Skandali

Síðustu tvær vikurnar hafa verið sjúklega lýsandi fyrir hvers yfirvöld og fjölmiðlar megna þegar magana skal upp fár. Í lok viku fór klósettpappír að seljast betur en heitar lummur öllum að óvörum. Sáu sóttvarnayfirvöld og samtök verslunarinnar ástæðu til að gefa út samhljóða yfirlýsingar, bæði úr Skógarhlíðinni afgirt á efsta stigi sóttvarnaáætlunar sinnar, eða þá heimavinnandi úr snjallsímunum sínum. þar var biðlað til fólks að hætta að hamstra og það á meðan blessuð krónan var í frjálsu falli, sennilegast til þess að verslunum gæfist tími til að lagfæra verðið áður en allt kláraðist. En fólk var ekki orðið algjör fífl og hélt áfram að höndla á gamla verðinu.

Þó svo að flestir kalli eftir Marshallskri leiðsögn á samfélagsmiðlum þá upplifa margir sig þar sem hrópandann í eiðimörkinni. Því það virðist eitthvað hafa farið úrskeiðis á milli eyrnanna á sjálftökuliðinu í stjórnarráðinu. Þau hafa nú þvælst um miðbæinn, milli Arnarhóls og Tjarnargötu nætur og daga. Og komust loks að þeirri sérkennilegu niðurstöðu að rétt væri að beina því til landans að takmarka flæking út fyrir landsteinana, eftir að flestum landamærum veraldar hafði verið lokað. Því ekki sé víst að fólk komist heim aftur, ekki einu sinni sjóleiðina með Norrænu. Utanríkis hafði samt uppi áform um að bregða sér vestur um haf í vikunni og kippa þessu í liðinn fyrir Icelandair og þá sem þyrftu að komast á skíði í Aspen, en ræstitæknir Trumps veitti honum leiðsögn með sms skilaboðum í tíma.

Þessi síða hefur ekki farið varhluta af Wuhan veirunni og hefur undanfarna daga verið útbíuð hugleiðingum fíflsins tengdum fjölmiðlafári heimsbyggðarinnar. Síðuhafi biðst velvirðingar á þessum leiðindum enda hefur síðan verið að mestu tileinkuð þjóðþrifamálum af landinu bláa fram til þessa. Og þó svo að það hafi stundum verið sagðar sögur af mórum og skottum þá er ekki meiningin að láta alþjóðlegan draugagang yfirvalda ríða hér endalaust röftum.

Stundum á ég það til að skrifa hjá mér punkta þegar eitthvað verður til að vekja upp gamlar minningar. Yfirleitt tíni ég þessum skrifum svo einhversstaðar í tölvunni og rekst stundum óvænt á þau mörgum árum seinna og á þá það til að setja þá hér inn á bloggið í andlegri örbyrgð og gúrkutíð líkri og gengur yfir nú um stundir þegar aðeins eitt kemst að í helsýktu höfðinu. 

Þegar ég kom á Djúpavog 1984 var þar hundur sem hét Skandali og var hann með öll einkenni íslensks hunds, hringaða rófu, sperrt eyru og gekk um hnarreistur með spekingssvip, svartur á skrokk með hvítar lappir og bringu, þó svo að hann væri hvorki stór né kraftalegur. Það fyrsta sem ég heyrði af visku Skandala var að hann hefði rakið slóð húsbónda síns niður í frystihús þar sem hann vann. Hafði Skandali komist þar inn í búningsherbergi, þar hafði húsbóndinn skipt um skó með því að stíga í vinnuskóna án þess að snerta gólfið. Skandali leit undrandi til lofts og síðan í allar áttir áður en hann tók þá skinsamlegu ákvörðun leggjast yfir skó húsbónda síns og bíða.

Langabúð ca 1920 30

 Plássið; var svæðið milli gömlu verslunarhúsanna á Djúpavogi kallað. Þó svo að þessi mynd sé frá fyrri hluta 20. aldar þá er engu líkara en Skandali standi þarna fyrir miðri mynd

Þó Sakndali væri skarpvitur þá var hann vita gagnslaus til flestra nota og ef farið var með hann í smalamennsku þá var hann miklu verri en engin, en það sýndi reyndar best hversu gáfaður hann var. Honum þótti afleitt að láta segja sér fyrir verkum og var fljótur að koma sér úr leiðinlegum aðstæðum, -eins og t.d. að hlaupa fyrir rollur-, með því einu að æra þær úr allra augsýn. Um leið og hann fann inn á að framtak hans þætti til hins verra lét hann sig hverfa og fór á sitt venjuleg snuðr eftir lóðatíkum og góðum matarbita.

Það var ekki til siðs að hafa hunda í bandi á Djúpavogi í þá daga því gat Skandali farið allra sinn ferða eins og honum þóknaðist. Hann átti það til að skaprauna bæjarbúum með því að ná af þeim góðum matarbita. Honum tókst eitt sinn að ræna steikum af grillinu hjá útibústjóra Landsbankans. Útibústjórinn hafði aftur á móti gaman af því að segja frá því hvernig hann komst að þessu ráni. En hann hafði ætlað að grilla á blíðviðris kvöldi og setti á grillið framan við hús og fór svo inn. 

Þegar hann kom út var lítið á grillinu og skildi ekkert í því. Hann ákvað að setja aftur á grillið og fara inn og fylgjast með grillinu í laumi út um gluggann, því þetta var fyrir tíma öryggismyndavélanna. Það leið ekki á löngu þar til svört eyru komu upp fyrir barðið á lóðinni og svo hausinn allur þar sem Skandali skimaði eftir því hvort óhætt væri að nálgast grillið. Eins var hann grunaður um hafa rænt tertu úr barnaafmæli, sem húsmóðirin hafði sett út fyrir dyr af einhverjum ástæðum. Það var aftur á móti engin sérstök ánægja með það rán.

Húsbóndi Skandala flutti frá Djúpavogi og komst þá Skandali á hálfgerðan vergang. Reynt var að koma honum fyrir í sveit í Álftafirði, hann stoppaði stutt við þar og var fljótlega kominn aftur á göturnar á Djúpavogi, þetta var reynt oftar en einu sinni en allt kom fyrir ekki, -aftur kom hann á Djúpavog. Þá var honum komið lengst upp í sveit alla leið upp á Hérað í Fljótsdal og reiknað með að þaðan ætti hann ekki svo auðvelt með að rata heim á Djúpavog.

Veturinn 1985-86 var ég að vinna á Egilsstöðum við að múra öldrunardeild við sjúkrahúsið og bjó þá hjá afa mínum. Þegar ég fór upp á Hérað í þetta verkefni seint í október þá hafði ég með mér hvolp. Þetta var því sem næst íslenskur hvolpur undan tík, sem ég man því miður ekki lengur nafnið á, en faðirinn var grunaður Skandali. Þennan hvolp hafði ég tekið að mér af algjörum fábjána hætti.

Afa leist ekki á gestinn en samþykkti samt að ég fengi inni með hvolpinn svo framarlega sem ég hefði hann með mér í vinnuna yfir daginn. Þetta var engin Skandali en varð samt úlfgrár íslenskur hundur með sperrt eyru, hvíta bringu og hringaða rófu, fékk hann nafnið Rustikus. Hvolpurinn fylgdi mér í vinnuna en var ósköp smár og umkomulaus í múrverkinu en braggaðist fljótlega. Eftir áramótin kom smiður frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal til að vinna við bygginguna. Hann hafði gaman hvolpinum eins og fleiri á þessum vinnustað, en þó ekki nægan áhuga á að eignast hann til að losa mig úr vandræðunum.

IMG_0710

Plássið; -eins og það er í dag, komið með grjótgarð meðfarma Löngubúð og ný uppgerðu Faktorshúsi fyrir neðan. Aðdráttarafl fyrir ferðamenn. -Síberían; húsið sem stóð fyrir enda húsanna, og sést á gömlu myndinni að ofan, brann á fimmta áratug 20. aldar

Hann sagði mér að hann hefði haft ansi sérstakan hund frá Djúpavogi hjá sér fram eftir vetri. Sá hefði dagað uppi hjá honum þegar Fljótsdælingar voru að smala Fljótsdalsheiðina og Vesturöræfin. Hundurinn hafði komið frá Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal og héti Skandali. Taldi hann hundinn dauðann. Hann hefði verið fjarrænn og eirðarlaus, hefði helst haft áhuga á að vera með sér í silungsveiði niður um ís. Hafði þá stundum orðið svo áhugasamur að hann lenti í vökinni. Skandali hefði svo horfið einn daginn og hvergi fundist hvernig sem var leitað. Taldi kunningi minn að hann hefði farið sjálfur að vökinni á veiðar og jafnvel kafað undir ísinn og drukknað.

