Eftir covid-19

maxresdefault

Það hefur verið þrúgandi að fylgjast með framvindu covid-19 veirunnar. Veiru sem engin hefur séð og sára fáir orðið varir við, sumir segja samt að nóg sé að slökkva á sjónvarpinu þá sýkist maður ekki, Því það sem maður hefur ekki séð í sjónvarpi sé ekki til.

Veiran er samt svo lúmsk að fólk getur verið sýkt af henni án þess finna nokkurntíma einkennin en samt sem áður smitað aðra. Nú er svo komið að margar lýðræðisþjóðir vesturlanda hafa ákveðið að taka kommúnistana í Kína sér til fyrirmyndar varðandi veiruna, og loka þegna sína inni vikum saman.

Vinnustaðurinn minn, sem telur um 30 manns, hefur sett upp sína sóttvarnaáætlun. Nú mætir engin lengur á morgunnandaktina, þannig að ég er orðin alveg sambandslaus á morgnanna því snjallsíma tæknina hef ég aldrei náð tileinka mér. Nokkrum dögum áður en andaktin var leist upp í spritti þá varð mér á orði að eitthvað meira kynna að búa undir hjá Kínverjunum en umhyggjan ein.

Félagi minn leit eldsnöggt upp úr lófanum sínum sem geymdi símann og lét mig vita af því að hann hefði ekki hugmyndaflug til að ætla yfirvöldum, hvar sem þau væru í heiminum, annað en manngæskuna eina þegar þvílík og önnur eins vá stæði fyrir dyrum. Í morgunnkaffinu hélt ég svo áfram að tuða um það að það væri aðallega fólk yfir áttrætt sem hefði greinst dáið og þá jafnvel verið lagst í kör áður ef ekki komið á grafarbakkann.

Morguninn eftir þegar ég mætti á andakt okkar vinnufélagana fannst mér eins og þessi félagi horfði á mig með grunsemd þegar hann sagði; að betra væri að fara af öllu með gát á þessum viðsjáverðu tímum til að vernda aldraða og hjartasjúklinga sem væru að þvælast innan um heilbrigt fólk. Enda var umræðuefni okkar vinnufélagana þá að venju covid-19. Það er ekki svo að vesalingur eins og ég, sem hef fengið það stóra skammta af hlandi fyrir hjartað að læknar tala um bilun, sé orðinn of gamall fyrir hetjudauða þó svo að ég hafi ekki beint trú á nýjustu lýðheilsumarkmiðunum frá Kína.

Já ég verð að segja það eins og er að ég er strax farin að sakna morgunn andaktarinnar. En nú hefur tekið við önnur alvara. Við Matthildur mín höfum verið að æfa tveggja metra fjarlægðina með málbandi heima í stofu því samkvæmisdansar verða varla viðurkenndir sem sóttvarnir inn á heimilum, hvað þá vangadans. Það sem mér hefur þótt erfiðast við tvo metrana er að þeir eru nákvæmlega sama fjarlægð og sex fet í vígðri mold. En við Matthildur mín lofuðumst einmitt til að halda utan um hvort annað uns dauðinn aðskildi.

En hvað tekur svo við eftir tveggja metra covid-19 dansinn, varla verður það kjarnorkuvetur nú á vordögum hnattrænnar hlýnunar, það myndi leysa of mörg vandamál í flóknu samfélagi þjóðanna. Stjórnvöld þurfa sjálfsagt að teikna upp sviðsmyndir áður en þau eiga samtal og setja málin í nefnd. Niðurstöðurnar verða svo sjálfsagt kynntar í 5G snjall sjónvarvarpi eftir að ekki reynist lengur þörf á að kynna nýjustu neyðaráætlanir og covid-19 tölur í beinni.

Þar sem ég er ekki með sjónvarp núna þá verður mér hugsað til ársins 1983 þegar Ameríska sjónvarpsmyndin The Day After fór eins og eldur í sinu um hinn vestræna heim. Þar var lýst endalokum heimsins eftir kjarnorkustyrjöld . Síðan hafa sjónvarpsstöðvarnar kynnt til sögunar marga óáranina. Núna stendur víst yfir covid-19, en á 21. öldinni hafa auk þessa verið kynnt til sögunnar fjármálahrun 2008 og þar áður 9/11 2001, sem var hið formlega upphaf stríðs gegn hryðjuverkum.

Þó svo að stríð hafi staðið yfir gegn hryðjuverkum alla þessa öld þekki ég samt ennþá engan sem hefur farist í hryðjuverki, ég þekki ekki einu sinni neinn sem þekkir mann sem farist hefur í hryðjuverki. Bjó ég þó í Noregi 2011 og varð vitni af hinum ógnvænlega hryðjuverki á Úteyju, -en einungis í gegnum fjölmiðla.

Nú eftir öll þessi hryðjuverkastríðsár get ég samt talið á annan tug eftirlitsmyndavéla út um stofugluggann minn sem geta fylgst með hryðjuverkum. En það að njósna um fólk að ósekju gerði bara Stasi Þýskalands og önnur kommúnistaríki fram yfir The Day After.

Hvað er það svo sem fjármálahrunið 2008 hefur leitt af sér og sjá má í dag hvar sem fólk kemur saman? Þessarar spurningar ætti hver einasti maður að spyrja sig þó að svarið sé að öllum líkindum beint fyrir framan nefið á honum akkúrat núna.

Samt er rétt að minnast þess áður að árið 2008 var góðæri til lands og sjávar á Íslandi. En eftir fjármálahrunið flýðu fleiri land en í Móðuharðindunum, og ég meir að segja um tíma til Noregs. En samt var ekki um neitt raunverulegt hallæri að ræða, -heldur bókhaldsmistök. En hefur þá bókhaldið batnað? En það er hvorki betra bókhald né árferði sem allstaðar má sjá eftir 2008.

Það sem má sjá hvert sem litið er í dag er fólk með snjall síma. Sá staður er varla til í veröldinni þar sem snjallsíminn með sinn staðsetningabúnað er ekki hafður í hönd. Er þá sama hvort um fátækrahverfi í Afríku eða flóttamannbúðir í Grikklandi er að ræða, og flestir þessir símar eru framleiddir í Kína.

Úr sítengdum snjall símanum birtast upplýsingar á sama sekúndu broti í lófa því sem næst hverrar einustu manneskju á jörðinni, upplýsingar um raunverulega atburði, -eða svo er okkur sagt. En hvað ef google er að ljúga og þetta er af álíka Stasiskum toga og á dögum sjónvarpsmyndarinnar The Day After?

Sumir kynnu að halda því fram að covid-19 hafi að endingu eitthvað að gera með Brawe New World, eða þegar gamli Bush Íraks bani hélt titrandi af geðshræringu New World Order ræðuna sína, eða jafnvel Sameinuðu þjóðanna Agenda 21.

Að halda öðru fram en að þrúgandi fréttir 21. aldarinnar með öllum sínum upplýstu viðburðum, sem nú birtast sítengdir í lófa hvers manns, sé ekki hrein tilviljun og að kommúnistarnir í Kína hafi ekki mannúðleg lýðheilsumarkmið í heiðri eftir að þeir fengu áhuga á raunverulegu peningabókhaldi er auðvitað ekkert annað en samsæriskenning.

Ps. Munið að halda eftir klósettpappírsrúllu, hún gæti orðið dýrmætari minjagripur en flugmiði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vér sem ögn til kaldhæðni hneigjumst (kannski af því að grátgetan er af skornum skamti)glottum út í annað þegar seðlabankastjóri sagðist í kvöld ætla að láta bankana hafa a.m.k. 60 milljarða sem hann vænti að þeir létu svo ganga til viðskiptavina í nauðum (þó líklega ekki þeirra sem eru enn í nauðum eftir Hrunið). 

Varðandi cóivídinn þá var ég svona við það að kaupa þau rök að hér skyldi verja þá veikustu en byggja sem hraðast upp hjarðónæmi hjá hinum. En þá var allt í einu snúið til baka með A. að reiknað væri með að smit næði þeim hæðum að slíkt ónæmi byggðist upp og svo B. og upplýst að margir utan áhættuhópa myndu líka deyja úr sjúkdómnum yrði smitið víðtækt. 

Niðurstaðan virðist vera sú að smitið meigi svona einhvernveginn að gluðast um samfélagið þangað til eitthvað gerist til að laga það og vonandi ekki að hitta fyrir of marga í áhættuhópum. Í það minnsta að þeir geti dáið í öndunarvél. 

Niðurstöður greininga eru túlkaðar í anda kosningaúrslita, þegar í ljós kemur að helmingur smitaðra eru að smitast og smita utan sóttvarnargirðinga þá er það túlkað sem alveg sérstakur árangur að fá 50% nýsmita innan þeirra. 

Annað hvort byggjum við upp hjarðónæmi og verndum sérstaklega áhættuhópa á meðan eða að við berjumst af öllum kröftum að kveða vírusinn niður þó aðeins tímabundið sé og vonum hið besta að bóluefni skeri okkur svo úr snörunni. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.3.2020 kl. 19:17

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Bjarni Gunnlaugur og takk fyrir hugvekjandi athugasemdina.

Ég hygg að það sé nokkuð til í því að milljarðarnir úr Seðlabankanum verða taldir ofan í valda vasa. Þeir eru í þjálfun við að skola aurinn til þeirra sem fara með hann af aflands ábyrgð. Eins og kom svo berlega í ljós núna um síðustu mánaðarmót þá eru það áhugamanna- og kvenfélög sem eru helst gerendur í ábyrgðalausu peningaþvætti.

Ekki þori ég að trúa neinu í sambandi við Wuhan veikina fyrr en upp úr henni verður staðið. En finnst samt einkennilegt að kommúnistarnir í Kína skuli nú vera trompaðir upp sem mankynslausnarar víða í lýðræðisríkjum hins vestræna heims. Þeir hafa verið taldir fara frjálslega með mannréttindi hingað til, en þó sýnist manni ESB ríkin vera farin að sýna gamla takta á mannréttinda vaktinni.

Ég man mislingana áður en var farið að bólusetja við þeim. Móðir mín heitin fór með okkur krakkana í heimsókn þangað sem þeirra var helst von, og í ljós hefur komið að eina leiðin til að fá ekki mislinga er að fá þá, bólefnin virðast virka tímabundið, þó svo að þau dugi lengur en við flensu.

Í þá daga var talið að illu væri best aflokið og pestir væri börnum léttvægar en öldruðum þungbærar. Mér sýnist á umfjöllun að eitthvað svipað eiga við um veiruna frá Wuhan.

Sjálfur er ég nú svo sérvitur að ég vildi frekar vera dauður en lifa í öndunarvél. Einhvern vegin hefur sú sérviska farið vaxandi með árum og áföllum að lífsgæði séu eftirsóknarverðari en lífslengd. Ekki vil ég neitt vera að alhæfa fyrir aðra, en sjálfur bjóst ég ekki við að upplifa sex fetin hérna megin grafar.

Magnús Sigurðsson, 18.3.2020 kl. 20:43

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Já Magnús, það er undarlegur andskoti að upplifa ´´sex fetin hérna megin grafar´´.

 Hvernig þessi ´´plága´´ verður skilgreind í framtíðinni, læt ég öðrum eftir að dæma um. Það er ekkert mál og í raun mjög auðvelt að henda fram allskonar kenningum. Flestum slæmum. Mín er sú að um storm í vatnsglasi sé um að ræða. Þetta getur winfaldlega ekki staðist. Ekki frekar en manngert veður.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 18.3.2020 kl. 23:13

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Halldór, ég hallast að því að ekki séu öll kurl komin til grafar og manngert veður í vatnsglasi endurspegli raunveruleikann aldrei til lengdar. Hvað þá að sex fetin hérna megin eigi að teljast til sjálfsagðra mannréttinda auk þess að fá að geispa golunni í öndunarvél.

Ég hallast á að rétt sé að taka hundinn Skandala á stöðuna, líkt og þegar hann týndi húsbónda sínum á Djúpavogi í denn en fann skóna hans, þ.e.a.s. leggjast yfir skóna ýlfra og bíða. Allavega áður en maður ákallar nýjan húsbónda með hálsól. Eða leggst í flæking, sem reyndar hvort eð er ekki í stöðunni þessa dagana.

Með kveðju austan af Héraði.

Magnús Sigurðsson, 19.3.2020 kl. 06:29

5 identicon

Samsæriskenningar eru skemmtilegar, en sannleikurinn enn skemmtilegri. Nú lesa íslendingar væntanlega heimsendaspádóma, t.d.Markús 13. Mattheus 24, og Opinberunarbókina. 

Guðjón Bragi Benediktsson (IP-tala skráð) 19.3.2020 kl. 15:02

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Satt segirðu Guðjón Bragi "nemið líkinguna af fíkjutréinu".

Ég er samt ekki viss hvort þessi vers úr Nýja testamentinu séu blokkeruð í kínverska snjallsímanum í augnablikinu, hef meiri trú á að þar séu almannavarnir ríkisins með þéttskipaða dagskrá.

Sannleikurinn er víst sá að yfirvöld eru að vernda áhættuhópa, sérstaklega gamalt fólk með undirliggjandi sjúkdóma, sem vill svo skemmtilega til að er að mestu "króna á móti krónu" hópurinn.

En nú er sannarlega sumar í nánd og á að bæta þeim skertan lífeyrinn með aðgangi að kínverskum öndunarvélum, og hagkerfi heimsins sett að veði. 

Ekkert auga fyrir auga, tönn fyrir tönn kjaftæði lengur.

Magnús Sigurðsson, 19.3.2020 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband