11.11.2020 | 16:21
Draumurinn um djöfulinn
Kvíði, þunglyndi og ótti er hlutskipti margra þessa dagana, enda fá hlé gerð á því að auka áhrif þessara tilfinninga á daglegt líf. En við gætum allt eins verið undir áhrifum vera sem tilheyra víddum utan venjulegrar skynjunar. Það er miklu meira í raunveruleikanum en það sem við getum séð, fundið, heyrt, smakkað eða snert.
Fyrir nokkrum nóttum dreymdi mig djöfulinn sjálfan.
Þannig var að ég var staddur um hábjartan dag í óupplýstu glerhýsi. Ég varaðist að fara inni í skuggalega og gluggalausa afkima sem minntu helst á dimmar búðir í verslanamiðstöð, leitaðist við að halda mig úti á glerjuðum göngunum. Þar var engin lýsing önnur en dagsbirta inn um glugga og gler. Mitt hlutverk þarna var að koma styttu af djöflinum á stall öllum til sýnis svo allir vissu hvernig hann liti út.
Það sem kom mér á óvart þegar ég var á leiðinni að ná í styttuna, að þá mætti ég mannveru, sem klæddist og leit út, eins og djöfulinn. Ég ég hugsaði hvernig getur þessi manneskja vitað útlit djöfulsins sem ég átti að fara að opinbera með styttu.
Eftir að hafa sótt styttuna inn í eina dimma afkimann, sem ég kom þarna í, hóf ég gönguna með hana í fanginu í gegnum glerjaða gangana og mætti fáum manneskjum í fyrstu. En það var sammerkt með öllum þeim manneskjum sem ég mætti að þær litu út eins og djöfullinn.
Ég vissi að þessar mannverur gætu ekki gert mér neitt svo lengi sem ég héldi á styttunni. Djöfullegu mannverunum fjölgaði stöðugt. Þær þrengdu að og það rökkvaði frá þeim á ganginum og sýndist lengra og lengra til dyranna. En þangað þurfti að komast með styttuna út undir bert dagsljósið.
Ég vissi einnig að svo lengi sem ég héldi líkneski djöfulsins þétt upp að mér inni í glerhýsinu og hefði það til sýnis þá gætu þessar djöfullegu mannverur ekki snert mig þó þær þrengdu stöðugt meira að og fálmuðu í áttina til mín.
Þegar ég vaknaði upp af draumnum, -með þungan verk fyrir brjósti-, fór ég á fætur og fékk mér vatnsglas og skrifaði strax niður drauminn. Þetta var alls ekki í fyrsta skipti sem mínir draumar snúast um djöfulinn. Sama er hvort mig hefur dreymt skugga djöfulsins, eða hvísl, þá hefur það hingað til boðað eitthvað.
Svo var það í morgunn að ég leit í Waking Times og sá þessa tilvitnun í Rudolf Steiner.
Það eru til verur á andlega sviðinu sem nærast á ótta og kvíða. Þegar fólk er laust við þær kenndir lenda þessi öfl í svelti. Þeir sem eru ekki nægilega sannfærðir um tilveru þeirra gætu samþykkt þessar fullyrðingar séu þær notaðar í dæmisögu.
En fyrir þá sem þekkja þessi öfl eru þau veruleiki. Ef ótti og kvíði heltekur fólk þá leiðir það til óstjórnlegs ótta, í honum finna þessi öfl kærkomna næringu og eflast. Þau eru því mannfjandsamleg.
Allt sem nærist á neikvæðum tilfinningum, kvíða, ótta og hjátrú, örvæntingu eða efa, eru í raun fjandsamlegar verur í skynsömum veruleika og hrinda af stað grimmilegum árásum á mannfólkið, svo lengi sem þær eru fóðraðar.
Þess vegna er umfram allt nauðsynlegt að sá sem fer inn í andlega heiminn byrji á að sigrast á ótta; -tilfinningunni um vanmátt, örvæntingu og kvíða. En þetta eru einmitt tilfinningar sem tilheyra efnishyggju menningu samtímans.
Og vegna þess að efnisheimurinn fjarlægir fólki frá andlega heiminum, þá er hann sérstaklega til þess fallinn að vekja vonleysi og ótta við hið óþekkta og kallar þannig fram þessi fjandsamlegu öfl. -Rudolf Steiner
Þannig rættist draumurinn um djöfulinn.
Athugasemdir
Góður að vanda og svo geta menn "túlkað" þennan draum eins og þeim "hentar" Ég kýs að "túlka" hann þannig að "GLÓPALISTARNIR" séu sífellt að þrengja að okkur til að gera okkur lífið óbærilegt og þeir vinni undir handajaðri djöfulsins (Sorosar).....
Jóhann Elíasson, 11.11.2020 kl. 17:57
Já Magnús, það er nú ekki skrítið að fólk fari að fá martraðir í þessu ástandi. Ég efast um að hræðsluáróðurinn hafi nokkurn tíma verið jafn mikið áberandi.
Þorsteinn Siglaugsson, 11.11.2020 kl. 18:09
Menn túlka t.d. sögur Faulkner á þann hátt sem hverjum sýnist. Og eins er það með sögur, ljóð og pistla allra þeirra sem fjalla um veruleikann af svo mikilli list að hann verður sem innsýn í heim galdurs, rétt eins og uppruni sagna og lista er iðulega, þegar dýpst er skyggnst. Sá galdur, sú list, sú kynngi býr einnig í þér, meistari Magnús.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 11.11.2020 kl. 18:37
Takk fyrir innlitin og athugasemdirnar félagar.
Það hefur víst verið sagt sem svo að hver hafi sinn djöful að draga.
Eins hefur því verið fleygt að töfrandi jarðlífið sé djöfulsins, s.b. freistingu Krists.
Það má segja sem svo að við vesturlandabúar höfum aldrei búið við aðrar eins allsnægtir með öllu okkar ótta við dauðann.
Manni dettur ósjálfrátt í hug að það gæti stafað af dæmisögunni um Lasarus og ríka manninn.
Magnús Sigurðsson, 11.11.2020 kl. 19:13
Það eru til ótrúlega margar reynslusögur fólks sem hefur komist í snertingu við dauðann. Þær eiga það yfirleitt sameiginlegt að þessi reynsla verður fólki ógleymanleg og gerbreytir lífsviðhorfi þess. Sennilega hefur svona reynsla fylgt mannkyninu frá örófa tíð.
Hér er skemmtileg frásaga ungrar konu af reynslu sinni þegar hún var sex ára barn: "All of a Sudden I Saw Myself Lying There" | Julia Fischer's Near Death Experience
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 11.11.2020 kl. 20:57
Nú ætla ég að sagja sem ég vildi sagt hafa og óttast það eigi:
Öll hin svokölluðu gæðastjórnunarkerfi embættismannahirðarinnar valda mér svo lamandi leiðindum og niðurþrykkingu að leitt hefur til verkstola kvíða. Í mínum huga er kóvitið hátíð í bæ miðað við djöfla hræsninnar og gæðastjórnunarkerfanna. En við munum alltaf rísa upp frá dauðum Magnús minn, sem titrandi englar, sama hvað dauðanum og öllum djöflunum líður.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 11.11.2020 kl. 20:58
Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni
Þórhallur Pálsson, 11.11.2020 kl. 21:19
Var djöfsi nokkuð í gallaskyrtu annars, Magnús? Og kannski með litla sprautu í klónni?
Þorsteinn Siglaugsson, 11.11.2020 kl. 22:18
Mér finnst að Þorsteinn ætti að fá þig Magnús minn til að múra hvelfingu bönkersins sem hann ætlar að gera svo forðast megi djöfsa og sprautuliðið. Tyrfa svo vel yfir. Engir menn hafa skrifað og stúdergað jafn skemmtilega um jarðhýsi íslensk og þú. Mér skilst að hann muni bjóða þar upp á þjóðlegan mat, ora fiskbollur og baunir. Viss um, ef af yrði, að það yrði fjör hjá ykkur :-)
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 12.11.2020 kl. 00:05
Já, og við munum hafa sérstakan vara á okkur gagnvart Óðni hinum eineygða í gallaskyrtunni þegar við sitjum þar við fiskbolluátið
Þorsteinn Siglaugsson, 12.11.2020 kl. 00:07
Munið bara að hafa ársbirgðir af lýsi með
Bæði á lýsislampana og til inntöku.
Ráð mín eru holl, enda af væntumþykju gefin.
Annars fer þetta að verða svo spennandi
-- ef seiðkarla fræði yrðu þar og iðkuð --
að ég beiddist þar og inngöngu.
Nokkuð mikið yrðum við skemmtilegri en bönkerlið
þjóðaröryggisráðs ríkisins
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 12.11.2020 kl. 00:25
Áhugaverðar athugasemdir sem seint verður komist til botns í svo ekki sé meira sagt.
Þakka þér fyrir videoið Hörður það var áhugavert og seigir vel hvað lífsviljinn hefur mikið um það að segja hvernig og hvenær hver fer.
Láttu mi vita það Símon Pétur. Með gæðastjórnunar embættismannahirð eftirlitsins, hef ég sem múrarameistari verið verið sviptur af Mannvirkjastofnun afturvirkt þeim réttindum sem ég hafði. Þannig að nú stendur það eitt eftir að fá að ábyrgjast múrverkþáttinn fyrir byggingastjóra og til þess á ég að kosta gæðaeftirlitskerfi og þannig fá að ábyrgjast verkið út yfir gröf og dauða. Nú á að koma á námi í skurðgreftri á háskólastig, að mér skilst.
Já það má segja það Þórhallur, enda eru draumar yfirleitt nauða ómerkilegir nema fyrir þann sem dreymir. En sumir þó þannig að rétt þyki að eyða á orðum.
Djöfsi var klæddur á hefðbundinn máta Þorsteinn, hann var ekki í blárri gallaskyrtu, hvað þá í hvítri nælonskyrtu og bláum gallajakka yfir með annað augað dregið í pung eins og þegar mest ríður á.
Ég satt að segja efast um að Þorsteinn kæmist með bönkerbygginguna í gegnum reglugerðafrumskóg gæðaeftirlitsins, Símon Pétur. Jafnvel þó svo að þar yrði ekki um neitt Hákot að ræða.
Lýsi tek ég ómælt á hverjum morgni með hafragrautnum stútfullum af fjallagrösum, bláberjum og hampfræi. Svo ekki þarf ég sprautur þess eineygða frekar en hann sjálfur eins og hann hefur lýst fjálglega yfir svo aðrir njóti forgangsins, en ekki bara vafans. Sannur heiðursmaður.
Magnús Sigurðsson, 12.11.2020 kl. 06:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.