Seinna um veturinn kom Skandali fram, örmagna niður í Fossárdal við innanverðan Berufjörð. Hann fékk að hvíla sig þar og safna kröftum. Þegar hann var farinn að braggast þá hvarf hann úr Fossárdal og hélt út Berufjörðinn með viðkomu í Urðarteigi, þaðan hélt hann svo út á Djúpavog. Þar tók gamall vinur hans hann að sér, sem þá var nýlega fluttur út í Sólvang, gamla heimili Skandala. 

Aldrei var eftir þetta reynt að koma Skandala frá Djúpavogi og eftir að vinar hans naut ekki lengur við þá tók tók annar vinur hann að sér og lifði hann alsæll til elli. Hann kom oft á byggingarstaði og kunni vel að labba upp stiga, alveg upp á þak. Eins munaði hann ekki um að far niður stiga þó svo að hann gerði það ekki alveg á sama hátt og iðnaðarmaður, því hann hljóp niður með hausinn á undan og fipaðist ekki að hitta rimarnar.

Skandali naut alla ævi þeirra forréttinda á Djúpavogi að þurfa ekki að vera í bandi þó svo að þær reglur hefðu á hans tíð verið teknar upp um aðra hunda, og átti það til að stoppa bíla til að fá far. Einu sinni gekk Skandali í veg fyrir Matthildi mína og lét hana ekki komast fram hjá. Þegar hún opnaði dyrnar á bílnum dreif hann sig inn, settist í framsætið og mændi út um framrúðuna. Matthildur skildi að hún átti að skutla honum út í Sólvang og gerði það, opnaði þar fyrir honum. Þar fór hann strax út og skokkaði heim að útidyrum með dinglandi rófu.

Ps. Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér fjarlægðinni sem sóttvarnaryfirvöld telja nú nauðsynlega á milli fólks, þ.e.a.s. tveir metrar -sama sem sex fet- og  hef trú á að dagar miðaldra skíðamanna líkt og lausaganga hunda séu nú taldir á Íslandi, allavega þennan veturinn.

Kort II

Leiðin hans Skandala heim á Djúpavog var að minnstakosti um 80 km löng og tók þar að auki marga daga um óbyggðir, þegar íslenski veturinn er hvað harðastur og snjóþyngstur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtilegt :)  takk

Jóhanna Más (IP-tala skráð) 15.3.2020 kl. 09:43

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Skandali

Djúpvitur en ganglaus með öllu. :)

Guðmundur Jónsson, 15.3.2020 kl. 10:47

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Jóhanna, þú manst Skandala :)

Já Guðmundur, þetta er betur orðað að hálfu. Skandali var jú "djúpvitur" en ekki "gagnslaus með öllu" frekar en allir aðrir sem veita okkur ánægju :)

Magnús Sigurðsson, 15.3.2020 kl. 11:14

4 Smámynd: Ómar Geirsson

cool

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.3.2020 kl. 17:32

5 identicon

Mjög skemmtileg grein :-)

Kristjana Jóhannesdóttir (IP-tala skráð) 16.3.2020 kl. 08:58

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdirnar Ómar og Didda.

Skandali er eftirminnilegur og vonandi hef ég ekki farið mikið rangt með, það væri leiðinlegt ljúga upp á látinn hund sem átti sig sjálfur. 

Af ásettu ráði þá tók ég út nöfn vina Skandala, til að fara örugglega ekki rangt með vegna minnisleysis.

Magnús Sigurðsson, 16.3.2020 kl. 13:21

7 identicon

Þetta var sannkallaður afrekshundur og hefði staðið sig vel í þríþrautinni. Nú er kominn tími til að leggja niður Faðir vor hlaupið og taka upp árlegt Skandalahlaup í staðin. 

Ásdís (IP-tala skráð) 16.3.2020 kl. 16:03

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Ásdís, Skandalahlaup yrði þá bara fyrir afreksfólk.

Það er ekki heiglum hent að fara í sporin hans Skandala þó svo að sumarlagi væri, hvað þá á þeim árstíma sem hann skokkaði sitt hlaup upp á líf og dauða.

Ætli flestum væri ekki nóg að þreyja Skandalahlaup úr Álftafirði á Djúpavog, enda yrðu það mörg Faðir vor :)

Magnús Sigurðsson, 16.3.2020 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband