15.11.2019 | 19:48
Steypuhrærivélin
Það eru ekki allir þeirrar gæfu aðnjótandi að finnast þeir vera fæddir í fríi. Svo virðist vera að samfélagsgerðin geri ráð fyrir að slitið sé á milli frí- og vinnutíma. Þannig að hjartans þrá tilheyrir hvorki stað né stund og til verður fjarverufíkn án núvitundar. Samt eru til dæmi þess að fólk hafi hitt á fjölina sína og geri ekki mikinn greinarmun á vinnu- og frítíma þegar ánægjan er annars vegar. Í sem stystu máli má segja sem svo að lífsgæði síðuhöfundar hafi velst um í steypuhrærivél.
Alveg frá því fyrst ég man hef ég þvælst um byggingastaði og steypt hvern minnisvarðan um annan þveran. Þar hefur oft átt við dæmisagan um verkamanninn, sem var á þá leið að maður kom á byggingarstað á björtum góðviðrisdegi. Fyrst kom hann að smið sem var að höggva til planka, og spurði hvað hann væri að gera. Smiðurinn svaraði önugur; "Þú hlýtur að sjá það sjálfur maður ég er að höggva til spýtu". Þá kom maðurinn að múrara, sem var að hlaða vegg, og spurði hvað hann væri að gera. Hann svaraði jafn önugur og smiðurinn; "Eins og þú sérð er ég að hlaða vegg". Næst kom maðurinn að verkamanni, sem hamaðist kófsveittur við að moka sandi og maðurinn spurði hvað hann væri að gera. Verkamaðurinn ljómaði allur í ákafa sínum og sagði; "Við erum að byggja dómkirkju".
Núna í sumar var ég á ferð í brotinni byggð og var minntur á eina dómkirkjuna sem ég hrærði steypuna í, en þessi minning kom upp á stað þar sem skáldið orti forðum farðu í rassgat Raufarhöfn. Þegar ég gekk um hafnarsvæðið sá ég bíl sem var merktur fyrirtæki sem átti hug minn allan í hátt á annan áratug. Fyrirtæki sem ég hafði stofnað ásamt vinnufélögum mínu upp úr þeim rekstri sem ég hafði staðið fyrir í eigin nafni frá því 23 ára gamall. Þetta fyrirtæki er enn í rekstri með tvær starfstöðvar á Íslandi og rekið á meira en 30 ára gamalli kennitölu.
Það var á Djúpavogi fyrir öllum þessum árum sem við vinnufélagarnir sameinuðumst um fyrirtækið Malland. Markmiðið var að búa okkur til lífsviðurværi sem myndi gagnast okkur til búsetu á Djúpavogi, þó svo að verkefnin þyrfti að sækja um langan veg. Hugmyndin gekk út á, auk steypunnar, að þjónusta matvælaiðnað. Við markaðssettum okkur sem sérfræðinga í epoxy iðnaðargólfum og héldum áfram því skemmtilega á sumrin, að byggja og lagfæra hús, auk þess að steypa mynstraðar stéttar. Verkefnin voru víða um land auk þess sem við fórum um tíma í útrás. Nokkru sinnum fórum við til Ameríku á steypu workshop, svona í nokkurskonar saumaklúbb ásamt 200 steypuköllum víða að úr heiminum.
Ég var stundum spurður útí það hvernig nafnið Malland kom til og varð þá svarafátt. Sumir giskuðu á að það væri dregið af möl samanber steypumöl aðrir ályktuðu sem svo að nafnið hefði með málningu að gera sem ég var umboðsmaður fyrir um tíma, og væri því Málland. Eins var ég oft spurður að því á Norðurlandi hvort ég tengdist eitthvað bænum Malland á Skaga. Sannleikurinn á bak við nafnið er sá að ég vafði mér sígarettur úr tóbaki sem hét Midland og fannst nafnið líta vel út en gat þó ekki sætt mig við Miðland né ensku útgáfuna. Leturgerðin í nafninu er meir að segja fengin hjá Midland tobacco.
Það var auðskildara hversvegna húsið sem við Matthildur mín byggðum hét Tuborg, en sú nafngift var ekki frá mínu líferni komin, heldur var það þannig að þegar ég þurfti að skrá húsið opinberlega þá voru ekki komin götunöfn á Djúpavogi, heldur hétu húsin hvert sínu nafni. En þar sem ekki hafði gefist tími til að koma sér niður á nafn þegar skráningin fór fram þá stakk Ólöf heitin Óskarsdóttir á hreppskrifstofunni upp á að það héti bara Tuborg því í nágreninu væri Borg.
Það má segja að Malland hafi verið orðið að epoxy ævintýri sem ég lét félögum mínum eftir upp úr aldamótum, enda þeir meira með hugann við annað en steypu. Ég hélt minn veg og þeir sinn með Malland um tíma, en nú er svo komið að engin af Djúpavogsdrengjum er þar um borð.
