Kellingafár í beinni

Þegar ég hitti kunningja fyrir margt löngu, sem er áratugum eldri en ég, -spurði hann hvað væri títt. Ég sagðist hafa komist að því að tveir plús tveir þyrftu ekki að vera fjórir frekar en manni sýndist. „Já veistu það, þetta vissu þær alltaf húsmæðurnar“; -svaraði kunningi minn.

Nú hafa tekið við aðrir tímar þar sem kellingar spálíkans lokaritgerðarinnar hafa fært sig upp á skaftið, -og hornsteinum heimsins hefur verið kastað á glæ; hámenntaðar fraukur, í Þórálfa líki, sem líta skimandi yfir gleraugun í beinni, og eineygra bláklæddra Óðins hana.

Húsfreyjan hefur verið rammflækt í lokaritgerðinni, fleygt á haugana eins og hverri annarri flugfreyju svo allt geti verið á sjálfstýringu í aðflugi stórfyrirtækisins til alheimsyfirráða. Mynd sem var, er komin á hverfanda hvel, -heimurinn yfirfljótandi í sótthræddum kellingum.

Upp hefur risið haukleg mær, -og lafandi lostakústur. Valkyrja, sem með rafrænum smáskilaboðum fær hvern þann, sem á móti blæs; með metoo myllumerki og stjörnusýslumanni stones borinn út í eyjar. Engin er lengur þjóðhátíð, -femenisk er Þórðargleðin.

Húsmóðirin sér nú sinn sal standa sólu fegri, gulli þakin á Gimlé: Þar skulu dyggar dróttir byggja og um aldurdaga yndis njóta, þar muna ósánir akrar vaxa, böl mun allt batna; -engin er þar litla gula hænan, -allt samkvæmt lokaritgerðinni.

En þar mun sem áður, fljúga hinn dimmi dreki, naðar fránn, neðan frá Niðafjöllum; bera sér í fjöðrum, fljúgandi völl yfir, Níðhöggur nái, -þar mun hún sökkvast.

Hvað verður svo um leiðsögnina fyrir blessuð börnin, -í siðblindu kóvinu? - Hvernig verður hægt að lifa af tvo plús tvo, -í digital brjálæðinu?

Við höfum skipt út blessun húsmóðurinnar, sem benti barninu á almáttugan skaparann og bróður besta, er innra með barninu byggju; -út fyrir gervigreind lokaritgerðar sérfræði kenningarinnar.

Við staulumst nú um tvo metrana, rammvillt með grímuna; og annað augað hálfopið, blinduð í kóvinu, hitt á símanum í lófanum; -vitandi innst inni að kenningin er fyrir löngu orðin að samsærinu sjálfu.

Við þorum ekki öðru ern lúta leiðsögninni í beinni, skref fyrir skref, þó það eina sem þurfi til að rata, -sé að slökkva á símanum og sjónvarpinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Kyngi orða þinna er líkt og þú sért annað af tvennu, launsonur Snorra eða kominn að honum í beinan karllegg (má ekki annar segja svona í þessum síðustu og verstu?).

"En þar mun sem áður, fljúga hinn dimmi dreki, naðar fránn, neðan frá Niðafjöllum; bera sér í fjöðrum, fljúgandi völl yfir, Níðhöggur nái, -þar mun hún sökkvast.

 

Hvað verður svo um leiðsögnina fyrir blessuð börnin, -í siðblindu kóvinu? - Hvernig verður hægt að lifa af tvo plús tvo, -í digital brjálæðinu?

 

Við höfum skipt út blessun húsmóðurinnar, sem benti barninu á almáttugan skaparann og bróður besta, er innra með barninu byggju; -út fyrir gervigreind lokaritgerðar sérfræði kenningarinnar.".

En siðmenningin er undir ef drápsveira fær að ganga laus.  Hún er kannski undir hvort sem er vegna afleiðinga sóttvarna, en það snýr að hugmyndafræði, er önnur ella.

Það var ekki að ástæðulaus að það var fært í letur fyrir um 2.000 árum hjá þrasgjarni eyðimerkurþjóð að skylda þin gagnvart guði væri að elska hann líkt og sjálfan þig, og náungann þinn líka.

Og því var bætt við að sá tími kæmi þar sem þessi viska væri eina von mannkyns, en vegna þessa að viskan var stór, þá var ætlaður ríflegur tími til að nema og læra.

Það er ekki veiran sem veldur hinum efnahagslegum hörmungum sem fátækur almenningur um allan heim glímur við.  Hún bara drepur sýkil sinn fái hún til þess tíma og næði.  Hins vegar veit hún ekkert um hagfræði 101.

Það eru ekki sóttvarnir sem valda þessum hörmungum, þær gera aðeins tvennt, hindra upplausn samfélagsins því banaspjótin eru það fyrsta sem tekið er úr skápnum þegar dauðinn er þarna úti, og þau hindra að veiran drepi saklaust fólk.

Hörmungarnar eru mannannaverk, og illfylgin sem ábyrgðina bera, sjá sér núna hag í að espa fólk gegn sóttvörnum, upplausn er alsnægtaborð gróðafíknar þeirra.

Eins og það var og er einfalt að sigrast á farsóttum, þá var tekin sú pólitíska ákvörðun að gera það ekki.

Hvað er þá í boði annað en leiðsögn í beinni??

Kveðja úr neðra, í glampandi sól sem loksins náði að teygja sig niður úr súldarskýjum og þokukófi.

 

Ómar Geirsson, 4.8.2020 kl. 13:23

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar og þakka þér fyrir víðfeðmið og efnismikið innlegg, ekki veitir af því eftir fljótaskrift þessa pistils, sem er auðvitað meira og minna stolin rétt eins og bókmenntir Snorra Sturlusonar.

Eins og sennilega allir Íslendingar þá er ég smitaður af Snorra þó ekki sé það í beinan kalllegg. Sú smitrakning liggur frá Þórdísi dóttur Snorra og manni hennar Þorvaldi Vatnsfirðings þann sem brenndur var innri með fulltingi Sturlu Sighvatssonar.

Rakningin liggur svo hipps um happs til móður minnar. Reyndar get ég smitrakið mig aftur til Adams og Evu með vel á annað hundrað forfeðra tali nafn fyrir nafn, en hvort það er meira að marka þá rakningu en kóvítis smitrakningu efast ég satt að segja um. 

Ég verð að viðurkenna það að ég trúi ekki á kóvítið. Sannleikurinn er sá að þegar yfirvöld lýsa yfir stríði við það ósýnilega þá hverfur öll mín til trú. Á minni ævi hefur m.a. verið lýst yfir stríði gegn fíkniefnum, hryðjuverkum og nú pestarveiru. Stríðin gegn ósýnilegu óvinunum eiga það til að verða óendanleg, jafnvel þó að markmiðið sé ekki merkilegra en fíkniefnalaust Ísland árið 2000.

Það vill þannig til að forlögin ráða oftar en okkur grunar og fyrir sumu er sigurinn fólginn í að hefja ekki stríðið, og stundum verðu hrein uppgjöf eina færa leiðin.

Sjálfur hef ég lýst því yfir hérna á blogginu að blessað brennivínið hafi bjargað mér frá lokaritgerðinni. Fíknin er t.d. það öflugur óvinur að þar til bjargar er aðeins ein leið, og hún liggur í gegnum uppgjöfina. Nú eru menn smá saman að átta sig á þessum einföldu sannindum varðandi stríðið gegn fíkniefnum.

Þér að segja þá erum við Matthildur mín algerlega á öndverðum meiði varðandi kóvítið. Við höfum reyndar ekki náð lendingu með aldamótin síðustu því hún vill meina að tímatalið hafi hafist árið eitt á meðan ég einblíndi á fæðingu frelsarans.

Það var hún sem missti af aldamótunum.  En ég fékk hana samt með mér niður í neðra í dag, þrátt fyrir að hún missti af þríeykinu í beinni fyrir vikið, þar sem við leituðum blárra berja. Því þó svo að sólin hafi skinið í efra þá er ekkert notalegt í suðaustan sjö.

Það er fátt sem jafnast á við uppstyttuna í neðra; malandi fossar, fagurgrænar döggvaðar fjallshlíðar merlandi í sólinni og hafið blátt. Ég þarf ekki að segja þér þetta.

Við fórum yfir Slenju og fram hjá Fönn, ólíkt fornköppunum, komum því ekki við í þínum firði. Það er allt blátt af berjum þannig að ég hef von um að ekki verði meira um kóvítis kjaftæði á mínu heimili á næstunni.

Með bestu kveðju úr efra.   

Magnús Sigurðsson, 4.8.2020 kl. 19:37

3 Smámynd: Haukur Árnason

Báðir góðir, Magnús og Ómar Takk.

Haukur Árnason, 4.8.2020 kl. 22:12

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Puff, hvað er gaman að lesa avona pistil og athugasemdir sem fylgja. Mikið vildi eg að ég gæti raðað orðuð mínum svona vel. 

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 5.8.2020 kl. 01:20

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Magnús

Er ekki kominn tími fyrir þig að lalla  burt frá steypunni og taka pennann alfarið í vinnu?

Kveðja af Skaganum

Gunnar Heiðarsson, 5.8.2020 kl. 07:05

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Ha, ha Magnús, "Því þó svo að sólin hafi skinið í efra þá er ekkert notalegt í suðaustan sjö.", bíddu bara, vindurinn kemur bráðum með sólina en lognið til mín.

Kannski, vonandi, allavega áður en ég geispa golunni, mikill andskoti þessi kólnun á Austur Grænlandsstrauminum sem hélst nokkurn veginn í hendur og flutningur yngstu móðursystur minnar í rigningarbælið um aldamótin, og hún í vanþekkingu sinni stendur í þeirri trú að þar hafi alltaf verið sól.

Þú fórst ekki bara með brosið Inga mín sagði Lilli Matt einu sinni við hana, og viðurkenndi þar óbeint að hún hefði líka tekið sólina með sér.

Hið Öndverða meið er svo gott meið, knýr mannsandann áfram.

Góðar fréttir af berjum heyri ég eftir frekar mögur grænjaxla ár.

Rigningarkveðjur til ykkar í efra, með von um sól seinna í dag.

Að austan.

Ómar Geirsson, 5.8.2020 kl. 07:44

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlitin og athugasemdirnar Haukur, Halldór, Gunnar og Ómar.

Ég sé nú ekki betur en að þið Haukur kunnið ágætlega að raða orðum ykkar Halldór svo vel líki, þú hefur verið með kjarnyrta og eftirtekta verða pistla hér á blogginu, þar sem töluð er hrein íslenska, það er ekki öllum landsmönnum gefið nú til dags.

Það er þannig með ritgerðina og steypuna, Gunnar; að það er steypan sem harðnar. Þegar sementi, möl og vatni hefur verið blandað saman er rétt betra að láta hendur standa fram úr ermum svo ekki verði úr grjótharður óskapnaður. En þetta vitið þið nú manna best á Skaganum. Svo er það sagt um einn steypukallinn, kunningja minn, að hann sé ódauðlegur því að hann mun í mesta lagi harðna einn daginn. Ég held að mín minnismerki verði steinsteypt meðan ég stend uppi óharðanaður.

Það var sunna sjö og 15°C í efra, Ómar; þegar við betri helmingurinn brugðum okkur í neðra í gær, svona má nú miskilja með góðum vilja. En svona til að metast þá var lognið svo yfirgengilegt í neðra í gær að það þornaði ekki á í berjamónum inn í firði. Þannig að við þurftum að færa okkur út undir miðjan fjörð til að sökkva ekki í dýið og losna við að það pusaði af puttunum í berjalynginu.

Efsta myndin í "NÝJUSTU MYNDIR" hérna hægra megin á síðunni sýnir vel hvernig stytti upp í neðra í gær.

Með meinhægum kveðjum á gráum morgni af Héraði.

Magnús Sigurðsson, 5.8.2020 kl. 08:49

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Metingur Magnús, er annað hreyfiafl.

Mætti maður oft hafa neistaflug og orðkynngi Halldórs, þegar honum mislíkar eða hefur hvötina til að rjúfa þögn sína (samt óþarfi að hýða mig).

Og orðkynngi þarf uppsprettu, megi þú lengi steypa Magnús, þó það væri ekki annað en að einhver þarf að sinna þeirri iðn í fjórðungi okkar sem er okkur svo kær.

Lognið kemur svo, he, he, þar sem lognið hlær svo dátt.

Með ennþá rigningarkveðjum uppá Hérað.

Megi það orð lifa lengi, lengur en skammsýni mannanna sem sjá ekki að það er orðið, sem ljær merkingu handa þeim sem vilja búa í stærri byggð en áar okkur áskotnuðu þeim.

Hagræðing andskotans hefur engan rétt til að hagræða líka málvitund okkar sem og upplifun okkar um hvað er gott mál.

Fjarðabyggð, ókei, gat verið verra.  En ég skal mæta uppí Hérað á þing Múlamanna Magnús, og virða þar með forn mörk héraðsþinga okkar.

Sem og það eru grunnréttindi að fá að deyja með það sem maður ólst upp við.

Uppá Héraði búa Hérar, sem er gæfa okkar niðri á fjörðum, líkt og ég gantaðist svo oft við frænda minn SímaGumma, hann og mamma voru systkinabörn.

Stoltur var hann af sinni byggð, hvort sem það var í neðra eða í efra.  En hans framtíð lá í efra.

Uppá Héraði þar sem gróandinn grær, og þorp varð að kjarna, fjórðungsins sem við unnum svo mjög, og unnum svo mjög.

Hérað er heitið, og ef listaspírurnar niðri á Seyðis vilja ekki kannast við að vera Hérar, þá býður alltaf náðarfaðmur þess sveitarfélags sem útvegar þeim vinnu, og kennt er við firði.

Fjarðabúi versus Héri, það er ekkert þar á milli.

En þið megið samt stundum skila sólinni og taka við þokunni þess í stað.

Og ég veit að Snorri orti í kvennlegg, sá leggur er jú forsenda lífsins.

Matthildur veit hvað hún syngur.

Hún kyrjar aðeins söng formæðra sinna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.8.2020 kl. 11:46

9 identicon

Hef sagt það áður, og segi það enn og aftur:

Þú ert algjör meistari Magnús.

Það er algjör unun að lesa pistla þína.

En ég held ég verði að segja, að þessi ber af þeim öllum, enda engu hægt að líkja við

nema hinni hreinu og tæru snilld.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 5.8.2020 kl. 12:26

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Pétur Örn og þakka þér fyrir lofið

Ef ég á að segja þér alveg eins og er; þá er því þannig farið að ef ég hefði ekki sett þetta hnútukast í loftið áður en ég hjólaði út í Héraðssólina í gærmorgunn, þá hefði þetta aldrei birst, -heldur lent í recycle bin.

Hvað þá hef ef ég hefði verið búin þá að fá húsmóðurina hana Matthildi mína með í berjamó niður í neðra. Þess vegna þykir mér vænt um að heyra þetta lof frá þér meistara orðsins.

Með kveðju af Héraði, - Skagfirski höfðingi.

Magnús Sigurðsson, 5.8.2020 kl. 13:03

11 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég var sakaður um að trú ekki á kóvit um daginn og fannst það miður.

Eftir þennan lestur lít ég á það sem hrós.

Guðmundur Jónsson, 5.8.2020 kl. 13:19

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Já satt er það Ómar, metingur er hreyfiafl, og steypan lengi lifi hvort sem hún er í orði eða á borði.

En eins og ég sagði hér að ofan þá missti hún Matthildur mín af aldamótunum.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 5.8.2020 kl. 13:23

13 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Guðmundur og þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina.

Á hvað svo sem við trúum, þá verður því aldrei á móti mælt að vísindin eru sjónhverfingar byggðar á spálíkönum er taka miðið aftur fyrir sig, eins og hver annar galdur.

Það er bara að passa sig á að trúa ekki á fárið.

Magnús Sigurðsson, 5.8.2020 kl. 13:30

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Tek undir með Skáldinu.

Viskunni sem og ég vil benda á að þegar Auðna ræður för, þá er engin tilviljun þar að baki, aðeins ferli sem okkar vitund fær oftast varla numið eða skilið.

Skáldinu var ætlað að benda á Meistarann, mér var ætlað að lofsyngja steypu, þó ég hafi þakkað og get ennþá þakkað þjónustu og þjónustulipurð jafnt frúar sem eiginmanns við að hýsa ferðahýsi mitt, að ekki sé minnst á þá lipurð að reyna að gera við stafnhjólið þegar ljóst var að kona mín var gift manni sem hafði engar bjargir í viðgerðir eða annað sem viðkom höndum.

Sem og að konur sem missa af aldamótunum verða kellingar elstar.

Það er bara svo.

Það er unaður að lesa þig Magnús.

Kveðja úr uppstyttunni í neðra.

Ómar Geirsson, 5.8.2020 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband