16.9.2019 | 06:07
Fagurt er á fjöllum
Í dag er dagur íslenskrar náttúru. Það var við hæfi að velja dag sem ber upp á fæðingardag Ómars Ragnarssonar, þess íslendings sem hefur átt stærstan þátt í að færa náttúru landsins íbúum þess í sófann. Ómar er nánast goðsögn í lifanda lífi og ef eitthvað vantar þar upp á, þá verður hann það í Íslandssögunni. Hann var áberandi talsmaður varðveislu víðernanna norðan Vatnajökuls og lagði þar allt undir.
Þegar sú barátta stóð yfir þá þekkti ég áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar ekkert af eigin raun, og taldi Ómar jafnvel fara offari. En þó grunaði mig innst inni að eitthvað byggi undir. Því Völundur frændi minn, sjálfur goðinn í Grágæsadal, hafði horfið inn á þessi víðerni hvert sumar frá því ég man, en undir leiðsögn Völundar byrjaði ég mína starfsævi í byggingaiðnaði 12 ára gamall.
Pilthús goðans í Grágæsadal var áður kallað Safnaðarheimilið, en innan við húsið er önnur burst sem í er bænhús. Þó Völundur sé ekki viðlátinn í Grágæsadal er bænhúsið ávalt opið, en þar er ætlast til að beðið sé fyrir landinu
Svo var það fyrir fjórum árum, þegar ég var nýlega kominn úr fjörbaugsgarðinum í Noregi, að við Matthildur mín ákváðu að kaupa okkur fjórhjóladrifinn fjaðrasófa til að skoða víðernin og höfum gert það á hverju sumri síðan. Þessar fjallaferðir hafa verið einstök upplifun í kyrrð auðnarinnar. Jafnvel hending ef maður rekst á landann og þá hefur komið fyrir að hváð sé guði sé lof að hitta íslendinga. Þá á ég ekki við þá náttúru upplifun sem fæst við sportveiðar en það er nú einu sinni þannig að sumir finna sig ekki í íslenskri náttúru nema við veiði. En eftir að skotveiðitímabilin hefjast er allt morandi af landanum á fjöllum austanlands.
Seinnipart sumars höfum við forðast fjöllin að mestu. Hreindýraveiðitímabilið er þá á fullu og stigmagnast skothríðin við gæsaveiðar sem stundaðar eru af kappi. Á þessum tíma hefur verið hitt á ráðvilltan og hrínandi hreindýrskálf í sólbjartri morgunnkyrrðinni og séð til stríðsklæddra útivistarkappa á næsta leit með milljóna græjur við að taka af sér selfí með dauðri móðurinni. Seinnipart sumars rís jafnframt margt fótboltafanið upp úr sófunum og dustar af sér kartöfluflögurnar til að njóta íslenskrar náttúru við að salla niður illa fleyga gæsarunga svo hægt sé að slíta úr þeim bringurnar.
Það sem mig hefur undrað við sportveiðarnar er að þá hverfa öll siðferðileg viðmið yfir utanvegaakstur úr fjölmiðlum. Það virðist vera fullkomlega góðkennt að aka utanvegar svo framarlega sem það er gert í þeim tilgangi að drepa aðrar lífverur ánægjunnar vegna. Enda hafa kapparnir varla burði né tíma til að bera bráðina hvað þá til að reita og svíða gæsina eftir að heim er komið með fótboltann á fullu í sjónvarpinu og tungusófann tilbúinn. Og ef einhver er hugsanlega talin getað hafa farið sér að voða fótgangandi við njóta náttúrunnar á veiðum, þá eru sendar heilu vélaherdeildirnar utanvegar til leitar. Það stóð samt ekki til að fara með þennan pistil út um þúfur með leiðinda langlokum um hvernig íslenskrar náttúru er notið á annan hátt en ég hef geð og getu til, hvað þá á fjallabaksleið við goðsagnir.
Völundur er 89 ára gamall og má því segja að hann hafi slitið barnskónum í árdaga Zeppelín loftfaranna. Hér fer hann yfir ræktunar skilyrði rabarbara í meira en 600 m hæð. Hann segist senda rabarbara úr Grágæsadal einu sinni á sumri á heimaslóðir Eyvindar og Höllu, til skálavarðanna í Hvannlindum með fyrirmælum um hvernig skuli elda grautinn án sykurs, og bera hann fram með rabarbarablöðunum undir diskunum "því allt verður að hafa sína serímoníu sjáðu"
Sumarið 2016 þeystum við Matthildur mín semsagt í fyrsta sinn á fjöll og heimsóttum tvo bernsku nágranna mína af hæðinni. Þá Völund Jóhannesson og Jóhann Stefánsson, en þeir eru jafnaldrar. Jói hafði þá haldið til við Þríhyrningsvatn einn á öræfunum sumrum saman og Völundur frá ómunatíð inn við Grágæsavatn. Það var mjög sértök upplifun að heimsækja þessa öldnu nágranna þar sem þeir dvöldu einir við sitthvort vatnið úti í sandauðninni.
Þetta koma til tals milli okkar Völundar þegar við heimsóttum hann á öræfin núna í sumar. Hann segir þá Jóa heyrast í síma á hverjum morgni kl. 9 til að kanna hvort þeir séu báðir lifandi. Ef annar hvor þeirra svarar ekki og hinn er vant við látin á að hafa samband við Dag Kristmundsson, sem á þá að fara í að athuga málið, enda Dagur ekki nema rétt að slá í áttrætt og enn á þönum við dagleg störf.
Heimsóknin í Grágæsadal í sumar bar upp á verslunarmannahelgi og var létt yfir Völundi að vanda. Rétt eins og fyrir þremur árum var beðið fyrir landinu og ekki ónýtt að hafa með í för til þeirrar bænagjörðar jarðvinnuverktaka inn í helgi bænahússins í Grágæsadal. En það hús sem Völundur kallaði safnaðarheimili fyrir þremur árum hefur nú fengið nafnið Pilthús. Á degi Íslenskrar náttúru 2016 skrifaði ég pistilinn Völundarhús um önnur hús Völundar á hálendinu hann má sjá hér.
Handan næsta leitis vestan við Grágæsadal eiga jökulfljótin Kreppa og Jökulsá á Fjöllum upptök sín í Vatnajökli. Hvort örlög Grágæsadals eiga eftir að verða þau sömu og dalsins austan við hann, sem geymdi Jöklu forðum og fór undir Hálslón, mun tíminn leiða í ljós
Völundur gaf sér góðan tíma til að spjalla í heimsókninni um verslunarmannahelgina. Hann var með stórfjölskyldu úr Reykjavík í árlegri heimsókn við garðyrkjustörf, en í Grágæsadal er hæsti skrúðgarður landsins í yfir 600 metra hæð og hefur Lára Ómarsdóttir gert Ferðastiklu þátt um garðinn, sem má sjá hér.
Það kom til tals hvort dætur hans hefðu komið í dalinn þetta sumarið. Hann sagði að það stæði til; en það er nú bara þannig með þetta unga fólk í dag að það er meira að flækjast erlendis en á landinu sjálfu og er jafnvel erlendis hálft árið. Systurnar ungu eru á svipuðum aldri og ég, ekki nema rétt svo sitt hvoru megin við sextugt.
Áður en við fórum bauð Völundur okkur inn í bæ og vildi sýna mér eldhólf á eldavél sem hann hafði ætlað að fóðra með eldföstum steini sem ég hafði klofið fyrir hann í fyrravor. Vegna þess að hann lét mig hafa akkúrat jafn marga steina og hann þurfti, og að sama dag og ég hugðist kljúfa þá áætlaði Völundur að fara á fjöll, þá greip ég til varúðarráðstafana. Að morgni þess dags var ég við að steypa gólfplötu sem járnagrindin hafði verið stóluð upp með eldföstum steini sem var akkúrat í þykktinni sem vantaði því fékk ég mér steina ef eitthvað misfærist.
Ég bað svo vinnufélaga minn um að koma klofnu steinunum ásamt varasteinunum til Völundar, en sá hafði verið milligöngumaður. Vinnufélaginn sagði mér að Völundur hefði verið farinn á fjöll og hann hefði skilið alla steinana eftir þar sem hann gæti nálgast þá og valið um hverja hann notaði. Þarna við eldavélina sagðist Völundur ekki vera búin að koma þessu í verk, steinarnir væru allir niður í kjallara, hann spurði hvora sortina væri betra að nota. Þá létti af mér þungu fargi.
Ég sagði honum að nota steinanna sem hann kom með, sem voru gamlir og snjáðir eldhólfsteinar úr aflagðri bræðslu, þó svo hinir sem ég lét fylgja væru splunku nýir. Þeir væru nefnilega úr Alcoa, ja það var eins gott að þú komst maður sagði Völundur. Ég sagði að ég hefði gert mér þessa ferð því þetta hefði legið þungt á mér í meira en ár, ég hefði nefnilega ekki verið viss um að uppruni steinanna hefði komist til skila. Það eru ekki allar ferðir til einskýrs, það má nú segja sagði Völundur.
Utan við skrúðgarðinn stendur íbúðarhúsið í Grágæsadal. Þar má sjá grasbalann sem skrýðir hluta dalsins í víðfeðmri auðninni
Fyrir skemmstu kom Völundur til byggða og leit við hjá okkur "hæðarstrákunum". Erindið til byggða var að kippa upp nokkrum kartöflum. Annars dvelur þessi aldni höfðingi vanalega sumarlangt í faðmi fjallanna. Hann ítrekaði hversu heppilegt það hefði verið að fá í heimsókninni í sumar vitneskjuna um uppruna Alcoa steinanna og sagði að nú væru þeir réttu komnir í eldavélarofninn. Svona í tilefni tíðarandans þá spurði ég hann að því hvort hann héldi að þær 8 milljarða raflínuframkvæmdir sem nú færu fram á hálendinu norð-austanlands væru undirbúningur undir annað og meira t.d. sæstreng.
Hann sagðist ekki vita til hvers þær væru frekar en aðrir, en sjálfsagt þætti það gáfulegt að hafa sem fjölþættasta tengingu á milli tveggja stærstu orkuvera svæðisins þ.e. Kárahnjúka og Kröflu. Eldri lína sem reyst var á fyrsta áratug aldarinnar yrði svo nokkurskonar vara lína á eftir, þó svo að hún væri ekki nema rétt rúmleg 10 ára gömul. Annars væri það nú bara þannig að almennt væri fólk orðið svo hugfangið af hagvextinum að alltaf þyrfti eitthvað að vera um að vera. Flest venjulegt fólk gæfi sér ekki tíma til að vera til hvað þá að spá í hvaða erindi nýjar loftlínur ættu á fjöllum.
Við enduðum svo samtalið á að minnast löngu gengins verslunareigenda sem var vanur að hengja upp auglýsingu í búðargluggann þegar veðrið var gott og berin blá, sem á stóð "farinn í berjamó". Í þá tíð gaf fólk sér tíma til að fara til fjalla enda alltaf hægt að nálgast það seinna sem vantaði úr búð.
Kreppa rennur úr Brúarjökli inn við Kverkfjöllum rétt fyrir vestan Grágæsadal, og er Kverká þverá hennar sem rennur fyrir mynni Grágæsadals í suðri og er stöðuvatnið í dalnum ættað úr Kverká. Ef farið er upp á fellið milli Kreppu og Grágæsadals blasa við Hvannalindir, Herðubreið, Snæfell og Kverkfjöll auk þess sem sjá má yfir mest allt Norður og Austurland
Nóbelsskáldið skýrði eitt sinn út hvert gildi fjallanna hefði almennt verið fyrir íslendinga í gegnum tíðina og kom orðum að því undir rós eins og hans var von og vísa.
