2.9.2019 | 17:12
Í EES við vögum vær með vora byrði þunga
Sú stund virðist nálgast óðfluga að þjóðin taki loks afstöðu til EES samningsins, sem hún var svikin um að fá að kjósa um hvort hún vildi undirgangast. Stjórnmálamenn hafa í reynd aldrei staðið vörð um hagsmuni almennings þegar EES hefur verið annars vegar þó svo að öll opinber umræða hafi mært þann samning fram til þessa. Nú síðast taldi landráðaliðið (sem staðið hefur verið að því kjararáðssópa ofan í eigin vasa) ekki verða hjá því komist að samþykkja erlent boðvald við að markaðsvæða orkuna.
EES samningurinn hefur opnað allar gáttir, eða eins og stjórnmálaforingjar síns tíma orðuðu það svo smekklega "allt fyrir ekkert". Ágætt er að hafa það á bak við eyrað, ef fólk hefur ekki verið vaknað nógu snemma í morgunn, að kl 7:15 var öllum kirkjuklukkum landsins hringt vegna þess mikla fíkniefnavanda sem við blasir í landinu. Það hefði ekki þýtt að segja það nokkrum lifandi manni eftir að stjórnmálmenn með EES stjörnurnar í augunum stefndu á fíkniefnalaust Ísland árið 2000 að öllum kirkjuklukkum landsins yrði hringd 2019, til að vekja fólk til vitundar um að fíkniefnavandinn í landinu hefði náð áður óþekktum hæðum, sama dag og forræðið yfir orkunni var látið af hendi
En hvað hefur EES samningurinn raunverulega fært Íslendingum? Nú síðast í dag voru orkuauðlindirnar settar í uppnám hvað íslenskan almenning varðar. Fyrr á árinu kom í ljós að í skjóli hans voru skorður á innflutningi hrárra kjötvara fallnar. Þær raddir hafa orðið háværari sem bent hafa á að fullt tollafrelsi gagnvart ESB hafi aldrei verið uppfyllt hvað sjávarafurðir áhrærir eins og til stóð þegar EES samningurinn var í upphafi kunngjörður.
Síðuhöfundur lét sig hafa það árið 1993 að lesa EES samninginn, þá íslensku útgáfu sem utanríkisráðuneytið bauð almenningi upp á, og komst þá að þeirri niðurstöðu að þetta væri vondur samningur sem gæti þýtt "allt fyrir ekkert" fyrir þann sem væri meiri máttar. Þegar EES samningurinn var kynntur fyrir almenningi, á sínum tíma, bar hæðst tollafrelsi á unnum sjávarafurðum sem brothættar byggðir landsins þurftu sannarlega á að halda. Allir vita hvernig fór stærstur hluti brothættu byggðanna brotlenti, og sjávarfang fer nú óunnið úr landi sem aldrei fyrr.
Um síðustu aldamót upplifði ég stór tímamót. Það Ísland sem ég þekkti var horfið og fiskimiðin endanlega komin á markað, breytingarnar tóku aðeins örfá ár. Síðasta árið sem ég bjó á staðnum, sem átti að verða mitt heima í þessu lífi, dundaði ég mér við að mála myndir. Einn daginn kom til mín vinkona, sem vann í fiski, með smásagnabók eftir Selmu Lagerlöf og bað mig um að mála mynd eftir einni sögunni í bókinni. Henni langaði svo mikið til að vita hvaða mynd ég læsi út úr sögunni. Ég varð við þessari bón og máliði mynd fyrir hana og lét texta fylgja.
Sagan Hreiðrið eftir Selmu Lagerlöf segir frá einbúanum Hattó sem fór út í auðnina og bað Drottinn engrar smábænar, hvorki meira né minna en um að tortíma heiminum. Því svo miklar voru syndir mannanna að frelsa þurfti þá ófæddu frá lífinu sjálfu. Þann tíma sem hann var á bæn komu máríerlurnar og gerðu hreiður í hendi hans vegna þess að eina tréð í nágreninu var greinalaust og Hattó líkari tré sem veitti skjól. Hattó fór smá saman að finna til samkenndar með íbúum hreiðursins og sannfæringarmáttur bænar hans dvínaði smátt og smátt. Að endingu bað hann hreiðrinu griða.
Sævar sjómaður hafði aldrei beðið bæna í líkingu við bæn Hattós. Hér áður fyrr þegar fiskverð var lágt, hafði honum í versta falli komið það til hugar að kaupfélagið væri dragbítur á framfarir og mætti því missa sig. Með tímanum tóku við nýir siðir sem Sævar átti erfitt með að skilja, hann mátti ekki veiða nema ákveðinn afla hvernig sem gaf. Það undarlega var að verðið sem hann þurfti að fá fyrir fiskinn fékk hann fyrir hann óveiddan og kallaðist þetta markaðsvæðing. Kaupfélagið fór á hausinn því það réði ekki við að kaupa óveiddan fisk á markaðsverði.
Svo hrundi vitinn í gjörningaveðrinu mikla og leiðsögnin brást. Á endanum varð hið gjöfula haf sem ófær eyðimörk fyrir Sævari og hann gat hvorki flotið burt á sínum brotna bát né séð fjölskyldunni farborða. Fram til þessa höfðu Sævar og Hattó aðeins átt eina bæn sameiginlega, þá að biðja Drottinn um að þyrma hreiðrinu.
Athugasemdir
Þingmenn Miðflokksins hafa margoft sagt að þeir hafi engan áhuga á að segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
En ef einhverjir Íslendingar vilja það geta þeir að sjálfsögðu gengið í Íslensku þjóðfylkinguna eða "Kristin" stjórnmálasamtök Jóns Vals Jenssonar.
Íslenska þjóðfylkingin fékk 0,2% atkvæða í alþingiskosningunum í október 2016.
"Í Kristnum stjórnmálasamtökum eru 15 manns."
Jón Valur Jensson, 9.8.2014
Þorsteinn Briem, 2.9.2019 kl. 17:51
Um 84% af öllum útflutningi okkar Íslendinga voru seld til Evrópska efnahagssvæðisins árið 2009, þar af um 80% af öllum sjávarafurðum okkar og 90% af öllum iðnaðarvörum.
Og meirihlutinn af erlendum ferðamönnum sem dvelja hér á Íslandi eru búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu en á því svæði eru Evrópusambandsríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein.
Lífskjör hér á Íslandi myndu einfaldlega hrynja strax ef við Íslendingar gætum ekki lengur selt sjávarafurðir til Evrópusambandsríkjanna og þar að auki greiða þau hæsta verðið fyrir íslenskar sjávarafurðir.
Í Evrópusambandsríkjunum býr um hálfur milljarður manna sem neytir árlega um tólf milljóna tonna af sjávarafurðum og árið 2006 var afli íslenskra skipa tæpar 1,7 milljónir tonna.
Þar að auki eru lágir tollar á íslenskum sjávarafurðum í Evrópusambandsríkjunum, eða 650 milljónir íslenskra króna árið 2008.
Um 65% af öllum innflutningi okkar Íslendinga var keyptur frá Evrópska efnahagssvæðinu árið 2009 og þá voru um 84% af öllum útflutningi okkar seld þangað.
Þorsteinn Briem, 2.9.2019 kl. 17:53
Evrópusambandsríkin selja að sjálfsögðu ekki mikið af sjávarafurðum hingað til Íslands en hins vegar töluvert af landbúnaðarafurðum.
Og við Íslendingar seljum langmest af okkar sjávarafurðum til Evrópusambandsríkjanna.
Þar af leiðandi er eðlilegt að tollar á landbúnaðarafurðum frá Evrópusambandsríkjunum verði felldir niður hér á Íslandi á móti niðurfellingu tolla á sjávarafurðum héðan frá Íslandi í Evrópusambandsríkjunum.
Það yrði að sjálfsögðu til hagsbóta fyrir neytendur í Evrópusambandsríkjunum en einkum neytendur hér á Íslandi með stórlækkuðu verði hér á landbúnaðarafurðum frá Evrópusambandsríkjunum.
Og allir eru neytendur, einnig framleiðendur íslenskra landbúnaðarvara.
Með aðild Íslands að Evrópusambandinu falla niður tollar á íslenskum landbúnaðarvörum í Evrópusambandsríkjunum og þar af leiðandi yrði hægt að stórauka útflutning héðan frá Íslandi á fullunnum landbúnaðarvörum, til að mynda skyri og lambakjöti, til Evrópusambandsríkjanna.
Það á einnig við um fullunnar sjávarafurðir, þannig að atvinna í fullvinnslu í þessum greinum eykst hér á Íslandi með aðild Íslands að Evrópusambandinu.
26.8.2010:
"Tíu þúsund störf gætu tapast í Englandi og Skotlandi verði íslenskum og færeyskum skipum bannað að landa þar ferskum fiski.
Andrew Charles, fiskverkandi í Bretlandi, sagði í samtali við BBC að slíkt löndunarbann jafngilti því að loka höfnunum í Grimsby og Hull."
Tíu þúsund störf gætu tapast í Englandi og Skotlandi vegna löndunarbanns
Þorsteinn Briem, 2.9.2019 kl. 18:06
Steini, á allri skömm eru takmörk, og skammastu þín, þú lest snildarfærslu, og þú spamar.
Er ekkert í heila þínum sem kennir þér að lesa og skilja, og sá skilningur leiðir síðan til þess að þú tjáir þig út frá því sem þú last.
Ussum og svei svei.
En Magnús, þessi færsla þín gæti verið einn kafli í Bókinn, Sjálfstætt fólk.
Hafðu mikla þökk fyrir, enn og aftur.
Kveðja frá neðra.
Ómar Geirsson, 2.9.2019 kl. 18:25
Skip frá ríkjum Evrópusambandsins hafa lítið veitt hér á Íslandsmiðum síðastliðna áratugi og fá því engan aflakvóta á Íslandsmiðum með aðild Íslands að Evrópusambandinu, nema þá að íslensk fiskiskip fengju jafn verðmætan aflakvóta í staðinn.
Í aðildarsamningi Noregs og Evrópusambandsins fengu skip frá Evrópusambandsríkjunum að veiða í norskri lögsögu, enda er um sameiginlega fiskveiðiauðlind margra ríkja að ræða í Norðursjó, svo og Eystrasalti og Miðjarðarhafinu, þar sem margar fisktegundir ganga úr einni lögsögu í aðra.
Íslensk fiskiskip veiða úr flökkustofnum í erlendri lögsögu samkvæmt samningum við önnur ríki, öllum til hagsbóta.
Og við Íslendingar munum að sjálfsögðu fyrr eða síðar semja við önnur ríki um veiðar úr makrílstofninum, enda ber okkur skylda til þess samkvæmt Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna.
Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna - United Nations Convention on the Law of the Sea
Þorsteinn Briem, 2.9.2019 kl. 18:34
Sæll Steini, þakka þér fyrir upplýsingarnar. Ég þykist sjá á fyrstu athugasemdinni að þú hefur tekið afstöðu til EES. Á þeirri næstu sé ég í smiðju hverra þú leitar með röksemdirnar.Og í þeirri þriðju að þú hefur sótt þér upplýsingar um hversu mörg störf eru talin tapast af anti Brexit sinnum. En segðu mér eitt Steini mælir þú lífið og tilveruna alfarið í útflutningi og störfum?
Sæll Ómar, takk fyrir hrósið. Það skilja það kannski ekki allir á sama hátt og við, sem höfum reynt á eigin skinni, hvers virði það er að halda landinu í byggð og að eyðibýlastefna leiðir óhjákvæmilega á endanum til síðasta bæjarins í dalnum.
Með kveðjum úr efra.
Magnús Sigurðsson, 2.9.2019 kl. 18:45
Takk Magnús fyrir góðan pistil að venju.
Þessi stjórnmálaelíta á þingi kann auðvitað ekki að skammast sín.
Það er ekkert gott við þessa samþykkt orkupakka 3 ekki einu sinni að hægt verði að finna til votts af Þórðargleði þegar VG og fleiri (t.d. gamla Framsókn) slíkir fara að reka upp ramakvein þegar Landsvirkjun verður einkavædd. Einfaldlega af því að þeir munu aldrei ná því stigi að skammast sín fyrir eigin aumingjaskap. Gerðu það ekki vegna eftirhrunsmála, ekki vegna sýklainnflutnings, standa í dag á gati yfir því að útlendingar skuli fjárfesta í landi og laxi m.a. þó slíkt hafi verið opnað upp á gátt með téðum samningi þ.e. EES samningnum.
Eina mögulega jákvæða sem út úr þessu kæmi gæti hugsanlega,mögulega en þó tæplega, orðið sú að þjóðin svipti sér út úr þessu EES rugli þegar ljóst verður hvert stefnir.
En til þess þarf þessi blessuð þjóð að vakna ekki síður en gagnvart fíkniefnavandanum.
Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 2.9.2019 kl. 21:11
Þú ert meistari Magnús. Takk fyrir þennan einstaka og eftirtektarverða pistil sem mér finnst loga af skáldlegri snilli.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 2.9.2019 kl. 22:31
Þakka góðan pistil, Magnús. Sagan og myndin góðar og inntakið við hæfi, á þessum örlagadegi.
Þvaðrið í bríminu hér að framan dæmir sig sjálft. Fyrirbærið hefur tekið afstöðu og ekkert að því að finna. Það er hinsvegar sorglegt að sjá hjá því, hve illa gengur að koma sér úr hjólförum ´´copy paste´´ umræðunnar og eilíflegra eltihrellistakta.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 3.9.2019 kl. 00:36
Þakka ykkur fyrir athugasemdirnar félagar, og góð orð í minn garð. Sennilega gæti það eina góða við þennan orkupakka orðið til þess að þjóðin vaknaði, ekki gera áhangendur kúlunnar það úr þessu.
Þegar Steina er mikið niðri fyrir þá gluggar hann í gúggúl og þar er nóg af talnaverki sem fer vel á exel og hefur þar af leiðandi verið dreift um medíuna.
Það er því viss heiður að hafa fengið Steina til að rumska og ekki má gleyma því að hann á það til að koma með stór skemmtilegar athugasemdir sem taka gúggli medíunnar langt um fram, en þær eru frá hjartanu.
Með bestu kveðjum út og suður.
Magnús Sigurðsson, 3.9.2019 kl. 06:22
Þakka þér, Magnús, þennan vekjandi og vel skrifaða pistil, upplýsandi fyrir marga og með réttu áherzlurnar, ólíkt Steina greyinu.
Þakka líka Ómari, Pétri Erni o.fl. hér.
PS. Skrýtið með Steina: Löngu eftir að ég hef ítrekað leiðrétt hans lygi með þessum sannleika: Í Kristnum stjórnmálasamtökum eru 25 manns, heldur hann áfram að ljúga um KS (segir okkur 15 þar). Ætli raðinnlegg hans dælist sjálfkrafa út úr tölvu hans?
Jón Valur Jensson, 3.9.2019 kl. 19:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.