1.1.2020 | 08:54
Bærinn og baðstofan
Danskur læknir, Edvard Ehelers, kom til Íslands 1894 til að kanna útbreiðslu holdsveiki. Niðurstöður ferðar sinnar fékk hann birtar í dönsku heilbrigðistímariti. Það sem Ehlers hafði að segja um þrifnað á íslenskum heimilum tóku landsmenn illa upp og sökuðu hann um að vanþakka gestrisni íslenskrar alþýðu. En hann lýsti svo húsakosti hennar, og dæmigerðri baðstofu;
"Hinir litlu þröngu bæir eru að hálfu leyti neðanjarðar og nálega að öllu leyti byggðir úr torfi. Gluggar eru aðeins á öðrum gafli og allir negldir aftur af ótta við vetrarkuldann, því að Íslendingar bera eigi meira skyn á heilbrigðisfræði en svo, að þeir skoða kalda loftið hættulegri óvin en spillt loft. Í baðstofunni eru 68 rúm eða stórir trékassar, og sofa tveir eða þrír í hverjum kassa. Fólkið borðar í baðstofunni, oftast á rúmunum.
Þegar komið er inn í baðstofuna, þar sem fólkið er inni, gýs á móti manni óþefur svo mikill, að hann ætlar að kæfa mann. Þennan óþef leggur af mygluðu heyi í dýnum, af sauðskinnsábreiðum og skítugum rúmfötum, sem aldrei eru viðruð, og af óhreinindum þeim sem berast inn í bæinn af hinum óhafandi íslensku skinnskóm. Í óhreinindunum á gólfinu veltast börn, hundar og kettir, veita hvert öðru blíðuatlot og sulli.
Þennan óþef leggur einnig af votum sokkum og ullarskyrtum, sem hanga til þerris hjá rikklingsstrenglum og kippum af hörðum þorskhausum. Sé vel leitað í baðstofukrókunum munu menn finna ílát, sem þvagi alls fólksins er safnað í. Það er talið gott til ullarþvottar."
Og hafi lýsing Danska læknisins þótt móðgandi á híbýlum alþýðunnar þá gaf lýsing Kaliforníubúans - J. Ross Brown, 30 árum fyrr - á prestsbústaðnum á Þingvöllum, lýsingu þess Danska lítið eftir;
"Presturinn á Þingvöllum og kona hans búa í moldarkofum rétt hjá kirkjunni. Þessi litlu ömurlegu hreysi eru í sannleika furðuleg. Þau eru fimmtán fet á hæð og er hrúgað saman án nokkurs tillits til breiddar og lengdar og minna helst á fjárhóp í hríðarveðri. Sum þeirra hafa glugga á þakinu, og önnur reykháfa. Þau eru öll vaxin grasi og illgresi, og göng og rangalar liggi í gegnum þau og milli þeirra. Neðst eru kofarnir hlaðnir úr grjóti, og tveir kofar hafa bæjarburst úr svartmáluðum borðum, en hinu er öllu saman tildrað upp úr torfi og allra handar rusli og minnir einna helst á storkshreiður.
Þegar inn kemur í þessi undarlegu híbýli, er umhverfið jafnvel enn þá furðulegra en úti fyrir. Þegar maður er kominn inn fyrir dyrnar á einu hreysinu, sem eru svo lágar og hrörlegar, að vart er hægt að hugsa sér, að þær séu aðalinngangur, er fyrir langur dimmur, gangur með steinveggjum og moldarþaki. Hliðarnar eru skreyttar snögum, sem eru reknir inn á milli steinanna, og á þessum snögum hanga hnakkar, beisli, skeifur, fjallagrasakippur, harðfiskur, auk ýmis konar fatnaðar og gæruskinna. Gangurinn er í laginu eins og hann hafi verið byggður ofan á slóð blindrar kyrkislöngu.
Úr ganginum, sem er ýmist breiður eða þröngur, beinn eða boginn, liggja svo dyr inn í hin ýmsu herbergi. Besta herbergið, eða húsið, því hvert herbergi er einskonar hús, er ætlað gestum. Í öðru húsi býr fjölskylda prestsins í einni kös eins og kanínur. Eldhúsið er einnig notað sem hundaherbergi og stundum sem fjárhús. Í einu horninu eru nokkrir steinar, og á þá er lagt sprek og suðatað, og er þarna maturinn eldaður. Bitarnir í loftinu eru skreyttir pottum og kötlum, harðfiski, nokkrum nærpilsum og leifum af stígvélum, sem presturinn hefur líklega átt í æsku.
