20.8.2020 | 06:02
Við skulum bara tala íslensku hérna
var máltæki eins vinnufélaga, og þegar hann hafði haft þennan formála yfir með viðeigandi gæsalöppum, gerðum með fingrum við eyru, vissum við hinir að von var á yfirhalningu.
Einu sinni sleppti hann alveg formálanum og sagði að réttast væri að skera af mér hausinn. Ég áttaði mig strax á að þarna væri töluð hrein íslenska, þó að í viðtenginga hætti væri. Reif af mér vinnuvettlingana úti í miðri steypu og rétti honum spaðann og baðst afsökunar á orðaleppunum sem ég hefði látið mér um munn fara. Hann tók í höndina á mér, þó með semingi væri rétt eins og hann tryði ekki alveg eigin augum.
Það er auðvitað hvergi mikilvægara en í miðri steypu að menn misskilji ekki hvorn annan og vinni vel saman, þetta vissum við báðir. Þessi uppákoma varð ekki til þess eftirá að neinn skugga bæri á okkar félagsskap. Það kom samt fyrir eftir þetta atvik að aðrir vinnufélagar hefðu orð á því við vinnuveitandann að ef hann ætlaði að senda félagann og mig aftur með þeim í steypu þá væri vissara að leita áður af sér allan grun um hugsanlegt blóðbað í vösunum okkur félaganna.
En hversu stóran þátt á íslenskan í því að við skiljum samhengi hlutanna? Er hægt að skilja og skýra myndina svo vel sé t.d. á ensku, þegar maður er alinn upp á íslensku? , , , og skiljum við orðið yfir höfuð hreina íslensku? Ég hef oft verið að velta fyrir mér hve mörg samsett orð hafa villt mönnum sýn. Þannig; að þó merking orðanna sé á hreinu sem mynda samsetta orðið, þá virðast flestir leggja í það aðra merkingu en orðin segja. Ég ætla að taka þrjú örstutt dæmi.
Persónuleiki; er samsett úr orðunum persóna og leikur s.b. persónur og leikendur. Orðið persóna er upprunnið í latínu og merkir upphaflega gríma. Orðið leikur þarf varla að skýra en þar getur verið átt við ærslafullan leik barna, eða leik eftir ákveðnum reglum, jafnvel leik sem felst í að sýnast eitthvað annað en maður er, s.b. persónur og leikendur. Ég hygg að margir ætli að orðið persónuleiki sé haft yfir innsta eðli, þegar það er í raun yfir leikgrímuna sem sett er upp til að sýnast í lífsins ólgu sjó.
Trúarbrögð; samsett úr trú og brögð. Orðið trú er einfalt og getur varla misskilist, -ég allavega treysti því. En annað á við viðtenginguna brögð þar virðist um auðugri garða að gresja. Á ensku er notast við orðið religion með rót í latneska orðinu religio, sem er sagt geta átt við virðingu fyrir því sem er heilagt, lotning fyrir guðunum; samviskusemi, réttlætiskennd, siðferðilegri skyldu; ótta við guðina; guðsþjónustu, trúarathafnir osfv. Íslenska orðið bragð eða brögð getur t.d. átt við athöfn, framkvæmd, verk osfv. Einnig geta verið brögð í tafli, og ef talað væri um trúarbragðaref þá væri sú merking auðskilin.
Vísindi; samsett úr vís og indi. Á Vísindavef HÍ er þetta um orðið að finna "orðið vísindi er leitt af lýsingarorðinu vís í merkingunni vitur, sem hefur þekkingu til að bera. Síðari liðurinn -indi er viðskeyti einkum notað til að mynda nafnorð af lýsingarorðum, til dæmis sannindi af sannur, heilindi af heill, harðindi af harður, rangindi af rangur." Hvað ef orðið væri til komið af því að einhver hefði haft yndi af því að vera vís?
Á ensku er notast við orðið sciense, sagt komið úr gamalli frönsku og þýddi þar þekking, s.s. nám, í beitingu mannkyns þekkingar. Orðið á rót í latneska orðinu scientia sem þýddi þekking eða reynsla, eftir því sem ég kemst næst hjá gúggul.
Það eru kannski ekki allir sem vita að íslenska orðið vísindi er ævafornt orð og var notað löngu fyrir daga "nútíma vísinda", rétt eins og scientia í latínu. Orðið var haft yfir þá sem vissu nefi sínu lengra, s.s. seiðkarla á við Óðinn alföður og Loka Laufeyjarson, eins skapanornir á við Urði, Verðandi og Skuld sem sköpuðu mannfólkinu örlög.
Síðar breyttust seiðkarlar og skapanornir smásaman í nútíma vísindamenn, jafnvel spákonur rýnandi í spákúlu um tíma. Síðustu sex mánuði hefur þríeyki setið seiðhjallinn í beinni og skapað okkur örlög lík Urði, Verðandi, Skuld, rýnandi í spálíkanið. Um vísindin, -því sem næst eins og þau eru praktíseruð dag í dag; má lesa 1000 ára íslenska frásögn í Grænlendingasögum, sjá hér.
Vísindin eru í raun þau trúarbrögð nútímans sem fá okkur til að setja upp grímuna og leika eins og til er ætlast, jafnvel þó okkur gruni innst inni að kenningin sé orðin samsærið sjálft. Þess vegna er því þannig farið að það getur borgað sig að tala bara íslensku þegar til stendur að skera hausinn af, jafnvel þó svo að í viðtenginga hætti sé. En ekki er samt víst að allir þoli orðaleppa, sem ekki geta misskilist, -nema þeir séu sagðir með orðhengilshætti undir rós.
Athugasemdir
Hrein dásemd.
Á góðri íslensku um góða íslensku.
Sem að sjálfsögðu krefst þess að höfuð haldist á búknum en sé ekki fjarlægt í hita leiksins.
Takk fyrir mig Magnús.
Kveðja úr smáaugnablikssólarglætu í neðra.
Ómar Geirsson, 20.8.2020 kl. 07:57
Þú klikkar ekki frekar en fyrri daginn og mjög góð hjá þér "Íslenskan"..
Jóhann Elíasson, 20.8.2020 kl. 10:32
Stórgott MEISTARI.
Vís, vísa veginn, og kennari kemur upp í hugann.
Egilsstaðir, 20.08.2020
Jónas Gunnlaugsson, 20.8.2020 kl. 14:22
Sælir félagar og takk fyrir athugasemdirnar.
Svo maður sletti þá eru vísindi vúddú.
Með kveðju úr norðan nepjunni á Héraði.
Magnús Sigurðsson, 20.8.2020 kl. 16:06
Hugleikur.
Sök bítur sekann. Skilur fyrr en skellur í tönnum. Skammar Albaníu en ert óánægður með Júgóslavíu. Ég missti þýðandann, hann sparaði mér mikinn tíma. Ég hef leyft mér að þýða ekki eða að hluta, og haft áhyggjur af of miklum enskum texta.
Þegar ég svo sé orðin, Við skulum bara tala íslensku hérna, þá vaknar samviskan. Ég vil helst sýna umfjöllun um ýmis þörf málefni, og mikið af því er á ensku. Það sýnir sig að þú hefur áhrif, jafnvel á samviskuna, þótt þú hafir ekki endilega hugsað eða ætlað það.
Hér er glaða sólskin, kvöld sólin skín í gegn um trlágreinarnar hér utan við vestur gluggann sem gullrauður bjarmi yfir Fellaheiðina, innan við Heiðarendann, rauðgullað himinhvolfið, Fellin og Lagarfljótið ljámandi í geisla skjá ljóss og lita, eylífðarinar, fyrirheitna landsins, hins Almátka, GUÐS.
Við skulum ekki gráta norðan áttina, rigninguna eða storminn. Það færir okkur regnið, lífsvatnið og nýtt lífsloft, kolefni og súrefni endurnýjað frá hafinu.
Við böðum okkur í gjöfunum, kalt og heitt vatn frá náttúrunni, hlý hús og farartæki, gnægð af lífslofti, kolefni og súrefni með storminum. Náttúran grænkar blómstrar vegna meira lífslofts, kolefnis fyrir gróðurinn. Grænu plönturnar og skógarnir anda frá sér lifslofti, súrefni. svo að við menn og dýr geislum af súrefnis bruna kraftinum, og verðum heilbrigðir náttúru vættir.
Egilsstaðir, 20.08.2020 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 20.8.2020 kl. 22:32
Þakka þér fyrir þessa hugvekju Jónas. Já það var fallegt gærkvöldið, ég er svo heppinn að sjá yfir víðan völl, veit bara um einn stað hér í bæ sem hefur betra útsýni og ég bý við, sá staður er efst í kirkjuturninum þar sem hrafnarnir sitja í morgunn andaktinni.
Það var nú ekki meiningin að valda neinu samviskubiti, heldur bara minna á hvað íslenskan á það til að segja hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru með því að skoða samsett orð. Þetta með að réttast væri að skera hausinn af skilst á hvaða tungumáli sem er.
Með kveðju úr Útgarðinum.
Magnús Sigurðsson, 21.8.2020 kl. 06:26
Ég hafði alltaf hugsað mér að kaupa mér íbúð þarna, þegar og ef ég yrði gamall.
Gangi þér allt í haginn.
Egilsstaðir, 21.08.2020 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 21.8.2020 kl. 14:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.