Mallandsfélagar að sýrulita steypu í Amerískum "saumaklúbb". Á árunum 1993-1998 var þrisvar farið til landsins steypta USA til móts við 200 kolleiga á workshop. Þar voru sett upp svæði og menn sýndu listir sínar. Eitt skiptið duttu út fyrirfram ákveðnir sýnendur og íslensku víkingarnir voru óvænt manaðir til að hlaupa í skarðið. Þá kom sér vel að hafa rúnina Ægishjálm á heilanum til að móta og lita í steypuna
Færanleg Amerísk snigilsteypuhrærivél, sem var sú eina á landinu. Hún hrærði 10 m3 á klukkutíma en var ekki góðkennd af opinbera regluverkinu. En það skipti engu máli við höfðu ævinlega meira að gera en komist var yfir
Múrverk var okkar fag og þess vegna fengumst við mikið við að flikka upp á steinsteypt hús. Að ofan er fyrsta húsið sem ég eignaðist á ævinni, Ásbyrgi Djúpavogi. Margir vildu meina að það væri jarðýtu matur, en í Ásbyrgi er búið enn þann dag í dag og lítur það betur út en það leit eftir endurbæturnar. Hitt húsið er Hvammurinn á Höfn þar sem rekið hefur verið sem gistihús frá því að það var gert upp fyrir meira en 30 árum
Tuborg, húsið sem við Matthildur byggðum okkur á Djúpavogi. Þar voru öll Mallands trixin notuð, múrsteinar, mynstruð steypa og epoxy
Þegar við Matthildur mín dveljum í heimsóknum á Djúpavogi á ég það til að laumast út og dást að gömlu steypuhrærivélinni þar sem hún má muna fífil sinn feguri úti í móum
Rakst á þennan við fiskverkunarhús á Raufarhöfn í sumar, með áletruninni "í gólfum erum við bestir"
Svona var frystihúsi umbreitt yfir jól og svo var haldið í það næsta um áramót. Þetta var áður en það þurfti að rýna í reglugerðina og fara í grenndarkynningu þó svo að veggur væri færður til innanhúss. Já kannski vorum við í gólfum bestir.
Flokkur: Hús og híbýli | Breytt s.d. kl. 19:59 | Facebook
Athugasemdir
Það er alveg einstakur og sannur tónn í öllum pistlum þínum Magnús. Það er tónn eilífðarinnar eins og Nóbelsskáldið nefndi þann tón.
Svona skrifa engir nema þeir sem búa yfir andans snilligáfu.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 15.11.2019 kl. 22:50
Þakka þér fyrir Pétur Örn. Þessa athugasemd þykir mér vænt um að fá frá andans manni og meistara orðsins.
Magnús Sigurðsson, 16.11.2019 kl. 08:54
Ég heyrði þá gamansögu að þú hefðir stimplað steypuna frá gangstétt inn fyrir höfðagaf hjónarúmms í Tuborg, mjóg flott nema húsgögn vildu vagga á gólfinu, Trúlega hef ég heyrt þorrablóts útgáfuna af þessu, :)
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 16.11.2019 kl. 10:05
Jú, jú, Hallgrímur, þetta er ekki einu sinni gamansaga því bak við hús náði stimplunin út undir þvottasnúrur.
En það er þorrablótsútgáfa að húsgögnin hafi vaggað, sennilega komin frá arkitektinum sem fann því allt til foráttu að ég stimplaði kirkjugólfið.
Magnús Sigurðsson, 16.11.2019 kl. 10:29
Takk fyrir frábæran pistil.
Björn Jónsson, 16.11.2019 kl. 14:22
Skemmtilegt og fræðandi.
Var smátíma sem handlangari og munaði hársbreidd að ég færi á samning en taldi mig ekki hafa efni á því vegna íbúðakaupa. Hef alltaf séð eftir steypunni. En, til að sofna múra ég í huganum. Í huganum er steypuhrærivél og múrgræjur, oftast raða ég heimatilbúnum múrsteinum þar til ég sofna. Sonur minn átti í erfiðleikum með að sofna. Ég benti honum á múrinn. Hann steinsofnaði.
Ég sofnaði ekki yfir lestrinum.
Benedikt Halldórsson, 17.11.2019 kl. 14:24
Þakka ykkur fyrri innlitin Björn og Benedikt. Gaman af að frétta af "svefnlyfinu" þínu Benedikt. Ég á reyndar mjög auðvelt með að lesa mig í svefn en þegar ég er kominn í draumaheiminn er ég óðum farin að steypa eða múra.
Magnús Sigurðsson, 17.11.2019 kl. 15:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.