Á snögum torfveggjanna hanga olíudunkar, kjötstykki, gamlar flöskur og krukkur og ýmis riðguð verkfæri, sem notuð eru til að rýja kindur. Gólfið er ekki annað en sjálfur hraunflöturinn, en ofan á hann hefur myndast hart lag úr skólpi og allra handa úrgangi. Reykur fyllir loftið, sem þegar er spillt af óþef, og allt innan húss, bitar, stoðir og tíningur af húsgögnum, er gagnþrungið af þykku fúlu loftinu. Ég get ekki hugsað mér aumlegri bústaði mannlegum verum en íslensku torfbæina."
Glaumbær í Skagafirði, íslenskur torfbær. Friðlýstur árið 1947, sem var ekki síst Íslandsvininum Mark Watson að þakka en hann hafði gefið 200 sterlingspund til varðveislu bæarins strax árið 1938.
Það hafa sjálfsagt fleiri en ég velt fyrir sér hvernig íslensk híbýli voru í gegnum aldirnar og hvers vegna aðal íverustaður þjóðarinnar, sem var bæði mat-, svefn- og vinnustaður fólks, var kölluð; - baðstofa. Torfbærinn hafði veitt þjóðinni húsaskjól í meira en þúsund ár þegar síðustu manneskjurnar skriðu út úr þeim hálfhrundum á 20. öldinni. Það hafa varðveist margar lýsingar útlendinga á þessum híbýlum, en landanum sjálfum þótti réttast að láta þjóðsöguna, jarðýtuna og ekki síst þögnina að mestu um varðveisluna.
Eitt það fyrsta sem kom upp í hugann var, hvernig gat staðið á því að hin glæstu húskynni sem um getur á þjóðveldistímanum gátu orðið að þeim heilsuspillandi hreysum sem blöstu við erlendum ferðalöngum á seinni hluta 19.aldar? - sé eitthvað að marka frásagnir þeirra í rituðum ferðasögum.
Undanfarið hef ég verið að viða að mér efni varðandi húsagerð og sögu torfbæjarins. Eru þar á meðal bækur með rannsóknum Daniels Bruun, Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár,- meistararitgerð Arnheiðar Sigurðardóttur, Híbýlahættir á miðöldum sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins gaf út árið 1996, -ásamt bók Hjörleifs Stefánssonar arkitekts, Af jörðu - Íslensk torfhús, - auk lýsinga á torfbæjum, svipuðum og hér að ofan, í bókum Jóns Helagasonar, Öldin, ofl, ofl.
Borg á Lófóten þar sem íslenski landnámsmaðurinn Ólafur tvennumbrúni á að hafa búið. Húsið skiptist í skála og það sem mætti kalla stofu að víkinga sið. Í skálanum sem er til hægri handar þegar komið er inn var voru skemmtanir, matast, drukkið og sofið og kynntur langeldur í gólfi. Í (vinnu)stofunni t.v.við inngang á langhlið, sem er minni, var dvalar og vinnuaðstaða auk eldstæðis. Fræðimaðurinn Valtýr Guðmundsson vildi meina að á landnámsöld hefði stofan verið það sem kallað er skáli og öfugt
Segja má að þessi áhugi fyrir íslenskri byggingahefð hafi komið til þau ár sem ég var í Noregi. Þar vann ég m.a. við grjóthleðslur sem tilheyrðu safni Sama, en Samar kalla sín torfhús "gamma". Skammt frá Harstad, bænum sem ég bjó í, var Víkingasafnið á Borg suður við Leknes á Lofoten. Þar var þeim húsakosti gerð skil sem tíðkaðist við landnám Íslands og kom mér á óvart hversu mikill munur var á þeim stórhýsum úr torfi sem "landnámskálinn" var og þeim "moldarkofum" sem þjóðin skreið út úr þúsund árum seinna.
Í Borg var sýnd stílfærð heimildarmynd um fyrrum íbúa höfðingjasetursins, sem áttu sammerkt fleirum að hafa lent upp á kannt við Harald Hárfagra og neyðst til að yfirgefa Hálogaland. Þar er sagður hafa verið húsbóndi Ólafur tvennumbrúni. Heimildamyndin sem sýnd er við innganginn gerir því skil þegar Ólafur flutti með sitt fólk til Íslands.
Myndinni lýkur svo á þeim hjartnæmu nótum að dóttir Ólafs, sem með honum fór, snýr ein frá Íslandi aftur til Lófóten og giftist syni þess manns sem Haraldur Hárfagri eftirlét Borg, þannig hélst Borg í ættinni ef svo má segja. þetta er nú kannski ekki akkúrat það sem stendur í Landnámu og þó; "Óláfur tvennumbrúni hét maður; hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár (og Hvítár og) til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög. Óláfur bjó á Óláfsvöllum; hann liggur í Brúnahaugi undir Vörðufelli".
Þjóðveldis bærinn Stöng í Þjórsárdal, skömmu ofan við landnám Ólafs tvennumbrúna frá Borg á Lófót. Skáli og stofa eru í löngu byggingunni. Landnámsbærinn þróaðist með tímanum í fleiri en eitt hús. Í útbyggingum voru matarbúr og stundum smiðja, baðstofa eða gripahús. En alla þjóðveldisöldina hélst sú húsaskipan að aðal byggingarnar voru byggða hver fram af annarri og sneru göflum saman
Hinn Danski Daniel Bruun ferðaðist um landið sitthvoru megin við aldamótin 1900 til að stunda fornleifa rannsóknir á norrænum híbýlum "víkingaskálanum" sem viðgengust um landnám á Íslandi. Hann varð fljótlega svo hugfangin af landi og þjóð að hann skrifaði niður ómetanlegar þjóðlífslýsingar og rannsakaði bygginga sögu íslenska torfbæjarins frá upphafi til enda. Fornleifa rannsóknir hans víða um land gefa skýrt til kynna að húsakostur á Íslandi var síður en svo umfangsminni en víkinga annarsstaðar á Norðurlöndum. Íslenski "skálinn og stofan" voru oft 30-40 m langar byggingar og gat þess vegna verið um 2-300 m2 húsnæði að ræða, kynnt var með eldum í gólfi og við innganga. Það var ekki fyrr en eftir að þjóðveldið féll að húsakosti tók að hraka í landinu. Þeirri sögu lýsir Bruun svo í stuttu máli;
"Sá byggingarstíll, sem þróast hafði á Íslandi frá á miðöldum, hélst í megindráttum óbreyttur til vorra daga. Eldsneytisskorturinn, sem smám saman varða sárari og sárari, sakir þess að rekavið þraut og einkum við að skógarnir eyddust, varð ekki til þess að nýtísku hitunartæki væru tekin í bæina eins og gerðist annars staðar á Norðurlöndum. Hins vegar var gripið til þess ráðs að fækka þeim húsum, sem eldar voru kynntir í, og víðast var hvergi tekinn upp eldur nema í eldhúsinu. Í öðrum bæjarhúsum létu menn sér nægja að verjast kuldanum með hinum þykku torfveggjum og loka gluggum og vindaugum í vetrarkuldum. Af því leiddi aftur að löngum var dunillt loft í hinum lokuðu híbýlum.
Hvorki eldstór, ofnar, bíleggjarar né skorsteinar voru á íslenskum sveitarbæjum, fyrr en nú á allra síðustu árum, um leið og ný húsagerð kom til sögunnar, sem algeng er í öðrum löndum, þ.e. timburhús eða hús úr steinsteypu. Glergluggar sem nú eru algengir, jafnvel í hinum gömlu bæjarhúsum, komu mjög seint til Íslands, en þeir komu ekki í sveitabæi á Norðurlöndum fyrr en á 16. öld, þeir hafa því varla haft nokkra þýðingu á Íslandi fyrr en á 18. eða 19. öld. Fyrir þann tíma voru skjágluggarnir, þ.e. líknarbelgur þaninn á trégrind, sem fest var á gat í þekjunni og hleypti nokkurri birtu í gegn, einir um að veita birtu inn í húsin.
Hnignun alls þjóðarhags, sem hélt áfram öldum saman, orkaði auðvitað einnig á húsagerðina. Eftir því sem tímar liðu fram, létu menn sér duga það sem einfaldast var og auvirðilegast. Aðeins á biskupsstólunum, Hólum og Skálholti, og einstaka höfðingjabólum voru húsakynni, sem minntu á höfðingjasetur fornaldar, en allur almenningur þrengdi að húsakosti sínum. Fjósin minnkuðu m.a. því kúnum fækkaði, jafnframt því sem sauðfé fjölgaði. Þó eldhúsið væri eina bæjarhúsið, sem eldur brann í, gat það enn um skeið gerst að fólkið fengi sér bað að gömlum hætti í baðstofu, og hún þá hituð af því tilefni, en ekki vitum vér, hversu lengi sá siður hefur haldist.
Eins og þegar er getið, var baðstofan stundum skilin frá bæjarhúsunum, en venjan var að hún væri eitt af öftustu húsunum í bænum. Var það meðal annars til þess að önnur hús gætu notið hitans frá henni. Vafalaust hefur hún örðum stundum verið notuð til ýmissa annarra hluta. Þannig hefur mátt nota hana til dvalar og vinnustofu, þegar fólk var ekki í baði, en einkum þó eftir að hætt var að kynda elda í stofu og skála. Það kemur í ljós að á 18. öld var tekið að nota baðstofuna á þennan hátt, en upprunaleg notkun hennar var þá úr sögunni, þar sem baðvenjur voru niður lagðar.
En svo fór að menn höfðu ekki einu sinni eldsneyti til að hita baðstofuna. Nafnið eitt hélst á húsi því, sem oftast var fyrir endanum á bæjargöngunum. Það hafði áður verið notað til að baða sig í, en þegar sífellt þurfti að draga saman seglin með húsakostinn, varð það svefnherbergi. Skálinn var yfirgefinn, og rúmin flutt í baðstofuna. Í fyrstu munu það aðeins hafa verið húsbændur og fjölskylda þeirra, sem bjuggu um sig í öðrum enda baðstofunnar, bæði til að njóta hlýunnar og draga sig frá fólkinu. En síðan tók allt heimilisfólkið að sofa og dvelja í baðstofunni.
Lega baðstofunnar innst í húsaþyrpingunni hafði í för með sér að hún varð tiltölulega hlý, en nægði þó varla ætíð. Þá var gripið til þess ráðs í mörgum byggðarlögum að hýsa kýrnar þannig að fólkið í baðstofunni nyti ylsins af þeim. Ekki er kunnugt, hvenær sá siður var upp tekinn að hafa fjósið undir baðstofunni, ef til vill er hann gamall. Byggingarlagið var þá með þeim hætti að fjósið var ögn niðurgrafið, en baðstofugólfið, sem um leið var nokkuð hærra en gólfflötur annarra bæjarhúsa.
Afstaða bæjarhúsanna innbyrðis hélst óbreytt í höfuðdráttum. Algengast var að þau stæðu til beggja hliða við göngin og fyrir enda þeirra, en tala þeirra gat verið breytileg, en jafnframt mátti bæta fleiri húsum í þyrpinguna, og höfðu þau þá sér inngang. Í tilteknum héruðum var húsunum skipað í eina röð, þannig að skipan þeirra nálgaðist fornaldarbæina, en þó með þeim mun að í fornbæjunum stóðu húsin hvert í framhaldi af stafni annars, en nú stóðu þau hlið við hlið og snéru stöfnum fram á hlaðið. Ef til vill hefur notkun glerglugganna átt þátt í þessu, en leitast var við að hafa þá á timburstöfnum.
Þegar gluggarnir voru í framhlið bæjarins gat fólkið, sem inni var, séð innan úr húsunum, hvað gerðist á hlaðinu. Auk þessa voru þakgluggar á baðstofunni. Þegar fólk var flutt inn í baðstofuna og einnig fyrir nóttina, var skálinn ekki lengur svefnstaður og hvarf brátt úr sögunni, eða merking orðsins breyttist, ef svo má segja, í miklu lítilsverðara hús en áður, en hélt þó sömu stöðu í bæjarþyrpingunni og gamli skálinn. Ennþá er oftsinnis að hús frammi í bænum er kallað skáli, þótt það sé notað sem skemma eða á einhvern annan hátt.
Allt frá þeim tíma, sem baðstofan varð sameiginlegur dvalar- og svefnstaður og böð voru úr sögunni, voru öll herbergi, sem notuð voru á sama hátt og hún, kölluð baðstofur, án tillits til legu þeirra í bænum. Og um leið höfðu menn horfið til hins forna siðar, að sofa í sama húsi og þeir unnu í og dvöldust á daginn."
Glaumbær í Skagafirði, dæmigerður "ganga - bursta bær" sem var loka kaflinn í þróun torfbæjarins. þar er baðstofan aftast í húsaþyrpingunni en fram á hlaðið eru þiljaðar burstir með gluggum og dyrum (sem ekki sjást á þessari mynd sem tekin er baka til)
Daniel Bruun fór yfirleitt fegurri orðum orðum um íslensku torfbæina en flestir útlendingar, enda hefur hann sjálfsagt gist á betri bæjum í ferðum sínum. Það skildi þó ætla að prestsetrið á Þingvöllum hafi ekki beinlínis verið kotbær þegar Burton hinn Kalaforníski kom þar við. En þetta hefur Bruun m.a. punktað hjá sér eftir veru sína á íslensku prestsetri;
Á Stóra-Núpi tók síra Valdemar Briem vinur Ólsens á móti okkur. Kvöldið leið á mjög ánægjulegan hátt við fjörugar samræður í skrifstofu prestsins með mörgum fullum bókaskápum. Og að þeim loknum hvíldum við félagarnir í rúmum okkar og ræddum um, hversu notalegt það gæti verið að dveljast í íslensku torfbæjunum.
Samt átti Bruun það líka til að bölsótast út í baðstofu íslenska bæjarins. "Hann skrifaði syni sínum sumarið 1907 þegar hann dvaldi í tjaldi á Gásum; -ég vil miklu heldur njóta hreina loftsins í tjaldinu en búa við hið andstyggilega, innilokaða loft í bæjunum, þar sem gluggar eru nær aldrei opnaðir. Þeir eru ekki á hjörum og oftast negldir aftur. Ég minnist þess einu sinni á ferðalagi að ég bað bóndann að opna glugga á herbergi, sem ég svaf í. Hann braut rúðuna einfaldlega af einskærri góðvild".
Nóbelskáldið fór engu rósamáli um íslenska torbæjarmenningu í bókum sínum, en hann minntist torfbæjanna þó þannig, - þegar hann talaði um listfengi þeirra og viðhaldsþörf, því torfbæina þurfti að endurbyggja á 25-50 ára fresti og var þá ekki allur bærinn undir heldur einstök hús hans; - "Tilgerðarlaus einfaldleiki er mundángshófið í hverju listaverki, og að hvert minnsta deili þjóni sínum tilgáng með hæversku. Það er einkennilegt hvernig fólk í ljótustu borg heimsins leitast við að reisa hús sín svo rambyggilega, eins og þau ættu að standa um aldur og ævi. Meðan var til íslensk byggingarlist var aldrei siður að byggja hús til lengri tíma en einnar kynslóðar í senn, - en í þá daga voru til falleg hús á Íslandi."
Þegar ég spurði afa minn, sem fæddur var í upphafi 20. aldarinnar og ólst upp í torfbæ, hvort ekki hefði verið notalegt að alast upp í þannig húsi, þá hristi hann höfuðið og sagði; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn", og sagði mér svo frá sagganum og heilsuleysi foreldra sinna sem hann taldi að húsakynnin hefðu ekki bætt. Hann talaði um leka bæi og fyrirkvíðanlegar haustrigningar.