Allt fram á nítjándu öld þótti íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að Búlandstindur væri furðu ljótur, heldur þótti Mývatnsveitin með fjallahríng sínum og vatni viðurstyggilegt pláss. Varla eru eftir hafandi núna þær samlíkíngar sem þjóðleg bílífa okkar, þjóðsögur Jóns Árnasonar, velja því.
Rómantíkin þýska gaf okkur fjöllin og gerði þau okkur kær og kenndi Jónasi Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og unna þeim í ljóði; og eftir hann kom Steingrímur og kvað Ég elska yður þér Íslands fjöll; og hefur sá skáldaskóli auðsýnt þeim tignun fullkomna fram á þennan dag.
Á okkar öld hefur það þótt hæfa kaupstaðarfólki, sem var eitthvað að manni, að eignast vángamyndir af eftirlætisfjöllum sínum að hengja upp yfir sóffanum og hafa slíkir eftirlætis gripir verið nefndir sóffastykki að dönskum sið. Fólkið horfði svo lengi á þessi landslög uppá veggjum hjá sér að marga fór að lánga þángað. Svona mynd veitti áhorfana í rauninni sömu lífsreynslu og horfa út um glugga uppí sveit.
Reynslan er sambærileg við það sem þeim manni verður, sem svo leingi hefur skoðað mynd af Parísarborg að hann stenst ekki leingur mátið og fer þángað. Þegar hann kemur heim til sín aftur veit hann ekki fyrr til en Parísarborg er orðin miðpúnktur í lífi hans. Hugur hans heldur áfram að snúast í tilhlökkun til endurfunda við þessa borg með undrum sínum og uppákomum, stórum og smáum furðum, og smáhlutum síst lítilfjörlegri en þeir stóru; ekkert í heiminum jafnast á við að hafa fundið þessa borg.
Hversu marga landa höfum við ekki þekkt sem hafa nákvæmlega af þessari reynslu að segja um París, og margir skrifað um það í bókum hvernig þeir lifðu í stöðugri heimþrá þángað, jafnvel eftir að þeir eru komnir að fótum fram. Sá sem skilur þetta skilur sæludali þjóðsögunnar; og hann skilur líka útilegukonuna Höllu sem sat farlama á leiði í kirkjugarðinum á Stað í Grunnavík, og tautaði: fagurt er á fjöllum núna. (Brot úr formála bókar Kjartans Júlíussonar frá Skáldastöðum-efri - Reginfjöll á haustnóttum)
Leiðin inn í Grágæsadal er úr allri alfaraleið, meir að segja á skala víðernanna sjálfra. Aka þarf tímunum saman um hrjóstur og svarta sanda áður en komið er fram á brún dalsins sem er með grænum grasbala við norður enda vatnsins sem hann prýðir. Á leiðinni í 740 m hæð er lítill rabarbaragarður sem einhversstaðar hefur fengið nafnið Völundarvin "en það flokkast náttúrulega undir brot á náttúruverndarlögum að stunda rabarbararækt í þessari hæð"
Í tíðaranda dagsins í dag eru það goðsagnir á við Ómar og Völund sem hafa fært okkur "sóffastykkin" í sjónvarpið heim í stofu og vitneskjuna um víðernin, þessa kórónu Íslands sem fólk víða að úr heiminum flykkist til landsins að sjá í allri sinni dýrð. Hér fyrir neðan er Kompás þáttur um óviðjafnanlegu baráttu Ómars á sínum tíma, og við hæfi að rifja hana upp á degi íslenskrar náttúru.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkur: Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.