeir lettnesku, pólsku eða hvað málið var nú, sem þeir töluðu. Þetta gengur náttúrulega ekki, verð ég að segja. Meira að segja í strætó verður maður að tala ensku við suma bílstjóranna, og einn þeirra, sem er Indverji, hefur alltaf drynjandi BBC-World Service yfir manni alla leiðina niðrí bæ, eins og einhver hafi áhuga á að hlusta sífellt á það. Ég gæti nefnt mýmörg dæmi til viðbótar, en þetta sýnir, að það verður að fara að taka þessi mál til gagngerðrar endurskoðunar og gera meiri kröfur til þeirra, sem vilja koma hingað, búa hér og starfa, og gera álíka miklar kröfur til þeirra og frændur okkar á Norðurlöndum gera til þeirra, sem koma sömu erinda til þeirra landa, jafnvel okkar meira að segja líka, og setja alla í ákveðið innflytjendapróf, sem eru býsna þung, eftir því að dæma, sem hefur birst af slíku í dönsku dagblöðunum. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Hins vegar er það svo, að börn á Norðurlöndunum tala saman á ensku í stað móðurmála sinna, Dani og Norðmaður tala frekar saman á ensku en dönsku eða norsku. Þegar danska leikkonan, Gitte Nörby, var spurð í ferð sinni til Noregs í vor, hvernig henni litist á slíka þróun, þá var því fljótsvarað af hennar hálfu. Það væri algerlega óverjandi. Fólk á Norðurlöndunum ætti að geta skilið hvort annað og tungur hvors annars, og ef eittihvað orkaði tvímælis, þá mætti alltaf segja, að viðkomandi skildi ekki vel, hvað hinn aðilinn væri að segja. Leikkonan tók fram, að við værum hvorki Englendingar eða Ameríkanar, og hvers vegna í ósköpunum ættum við þá að tala saman á ensku, þegar við ættum að geta skilið tungumál hvors annars. Ég get sagt það sama. Ég hef vanið mig á það að tala aldrei á ensku við Norðurlandabúa, enda kann ég vel dönsku og eitthvað í norsku og sænsku líka, svo að ég svara þeim á þeirra þjóðtungum, og þeir verða aldeilis undrandi, að það sé til fólk hérna, sem getur talað tungumálin. Um þrálát samtöl á ensku hér á Íslandi milli aðfluttra og innlendra, segi ég samt eins og Þorgeir Ljósvetningagöði sagði um trúna, að ef þetta á að vera viðvarandi og augljóslega tvær þjóðir í landinu, þá slítum við í sundur friði. Svo einfalt finnst mér það mál vera. Það á að skylda fólk til að læra og tala íslensku sín í milli, bæði aðfluttir sem innlendir. Annað gengur ekki.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 24.8.2019 kl. 12:23
Þakka þér fyrir þessar reynslusögur Guðbjörg Snót.
Ég er sammála þér með það að þeir sem hafa hugsað sér að byggja þetta land og njóta ávaxta þess eiga að tala góða íslensku hvort sem um aðflutta eða innfædda er að ræða.
Enskan sem töluð er hér á landi hefur mér þótt léleg, ljót og innihaldslaus enda flestir þeir sem hana tala ekki komnir frá enskumælandi löndum og kunna lítið í henni rétt eins og dæmisagan þín segir svo vel frá.
Auðvitað ættu íslendingar að setja mörkin, rétt eins og frændur vorir á norðurlöndunum, hvort sem það er gert með valdboði eða að þeir sem bjóða upp á illa talandi starfskrafta í þjónustu taki það á sinn reikning sjálfviljugir.
En þá er líka kannski orðið spurning hvort það borgi sig ekki bara allt eins að hafa íslendinga í þjónustustörfum frekar en að eltast við ódýrasta vinnuaflið í þau störf og narra ungdóminn til langtímanáms.
Eins og ég segi stundum pólverjunum sem ég hef unnið með í gegnum tíðina þá eru þeir búnir að hirða öll skemmtilegustu störfin af íslendingum, og þetta vita þeir upp á hár, enda margir þeirra með háskólagráður.
Magnús Sigurðsson, 24.8.2019 kl. 13:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.