Þverá Laxárdal S-Þing. þessi bær er dæmigerður Norðlenskur torfbær um aldamótin 1900. Hann hafði þó þá sérstöðu að bæjarlækurinn rennur inn í hann, þannig að ekki þurfti að fara út til að sækja vatn. Það sama átti við burstabæinn á Gvendarstöðum í Köldukinn og þar var auk þess fjósbaðstofa
Í Árbók Þingeyinga er nákvæm og skemmtileg lýsing Kristínar Helgadóttir á Gvendarstöðum í Köldukinn um það hvernig var að alast upp í torfbæ með fjósbaðstofu á 4. og 5. áratug 20. aldarinnar, þegar útséð var að nýr húsakostur tæki við af gamla torfbænum og honum yrði ekki lengur við haldið. Í niðurlagi segir Kristín m.a. þetta; Blessaður gamli burstabærinn, hann bauð upp á margt skemmtilegt bæði úti og inni, einfalda saklausa barnaleiki. Svo urðum við bæði eldri, ég og burstabærinn. Ég hætti að dansa ballett á hlaðinu og horfa á mig í stofuglugganum hvað mér tækist nú vel, þó gúmmískórnir væru nú ekki bestu ballettskórnir.
Gamli bærinn var þreyttur, þökin fóru að leka meira og meira, stundum lak alls staðar og farið var af stað með alla dalla til að setja undir leka. Stór pollur var fremst í göngunum, það var lögð brú yfir hann. Loksins þegar stytti upp var farið að ausa pollinn. Þetta var á haustin, maður kveið fyrir haustrigningunum. Svo var gott þegar snjórinn kom og setti vel að húsunum, þá hlýnaði líka inni, samt man ég ekki eftir að væri mjög kalt í baðstofu, kýrnar hafa bjargað því og ofninn sem áður er getið, 14 lína lampinn hitað líka og svo var margt fólk sem gaf frá sér hita.
Ég hugsa um mömmu mína og hennar líf í þessum bæ. Í þessum bæ ól hún sín átta börn, annaðist þau og sá þau vaxa, hún þerraði tárin og tók þátt í gleðinni. Hún hlúði að gamla fólkinu sem sumt var rúmliggjandi lengi. Ég sem yngsta barn man ekki eftir þessu fólki, afa og ömmu, Jórunnu ömmusystir og Önnu Kristjánsdóttir sem lengi var vinnukona hjá foreldrum mínum og var heilsulaus síðustu árin.
Allt þetta fólk dó á Gvendarstöðum í skjóli foreldra minna og mamma annaðist þau. Hún hugsaði vel um bæinn sinn og hélt honum hreinum, moldargólfin voru sópuð með vendi, hurðir, stoðir og gólf, allt var hvítþvegið og öll þessi tréílát sem voru í notkun. Svo þurfti að hugsa um fatnað og allt þetta fólk.
Árin liðu, bærinn hrörnaði og ég stækkaði, kannski var manni farið að finnast margt erfitt og þröngt og öðruvísi en ætti að vera. Sambúðin við þennan gamla bæ, sem búin var að vera mitt fyrsta skjól og leikvöllur bernsku minnar, var senn á enda og árið 1948 var hann rifinn og nýtt hús byggt á sama stað, stórt og gott hús sem mér hefur með árunum lærst að þykja vænt um eins og gamla bernskubæinn minn. (Árbók Þingeyinga 2012 Ég og burstabærinn / Kristín Helgadóttir Gvendarstöðum Köldukinn)
Keldur á Rangárvöllum sem segja má að sé blanda af burstabæ og fornri húsagerð þar sem skálinn lá samsíða hlaði
Langeldur í gólfi skálans í Borg á Lofoten. Upphækkaður pallur var oft með báðum hliðum skálabæjanna og fyrir stafni. Öðru megin var æðri pallur þar sem húsbóndinn sat um miðju langhliðar í öndvegi milli súlna sinna. Heimilisfólk og gestir mötuðust á pöllunum, héldu sínar kvöldvökur og sváfu svo á fleti eða í lokrekkjum við útveggi. Innst í skála fyrir stafni var pallur þar sem konur höfðu aðstöðu sína
"Stofan" í Borg á Lofóten, sem var vinnuaðstaða og íverustaður bæjarins, og á íslandi var hún talin vera þar sem sá handiðnaður fór fram sem þurfti að sitja við og standa. Þar voru klæði ofin, áhöld smíðuð, reiðtygi smíðuð og geymd, matast og síðar sofið. Síðar urðu smiðja, búr og skemma að útbyggingum líkt og sjá má á myndinni af þjóðveldisbænum að Stöng hér að ofan
Baðstofan í Glaumbæ, Skagafirði. Dæmigerð íslensk baðstofa á betri bæ á 18. og 19. öld. Askar með matarskammti við hvert rúm, en í hverju rúmi gátu sofið fleiri en einn og var það m.a. gert svo fólk ætti auðveldara með að halda á sér hita
Baðstofan á Grenjaðarstað í Aðaldal. Rokkar, ullarkambar, prjónar og önnur vefnaðaráhöld voru til taks við svo að segja hvert rúm, því í baðstofunni var fatnaður heimilisfólks framleiddur
Galtastaðir fram í Hróarstungu á Héraði. Þar er baðstofan samhliða hlaði líkt og skáli fornbæjanna. Auk þess er fjósbaðstofa á Galtarstöðum, - það er að segja kýr sem hitagjafi undir baðstofugólfi. Þetta virðist ekki hafa verið óalgeng húsaskipan á kotbæjum Austanlands. Í bænum á Galtarstöðum var búið til ársins 1960
Meginflokkur: Hús og híbýli | Aukaflokkur: Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 09:21 | Facebook
Athugasemdir
Sæll og gleðilegt ár.
Góður pistill í byrjun árs. Stínu á Gvendarstöðum hef ég hitt oftar en einu sinni og gamla Jónas líka. Heiðursfólk. Þú átt væntanlega í sarpi þínum bókina um Hlaðir í Hörgárdal. Margt er heillandi og tregablandið um torfbæi að segja en að mörgum var engin eftirsjá.
Bestu kveðjur.
Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 1.1.2020 kl. 11:42
Sæll Sigurður takk fyrir athugsemdina og gleðilegt ár. Ég rakst á þetta í Árbók Þingeyinga fyrir tilviljun núna rétt fyrir jólin, en konan kom með hana heima af bóksölu Rauða krossins og sagði að það væri ábyggilega eitthvað í henni sem ég hefði áhuga á.
Nei, ég á ekki bókina um Hlaðir í Hörgárdal og nú fer ég í að líta eftir henni á bókasafni eða fornsölu. Þú hefur gert mig forvitinn.
Það er örugglega ekki eftirsjá í öllum torfbæjunum sem jafnaðir voru við jörðu. en þeim mættu samt sem áður vera gert hærra undir höfði.
Sennileg hefur lífstíll Íslendinga, á meðan þeir bjuggu í torfbæjunum, haft einstaklega hagstætt kolefnisspor, jafnvel þó svo sauðkindin sé tekin með í reikninginn.
Magnús Sigurðsson, 1.1.2020 kl. 12:03
Þakka Magnús fyrir skemmtileg grein og samantekt um Torfbæinn ég held að ég hafi sagt þér að ég var um sumartíma að Syðri Löngumýri en þar var allt hreint og jafnvel moldargólfið í eldhúsinu. Baðstofan var eilítið hærri en eldhúsið og sinn hvoru megin voru herbergi sem ég fór aldrei inn í en tók eftir því að það var engin birta í syðra herberginu en birta í því niðra svo líklega hefir ekki verið gluggi sunnan megin. Fann aldrei til kulda en man heldur ekki eftir borðstofu en rámar í ask en man ekki hvar var borðað.
Afi minn sagði líka að þessir torfbæir sem hann ólst upp í hefðu verið heilsuspillandi en fljótt um aldamótin hafi langafi eða þeir byggt timburhús og svo steinhús um 1910 og stækkað það um 1935 en þetta var á snjóflóða hættusvæði þar sem mikið var um snjóflóð og einmitt 1910 þegar mannskaðasnjóflóð tók um 20 manns í Hnífsdal en þá byggði hann steinhúsið sjálfsagt út af slysinu.
Semsagt þá sagði sá gamli að torfbæir voru heilsuspillandi en mig grunar að það hafi ekki verið allstaðar heldur farið eftir dugnaði hvers og eins.
Það mætti minnast á það að upp í Maine er staður sem heitir Spirit Pond en þar fannst torfhús meir í átt að torfbúð eða þingmannabúð í stærra lagi og önnur smærri við hliðina fyrir kannski tvo að sofa í. Kílómetri frá þessu var annað gaflhús með grjótvegghleðslu ávöl að aftan.
Spirit pond er smá vatn líklega minna en rauðavatnið hér við Reykjavík. C14 segir að þetta sé frá c. 1410 en um svipað leiti var Newport turninn byggður og líka kirkjan við hvalsnes/görðum? í Grænlandi.
Kanarnir rífast og vilja ekki sjá neina norræna í sögu sinni en samt hallast menn að að íslendingar hafi verið þarna og þá kaupmenn en þetta er við sunnan megin við árósa Kennebeck river í Maine. Tala um svona við fornleifafræðinga er verra en að tala við steinvegg. Kv Valdimar.
Valdimar Samúelsson, 2.1.2020 kl. 20:39
Sæll Valdemar og takk fyrir athugasemdina. Það er alltaf áhugavert þegar þeir sem hafa reynslu af húsakosti fyrri tíðar tjá sig. Ég efast ekki um að torfbæirnir hafa bæði verið þrifalegir og notalegir og það er örugglega rétt hjá þér að það fór að mestu eftir dugnaði hvers og eins, sérstaklega eftir að fólki fækkaði til sveita. Því það er erfiðisvinna að byggja og halda við torfbæ.
Ég hef gaman af því að heimsækja torfbæi og geri það þá að sumarlagi, en ég get líka rétt ímyndað mér að þeir hafi ekki verið notalegir í bleytutíð og kulda. Margar lýsingar af torfbæjum eru til komnar eftir að það var útséð með að þeim yrði ekki viðhaldið heldur bara búið í þeim á meðan þeir stæðu uppi.
Já við erum nokkuð sammála með það að íslendingar hafi farið vestur, t.d. til Grænlands og þaðan til Ameríku. Það er margt merkilegt í Main og fylkjunum þar í kring sem komið hefur í ljós varðandi húsagerð. Þar virðist vera margt sem má heimfæra til Írlands og jafnvel til norrænna manna í gegnum Ísland.
Árni Óla skrifaði um þetta í bókinni Landnámið fyrir landnám ef mig minnir rétt. En það er með þetta eins og landnámið í opinberu Íslandssögunni, rétt betra að rugga ekki bátnum jafnvel þó staðreyndir blasi við eins og virðist nú vera að koma í ljós á Stöð í Stöðvarfirði. Þá verður kenningin að vera í takt við það opinbera, að þessar mannvistaleifar þar hafi verið útstöð norrænna manna svona nokkurskonar verstöð.
Hvers vegna fjörðurinn heitir ekki Útstöðvarfjörður veit svo enginn.
Magnús Sigurðsson, 3.1.2020 kl. 13:19
Já þakka Magnús þetta er skemmtilegt viðfangsefni og fróðlegt hjá þér. Ég ætti líka að mynnast á Dalgeirsstaði í Vesturárdal inn af Miðfirði V. Hún. Þar var ég líklega ári eftir að ég var að S Löngumýri eða 1951 en þá var nýtt steinhús komið með Kyndingu og kynnt með taði þegar kaldast en annars var koks vélin notuð. Gamli torfærinn var enn í góðu lagi en hann var meir eins og langhús, suður norður svipað og Eiríksstaðir í Dölunum og smá viðbygging við miðjan bæinn austan megin. Þessi bær var mjög snyrtilegur og dyr á miðjum vegg að vestan og kom maður strax inn á gólf af bæjarhólnum en það voru tveir bæjarhólar og nýja húsið á norðari hólnum og gamli torfbærinn á þeim syðri. Það var ennþá verið að ná í hluti úr honum þegar ég var strákur. Öll útihús voru torf hún og gert við eftir töðugjöld en þá var torf rist yfir heytóftirnar og stungið fyrir viðgerðir á útihúsum sem þurfti að gera við. Bóndinn risti um 3 metra langar ristur og sé hann enn fyrir mér rista og settum við það á hey sleðann. Semsagt þetta var líkara Langhúsi frekar en hefðbundnar bæjarþyrpingar og ef ég hugsa aftur að Löngumýri þá sýnist mér í huganum að Löngumýri hafa verið langhús nema að eldhúsið var líka miðsvæðis við vesturveggin. Kv V
Valdimar Samúelsson, 3.1.2020 kl. 19:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.