10.4.2020 | 06:07
Gerviþjóðsaga um aftökustað
Það eru ekki allir sem vakna hvern morgunn með aftökustað fyrir augum. Eitt það fyrsta sem ég rek augun í þegar ég lít út um gluggann er Gálgaásinn með sínum Gálgakletti. Frá því fyrst ég man hef ég vitað af þessum stað, en núna seinni árin hefur hann verið fyrir framan gluggann minn í Útgarðinum. Þarna á Valtýr á grænni treyju að hafa verið tekin af lífi.
Á upplýsingaskilti við klettinn má lesa að; "aldrei hefur nein staðfesting fengist á sanngildi Valtýssögu, önnur en sú að við klettinn komu upp mannabein, sem lágu í óreiðu fram á miðja síðustu öld, en var þá safnað saman, og sett í kassa, með glerloki, sem festur var á klettinn. Árið 1975 gekkst Rotaryklúbbur Héraðsbúa fyrir því að sett var upp skilti á klettinn, en beinakassinn tekinn niður og settur á minjasafnið á Egilsstöðum, og um áratug síðar á Þjóðminjasafnið, þar sem beinin eru nú geymd".
Gálgakletturinn; samkvæmt sögnum var gálginn sex álna tré, sem komið var fyrir uppi á klettinum og látið standa fram af honum, stórir steinar settir sem farg á enda trésins upp á klettinum. En hengingarsnörunni var komið fyrir á þeim enda sem fram af stóð. Þeim dauðadæmda var ýtt með snöruna um hálsinn fram af klettasyllunni framan við klettinn
Nú er ég nokkuð öruggur á því að sannleiksgildi Valtýssögu er ekki síðra en upplýsinganna sem koma fram á skiltinu við klettinn. Allavega minnist ég þess að hafa verið ásamt fleiru ungviði að gramsa í beinum undir Gálgakletti löngu eftir miðja síðustu öld. Ef rétt er munað lágu mannabein undir klettinum fram yfir 1970, þess á milli sem þau voru í umræddum kassa með glerlokinu svo hægt væri að skoða án þess að snerta, því ekki hvíldu beinin í friði þó í kassa með glerloki væru komin, og mátti þá sjá þau þess á milli liggja á jörðu niðri innan um glerbrot og spýtnabrak. Sennilega hefur orsakavaldur þess verið steinn ofan af klettinum.
Einnig er á upplýsingaskiltinu lesning um nánasta umhverfi Gálgaklettsins; "Klettaásinn sem Egilsstaðakirkja og sjúkrahúsið standa á heitir Gálgaás (Gálgás), og það heiti var í fyrstu notað um þorpið sem byggðist á ásnum og við hann um miðja 20. öld. (Sbr. vísu Sigurjóns á Kirkjubæ Glatt er á Gálgaás)". Mig skortir aldur til að minnast þess að þorpið hafi verið kallað Gálgaás þó ég hafi heyrt hvíslað um vísuna hans séra Sigurjóns á Kirkjubæ á unga aldri, sem farið var með eins og mannsmorð. Enda var hún þess eðlis að ekki var talið rétt að kenna byggðina og íbúa hennar við þesskonar skáldskap.
Glatt er á Gálgaás,
Gróa á hverjum bás,
það er nú þjóð legur staður,
engin af öðrum ber,
efalaust þaðan fer,
til andskotans annar hver maður.
Gálgaás voru klettarnir undir kirkjunni kallaðir, gatan við þá fékk síðar nafnið Hörgsás. Á myndinni er Egilsstaðakirkja í byggingu á þeim árum þegar síðuhafi sleit síðustu barnskónum. Útgarður er í byggingu á hæðinni lengst til vinstri og það sést á bak Gálgaklettsins hægra megin við kirkjuna
"Engar heimildir eru um aftökur við Gálgaklett, nema hin landskunna þjóðsaga: Valtýr á grænni treyju, sem víða hefur birst. Samkvæmt henni átti Valtýr bóndi á Eyjólfsstöðum á Völlum að hafa verið saklaus dæmdur fyrir rán og morð er átti sér stað í landi hans, og hengdur á Gálgaás. Valtýr bað guð að sanna sakleysi sitt, og dundu þá fádæma harðindi yfir Austurland, svonefndur Valtýsvetur, sem er getið í fleiri heimildum. Lifðu aðeins 8 kindur á Héraði, segir sagan. Nokkrum árum síðar fannst hinn rétti morðingi, sem einnig hét Valtýr, og var hengdur á sama stað"; texti af facebook síðu Fljótsdalshéraðs.
Í gegnum árin hef ég oft hugleitt sannleiksgildi þjóðsögunnar um Valtý, og lét mig hafa það nú í vetur að lesa skáldsöguna Valtýr á grænni treyju eftir Jón Björnsson. Skáldsagan hefur verið gefin út oftar en einu sinni og fylgir algengustu gerð þjóðsögunnar. Þessi skáldsaga hefur samt aldrei náð vinsældum í heimahögum þjóðsögunnar þó svo að hún fylgi vel þræði hennar og persónur séu gerðar ljós lifandi. Það sem upp á vantar er að höfundur hefur ekki verið staðkunnugur. Því er ýmislegt sem kemur Spánskt fyrir sjónir þeirra sem til staðhátta þekkja.
Þó svo að flestir fræðimenn telji Valtýssögu upplogna skáldsögu og kalli hana í besta falli gerviþjóðsögu í fræðiritum, þá breytir það ekki því að undir Gálgaklettinum lágu mannabein fyrir allra augum fram til 1975. Þetta voru bein tveggja manna, á því fékkst staðfesting eftir að þjóðminjasafnið fékk beinin til rannsóknar. Þetta vissu reyndar flestir Héraðsbúar því í upphafi 20. aldarinnar höfðu verið þarna tvær höfuðkúpur, en með aðra þeirra hafði verið farið á Borgarfjörð eystri snemma á 20.öldinni til að nota við barnakennslu.
Þegar sannleiksgildi Valtýssögu er hafnað ber heimildaleysið hæðst og einnig er það gert með því að skoða þau minni sem fram koma í sögunni, þau tekin til grandskoðunar hvert fyrir sig. Þau eru helst; nafnið Valtýr, græna treyjan, aftakan og Valtýsvetur.
Nafnið Valtýr var ekki algengt á Íslandi sautjánhundruð og súrkál. Nafnið er sagt koma aðeins 7 sinnum fyrir í manntalinu 1703, oftast þó á Austurlandi eða 6 sinnum. Engar heimildir eru samt fyrir því að einhver Valtýr hafi búið á Eyjólfsstöðum, -og reyndar litlar heimildir til um nöfn ábúenda þar í þá tíð.
Hannes Pétursson rithöfundur og fræðimaður í íslenskum og germönskum fræðum hefur rannsakað Valtýssögu og komist að sömu niðurstöðu og dr Guðni Jónsson sagnfræðingur, að um hreina gerviþjóðsögu sé að ræða. Í úttekt sinni bendir hann m.a. á að sagnaminnið um grænu treyjuna sé sennilega komið úr vinsælli þýskri 19. aldar skáldsögu, "Der Grunmantel von Venedig". Þessi saga hafi verið vinsæl þegar þekktasta útgáfa þjóðsögunnar um Valtýr var skráð.
Það hefur samt fundist eldri skráð útgáfa þjóðsögunnar um Valtý en sú hefðbundna, þar sem á grænu treyjuna er einnig minnst og hafa sumir bent á að sú útgáfa sé það gömul að hæpið sé að þýska skáldsagan hafi verið þekkt á Austurlandi á þeim tíma sem sú saga er skráð.
Það sem einkum er talið skorta á sannleiksgildi Valtýssögu er að engar opinberar heimildir hafa fundist um réttarhöld, né dómsorð, hvað þá að aftaka hafi farið fram við Gálgaklett. Þjóðsagan nefnir þó þann sýslumann, eða réttara sagt lögsagnara, sem stóð fyrir rannsókn, réttarhöldum, dómsorði og framkvæmd tveggja aftaka. Sá maður á að hafa verið Jón Arnórsson á Egilsstöðum sem var lögsagnari Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri sem fór með sýsluvöld í þeim hluta Múlasýslu sem sagan gerist.
Margir hafa svo orðið til þess að leitast við að finna sögunni annan stað í tíma vegna skorts á opinberum heimildum, en samkvæmt þjóðsögunni ættu atburðir að hafa átt sér stað á árabilinu 1769-1783. Þá hafa menn horft til Valtýsvetrar og reynt að finna hann í örófi aldanna. Engar skráðar heimildir lærðra manna eru til um orðið Valtýsvetur fyrir utan ein vísa. Vilja fræðimenn leiða að því líkum að sá vetur hafi annaðhvort verið kallaður Lurkur eða Kollur annarstaðar á landinu.
Vísuna, sem talinn er þessu til stuðnings, orti séra Bjarni Gissurarson í Þingmúla og færð í letur í upp úr 1700 og hefur Valtýsvetur verið reiknaður samkvæmt vísunni aftur til vetrarins 1601-1602 þegar Lurkur geisaði á Íslandi. Þessi vísa er úr ljóðabréfi sr Bjarna þegar hann lét af prestskap 1702 þar sem hann fer yfir ævi sína, en hann er fæddur 1621 og er þarna talin vera að yrkja um það þegar hann hóf prestskap og eru þaðan reiknuð 50 ár aftur til vetrarins Lurks, sem samkvæmt vísunni mun þá hafa verið kallaður Valtýsvetur á Austurlandi. Gallinn við þessa kenningu er samt sem áður sá að engar heimildir eru fyrir dauðadómi Valtýs eða aftöku við Gálgaklett árið 1601, -og hvorki fyrr né síðar, aðrar en þjóðsagan.
Valtýs- grimmi veturinn forðum
var í minnum lengi hér,
rákust þá og rýmdu úr skorðum
Reyðfirðinga bestu kjör.
Eftir þá á ufsafleti
enginn fiskur á neinum vetri
fékkst vel fimmtigi ár;
fór því margur öngul sár.
Leiðin hans Valtýs til aftökustaðarins blasir við úr stofuglugganum mínum. Hún lá frá Egilsstöðum yfir Egilsstaðablá, meðfram Gálgaásnum að Gálgakletti. Sagan segir að það hafi verið bjartur haustdagur, og rétt fyrir aftökuna hafi dregið upp óveðurský sem voru undanfari Valtýsvetrar, "þar kemur sá sem mun hefna mín" á Valtýr að hafa sagt, og síðan "Guð geymi mig en fyrirgefi ykkur"
Það sem hefur valdið miklu um að Valtýssaga sé talin gerviþjóðsaga er sá hluti hennar sem segir frá því að hönd Valtýs bónda hafa verið negld upp á bæjadyraþilið á Egilsstöðum. Þar á hún að hafa þornað og skorpnað í 14 ár þar til Valtýr hinn seki kom óvænt í heimsókn og gekk inn um bæjardyrnar ásamt Jóni lögsagnar. Þá drupu 3 blóðdropar úr hendinni í höfuð Valtýs sem ábending um sekt hans. Frásögnin af hendinni afhöggnu og uppskorpnuðu er talið eitt það sérstakasta sem finna má í íslenskri þjóðsögu og þó víðar væri leitað.
Mörg skáld hafa grúskað í sögunni um Valtý, einn þeirra er Gunnar Hersveinn rithöfundur. Þegar Gunnar var kennari við Menntaskólann á Egilsstöðum hafði hann Gálgaklettinn fyrir augunum út um kennslustofu gluggann. Hann skrifaði þá grein í Sunnudagsblað Moggans um Valtýr á grænni treyju. Greinin hefst á þessum orðum um söguna og þann mann sem þekktasta útgáfa þjóðsögunnar um Valtý er rakinn til:
Þjóðsagan Valtýr á grænni treyju er glæpasaga sögð á snilldarlegan hátt eftir lögmálum frásagnarlistarinnar og formúlu sem margar spennusögur nútímans eru skrifaðar eftir. Valtýssaga var einungis þekkt á Austurlandi og virðist hafa geymst frábærlega vel í samanburði við ýmsar aðrar munnmælasögur. Við rannsókn á handritum hefur komið í ljós að sagnaþulurinn Halldór Jakobsson á Hofi skrifaði sögu sína um Valtý á grænni treyju að beiðni Magnúsar Bjarnasonar árið 1868. (Gunnar Hersveinn / Morgunnblaðið 30. ágúst 1992)
Halldór Jakobsson var kenndur við Hof í Öræfum þar sem hann bjó mest allt sitt líf. Hafi hann verið rómaður sagnaþulur þá eru ekki neinar tilgreindar heimildir fyrir því, frekar en að hann hafi verið rithöfundur annarra glæpasagna. En Halldór ólst upp til 16 ára aldurs á Gíslastöðum á Völlum, sem eru í sömu sveit og Eyjólfsstaðir. Menn hafa ætlað honum að hafa skáldað upp söguna enda er hún lyginni líkust. En þess ber þá að geta að Halldór var að alast upp á Völlum nokkrum áratugum eftir að þeir atburðir eiga að hafa gerst sem sagan greinir frá og hefur hann þá verið áhugasamur grúskari þegar kemur að því hvað sýslumenn voru á Héraði áður en hann fæddist.
Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari er með samhljóða útgáfu af Valtýssögu í sínu safni en þó nokkru nákvæmari í ýmsum atriðum. Enda er Sigfús fæddur og uppalin á söguslóðinni, auk þess sem hann ól þar mestan sinn aldur. Hann fer ekki dult með að styðjast við útgáfu Halldórs af sögunni og hafa fræðimenn ætlað honum að hagræða henni og bæta við frá eigin brjósti. Að minnsta kosti eru til þrár aðrar útgáfur Valtýssögu.
Árið 1977 kom óvænt fram elsta útgáfa Valtýssögu sem rituð var af Sigurði Jónsyni í Njarðvík eftir frásögn Hjörleifs sterka Árnasonar (1760-1831) á Snotrunesi í Borgarfirði eystra. Telja margir að sú útgáfa sögunnar færi hana aftar í tíma, en hún er hjá Halldóri og Sigfúsi. Því þar eru hvorki nafngreindir sýslumenn né sá myrti. En þess í stað þjóðsögunni um eineygu Mórukollu frá Vafrastöðum á Berufjarðarströnd skeytt við og hún færð upp í Kirkjubæ í Hróarstungu svo úr verður hálfgerð þjóðsagna súpa.
Gunnar Hersveinn rithöfundur fellur í sömu gryfju og flestir fræðimenn sem fjallað hafa um þjóðsöguna, þ.e.a. trúa henni ekki vegna þess að opinberar heimildir skortir. Hann telur þó að um ótímasetta sannsögulega skáldsögu sé að ræða. Í grein Gunnars tilgreinir hann mörg örnefni sem finna má á söguslóðum s.s. Valtýshelli í Hjálpleysu, Símonarlág á milli Eyjólfsstaða og Ketilstaða. Það eru reyndar fjölmörg örnefni og munnmæli sem tengjast Valtý í hans heimasveit á Völlum á Héraði sem ekki hafa ratað í þjóðsögur. Má þar nefna Valtýsskot og Valtýstóft í Vallanesi. Gunnar endar grein sína á að koma með tilgátu um hvar silfrið sé falið sem sagt er vera ástæða morðsins í glæpasögunni.
Símon hét sá myrti í Valtýssögu og var hann vinnumaður á Ketilsstöðum hjá Pétri Þorsteinssyni sýslumanni, sem þar bjó en fór með sýsluvöld annarsstaðar í Múlasýslu. Símon á að hafa verið sendur suður á land með silfur til smíða því engin silfursmiður var á þeim tíma í Múlasýslum, þegar hann var komin aftur heim á Hérað var hann stungin 18 hnífstungum og rændur silfurmununum. Það eina sem Símon á að hafa getað stunið upp í vitna viðurvist áður en hann gaf upp andann var "Valtýr á grænni treyju".
Eitt af því sem talið er gegn sannleiksgildi sögunnar er að ekkert er um þessi mál að finna í Ketilstaðaannál Péturs Þorsteinssonar sýslumanns. En þá má jafnframt hafa í huga að ekkert er þar heldur að finna um síðustu aftökuna á Austurlandi sem kolleiki hans á Eskifirði framkvæmdi. Nokkrar söguhetjur Valtýssögu eru nefndar í Ketilsstaðaannál, Símon vinnumaður sýslumannsins á Ketilsstöðum, ásamt Jóni Arnórssyni lögsagnara, auk annálshöfundarins Péturs Þorsteinssonar sýslumanns.
Sjö sinnum er í Ketilsstaðannál, sem spannar árabilið 1663-1792, er getið mannsmorða og aftaka í kjölfar málaferla. Það sem er þó athygliverðast við umgetin morðmál er að ekkert þeirra kemur upp á Austurlandi. Samt var Eiríkur Þorláksson frá Þorgrímsstöðum í Breiðdal tekinn af lífi árið 1786 á Eskifirði fyrir að hafa myrt Jón Sveinsson frá Snæhvammi í sömu sveit, eftir að þeir höfðu í félagi við þann þriðja, Gunnstein Árnason frá Geldingi í Breiðdal, gerst útilegumenn á Berufjarðarströnd.
Það er ekkert einsdæmi að opinberar heimildir skorti fyrir þjóðsögu. Um síðustu aftökuna á Austurlandi væri til fáar heimildir ef ekki væri fyrir bréf sem sýslumaðurinn á Eskifirði sendi til Kansellísins í Kaupmannahöfn til þess að fá undanþágu fyrir því að flytja þann dauðadæmda á alþingi til aftöku. Í bókum sýslumanns frá þessum tíma vantar ekki bara síður um aftökuna sjálfa á Mjóeyri við Eskifjörð, heldur einnig hvað varð um tvo samfanga þess dauðadæmda. En rétt eins og við Gálgaklettinn á Egilsstöðum þá lágu bein tveggja manna fyrir fótum Eskfirðinga undir Hólmatindinum við Borgir langt fram á 20. öldina og þjóðsagan geymdi nöfn hverra manna bein þar voru.
Sautjánhundruð og súrkál er einhver mesta ógnaröld sem íslensk þjóð hefur farið gegnum. Harðir vetur, hafís, hungursneyðir og hallæri voru tímanna tákn, að ógleymdum Móðuharðindunum. Þetta var gullöld útilegufólksins Eyvindar og Höllu, sem talin eru hafa haft það mun betra í sinni útlegð til fjalla en almúginn í byggð. Átakanlegt er að lesa lýsingar þeirra skáldanna, Guðmundar G Guðmundssonar í sögu Fjalla-Eyvindar og Jóns Björnssonar í sögu Valtýs á grænni treyju, þar sem þeir fara yfir tíðarandann í lok sautjánhundruð og súrkál.
Um aldarmótin átjánhundruð var Ísland ofurselt danskri einveldisstjórn og harðsvíruðu verslunarfyrirkomulagi. Aldrei hefur Ísland verið nær því að gefast upp við að halda lífi í þjóð sinni og aldrei hefur sorfið meira að norrænum kynstofni, utan þess er dó út á Grænlandi og í lítt kunnum löndum Norður-Ameríku á fimmtándu og sextándu öld.
Skattheimta af landinu var seld hæstbjóðanda, hvort sem hann var ótíndur fjárkúgari eða siðlaus ribbaldi, aðeins ef kóngurinn fékk sitt. Jafnvel einstök sýsla var þannig seld á leigu misvitrum og misgóðum sýslumönnum, sem dæmdir voru ærulausir annaðhvort ár og lágu, ef svo atvikaðist, í slagsmálum og fylleríi um sjálfan þingtímann á Þingvöllum. Sem hlunnindi höfðu þeir sakareyri, sem þeir dæmdu sjálfir af fórnardýrum sínum, og voru þeir fáu menn, sem heita máttu nokkurnveginn bjargálna, aldrei öruggir fyrir þeim.
Refsilöggjöfin var Stóridómur: Hýðing og brennimark fyrir smá yfirsjónir en skammarlegt líflát fyrir það sem meira var, og við þetta bættist réttleysi í málarekstri og mátti til undantekninga telja, ef maður var sýknaður. (Guðmundar G Guðmundssonar / Saga Fjalla-Eyvindar bls 11)
Þegar sveitungar Valtýs á Eyjólfsstöðum snéru baki við bjargálna bóndanum og löttu ekki sýslumann til þess að losa sveitina við grunaðan morðingja þó svo að sekt væri ekki sönnuð, þá komst Jón Björnsson svo að orði í skáldsögu sinni "Valtýr á grænni treyju":
Lítilmennska er sterkast aflið í mannheimum. Hún vinnur oft stærri sigra en frægustu hershöfðingjar. Hún getur náð slíkum tökum á heilum þjóðum, að þær gleymi sjálfum sér og láti öll sín dýrmætustu djásn af hendi fyrir augnablikshagnað sem þó er ekki annað en blekking.
Lítilmennið ræðst alltaf á garðinn þar sem hann er lægstur. Lotning lítilmennisins fyrir öllu, sem er sterkara en það sjálft, er takmarkalaus. Sönn drengskapartilfinning er því framandi. Það hikar ekki við að fórna vináttu á altari ágirndar og öfundsýki, en fóðrar þó alltaf gerðir sínar með tilliti til almenningshagsmuna.
Sannleikur og lygi eru innihaldslaus hugtök í augum lítilmennisins. Það notar lygina í hvert skipti sem hagnaðarvon er fyrir það sjálft og virðist ekkert hafa við það að athuga. Lygin verður að sannleika í augum smámennanna, þegar hún getur fullnægt hagnaðarvon þeirra. (Jón Björnsson / Valtýr á grænni treyju bls 184)
Gálgakletturinn að baka til; steinarnir sem liggja t.h., og eru nú að hverfa ofan í svörðinn, má ætla að séu þeir steinar sem notaðir voru til að fergja gálgatréð. Þeim var velt niður af klettinum eftir 1960. Margt bendir til að Gálgaklettur sé forn aftökustaður. Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari sagði að beinin sem voru undir Gálgakletti séu af Jóni skarða og Valtý hinum seka. Hann segir að Jón skarði hafi lagst út eftir að hafa verið dæmdur sekur fyrir sifjaspell og hafi leynst í Hrafnavík, sem er skammt innan við Egilsstaði, við fljótið niður af Höfða
Jón Arnórsson var lögsagnari Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal, Jón hafði aðsetur á Egilsstöðum. Lögsagnari var þeirra tíma fulltrúi sýslumanns. Það var Jón sem þjóðsagan segir að hafi dæmt báða Valtýana sem tóku út sinn dauðadóm við Gálgaklett. Eitt af því sem haldið hefur verið á lofti við að rýra sannleiksgildi sögunnar um Valtýr á grænni treyju, er að samkvæmt þekktustu gerð hennar liðu 14 ár á milli aftaka. En samkvæmt skráðum heimildum þá var Jón Arnórsson á Egilsstöðum lögsagnari í einungis 9 ár, eða frá því 1769 -1778, þá fékk hann sýslu á Snæfellsnesi. Svona getur nú snilldarlega sögð glæpasaga auðveldlega verið hrakin þegar farið er að kanna sannleiksgildið samkvæmt skráðum heimildum.
Um Hans Wium má þessu við bæta að hann mun hafa fengið sýsluembætti sitt í arf eftir föður sinn Jens Wium, sem var danskur, og á að hafa keypt sýslumannsembætti yfir hluta Múlasýslu á 300 ríkisdali án þess þó að hafa hundsvit á lögum. Hann réði því lögsagnara upp á formlegheitin. Endalok Jens sem sýslumanns og lögsagnara hans voru þegar þeir hurfu á dularfullan hátt í Seyðisfirði, lögsagnarinn fannst dauður en Jens aldrei. Út af Jens Wium er komið fjölmargt ágætis fólk á Íslandi, þess á meðal síðuhafi.
Hans Wium fékk fleira í arf eftir Jens föður sinn en sýsluna. Hann fékk hin svo kölluðu Sunnevumál. Sunneva var ung stúlka úr Borgarfirði eystri sem hafði eignast barn í lausaleik er hún kenndi manni sem sór fyrir barnið. Hún breytti þá framburði sínum og kenndi barnið Jóni bróður sínum. Systkinin voru Jónsbörn en voru þegar þetta gerist komin í fóstur hjá bónda í Geitavík í Borgarfirði eystri, Sunneva 16 ára og Jón 14 ára.
Þau systkinin voru flutt upp í Fljótsdal til Jens sýslumanns sem dæmdi þau umsvifalaust til dauða. Nokkrum dögum eftir dauðadóminn hvarf Jens sýslumaður í Seyðisfirði. Nokkru síðar tók Hans sonur hans við sýslu og Sunnevumálum, sótti hann um náðun til konungs til handa systkinunum og sluppu þau við að dauðadómnum væri framfylgt vegna ungs aldurs.
Sunneva var sögð forkunnarfögur, þá fegurst kvenna á landi hér; segir þjóðsagan. Eignaðist hún fljótlega annað barn í Fljótsdalsvistinni þá 19 ára gömul. Þá feðraði hún barnið Hans Wium sýslumanni. Sagt var að Hans hafi fengið Sunnevu til að breyta um framburð og kenna bróður sínum frekar um aftur. Hans á að hafa reynt að telja henni trú um að þau systkinin myndu sleppa enn á ný við harðann dóm vegna ungs aldurs.
Jón bróðir Sunnevu viðurkenndi ekki líkamlegt samræði við systur sína en sagði að ef Sunneva segðu svo yrði svo að vera. Hann meðgekkst barnið eftir dauða Sunnevu, sem hafði áður snúist hugur og haldið sig við að Hans væri faðirinn. Hún á að hafa sagt að hann hefði hrætt hana til að kenna Jóni barnið. Þjóðsagan segir að Jón hafi misst viljann til lífsins eftir að Sunneva systir hans var öll. Jóni hlotnaðist þó ekki aftaka samkvæmt lögum. Dauðadómi var breytt í ævilanga þrælkun á Brimarhólmi. Fyrir játningu og afdrifum Jóns Jónssonar skortir ekki skráðar opinberar heimildir.
Þjóðsagan segir svo um dularfullan dauða Sunnevu, að Hans Wíum sýslumaður hafi farið með hana frá Skriðuklaustri að næturlagi, komið henni fyrir í poka og drekkt í Sunnevuhyl í Bessastaðaá. Þetta er náttúrulega bara heimildalaus gerviþjóðsaga yfir örnefni. Til er landsfræg þjóðvísa, sem lifað hefur í gegnum aldirnar, sem á að vera um heimferð Hans Wíum frá hylnum í Bessastaðaá þessa nótt.
Týnd er æra, töpuð er sál,
tunglið veður skýjum;
Sunnevunnar sýpur skál
sýslumaður Wíum.
Svona er nú þjóðsagan áreiðanleg þegar að er gáð og hún borin saman við skráðar heimildir. Þá stendur varla steinn yfir steini. Þó svo að mannbein liggi undir Gálgakletti og gálgasteinar þar við hlið, þá er þar um að ræða gerviþjóðsögu. En fram hjá því verður ekki komist að hún og örnefnið eru oft einu heimildirnar um stað og atburð honum tengdur.
Það er bæði gömul saga og ný að opinberar heimildir yfir óhæfuverk veraldlegs valds eiga það til að glatast. En staðreyndin er að hvorki fyrr né síðar hefur sannleikurinn verið annað en lyginni líkastur, nema að með hann hafi verið misfarið í málatilbúnaði. Það liggur því beinast við að trúa gerviþjóðsögunni af Valtý á grænni treyju.
Heimildir;
Facebook - gamlar ljósmyndir; Gálgaás, Egilsstaðakirkja og Gálgaklettur (sennilega tekin af Edmund Bellesen sem sveif um á svifi yfir Héraðinu í kringum 1970)
Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar
Þjóðsögur Jóns Árnasonar
Úr manna minnum - greinasafn um íslenskar þjóðsögur; Gluggað í "gerviþjóðsögu" / Hannes Pétursson.
Múlaþing 26-1999; Valtýr á grænni treyju/Jón Sigurðsson - Valtýr á grænni treyju/Indriði Gíslason - Þessi mun hefna mín/Páll Pálsson
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3289854&lang=1
https://timarit.is/page/1770511#page/n16/mode/2up
Haustskip/Björn Th Björnsson
Flokkur: Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:32 | Facebook
Athugasemdir
Að einhver hafi verið tekinn af lífi við einhvern klett, er ekki útilokað. En að þeir hafi látið líkið liggja, í hundruðir ára ... er algerlega útilokað.
Það er hóll í Halmstad, í Svíþjóð, sem heitir "galgberget" ... og hefur sömu merkingu. Og sömu þýðingu ... því í Svíþjóð var um að ræða hól, þar sem var útsýnisturn til að geta séð hreifinu manna. Hér var um "landsvörn" að ræða, en ekki hengingu einstaklinga.
Örn Einar Hansen, 10.4.2020 kl. 06:46
Takk fyrir fróðleikinn Örn Einar, sinn virðist siðurinn í hverju landi,,, eða kannski frekar aðferðin við að skýra örnefnið.
Magnús Sigurðsson, 10.4.2020 kl. 06:54
Til dæmis má nefna, að kyrkjuklukkur voru notaðar sem landvörn. Borgarhlið, sem borgarvörn ... í Halmstað stendur enn uppi borgarhliðið, en ekki borgarmúrinn. Í Xi'An, Kína, stendur ennþá bæði borgarhliðið og borgarmúrinn. Í kyrkjunni í Halmstad, má sjá grafreiti þar sem konurnar eru "-dætur". Hér má sjá arfleifð forn-norræna, og íslenskar arfleifðir. Í mörgum kyrkjum Evrópu, er búið að setja upp "teppi" yfir grafreitina, til að hylja söguna.
Sagan er mikilvæg, en eins og þú segir í pistli þínum ... er ekki altaf, nútíma "þýðinging" rétt. Samanber skilningur biblíunnar um "sælir eru fátækir í anda ...", sem unga fólkið í dag skilur sem "að vera heimskur", en staðreyndin er sú að "fátækur í anda", þýðir að "þyrsta í þekkingu". En ekki "að vera heimskur".
Örn Einar Hansen, 10.4.2020 kl. 07:47
Sæll Magnús
Hvort sagan er sönn eða ekki skiptir ekki öllu máli, ekki frekar en aðrar sögur er sem sagðar eru hafa gerst fyrr á öldum. Sennilega erfitt að sannreyna flestar þeirra og þá sérstaklega þær elstu, þ.e. þær er segja okkur hvernig byggð hófst hér á landi.
Ó öllu falli eru þessar sögur þó menningararfur okkar og mega ekki falla í gleymskunnar dá.
Takk fyrir þessa sögu
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 10.4.2020 kl. 09:06
Takk fyrir þennan fróðleik Magnús. Ég hef lengi velt fyrir mér þessari sögu og staðháttum við Gálgaásinn og víðar á sögusviðinu, enda er sagan mér rækilega greipt í minni þar sem leikvöllur æsku minnar og vina minna var einmitt á þessari klettaborg og þar upplifðum við mörg ævintýrin og gat verið ansi fjölmennt þegar best lét.
Ég man vel eftir beinum þessara ólánsmanna, fyrst í forláta smíðakassa með haldi yfir og síðar í krossviðarkassa með gleri yfir sem skrúaður var upp á meintan gálgaklett, en þess á milli voru þau voru dreifð um víða völl að völdum krakka sem vissu ekki betur og krumma sem nóg var af á þessum tíma.
En komum þá að því sem ég vildi sagt hafa. Getur verið að gálgakletturinn sjálfur sé ekki þar sem hann er staðsettur í dag með skyldinum, og þar sem beinin komu upp úr sjálfsagt mjög grunnum gröfunum, heldur nyrðst og neðst í klettaröðinni þar sem arinninn er sem við kölluðum og kveiktum oft elda ef okkur datt ekkert annað í hug þann daginn. Arinn þessi sem við kölluðum, er skúti sem gæti hafa verið hogginn af mönnum í bergið til þess einmitt að skálka fyrir hengingartréð. Þannig háttar til að skúti þessi er staðsettur í botni klettasillu sem er ca 3x5 metrar að stærð með góðu aðgengi frá hlið og athafnapláss allt til að hengja mann hið besta.
kv Siggi
Sigurður Gíslason (IP-tala skráð) 10.4.2020 kl. 10:11
Glæpamenn eru almennt ekki líklegir til að skrásetja glæpi sína rétt. Sýslumenn sem koma sínu fram með glæpum gera það meðal annars með rangri og villandi skráningu upplýsinga.
Ég hef til dæmis sjálfur lent í því á nútíma að embættismenn sýslumanns falsi gögn til að fela eigin leti og óreiðu.
Guðmundur Jónsson, 10.4.2020 kl. 11:54
Það er ábyggilegt Örn Einar, að nútíma þýðingin er ekki allt rétt og áður fyrr voru -dætur og -synir greftruð um öll Norðurlönd.
Sagan er mikilvæg og okkur ber að varðveita hana "fátækir í anda" án alls málatilbúnaðar.
Ég hef reyndar litið svo á að "fátækur í anda" hlýði ég hjartanu, og hjartað viti alltaf hvað er rétt.
Magnús Sigurðsson, 10.4.2020 kl. 11:54
Sæll Gunnar, vafalaust er ekki allt satt og rétt í þjóðsögunum frekar en í þeim heimildum sem skráðar eru af sigurvegurunum.
ég tek heilshugar undir með þér að allar þær sögur sem eru menningararfur okkar mega ekki falla í gleymskunnar dá, jafnvel þó ljótar og lygilegar séu.
Magnús Sigurðsson, 10.4.2020 kl. 12:00
Sæll Siggi og þakka þér fyrir þessa fróðlegu og merkilegu athugasemd.
Mér datt aðeins í hug hvort það gæti verið, þegar Örn Einar Hansen kom hér með sína fyrstu athugasemd, hvort það gæti verið að nyrsti og hæsti hluti Gálgaássins væri hinn eiginlegi Gálgaklettur, ef örnefnið væri um "varðturn", því þaðan er útsýnið hvað mest.
Þú þekkir þessa kletta á Gálgaásnum mun betur en ég frá þinni æsku sem "þorpari", því finnst mér frásögn þín merkileg. Við "hæðararnir" þekktum Hamrana betur sem leikvöll með sínu Gummaleyni og bálstæði.
Bein þessara tveggja manna voru samt sem áður við Gálgaklettinn en þau gætu allt eins hafa verið flutt þangað.
Eins datt mér einhvertíma í hug að þessi bein gætu verið af mönnum sem hefðu orðið úti eða lent á vergang eins og mest öll þjóðin gerið í Móðuharðindunum. Svo margir dóu þá á víðavangi að þeir sem lifðu höfðu ekki orku til að greftra fólk. En þá hefðu þessir ógæfumenn átt að fá viðeigandi greftrun þegar um hægðist. En þessi í stað lágu þessi bein í gegnum aldirnar undir Gálgakletti.
Magnús Sigurðsson, 10.4.2020 kl. 12:28
Sæll Guðmundur, mikið rétt rétt hjá þér og takk fyrir að koma mér inn í nútímann.
Við þurfum ekki að leita langt til að finna dæmin, ekki hefur ennþá tekist að toga það út úr stjórnvöldum á hvað verði þær eignir fóru, sem íbúðalánasjóður hirti af þúsundum fjölskyldna, og voru síðan seldar á til braskara.
Stjórnvöld settu reglu á fyrir aðeins nokkrum árum síðan að ekki mætti opna "Pandóruboxið" fyrr en eftir 100 ár, spurning hvort að það verða þá einhverjir sneplar með skráðum heimildum þar og þá um hvað.
Magnús Sigurðsson, 10.4.2020 kl. 12:38
"Galgberget", Í halmstad hefur nánast einhliða samlíkingu við Gálgaklettinn. Þar eru nútíma sögur, að menn hafi verið "hengdir" þar uppi.
Vandamálið er, að þetta er ekki trúlegt ... af hverju, eru menn dregnir upp á einhverja hæð ... til að "hengja" þá. Þessi sami staður, er "herstöð" Halmstad. Hér er og var, varnarlið landsins ... þetta er stór hæð, þar sem hægt er að sjá nánast yfir allt svæðið.
Fer í raun, ekkert á milli mála hvað tilgangi það þjónaði.
Hér er um að ræða sama mál, og ef maður fer í kyrkjur í Evrópu. Menn fela söguna, því hún segir eitthvað allt annað en menn vilja.
Örn Einar Hansen, 10.4.2020 kl. 12:53
Takk Magnús.
Mikill er máttur feisbókar að vekja athygli mína á þessum pistli þínum, núna á þeim dögum þar sem lítt er kíkt í tölvur en meira reynt að dunda (já, konan er í fríi og þá þarf að gera eitthvað).
Ég held að það sé misskilningur að lítt sé til að skráðum heimildum frá 18. öld, yfirvaldið skráði margt (dómabækur, kirkjubækur), og kanselið í Kaupmannahöfn hélt vel utan um sitt skjalasafn, síðan eru ýmis einkaskjöl varðveitt, vissulega miklu fleiri frá 19. öld, en engu að síður er ýmislegt til sem fræðimenn geta grúskað í. Það er svo margt rannsakað í dag sem ekki var rannsakað fyrir áratug eða áratugum síðan, til dæmis kvennasaga, nýlegt dæmi er saga sjókvenna, alþýðulist og alþýðuhandverk, ættfræði þar sem fróðleiksmolar fylgja og svo framvegis og svo framvegis. Maður heyrir þetta í útvarpinu þegar maður droppar inná Samfélagið nærmynd, tilvísarnir í greinar á netinu, viðtöl við fræðimenn og aftur og svo framvegis.
Síðan var réttarkerfið þannig að dómar fóru að mildast þegar komið var framá 18. öld, fór þar saman nytjahyggja (vinnuafl) og manngildishugsjón upplýsingarinnar. Og það var strangt regluverk í kringum dóma í danska konungsdæminu, um þetta má lesa í bók Björns Th Björnssonar; Haustskip, sem og bókinni Falsarinn eftir sama höfund.
Og það var réttarmorð að hengja menn upp án þess að láta æðra dómstig (Alþingi) fara gegnum málsatvik og kringum 1770 þurfti að vísa dauðadómum til konungs til samþykktar.
Að vísu eru til dæmi um slíkar aftökur í miðjum Móðuharðindum (sjá Haustskip)en ef það var kært var það vís embættismissir fyrir viðkomandi sýslumann/dómara ásamt sektum og ærumissi.
Þess vegna er það ákaflega líklegt að þjóðsagan eigi sér eldri rætur, ef hún þá á annað borð er sönn.
Munum síðan að baki hverrar þjóðsögu, er saga sem sögð var í fyrsta skiptið í rauntíma, hvort sem hún var lygisaga eða byggðist á einhverju sem sá sem sagði taldi hafa átt sér stað. Svo fóru aðrir að segja söguna, hver með sínu sagnanefi, góðir sagnamenn þekkjast á því að þeir láta góðu sögu alltaf njóta vafans, þess vegna er saga oft til dæmis tengd við þekkta einstaklinga svo fólk tengi við hana og svo framvegis. Það er ákaflega líkleg skýring á tengingunni við lögsögumanninn á Egilstöðum, hann er uppi á þeim tímum þar sem ekki var hægt að taka menn af lífi fyrir ránmorð án þess að dómurinn hafi verið tekinn fyrir á öllum stigum dómskerfisins. Og skjöl þar um til í dönskum skjalasöfnum.
En þó slíkar tengingar séu yfirleitt seinna tíma viðbætur þá afsannar það ekkert um upprunalegu söguna og þann atburð sem hún byggist á.
Og þó það hafi verið lenska í einhverja áratugi í sagnfræðinni að afneita sagnaminnum, þá segir það meir um þá sagnfræði en sannleiksgildi munnmæla, þjóðsagna og sagnaminna.
Sögur spretta sjaldnast upp úr engu, jafnvel ekki góðar lygasögur.
Galdurinn felst í að leita og túlka líkt og Bergsveinn Birgisson sýndi svo eftirminnilega framá í bókinni Svarti Víkingurinn, það hefði hann aldrei gert ef hann hefði gengið út frá því að sagnaminnið væri tilbúningur.
Þið Hérarnir áttuð stórgóðan fræðimann, Jón Hnefil Aðalsteinsson frá Vaðbrekku, prófessor í þjóðfræði við HÍ, sem skrifaði meðal annars um kristintökuna þar sem hann útskýrði hvað í því fólst að Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld. Ég var neyddur til að lesa bók hans um kristintökuna í menntó, og taldi skýringu hans fjarstæðu hina mestu, að hann væri að draga dár að fólki. Fékk ágætt fyrir ritgerðina en ósköp var maður vitlaus, hef aðeins þroskast síðan.
En þetta má lesa í Mogganum um bók Jón Hnefils og kenningar hans;
" Í söguvitund þjóðarinnar er greipt sögnin um hin friðsamlegu trúskipti á Þingvöllum, ekki síst frásögnin af Þorgeiri Ljósvetningagoða sem lagðist undir feld og úrskurðaði í framhaldi af því að Íslendingar skyldu taka upp kristna trú. Heimildir miðalda greina ekki frá því hvað Þorgeir hafi verið að gera undir feldinum og hefur það vakið forvitni margra fræðimanna. Ef á annað borð lagður hefur verið trúnaður á feldarsöguna þá hafa hefðbundnar skýringar gjarnan vísað til þess að Þorgeir hlyti að hafa verið að hugsa um hvað væri skynsamlegast að gera til að tryggja frið í landinu.
Árið 1971 kynnti Jón Hefill Aðalsteinsson rannsóknarniðurstöður sínar á kringumstæðum kristnitökunnar í ritinu Kristnitakan á Íslandi. Bókin hefur nú verið endurútgefin með allmiklum viðbótum. Í stuttu máli er meginkenning Jóns Hnefils, varðandi veru Þorgeirs undir feldinum, að hann hafi þar verið að leita goðsvars - hann hafi þurft "að komast í samband við þá sagnaranda eða aðra fulltrúa yfirnáttúrlegs heims, sem trúbræður hans treystu og tóku mark á" til að fá álit á hvað bæri að gera í stöðunni (bls. 141). Með þessu er sá möguleiki opnaður, innan orðræðu fræðasviðsins, að Þorgeir hafi haft trúarlegar forsendur til að komast í samband við hið yfirnáttúrulega.
Styrkur Kristnitökunnar á Íslandi felst í því að þar er beitt sagnfræðilegum og textafræðilegum aðferðum jafnhliða því að höfundur nálgast frásagnir heimildanna á trúarbragðafræðilegum og þjóðfræðilegum forsendum. Nokkurt nýmæli var af slíkum þverfaglegum vinnubrögðum hér á landi þegar ritið kom fyrst út. Í viðaukanum finnur Jón Hnefill að því að íslenskir sagnfræðingar hafi verið tregir til að taka rannsóknarniðurstöður sínar um þetta efni til athugunar. Ein skýring þessa er að íslenskir sagnfræðingar virðast eiga erfitt með að sætta sig við söguskýringar sem ekki eiga rætur sínar að rekja til skynsamlegrar breytni samkvæmt nútíma viðmiðum. Þannig eiga menn erfitt með að losna við þá hugmynd, ef trúnaður er lagður á feldarsöguna yfirleitt, að það hljóti að vera aðalskýring atburðarásarinnar að Þorgeir hafi meðvitað verið að leita leiðar til friðar og það því í besta falli aukaskýring að hann hafi leitað, eða talið sig leita, ásjár yfirnáttúrulegra afla.".
Þetta kallast að hugsa út fyrir rammann, en forsendan er að taka mark á sagnaminninu, og leita skýringa frá samtíma þess og hugmyndafræði þeirra sem lifðu þá og sögðu síðan frá.
Saklausir hafa verið dæmdir i gegnum tíðina, og yfirvaldið þannig að oft var ekki spurt um sekt þegar menn voru dæmdir.
Gegn því var sagan stundum eina svarið.
Við eigum að heiðra slík minni, að baki þeim er mikill harmur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.4.2020 kl. 14:16
Sæll Ómar og þakka þér fyrir athugasemdina úr neðra.
Já það er eins gott að þessi föstudagur er langur þegar önnur eins langloka og þessi ratar í blogg.
Ég hef reyndar í meira en hálfa öld velt af og til fyrir mér Valtýssögu og hvað hefur verið um hana sagt og ritað og er þetta rétt svo toppurinn á ísjakanum.
En ég á samt eftir að manna mig upp í það augljósa, það er að láta mér renna í brjóst á syllunni undir Gálgakletti til að komast til botns um sannleiksgildi hennar í tíma.
Það má til sannsvegar færa að upplýsingar glatast aldrei og eru alltaf einhverstaðar til, ef ekki í skjalasöfnum þá í þjóðsögum.
Nú á tímum er internet tengingin það augljósa, þaðan má svo komast í ýtarlegri upplýsingar s.s. bækur og skjöl, t.d. Haustskip sem var orðin ein af mínum uppáhalds bókum strax á táningsaldri.
En fyrir nokkrum árum áttaði ég mig á að það eru til aðrar tengingar. Sá sagnabrunnur er stundum kallaður akashic records, þar sem allt sem áður hefur verið, er geymt.
Það er sá brunnur sem ég tel að Bergsveinn Birgisson hafi bergt á þegar hann skrifaði bókina Svarti Víkingurinn. Goðafræðin kallaði þennan brunn Mímisbrunn og fyrir viskuna úr honum gaf Óðinn annað augað sællar minningar.
Þú hittir aldeilis naglann á höfuðið þegar þú rifjar upp kynni þín af bók Jóns Hnefils, þó svo að ég þekki ekki þá bók.
þessi kafli úr Morgunnblaðsgreininni undirstrikar nákvæmlega hvað það merkir að leggjast undir feld, því þar undir er allt í senn, aðgangur að Mímisbrunni, akashic records og internet tenging.
Með kveðju úr efra.
Magnús Sigurðsson, 10.4.2020 kl. 16:03
Blessaður Magnús.
"Skrifað í skýin" og hið góða orð sagnaminni,, þetta tengt saman, er þá ekki komin íslensk nálgun á "Akasha (ākāśa आकाश) is the Sanskrit word for 'aether', 'sky', or 'atmosphere'"?
Ég les einn sagnameistara aftur og aftur, því hann setti speki aldanna í sagnabálk sinn, J.R.Tolkien, í búning ævintýris færði hann okkur vonina um að hið góða sigraði illskuna að lokum, þó staðan væri jafnvel ekki tvísýn á tímabili.
En Trjáskeggur, eða Fangorn, elst allra Entna, benti hobbitunum þeim Kát og Pípin á að það sem væri þess virði að segja, yrði aldrei sagt í fáum orðum. Líkt og allir þeirra daga væru föstudagurinn langi.
Í dag lærði ég nýtt orð yfir hugtak eða hugsun sem ég hef alltaf meiri vissu yfir, eða alveg frá því að ég áttaði mig á að margt væri skrýtið í kýrhausnum, og á svipuðum tíma áttaði ég mig á skýrleika Jóns Hnefils, og ef þú hefur ekki lesið bók hans, þá er hún alveg þess virði að grípa í löngum rigningardegi þegar bókasöfn opna á ný sali sína fyrir lesþyrstum.
Það er eitthvað þarna.
Ég get svo svarið það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.4.2020 kl. 16:34
Skemmtilegir eruð þið austanmenn.
Ekki frá því nema örli á gamalli og góðri heiðni hjá síðuhafa. ;-)
Bestu kveðjur og takk fyrir pistilinn, hafi ég mig í gegnum ruslpóstvörnina.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 10.4.2020 kl. 16:34
Það er ekki nýtt að bein sakamanna liggi fyrir hunda og manna fótum. Það má minna á, hve langur tími leið sem að bein Steinunnar frá Sjöundaá lágu urðuð utan garðs á Skólavörðuholti og hvernig það tíðkaðist áratugum saman að þeir sem gengu þar um garð sýndu beinum hennar fyrirlitningu
Ómar Ragnarsson, 10.4.2020 kl. 18:31
Ég held að það sé einmitt málið Ómar Ragnarsson. Ef þetta voru ekki bein sakamanna hefðu þau ratað niður á 2 metrana fyrir löngu síðan. En bein sakamanna sem teknir voru af lífi vor oftar en ekki í mesta lagi urðuð. Annars ættu mannabein að liggja víða um land fyrir hunda og manna fótum eftir Móðuharðindin.
Þess vegna held ég að Valtýssaga sé sönn, og Sigfús Sigfússon hafi farið nærri um hverra bein þarna lágu þ.e., Jóns skarða og Valtýs hins seka því sagan segir að sá saklausi hafi fengið greftrun í vígðri mold eftir að drottinn sannaði sakleysi hans með Valtýsvetri.
Magnús Sigurðsson, 10.4.2020 kl. 19:19
Ef þú ferð í gamlar sögur, sérðu eitt sem er sameiginlegt með þeim öllum. Ótti við hefnd hinna dauðu. Að menn hefðu látið lík liggja einhversstaðar, er því ólíklegt ... því ekkert er sterkara, en ótti manna við hið "óþekkta". Ótti manna við "drauga", er eitthvað sem skín í gegnum allar aldir.
Að menn hefðu gengið um, og sýnt fyrirlitngu á þeim dauðu ... er því ekki bara ólíklegt, heldur alger steypa.
Örn Einar Hansen, 11.4.2020 kl. 10:55
Eins og ég sagði áður, þá er hér um að ræða sama mál og þegar grikkir rákust á bein fíla og héldu að hér væri um að ræða "eineygða risa".
Alveg eins og í Halmstad, Svíþjoð er um að ræða "færsvar" eða virki sem er til varnar staðnum. Hér hafa dáið menn, til varnar svæðinu þegar það varð "overwhelmed" ... þeir dauðu yfirgefnir og gleymdir, því þeir höfðu enga þýðingu eftir að svæðið var yfirunnið.
Að einhver haldi, að hér sé um að ræða fólk, sem "trotsade" óttann við dauðann er alger steypa.
Örn Einar Hansen, 11.4.2020 kl. 11:00
Þakka þér fyrir athugasemdirnar Örn Einar, eins ykkur öllum sem hafa hér lagt orð í belg. Athugasemdirnar hafa skýrt sýn mína á söguna og fyrir það er ég afar þakkalátur.
Örn Einar, beinin lágu undir Gálgakletti til ársins 1975 og höfðu verið þar lengur en elstu menn mundu. Sagan af Valtý er þeim tengd. Þau eru af tveimur mönnum samkvæmt rannsókn þjóðminjasafnsins. Héraði á sér ekki sömu sögu og Halmstad hvað borgavirki varðar.
Sagan af Valtý á grænni treyju hefur siðferðisboðskap að bera, að því leiti að saklaus maður var tekin af lífi og almættið lýsti vanþóknun sinni á verknaðinum með Valtýsvetri. Um vorið af afloknum þeim vetri á Valtýr að hafa verið jarðsettur í vígðri mold, allt nema höndin.
Þjóðsagan segir að Valtýr hinn seki hafi verið tekin af lífi við Gálgaklett 14 árum seinna. Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari hafði eftir gömlum manni að sakamaðurinn Jón skarði hefði einnig verið tekin af lífi við Gálgaklett. Þarna eru við komnir með tvo sakamenn og einn saklausan.
Ég held að Ómar Ragnarsson fari nokkru nærri um hvers vegna bein fólks lágu utangarðs með þegar hann minnast beina Steinunnar á Sjöundá sem lágu við stíginn á Skólavörðuholtinu.
Það er ekki endilega svo að beinum ógæfufólks hafi verið sýnd óvirðing þó svo að þau hafi legið fyrir hunda og manna fótum í gegnum árin. Bæði á Gálgaásnum og Skólavörðuholtinu hafa verið byggðar glæsilegar kirkjur. Gálgakletturinn er steinsnar frá Egilsstaðakirkju og dys Steinunnar var við Hallgrímskirkju þar sem stytta Leifs heppna Eiríkssonar stendur.
Ég held að flestir hafi borið virðingu beinum ógæfufólks þó svo að kassinn utan um þau hafi ekki alltaf þótt merkilegur.
Mér finnst Gálgaásinn verða merkilegri með hverju árinu sem líður hafandi hann fyrir augunum héðan úr Útgarðinum, kirkjunni var valinn staður efst á ásnum með gálgaklettinn sér við hlið. Það var ekki tilviljun.
Kirkjan er teiknuð af Hilmari Ólafssyni föður núverandi allsherjargoða. Götunni sem hún stendur við var gefið nafnið Hörgsás. Samkvæmt mínum málskilningi er orðið "hörg" haft yfir hin helgu vé.
Það má þess vegna segja að sagan "Valtýr á grænni treyju" sé saga aldanna og föstudagsins langa.
Ég ætla að leifa mér að slá botninn í þetta með 51. Passíusálmi Steins Steinars.
Á Valhúsahæðinni
er verið að krossfesta mann.
Og fólkið kaupir sér far
með strætisvagninum
til þess að horfa á hann.
Það er sólskin og hiti,
og sjórinn er sléttur og blár.
Þetta er laglegur maður
með mikið enni
og mógult hár.
Og stúlka með sægræn augu
segir við mig:
Skyldi manninum ekki leiðast
að láta krossfesta sig?
Magnús Sigurðsson, 11.4.2020 kl. 12:47
Skemmtileg grein
FORNLEIFUR, 12.4.2020 kl. 08:50
Kannski ættu menn að kosta til rannsókn á beinunum og 3-4 kolefnisaldursgreining? Margt hefur verið gert vitlausara en það. En í landi þar sem menn trúa því að ekki falli á silfur í jörðu er fólk vitaskuld óhemju trúgjarnt ...
FORNLEIFUR, 12.4.2020 kl. 09:01
Þú ert snillingur Magnús.
Þess ber þessi pistill þinn merki um. Og reyndar flestir þinna aðrir.
Og hvað athugasemdirnar varðar er það hverjum skynugum manni augljóst að þú hefur komist að kjarna málsins, sem og Guðmundur og Ómararnir.
Menn verða að hafa andagift til að ferðast um óravíddir tímans og sjá og skynja hvert sögusvið og tíðarandann og afstæður hvers um sig.
Nógu mikið vitum við Magnús, að þeir krossfestu Krist, hvað hefðu þeir þá gert við menn eins og okkur? Bjargálna og sjálfstæðra manna?
Og gera það enn, í krafti valds síns og lítilmennsku þeirra sem fylgja þeim sem jarmandi hjarðdýr, með afneitun eigin afglapa.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 13.4.2020 kl. 21:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.