23.4.2020 | 05:01
Harpa og sumardagurinn fyrsti
Þeir eru fáir dagarnir sem hafa jafnstór fyrirheit í nafninu og Sumardagurinn fyrsti. Það veit engin lengur hvað helgar þennan dag annað en nafnið, en upp á hann hefur verið haldið hér á landi svo lengi sem menn muna. Sumardagurinn fyrsti var fram eftir öldum messudagur á Íslandi eða allt til 1744. Talið er að dönsk kirkjuyfirvöld hafi þá gengist fyrir því að dagurinn, sem ættaður er aftan úr heiðni, yrði afnuminn sem einn af hátíðisdögum þjóðkirkjunnar.
Harpa er fyrsti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og hefst hún ævinlega á fimmtudegi á bilinu 19. til 25. apríl, með sumardeginum fyrsta. Í elstu heimildum um fornu norrænu mánaðarnöfnin, Bókarbót frá 12. öld og Snorra-Eddu frá 13. öld, er Hörpu ekki getið uppruni nafnsins því óviss, það virðist ekki heldur eiga sér samsvaranir í norðurlandamálunum.
Aðeins í Snorra-Eddu eru allir mánuðirnir með nöfn og heitir fyrsti mánuður sumars þar Gaukmánuður. Bæði er getið Hörpumánaðar og Hörputungls í 17. aldar rímhandritum. Hugsanlega vísar nafnið Harpa til skáldlegrar hörpu vorsins, en á 17. öld voru vor oft vond og mikill fellir fjár, gæti nafnið Harpa því allt eins verið skylt orðinu herping. Þegar komið er fram á 19.öld er rómantíkin ráðandi, virðist Harpa þá verða að persónugervingi vorsins.
Sumardagurinn fyrsti er einhver elsti hátíðisdagur þjóðarinnar. Hann er nefndur í Íslendingasögum og elstu lögbókum landsins. Í Ynglinga sögu er getið um sumarblót í ríki Óðins. Í Egils sögu og Ólafs sögu helga er minnst á sumarblót bænda í Noregi. Sumarblóta á Íslandi er getið í Vatnsdæla sögu, blóts Ljóts á Hrollhleifsstöðum. Sumargjafir eru þekktar allt frá 16. öld, þær í raun miklu eldri en jólagjafir.
Fyrsti dagur sumars var frídagur frá vinnu áður fyrr eins og nú, og börn fengu að fara á milli bæja til að leika sér við nágranna. Þá var dagurinn einnig helgaður ungum stúlkum og stundum nefndur yngismeyjadagur. Piltar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á. Um miðja 19. öld þegar skipulega er byrjað að safna alþýðu heimildum kemur fram að sumardagurinn fyrsti hafi verið ein mesta hátíð ársins næst á eftir jólunum.
Þó það sé hvergi sagt berum orðum í fornum lögum, virðast hafa verið litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins. Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum, og enn er svo um aldur húsdýra. Lengi vel eftir kristintöku var messað og lesinn húslestur á sumardaginn fyrsta, það þekktist ekki á öðrum Norðurlöndum. En þegar eftirlitsmenn danskra kirkjuyfirvalda uppgötvuðu þessa íslensku sérstöðu um miðja 18. öld létu þeir banna messur á þessum degi.
Árstíðaskipting er með ýmsu móti í heiminum. Samkvæmt gamla íslenska tímatalinu er árinu skipt í tvo nærri jafnlanga helminga, vetur og sumar sem mætast á sumardaginn fyrsta. Þó svalt sé oft í veðri á þessum árstíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því dagarnir frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin eru hlýjustu dagar ársins. Nú til dags teljast árstíðirnar fjórar á Íslandi, stendur veturinn frá og með desember til og með mars, vorið er þá apríl og maí, sumarið júní til september og haustið er október og nóvember, samkvæmt skilgreiningu Veðurstofu Íslands.
Víðast hvar í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum eru árstíðirnar taldar jafnlangar, vetur er þá desember til febrúar, vorið mars til maí og svo framvegis. Að eldri hætti var vorið í Evrópu talið byrja við vorjafndægur, sumarið við sumarsólstöður, haustið við haustjafndægur og veturinn hófst við vetrarsólstöður. Allar þessar skiptingar eiga rétt á sér og eru skynsamlegar á sinn hátt. Víða í heiminum eru aðrar skiptingar.
Gamla íslenska misseristalið var eitt fullkomnasta tímatal síns tíma og full ástæða til að sýna því áfram þá ræktarsemi sem það á skilið með því að fagna sumrinu sérstaklega. Hvað þá af loknum erfiðum og umhleypingarsömum vetri sem endaði í algjörri pest.
Nú hefur vetur af vörum spýtt
virðist sá oft galinn.
Komið er sumar sælt og blítt
og sólin skín um dalinn.
Svarri
Undanfarna daga hafa farfuglarnir flykkst til landsins bláa. Álftir, gæsir og endur fyrir löngu, hafa svifið í stórum flekum inn til lendingar hér á Egilsstaðanesið í grennd við flugbrautina, sem situr nú í þögninni ein, sú sem ISAVIA kallar international airport.
Ég er búinn að draga fram hjólið og ferðast í fuglasöng innan um skokkandi nágranna á nesinu, sem nú eru lausir við hlaupabrettið í ræktinni, og engir tímatrektir túristar lengur til að strauja okkur niður á þjóðvegi eitt.
Dýrðin, dýrðin heyrist lóan syngja, skýrar en nokkru sinni fyrr og er ekki með neitt kóvítis kjaftæði. Hrossagaukurinn hló sínum fyrsta þíða hlátri vorsins úr suðvestri og árstíðirnar frusu saman; sumarið getur ekki klikkað.
Sumardagurinn fyrsti hefur í gegnum tíðina verið minn stærsti hátíðisdagur, eru mörg undur og stórmerki honum tengd. Þennan dag gengum við Matthildur mín upp að altarinu í litlu gömlu kirkjunni á Aurnum á Djúpavogi, og hétum þar hvoru öðru ævilangri tryggð.
Sléttu ári áður höfðum við ruglað saman reitum, og sléttu ári eftir brúðkaupsdaginn héldum við á litlu tvíbura krílunum okkar undir skírn, þennan fyrsta sumardag á sama stað. Deginum er þar að auki tengd áheit síðuhöfundar á Strandakirkju, sem eru orðin nokkur í gegnum tíðina.
Síðuhafi óskar lesendum gæfu og gleði í sumar.
Heimildir;
http://www.vefir.nams.is
http://www.arnastofnun.is
http://www.is.wikipedia.org
http://www.visindavefur.is
Athugasemdir
Stórkostleg grein og gott að fá svona jákvæðni á þessum erfiðu tímum. Ég þakka góðar óskir og sömuleiðis og vonandi átt þú og þínir gleðilegt og gott sumar. Ég vil þakka þér fyrir sérstaklega góða pistla hér á blogginu. Ég les alltaf skrif þín og hef mikla ánægju af, því miður læt ég sjaldan vita af mér en nú læt ég þig vita af að mér líkar mjög vel við skrif þín.........
Jóhann Elíasson, 23.4.2020 kl. 09:42
Þakka þér fyrir góð orð í minn garð Jóhann.
Pistlarnir mínir eru langlokur sem ekki er sjálfgefið að séu allra, ekki einu sinni að nenna að stauta sig í gegnum þá til enda.
Þess vegna eru þessi orð þín mér kær, meistarans í stuttum og hnitmiðuðum pistlum um samtímann auk stórskemmtilegs föstudagsgríns.
Besta sumarkveðja.
Magnús Sigurðsson, 23.4.2020 kl. 16:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.