Á tímum kóvitana

er margs að varast. Vinnufélagi minn sagði að iðnaðarmenn mættu stórpassa sig þessa dagana þegar kóvitar í sóttkví ætluðu að koma frábærum hugmyndum í framkvæmd , enda gæfist nú til þess tími. Margt hefði allt of lengi setið á hakanum og þegar þeir væru búnir með kúfinn s.s. að þrífa sig þreytta og taka niður jólaskrautið, sem ekki hefði gefist tími til vegna þess hve stutt væri á milli jóla og utanlandsferðar, þá væri komið að því að hringja í iðnaðarmann til að vera sér innanhandar við lappa upp á húsið.

Ég var reyndar búin að átta mig á því strax í síðustu viku að símann þarf að umgangast með gætni. Ég átti þá símtal við kolleiga, og af eðlislægri forvitni spurði ég hvers vegna hann væri heima hvort hann væri kannski með covid-19, nei það var ekki svo slæmt;  " Æ,æ,æ, heldurðu að ég hafi ekki asnast til Barcelona og þeir settu reglur um tveggja vikna sóttkví rétt á meðan".

Hér heima við lá ég í mínum vesaldóm yfir síðustu helgi með mína nánustu velmeinandi um að ég færi í sóttkví. Það væru meir að segja eindregin tilmæli yfirvalda til vesalinga um að halda sig heima á viðsjáverðum tímum. Af því að svo illa fór síðast þegar ég fullyrti að ekkert væri að mér, þá sagðist ég skildi athuga málið en ég væri í starfi hálfan daginn hjá vinnuveitanda sem væri svo almennilegur að leifa mér að hafa það eins og mér sýndist á launum sem tækju örorkubótum fram.

Þegar ég hringdi svo í kóvíd komu vöflur á viðmælandann og það þyrfti nú að athuga þetta tilfelli betur, en þetta myndi þá snúast um læknisvottorð ætlað vinnuveitenda mínum. Læknir myndi hafa samband. Þegar læknirinn hringdi þá skýrði ég það út að þetta snérist ekki um vinnuveitandann, ég ætlaðist ekki til að hann greiddi mér laun fyrir að vera heima vegna þess að mínir nánustu væru skíthræddir við að ég fengi pest. Enda sagðist læknirinn ekki vita hvernig það ætti að enda á endalausum pestartímum.

Það er nokkuð ljóst að þegar fábjánarnir flissuðu sig saman um það við Austurvöll fyrir nokkrum vikum síðan að engin missti spón úr aski sínum við að fara í sóttkví þá var átt við kóvita á skíðum, enda geta fábjánarnir sýnt fólki frábæra samstöðu svo lengi sem það er flissar í kringum þá með milljón á mánuði. Enda flestir aðrir vesalingar hvort eð er á bótum að þeirra mati, -en ekki skíðum.

Svo hringdi annar kunningi óvænt í mig núna í gær út af allt öðru, spurði vegna væntumþykju, hvort ekki væri farið að dragast saman hjá steypuköllum. Nei, ég sagði honum að það væri nú yfirleitt ekki svo rétt á meðan fólk hefði dottið í lukkupottinn með að hafa bæði nægan tíma og pening.

Það má því svo sannarlega segja nú á tímum, að kóvítin séu til að varast þau.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband