Einmánuður

Þessi vetur hefur verið vindasamur með slyddu, krapa, snjó og frostum. Hrafnarnir sveima nú sársvangir innanbæjar í leit að æti. Hérna fyrir framan svalirnar í Útgarðinum fer flugfimi þeirra ekki framhjá mér, þegar þeir fylgjast með gjöf snjótittlinganna hjá henni Matthildi minni. Stundum fellur til brauð og fita sem hrafnarnir hremma. Smyrillin á það til að fela sig upp í öspinni í von um að geta náð um snjótittling til að seðja sárasta hungrið. Austanlands má segja að hafi verið fannhvítur vetur frá því fyrir fyrsta vetrardag þann 26. október og með jarðbönnum á Héraði frá því í desember, landið er orðið eins og jökull yfir að líta.

Nú kviknar nýtt tungl á fyrsta degi einmánaðar. Nýtt tungl gefur væntingar um breytt veðurlag, en næsta víst er að ekki er vetrinum liðinn. Nú kviknar tungl í SA en undanfarin tungl hafa kviknað SV og V. Ég ætla að leifa mér að spá því að nú verði vindátt á landi vestanstæðari næstu vikurnar, jafnvel útsynningur Vestanlands en sólbráð að degi og frost að nóttu Austanlands. Gamla tímatalið hefur fleira í nánd við mánaðamót en tunglkomur, stjörnumerkjum skiptir á svipuðum tímamótum. Stjörnumerki Fiskanna rann sitt skeið á vorjafndægrum 20. mars. Daginn sem sólin nær yfirhönd á norðurhveli jarðar tekur merki Hrútsins við með lengri degi en nótt.

Útigangur

Hestar á íslenskum útigangi í Norðfjarðarsveit s.l. viku, daginn fyrir vorjafndægur, svona lítur Austurlandið út þegar varla sést á dökkan díl. Myndir frá þessum vetri má nálgast HÉR eða skoða í myndaalbúminu Vetur 2020 sem er til hægri á síðunni   

Einmánuður er sjötti og síðasti vetrarmánuðinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar, eða 20. til 26. mars. Elstu heimildir um einmánuð eru úr Bókarbót frá 12. öld og Skáldskaparmálum Snorra Eddu frá 13. öld. Hann ásamt gormánuði, þorra og góu eru einu mánaðarnöfnin í gamla norræna tímatalinu sem koma fyrir í fleiri en einni heimild. Líklega er nafnið dregið af því að hann var síðasti mánuður vetrar líkt og orðið eindagi sem þýðir síðasti dagur.

Góu sem lauk á degi sem kallast Góuþræll eins og Þorra sem lauk á sínum þræl. Fyrsti dagur einmánaðar kallast yngismannadagur og er helgaður piltum eins og harpa stúlkum, -þorri og góa húsbændum og húsfreyjum. Áttu stúlkur þá að fara fyrstar á fætur til að taka á móti einmánuði og veita piltum glaðning. Síðustu dagar Einmánaðar kallast sumarmál enda tími til komin að fá vorið, en í gamla íslenska tímatalinu voru árstíðirnar aðeins tvær, -vetur og sumar.

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um vorverk í Einmánuði að ef vorgott væri þá væri hentugur tími að stífla vatn, sem veitast skal yfir land svo vatnið standi þar á meðan vorleysing er mest. Það átti að vera vegna þess að það grugg, sem setur sig undir leysingavatnið á meðan það stendur yfir landinu væri betra en nokkur áburður.

Eins að sá sem vill ná grjóti upp úr jörð, því sem upp úr stendur, hann geri það þá þegar jörð er hálfa alin þíð ofan til eða nokkuð minna. Þá væri það bæði lausast og ylti líka á klakanum svo erfiðið yrði minna.

Einmánuður er auk þess að vera síðasti mánuður vetrar, sá þriðji af útmánuðum en svo voru þrír síðustu mánuðir vetrar kallaðir, þau þorri, góa og einmánuður. Sagt er að votur einmánuður boði gott vor. Í gamla daga gat þessi síðasti mánuður vetrar verið fólki erfiður. Ef til vill var matur af skornum skammti og lítið hey handa búfénaði. Eftirfarandi vísa um útmánuði er úr Rangárvallasýslu og er eignuð álfkonu:

Langi Þorri leiðist mér

lata Góa á eftir fer.

Einmánuður yngstur er,

hann mun verða þyngstur þér.

Í þjóðsögum austfirðingsins Sigfúsar Sigfússonar er þetta haft eftir álfkonu; „Þurr skyldi þorri, þeysin góa, votur einmánuður og þá mun vel vora“.

Ps. Munið eftir smáfuglunum.

Heimildir: http://is.wikipedia.org/wiki/Einm%C3%A1nu%C3%B0ur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Þeir helv. í Ps-inu eru matvandir með afbrigðum, vilja helst ekki kornið nema að það snjói.

Kíkja kannski við, en fljúga svo á braut frá vart byrjuðu veisluborði.

Neysluhyggjan og ofgnótt hennar er víðar en við höldum.

En svei mér þá, þá held ég að eftir að sagnaþulurinn Hálfdán á Kirkjumel dó, þá sé þá flesta að finna í efra.

Takk Magnús.

Kveðja frá sameiginlegu liði í 3. flokk úr neðra.

Ómar Geirsson, 24.3.2020 kl. 11:34

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, snjótittlingarnir eru léttir á fóðrum eftir að dagurinn hefur yfirunnið nóttina og sólin hefur brætt snjó af einstaka barði, enda kallast þeir furðufuglar sólskríkjur þegar svo er komið.

En það eiga bráðlega aðrir smáfuglar eftir að passa við ps-ráðlegginguna. Vorboðinn ljúfi sem söng fyrir draumadís með rauðan skúf í húfu er kominn á næsta leiti. Hann á það til að hafa úr litlu að moða í svona jarðbönnum og kann einstaklega vel að meta epli.

Ég fór fram hjá Kirkjumelnum í dag og sá þar ekki enn á dökkan díl nema malbikið og barrtrén, sennilega hefur Hálfdán heitinn þó oft séð það svartara, jafnvel í Bakkafirðinum fyrir utan náttúrulega barrtrén.

En fallegur var Norðfjörðurinn mjallarhvítur í rjómablíðu og sólskini dagsins.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 24.3.2020 kl. 17:43

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Rétt Magnús.

Svo gleymi ég blessuðum dúfunum sem éta allt upp sem hinir matvöndu snjótittlingar skilja eftir.

Ég held að Hálfdán heitinn hafi allavega séð það hvítara í Bakkafirðinum, og þá svartara miðað við lífsbjörg þess tíma.

Hef reyndar heyrt hann lýsa því, en bestu lýsinguna á snjóalögum útmánaðarins þegar vorið gleymdi að koma á útnára hins byggilega heims, fékk ég hjá syni hans, Einari sem var ungur sendur í sveit til móðursystkina sinna og fékk föðurbróðir/bræður beint í æð.  Það er hann var sendur þegar skóla lauk, og kom fyrstu árin mjórri og horaðri til baka, sérstaklega á þeim grimmu  árum sem kennd eru við hafísárin síðustu.

Einar gæti reyndar haldið uppi sagnahefð okkar í neðra, en maður þarf helst að fara túr með honum út á sjó til að nema og njóta. Og svo er það Ína mín í Seldal, sem hefur sagnahefð sína frá Vestdalseyri.

Fallegur er fjörðurinn minn í góðviðri þegar sólin glitrar á mjöllinni, þó ég sem margt þyki vita betur en sumir, veit eins og er, að þá ættu menn að koma í Víkina mína, þá sjá þeir fegurðina eins og þeir hafi aldrei séð hana áður.

En ég er reyndar ekki hlutlaus, ekki frekar en  ég hafi spádómsgáfu Völvu.

Ég les samt sagnir og fróðleik í efra, það er og, megi sú list lifa sem lengst þó hún njóti ekki styrkja menningarvita.

Enda myndi hún þá sjálfsagt deyja út fljótar en Kórónaveiran.

Kveðja upp og yfir, vestur en að austan.

Ómar Geirsson, 24.3.2020 kl. 18:04

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Eitthvað sló saman hjá mér textinn;

"Einari sem var ungur sendur í sveit til móðursystkina sinna og fékk föðurbróðir/bræður beint í æð".

Einar nágranni minn og fermingarbróðir, sagnameistari sem gefur Einari Kára ekkert eftir nema síður sé, hann fór til móðursystur sinnar sem hann kallaði alltaf fóstru upp frá því, Hilmar oddviti með meiru var föðurbróðir hans, og svo framvegis, nema ég sé að snúa þessu öllu við.

En hann fékk ó-vorið beint í æð.

En nágranni minn pistlar ekki, svo sagnabrunnurinn er í efra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.3.2020 kl. 18:19

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Já fagrir er firðirnir og víkurnar ekki síðri. Ég hef reyndar nokkrum sinnum komið í víkina þína Ómar, síðast núna í sumar, þá var þoka, eins kom ég sumarið 2018, og þá var þoka. En sumarið 2004 var ekki þoka, en þéttskipað ættarmót sem við kunnum ekki við að fálma okkur í gegnum. Svo ég á eftir að koma niður í Vaðlavíkina merlandi. 

Í öll þessi skipti var víkin samt "vökur" eins og norðmennirnir hefðu orðað það og þokan gaf henni einungis dulúðina að auki. Sumarið 2018 fórum við Matthildur mín tvö niður á sand og sátum dagpart við úthafsöldunnar nið í garðstólum og 20°C heitri þokunni í sólstrandar pikcnik.

Við Matthildur kunnum vel að meta svartan sand í þoku og finnst okkur aldrei vera meira heima, -á Djúpavogi er nóg af hvoru tveggja.

Magnús Sigurðsson, 24.3.2020 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband