Sumarlandið Senja

IMG_0334

Það hafa sjálfsagt margir hugsað sér að láta kylfu ráða kasti þegar farið er út um þúfur þetta sumarið. Enda er það alltaf svo að það er ferðalagið en ekki áfangastaðurinn sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið. Það þurfa ekki vera best völdu áfangastaðirnir  sem verða eftirminnilegastir. Síðuhafa kæmi ekki á óvart að einhverjir ættu eftir að upplifa ógleymanlegar stundir á ferð innanlands í sumar. Stundir sem ekki voru í bígerð fyrr en flest sund virtust lokast hvað utanlandsferðir varðar.

Ísland er einstakur áfangastaður og þegar maður er hvort eð er á þeim stað er ekki annað í boði en að njóta hans, því það er engin tilviljun hvar við fæðumst. Þessi pistill er samt ekki um ferðalög á landinu bláa, heldur um það þegar kylfan réði kasti og sumarið 2012 fór út um þúfur. Þetta sumar bjó ég og starfaði í Noregi og átti von á Matthildi minni í sumarheimsókn og var farið að hlakka mikið til þegar að við útlendingarnir hjá Murbygg vorum sendir í verkefni í járnblendiverksmiðju við Finnsnes í Troms og var ætlað að vera þar lungan úr sumri.

Það var þriggja tíma akstur á milli Harstad og Finnsnes, þannig að þar dvöldum við vinnuvikuna á Camping þ.e. tjaldstæði sem var með ýmsum gistimöguleikum. Vinnufélagarnir voru 2 Afganir og Súdani. Ég sá plön okkar Matthildar fara út um þúfur þarna á tjaldstæðinu sem var rétt við járnblendiverksmiðjuna. Því auk þess að bjóðast að búa saman annaðhvort í smáhýsi eða sér á litlum herbergjum þá voru dagar okkar vinnufélagana langir svo vikan yrði styttri og hægt væri að eiga lengri helgi heima í Harstad.

IMG_1301

Afganskur félagi, við eitt vindfang þjónustubyggingar Finnfjord járnblendiversins, sem var eitt sinn í eigu Elkem ef ég man rétt, þess sama og átti járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga

Þegar stutt var liðið á verkið þá bættist þar að auki miklu meira við, þannig að verk sem átti að taka 2-3 vikur endaði sem 4 mánaða verkefni. Þetta gerðist þegar byggingastjórinn sá að við félagarnir vorum duglegir við að hlaða og múrhúða veggi(náttúrulega til að komast fyrr heim) að mikið af þeim byggingarhlutum sem áttu að vera úr forsteyptum veggeiningum var breytt í hlaðna og múrhúðaða veggi.

Í skiptum fyrir dugnaðinn þá lánaði byggingastjórinn okkur húsið sitt í Finnsnesi um nokkurra vikna skeið á meðan hún var í sumarfríi. En byggingastjórinn var kjarnorkukona af samískum ættum, heitir Arna og bjó með fyrr um flugstjóra sem hafði flogið um allan heim. Þegar ég spurði hana hvort hún hefði þá ekki komið til Íslands, hafði hún ekki gert það "Nei, jeg bara joba" sagði hún. Þannig að þegar Matthildur kom til sumardvalarinnar í Noregi þá stoppaði hún stutt við á tjaldstæðinu hún hafði einbýlishús í miðbæ Finnsnes til afnota og bjó þar ásamt okkur vinnufélögunum.

IMGP5992

Hundrað ára gullmolinn hennar Örnu í miðbæ Finnsnes

Eyjan Senja er næst stærsta eyjan við Noregsstrendur og liggur við norðanverðan Vågsfjorden í Troms. En Hynhoya, þar sem Hrstad stendur, er stærsta eyjan við Noreg og er við sama fjörð sunnanverðan. Örstutt er yfir sundið frá Finnsnes til Senja og er stór og mikil brú þar á milli. Senja er u.þ.b. við 69°N, því langt fyrir norðan heimskautsbaug og sólin hátt á lofti að næturlagi að sumri. Við Matthildur skoðuðum þessa undra eyju í þremur ógleymanlegum kvöldferðum sumarið 2012. 

Senja er um margt lík Austfjörðunum eða Vestfjörðunum og jafnvel Hornströndum, hún á í vök að verjast byggðarlega. Mörg smáþorp eru á Senja með 2-400 íbúum. Þar var og er sjávarútvegur helsta atvinnugreinin. Norður og vestur strönd eyjarinnar er eitt samfellt ævintýri sem einna helst má líkja við sumarlandsins paradís hér á jörð. Þarna fórum við út um þúfur með því að láta kylfu ráða kasti um stórskorna firði og yfir há fjöll á ógleymanlegu sumri. 

 IMG_0046

Tröllagarðurinn sem var einn aðal túristatrekkjarinn á Senja, en þar var gert út á samískar þjóðsögur af huldufólki og tröllum. Tröllagarðurinn brann til kaldra kola fyrir rúmu ári síðan 

 

IMG_0371

Okshornan (Axarhyrnan) stundum kallaður tanngarður djöfulsins, eru fjallstindar sem ganga í sjó fram á norðvestur strönd Senja, ekki ósvipaðir Dröngum á Hornströndum

 

IMG_0333

Skaland er smábær á vestur strönd Senja um 200 íbúa bær. Á Senja er fjöldi smábæa með 100-400 íbúm s.s. Gryllefjord, Torsken, Flakstadvåg, Senjahopen, Mefjordvær, Husøy, Botnhamn ofl

 

IMGP3509

Husøy er eyja í einum af norður fjörðum Senja þar hefur verið gert eyði til lands sem myndar höfnina. Á leiðinni þangað er farið í gegnum löng og þröng jarðgöng hátt upp í fjöllunum fyrir ofan fjörðinn, ekki ósvipuðum Oddskarðsgöngunum, nema mun lengri og krókóttari

 

IMG_0176

Höfnin í Husøy og fjallasýnin þaðan inn í fjarðarbotninn er ævintýri líkust

 

IMG_0384

Senjahopen er lítið sjávarútvegsþorp við vog inn af Mefjord þar er ekki amalegt að verða dagþrota í kvöldkyrrðinni ef tími gæfist

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband