Millennium

Eins og þeir hafa orðið áskynja, sem hafa lesið langlokur þessarar síðu, þá er yfirleitt um algjöra steypu að ræða. Hrærða saman af þvælukjóa sem á það til að gefa dauðann og djöfulinn í uppskriftina. En eins og hjá flestum viti bornum verum hefur ekki ávallt verið svo, síðuhöfundur hefur haft hugmyndir a la Arnaldur.

Ég læðist stundum niður í geymslu til hnýsast í gömul blöð. Þegar ég sit þar koma upp minningar og atburðarás verður þá oft ansi hröð. Stundum kemur fyrir að ég rekst á eitthvað sem vakið hefur vonir og þrár, -innan um bók daganna. Ef tímann ég ætti þá gaman mér þætti að hverfa til baka ein tuttugu þrjátíu ár. Svona vegna andleysis aðventunnar þá set ég þessa langloku héri inn.

– 0 – 0 – 0 – 0 – 0 –

1# Bíllinn þaut eftir veginum í hljóðri miðsumarnóttinni. Upp af dökkbláum austurfjöllunum bjarmaði bleik birtan frá sólinni sem styttist í að kæmi upp yfir fjallsbrúnirnar. Það var móska yfir landinu. Dularfullir klettar, gaddavírsgirðingar og fjöll spegluðust í tjörnum og lónum sem móða steig upp af í ævintýralegri birtu. Í vegköntunum lágu kindur með lömb og rétt svo létu ferðalanginn, sem rauf næturkyrrðina, trufla sig með því að snúa jórtrandi höfðinu með yfirlætissvip í átt til bílsins um leið og hann fór hjá.

Hann var búin að vera undir stýri frá því eftir vinnu, en þá hafði hugmyndin um að yfirgefa borgina kviknað. Það var eitthvað í andrúmsloftinu þá um daginn sem hafði óvænt vakið þrána, um að komast eitthvað út í buskann, svo sterka að allt annað varða að víkja. Hann hafði ekki einu sinni gefið sér tíma til að koma við í íbúðar holunni sinni til að fara í sturtu og hrein föt. Aðeins eitt hafði komist að og það var að komast út úr borginni.

Það var ekki fyrr en eftir rúmlega klukkutíma akstur að það fór að skýrast í huga hans hvert ferðinni var heitið. Leiðin lá heim þar sem hann hafði ekki komið í rúm fjögur ár. Þegar hann yfirgaf heimkynnin var það fyrir fullt og allt. Örlögin höfðu hagað því þannig að þangað hafði hann ekkert að sækja framar. Samt var hann komin á heimaslóðirnar aftur án þess að vita til hvers. Þegar hann fór héðan var það með konu og börnum en nú var hann einn á ferð. Það var ekki laust við að það örlaði á smá viðkvæmni og tár læddust niður kinnarnar í einmanalegri ró sumarnæturinnar.

Hingað var ekkert að sækja, flestir æskufélagarnir fluttir í burtu. Þó hann væri héðan í báðar ættir og forfeðurnir hefðu alið hér manninn í aldir þá voru flest ættmenni, sem hann hafði haft samskipti við meðan hann bjó hér, annað hvort flutt á brott eða horfin til annarra heima. Foreldrarnir báðir fluttir á vit forfeðranna, móðir hans fyrir fjölda ára langt fyrir aldur fram, faðir hans fyrir fimm árum. Þau voru fjögur systkinin. Tvær yngri systur höfðu báðar farið suður til náms á unglingsárunum og ekki komið aftur, áttu sínar fjölskyldur í borginni.

Svo var það bölvaður minkurinn hann Beggi bróðir, sem var tveimur árum eldri, hann var sá eini af þeim sem ennþá bjó í þorpinu, en þann náunga hafði hann ekki nokkurn áhuga á að hitta. Þau systkinin höfðu ekki hist eða haldið sambandi eftir að faðir þeirra dó. Það var helst að örlaði á smá áhuga hjá honum á að hitta Siggu frænku, móður systur sína. Hún var eina mannveran í þorpinu sem hann hafði haldið sambandi við síðan hann fór, þeir Jonni sonur hennar höfðu verið jafnaldrar og miklir félagar frá því að hann mundi fyrst eftir sér og aldrei borið skugga á þeirra vináttu.

Hér hafði þróunin gengi yfir eins og víða annarsstaðar á landsbyggðinni. Þegar farið var að markaðsvæða rekstur, eins og það var kallað, þá stóð hann ekki lengur undir sér og þeir sem eitthvað kvað að létu sig hverfa. Þar fyrri utan var fólki svo þröngt skorinn stakkur félags- og menningarlega að ekki var búandi við það þegar litið er til þeirra krafna sem nútíminn útheimtir. Það hafði svo sem margt verið reynt. Opinberu fé kastað í elliheimili, heilsugæslustöð, skóla og íþróttamannvirki, en það samt ekki dugað til að halda íbúunum.

Enda voru þeir sem stjórnuðu sveitarsjóði svo sem engir atgerfis menn, mestmegnis aðfluttir kennarar og uppgjafa iðnaðarmenn, flestir á launaskrá hjá sveitarfélaginu. Lengi höfðu stöndug fjármálafyrirtæki líkt og banki, tryggingar- og olíufélag reynt að koma að atvinnulífinu með því að dæla fé í formi lána og hlutafjár inn í fiskvinnslu og útgerðafyrirtæki staðarins, en allt kom fyrir ekki. Jafnvel eftir að Sambandið leið undir lok höfðu öflug fyrirtæki haldið áfram að aðstoða heimamenn við reksturinn með sífelldum skuldajöfnunum í formi hlutafjárkaupa og senda Samvinnuskólagengna atgerfismenn til að stjórna, því fór sem fór.

Það reyndist ekki hagkvæmt að halda útgerðinni áfram nema sameina hana annarri stærri útgerð sem sá sér ekki fært að halda henni gangandi nema sameina veiðiheimildir á sín skip. Það lýsir kannski best um hverskonar krummaskuð var að ræða þegar Olíufélagið, sem var allt að vilja gert, náði ekki að halda úti annarri bensín- og olíuafgreiðslu á staðnum en sjálfsafgreiðslu og það með tapi. Bankinn hafði viðtalstíma eftir hádegi tvisvar í viku auk hraðbankakassa í sjoppunni.

Þessi þróun hafði tekið tiltölulega stuttan tíma. Sem sjómaður hér hafði hann ekki farið varhluta af henni frekar en aðrir. Þegar útgerðin var sameinuð stórútgerðinni liðu aðeins tveir mánuðir þar til nýir eigendur sáu hagkvæmnina í að flytja veiðiheimildirnar yfir á sín skip í fjarlægu byggðarlagi. Togarinn sem hann hafði verið á var seldur en með því skilyrði að áhöfnin héldi plássinu, ókosturinn var sá að kaupandinn og nýja heimahöfnin var hinu megin á landinu.

Það var því undir hverjum og einum áhafnarmeðlimi komið að koma sér heim. Í þrjátíu tíma landlegu þýddi það nokkurra tíma stopp heima ef ferðalagið gekk áfallalaust. Þetta reyndist flestum fjölskyldumönnum ofviða og ekki leið á löngu þar til öll áhöfnin var hætt. Sumir, þar á meðal hann, réðu sig í lakara pláss á línubát sem átti heimahöfn í viðráðanlegri fjarlægð.

Það var samt ekki beinlínis neitt af þessu sem hafði ráðið úrslitum um það að hann flutti fyrir rúmum fjórum árum. Þar hafði ýmislegt komið til. Tvö eldri börnin voru komin á unglingsaldur og það styttist í að kæmi að því að þau þyrftu að yfirgefa heimaslóðirnar til að komast í framhaldsnám. Hann hafði haft lítið af uppeldi barnanna að segja, mest allt árið á togaranum úti á sjó til að afla heimilinu tekna. Konan hafði séð um uppeldið. Hann hafði í huganum séð að í fyllingu tímans myndi mikil vinna með góðum tekjum leiða til þess að hann hefði betra tækifæri á að njóta samvista við fjölskylduna og vinna upp samverumissinn. Þá yrðu þau búin að eignast húsið og daglaunavinna í frystihúsinu dygði til framfærslu.

Svo var allt í einu komið að því að aðeins tvö og þrjú ár voru í að þau eldri færu að heiman til náms. Hann í þeirri aðstöðu að þurfa að vera meira að heiman en nokkru sinni áður til að afla heimilinu tekna og ekki veitti af sitt myndi það kosta að koma börnunum til mennta. Það var fyrst þá sem hugmyndin kviknaði um að kannski væri rétt að flytja á annan stað sem hefði það að bjóða sem vantaði hér, möguleika á námi, vinnu og samvistum við fjölskylduna. Hann myndi með því kannski eitthvað hafa með uppeldi þeirrar yngstu að gera og geta verið til staðar fyrir þau eldri.

Æsku vinur hans og klefafélagi öll árin á togaranum, Jonni Siggu frænku, hafði tekið sig upp og flutt suður ásamt sinni fjölskyldu þegar togarinn fór, eftir það varð þessi hugmynd ágengari. Svo var það eftir að faðir hans dó að málin æxluðust þannig að hann gat ekki hugsað sér að búa lengur í sama bæjarfélagi og bölvaður minkurinn hann Beggi bróðir.

Nú var stutt eftir og tími til kominn að teygja úr sér eftir samfelldan sex tíma akstur. Hann ákvað að stoppa á nesinu gegnt þorpinu sem kúrði á eyrinni hinu megin við fjörðinn, svo spegilsléttan að þegar hann var kominn niður að fjöruborðinu reyndist honum erfitt að átta sig á hvað sneri upp og hvað niður, enda slæptur eftir langa vöku. Þegar hann horfði út fjörðinn, í blíða logninu, runnu fjörður, himinn og haf í eitt, enginn sjóndeildarhringur greinilegur og einmitt hérna á þessum stað hafði honum í bernsku fundist möguleikarnir óendanlegir.

Hann tekur upp stein og beygir sig niður í fjöruborðið, eldsnöggt út á hlið og sveiflar handleggnum, blibbbsss, blibbbsss, blibbs, steinninn þýtur eftir haffletinum og fleytir kellingar. Upp í hugann kemur minning úr bernsku, þegar hann lærði fyrst að fleyta kellingar. Þá var hann hinu megin við fjörðinn með föður sínum sem kenndi honum tæknina og það að steinninn þurfti að vera flatur. Grundvallaratriðin voru fljót að lærast, svo kom það með æfingu og reynslu hvaða aðstæður þyrftu að vera til staðar.

“Vaaaáá maður tólf kerlingar”.

Hann tók upp annan stein sem þeyttist efir yfirborðinu lengst fyrstu tvö skiptin en svo styttra og styttra og sekkur í áttunda sinn. Svona hafði það líka verið með væntingarnar og draumana í þessum firði. Stærstir og lofuðu mestu til að byrja með en urðu styttri og styttri uns; blibs, blibs, þeir sukku eins og steinninn.

2# Hann hafði ekkert hugsað út í hvert hann væri að fara þegar hann kom inn í þorpið kl. þrjú að nóttu. Svo hafði hann keyrt heim að húsinu hennar Dúddu en hún var systir föður hans og hafði hvatt þennan heim fyrir nokkrum árum.

Húsið hennar Dúddu hafði í raun verið heimili afa hans og ömmu þegar hann mundi fyrst eftir sér, en Dúdda dagaði uppi í foreldrahúsum og bjó þar eftir þeirra daga. Hún hafði alltaf verið svolítið skrýtin og var honum og systkinunum sagt það koma til af því að hún hefði verið yfir sig ástfangin af ungum aðkomumanni sem hafði drukknað til sjós.

Það sem gerði Dúddu skrýtna var að hún átti það til að vera á náttslopp heilu dagana með rúllur í hárinu keðjureykjandi Viceroy og hélt þá yfirleitt vinstri hendi undir hægri olnboga og hallaði undir flatt, var símalandi með sígarettuna á milli fingra hægri handar og pírði augun í gegnum reykinn. Flestar sígaretturnar bara brunnu upp, það voru kannski tveir eða þrír smókar sem fóru ofaní Dúddu. Þegar við urðum eldri þá áttuðum við okkur á því að þegar Dúdda var á sloppnum þá var það ekki bara Viceroy sem hún keðjureykti, heldur læddist eitt og eitt vín glas ofaní hana að auki. Það var sennilega ástæðan fyrir því að hún gleymdi að klæða sig og taka rúllurnar úr hárinu.

Hann og systkinin höfðu oft komið með móður sinni í þetta hús til að heimsæk gömlu hjónin, afa og ömmu. Þessar heimsóknir voru árvissar um jól og páska svo voru yfirleitt tveir sunnudags seinnipartar sumar og vetur. Þegar þessar heimsóknir áttu sér stað hitti svo á að Dúdda var aldrei á sloppnum né með rúllur í hárinu og það litla sem hún reykti var gert snaggaralega að vel athuguðu máli þannig að sem minnst af sígarettunni færi til spillis. Það var eitthvað sem lá ósagt í loftinu sérstaklega á milli móður hans og gömlu hjónanna, milli móður hans og Dúddu ríkti hins vegar nokkurskonar ógnarjafnvægi. Í þessum heimsóknum var ekki frjálslega rabbað um daginn og veginn, heldur var eins og hver setning væri sögð af vandlega yfirlögðu ráði.

Það var fastur liður þegar fór að líða á þessar heimsóknir, að Dúdda færi með systkinin í þann hluta hússins sem hún hafði til umráða. Þar voru tvö samliggjandi herbergi undir súð á efri hæðinni. Þá tók hún fram skrautlegar skálar, opnaði dós með niðursoðnum apríkósum og skar niður núgatís. Þessar dásemdir, sem alltaf voru þær sömu, voru borðaðar með bestu list þar til hvítt ís makið var komið út á kinnar og apríkósu safinn lak niður hökuna, nema hjá Begga bróðir, hann var elstur og kannski þess vegna snyrtilegastur við ísátið.

Svo var það líka það að honum þótti núgat svo vondur að hann þurfti að vanda sig sérstaklega við að borða ísinn og þegar hann fann núgat bita upp í sér stoppaði hann átið og sætti lagi með að spýta honum út úr sér bak við rúmið hennar Dúddu þegar hún sá ekki til. Það var yfirleitt eins og þungu fargi væri létt af móður hans eftir þessar heimsóknir. Hún lagði ríkt á við þau systkinin að vera ekki að sniglast þarna og alls ekki þiggja góðgerðir af Dúddu nema í heimsóknum með henni.

Faðir þeirra kom ekki með í þessar heimsóknir nema um jól, það var stirt á milli þeirra feðganna. Hann hafði heyrt það um tvítugt frá öðrum en foreldrunum að þessi stirðleiki í samskiptum ætti sér sennilega ástæðu. Föðurforeldrarnir hans höfðu búið á jörðinni Eyri fyrir botni fjarðarins, þar höfðu foreldrar hans hafið sinn búskap. Síðan gerðist það að Friðbjörn elsti bróðir föður hans flytur með sína fjölskyldu heim að Eyri, en hann hafði búið í borginni mörg ár eftir að hafa farið að heiman sem ungur maður. Upp úr því flytja foreldrar hans í þorpið, þar sem faðir hans stundaði sjó og þá vinnu sem bauðst hjá öðrum uns hann festi kaup á Bárunni, 3. tonna trillu. Stuttu síðar fluttu föðurforeldrarnir ásamt Dúddu í þorpið og bjuggu þar síðustu æviárin. Eftir daga Dúddu hafði þetta hús orðið athvarf þeirra sem tilheyrðu ættinni og komu til að dvelja í skemmri tíma.

Hann vissi ekki hvort það var þess vegna sem hann stoppaði við húsið. Það virtust engir gestir vera í því núna. Hann fór inn í garðinn sunnan við húsið þar sem þrestirnir voru byrjaðir að syngja drottni til dýrðar og sólin farin að senda mistraða geisla yfir fjallsbrúnirnar. Hátt gras var í garðinum, sem var að mestu orðinn njóla órækt, það hátt að þegar hann settist hvarf hann nánast, síðan lagðist hann út af og horfði upp í bláan himininn, sem hafði verið svo miklu blárri á bernsku árunum.

Þennan garð hafði verið farið með eins og heilagt land á meðan Dúdda réði ríkjum, grasflötin slegin reglulega, sumarblóm í beðum og þess vandlega gætt að ekki væri verið með fótbolta og fíflagang innan girðingar. Reynitrén voru ennþá á sínum stað, há og mikil, en einhvern veginn höfðu þau verið ræktarlegri áður, allavega var laufið þéttara í minningunni.

Hann, Beggi bróðir og Jonni Siggu frænku höfðu stundum komið í garðinn í óleifi. Í eitt skiptið höfðu þeir rekist á köttinn hennar Dúddu og ákveðið að ganga úr skugga um það hvort rétt væri að kettir kæmu alltaf niður á fæturna, sama úr hvaða hæð þeir féllu. Beggi og Jonni tóku köttinn á milli sín og köstuðu honum eins hátt upp í loftið og þeir gátu, nema hvað kötturinn fór upp á milli gereinanna á reynitrénu og kom síðan ekki niður.

Eftir svolitla stund var ákveðið að Beggi bróðir klifraði upp í tréð til að leita að kisa, en það var mikið áhættu atriði, ekki vegna trésins heldur vegna Dúddu. Það dró samt úr óttanum að hafa séð Dúddu á sloppnum rétt fyrir hádegið. Beggi bróðir kom grafalvarlegur niður úr trénu og sagði að kötturinn héngi á hausnum milli greina og væri sennilega dauður og það sem verra væri að hann kæmist ekki að honum.

Það var átakanlegt að fylgjast með Dúddu á kvöldin næstu vikuna, ranglandi um garðinn á sloppnum með höndina undir olnboganum og Viceroy sígarettuna rjúkandi á milli fingranna, umla þvoglumælt kliss, klis. Þeir höfðu sig ekki í að segja Dúddu að kisi hennar væri á vísum stað, rétt yfir höfðinu á henni, en að því komst hún að þegar laufið féll af reynitrjánum um haustið.

Það sótti að honum einhver svefn höfgi þar sem hann lá í háu grasinu. Það var eitthvað við svona hátt gras sem minnti bæði á búsæld og auðn. Hann lét hugann reika fimm ár aftur, en þá hafði hann farið inn í fjörð ásmat syni sínum með veiðistöng. Þeir höfðu farið inn að Eyri og rennt í Eyrarána. Þetta var á hásumardegi eins og þeir gerast bestir. Sólskinið og hlý golan bylgjuðu grasið og gerðu sjóinn kóngabláan. Þá hafði hann gefið sér tíma til að setjast í hátt grasið og virða fyrir sér umhverfið.

Það var þá sem rann upp fyrir honum að eitthvað var bogið við ásýndina. Grasið var orðið hátt og því sem næst úr sér vaxið, engin hreyfing heima við Eyrarbæinn og kyrrðin algjör. Svona var þetta líka á næstu bæjum, Grund og Strönd. Það var þá sem rann upp fyrir honum að Friðbjörn á Eyri hafði selt búmarkið haustið áður og ætlaði að búa hjá börnunum sínum í borginni um veturinn. Síðan hafði hann heyrt ávæning af því að einhver lögfræðingur væri að hugsa um að kaupa Eyri og nota sem sumarbústað auk þess að fá góða silungsveiðiá í kaupbæti.

Grund og Strönd höfðu farið úr ábúð ári fyrr. Hann hafði alltaf verið svo upptekin við sjóinn og eigin hugðarefni þegar hann var í landi að hann hafði ekki veitt þessu eftirtekt fyrr, en þarna hafði hann fyllst einhverjum trega þegar hann leit heim að bæjunum með háu grasi allt í kring, hvorki heyskapur né þvottur á snúrum í blússandi þurrki. Engin hundgá né nokkur hreyfing bara kyrrð og grafar þögn.

Hvaða drunur voru þetta? -Hann áttaði sig fljótlega á að hann hafði sofnað og það sem honum heyrðist vera drunur var frá bíl sem ók eftir aðalgötunni niður á bryggju. Hlýr vindurinn þaut í háu grasinu og sólin skein í tæru morgunnloftinu, klukkan var orðin rúmlega sjö. Hann lá um stund en settist svo upp, golan hvíslaði í laufi reynitrjánna, þetta var nú meiri dásemdin.

Hvar skyldu rætur manns liggja? -Ætli þær séu þar sem draumarnir fæddust og augnabliksstemmingin hafði mest áhrif á sálina?

Eða ætli þær séu á þeim stað sem maður slítur barnskónum?

Hvenær skildi vera hásumar mannsævinnar? -Ætli það sé þegar laufið þýtur í trjánum yfir höfði? -þeirra trjáa sem gróðursett voru þegar kappið og væntingarnar voru mestar?

Hann var þá staddur á þeim slóðum þennan hlýja morgunn.

Þetta var þorpið sem hann fæddist í, hér ólst hann upp og hér hafði hann lengst af séð fyrir sér að lifa ævina. Hann hafði byggt hús yfir fjölskylduna héðan skammt frá upp í hæðinni. Þar hafði ekkert verið til sparað því konan skyldi fá fallegt og gott heimili, sem stæðist hvaða samanburð sem væri. Ómæld vinna og fjarvera á sjónum, þar sem hver aukatúr sem hægt var að komast í hátt í tvo áratugi, varð gjaldið.

Húsið var flott með snyrtilegum garði og mikið hafði honum hlakkað til þegar reynitrén tvö sem hann hafði gróðursett með fjögurra metra millibili yrðu orðin það stór að hann gæti fest hengirúm á milli þeirra. Bílastæðið var hellulagt og körfuboltaspjaldið fyrir strákinn á sínum stað fyrir ofan bílskúrsdyrnar. Í bakgarðinum hafði hann smíðað lítið gullabú, hús fyrir dæturnar í sama stíl og húsið. Þetta hafði kostað mikla orku og alla fjármuni sem ekki fóru í heimilishaldið, -og tókst án þess að stofna til mikilla skulda. Enda voru hann og konan yfirleitt samtaka um hvernig staðið væri að hlutunum.

Þegar hann kom í þorpið um nóttina þurfti hann að keyra fram hjá húsinu en hafði ekki með nokkru móti fengið sig til að líta í áttina að því, það myndaðist einhver kökkur í hálsinum og hann hafði fundið til magnvana reiði. Það hafði verið verulega erfitt fyrir konuna og börnin að yfirgefa þetta heimili þeirra á sínum tíma, en þá hafði hann útilokað allan söknuð og tilfinningar í þeim önnum sem fylgdu flutningunum.

– 0 – 0 – 0 – 0 – 0 –

Já, -ég var að gramsa eftir dagbók sem ég hélt í landinu helga yfir nokkurra vikna tímabil fyrir ca. 23 árum síðan. Þar fann ég óvænt þessa tvo kafla hér að ofan, útstrikaða til leiðréttingar. Þá hafði ég hamrað inn á heimilistölvuna fyrir u.þ.b. 18 árum síðan, ásamt 8 – 9 öðrum. Þetta átti að verða sólahrings sakamálasaga og ef ég man rétt þá var hún með tvennskonar endi, öðrum fyrirsjáanlegum samkvæmt söguþræðinum með margboðuðu morði, hinum óvæntum.

Þess er skemmst að geta að heimilistölvan gaf upp öndina og þegar farið var í að lappa upp á hana varð niðurstaðan sú að setja í hana nýtt stýrikerfi, en hún var með stýrikerfi sem kallaðist Windows Millennium og þótti þá ekki orðið merkilegt. Það vildi svo slysalega til að það gleymdist að gagnabjarga og þar með glataðist allt sem var í Millennium, -kannski sem betur fer fyrir mig, -en tjónið var tilfinnanlegt fyrir börnin okkar sem deildu sömu tölvu. En óvænt fann ég nú ofangreinda kafla, sem eru það eina sem ég á úr millennium, ásamt handskrifuðu dagbókinni frá því í landinu helga sem ég var leita að.

Ég gerði ekkert í að reyna að skrifa þessa sakamálasögu aftur þó svo að ég hafi munað þráðinn. Enda bjóst ég við að betur ritfærir menn myndu gera sér efnivið í skáldsögu og geta þess skilmerkilega bæði í gamni og alvöru hvernig lífsviðurværið var haft af fjölda fólks með lögum. Ég er og hef alltaf verið steypukall og á því er engin kvóti. Til að fá einhvern botn í þessa steypu þá verð ég að bæta í langlokuna sögu frá því 3 árum fyrr. 

Um síðustu aldamót upplifði ég stór tímamót. Það Ísland sem ég þekkti var horfið og fiskimiðin endanlega komin á markað, breytingarnar tóku aðeins örfá ár. Síðasta árið sem ég bjó á staðnum, sem átti að verða mitt heima í þessu lífi, dundaði ég mér við að mála myndir. Einn daginn kom til mín vinkona, sem vann í fiski, með smásagnabók eftir Selmu Lagerlöf og bað mig um að mála mynd eftir einni sögunni í bókinni. Henni langaði svo mikið til að vita hvaða mynd ég læsi út úr sögunni. Ég varð við þessari bón og máliði mynd fyrir hana og lét hugleiðingu fylgja um hvað ég sæi við lestur sögunnar.

Sagan Hreiðrið eftir Selmu Lagerlöf segir frá einbúanum Hattó sem fór út í auðnina og bað Drottinn engrar smábænar, hvorki meira né minna en um að tortíma heiminum. Því svo miklar voru syndir mannanna að frelsa þurfti þá ófæddu frá lífinu sjálfu.

Þann tíma sem hann var á bæn komu máríerlurnar og gerðu hreiður í hendi hans vegna þess að eina tréð í nágreninu var greinalaust og Hattó líkari tré sem veitti skjól. Hattó fór smá saman að finna til samkenndar með íbúum hreiðursins og sannfæringarmáttur bænar hans dvínaði smátt og smátt. Að endingu bað hann hreiðrinu griða.

Sævar sjómaður hafði aldrei beðið bæna í líkingu við bæn Hattós. Hér áður fyrr þegar fiskverð var lágt, hafði honum í versta falli komið það til hugar að kaupfélagið væri dragbítur á framfarir og mætti því missa sig.

Með tímanum tóku við nýir siðir sem Sævar átti erfitt með að skilja, hann mátti ekki veiða nema ákveðinn afla hvernig sem gaf. Það undarlega var að verðið sem hann þurfti að fá fyrir fiskinn fékk hann fyrir hann óveiddan og kallaðist þetta markaðsvæðing. Kaupfélagið fór á hausinn því það réði ekki við að kaupa óveiddan fisk á markaðsverði.

Svo hrundi vitinn í gjörningaveðrinu mikla og leiðsögnin brást. Á endanum varð hið gjöfula haf sem ófær eyðimörk fyrir Sævari og hann gat hvorki flotið burt á sínum brotna bát né séð fjölskyldunni farborða. Fram til þessa höfðu Sævar og Hattó aðeins átt eina bæn sameiginlega, þá að biðja Drottinn um að þyrma hreiðrinu.

Hreiðrið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þarna er einnig góð lýsing á því hvernig kvótakerfið hefur farið með minni byggðir landsins.....

Jóhann Elíasson, 1.12.2020 kl. 08:30

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir innlitið, lesturinn og athugsemdina Jóhann.

Það er hárrétt hjá þér þessi saga átti að lýsa því hvernig kvótakerfið fór með minni byggðir landsins og þá sem fengu ekki úthlutuðum kvóta þó svo að þeir hafi aflað fiskjar og unnið alla ævi.

Margt af því fólki kom svo til eignalaust út úr dæminu á meðan aðrir fengu meira af peningum en þeir höfðu nokkur not fyrir önnur en að gambla á hlutabréfa markaði.

Magnús Sigurðsson, 1.12.2020 kl. 16:35

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Magnús, ég hefði alveg getað lesið 5-sinnum lengri texta, og samt haldið fullri athygli.  Sérstaklega hefði ég viljað fá að vita af hverju Beggi bróðir varð að helv. minknum hann Beggi bróðir, og hvort það var hann sem féll, eða var talinn valdur af falli, fyrst þetta var morðingjasaga, en slíkt er eiginlega forsenda að ég lesi bækur, að einhver sé drepinn á fyrstu 5 blaðsíðunum.

En félagar mínir, ég held svona eftir á, að kvótakerfið á sínum tíma hafi þó bjargað því sem eftir var af landsbyggðinni, það var engin framtíð eða rekstrarleg forsenda að reka gamaldags frystihús með  skuttogurum, framleiðandi fangelsimat og sjúkrahúsfæði fyrir ameríkanana.  Hefðu menn þrjóskast við og komið öllu á heljarþröm, þá hefði markaðnum fyrst verið sleppt lausum og blautlegnum draumi frjálshyggjunnar og Þorsteins Pálssonar um Ný Sjálenska kerfið hefði verið komið á, kerfi sem endaði í 3 stórútgerðum á innan við 5 árum.

Kvótinn og markaðurinn var nauðsynlegur til þess að við færum að umgangast fiskinn sem auðlind sem gaf af sér verðmæta vöru, kerfið sem var bauð hvorki uppá lífskjör eða mannlíf sem nútímafólk sætti sig við. 

Þessi þróun var hvort sem er hafin, sjómenn á togurum voru ósáttir við lága fasta fiskverðið, vildu markaðstengingu, smábátasjómenn vildu selja allt á markað, í því umhverfi var flest öll fiskvinnsla á landsbyggðinni dauðadæmd.

Sem og að ungt fólk leitar ekki í færabandavinnu fiskvinnslunnar þegar svo margt annað er í boði, þar sem ennþá má veiða, þar manna útlendingar færiböndin.

Siðleysið í að svipta fólk eigum sínum án þess að hluti af meintum ávinningi hagræðingarinnar væri skilað til þess í formi bóta eða að meina dreifðum byggðum að nytja grunnmið feðra sinna er annar handleggur, en svona starfar markaðurinn, ekki bara hér, heldur glóbal um allan heim.

Þar er hnífurinn í kúnni, þessi lýsing getur átt við næstum allar smærri byggðir i hinum vestræna heimi, þessi þróun er alls staðar.  Og jafnvel í stærri borgum, auðhringir yfirtaka fyrirtækja og flytja framleiðslu þeirra úr landi, opnað er fyrir ódýrari innflutning frá þrælabúðum, afleiðingin er rústir þar sem áður var blómleg framleiðsla.

Síðasta vígið, að vernda landbúnaðinn, er að molna.  Stórfyrirtæki beita fyrir sig góðgerðasamtökum og ungu vel meinandi fólki sem spyr hástöfum, af hverju er ekki opnað  fyrir innflutning matvæla frá fátækum löndum, sjá fyrir sig fátæka bændur en reyndin er að sá matur myndi að 99,99% koma frá stórum verksmiðjubúum sem væru rekin í anda plantekra Suðurríkjanna forðum daga. En afleiðingin yrði endalok árþúsunsa bændamenningar Miðjarðarhafslanda  Evrópu, evran er langt komin með að drepa hana, þetta yrði banahöggið.

Nútíminn skýrir hluta af hnignuninni en restin er svo mannanna verk, afleiðing af hugmyndaheimi hagfræði þess í neðra.

En hér böggum við kvótakerfið svo hægt sé að veita landsbyggðinni náðarhöggið með uppboði veiðiheimilda.

Og þá myndi bæði Marbendill og Þorsteinn Pálsson fyrst hlæja.

En þetta var bara svona útidúr, mæli með morðingjasögu skrifaða af steypufræðing.

Það gæti orðið fróðlegt.

Kveðja úr vindinum sem er að hvessa, úr neðra.

Ómar Geirsson, 2.12.2020 kl. 13:51

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir efnismikið innlit Ómar.

Nú man ég ekki nákvæmlega, öllum þessum árum seinna, hvernig fór fyrir bölvuðum minknum honum Begga bróðir. En andinn útí hann stafaði af því að Beggi bróðir og faðir hans, og söguhetjunnar, gerðu út Báruna. Þegar sá gamli féll frá þá átti Beggi orðið útgerðina ásamt aflaheimildum enda var ekki hægt að lifa á henni nema með kvótanum, sem var múltí milljóna virði ef hann var seldur. 

Söguhetjan sat aftur á móti uppi atvinnulaus eftir að togarinn fór úr þorpinu og þurfti að sækja vinnu um langan veg til að halda heimilinu á floti. Þannig hafði reyndar líka málum lyktað á jörðinni Eyri mörgum áratugum fyrr, yngri bróðirinn fór slippur og snauður með sína fjölskyldu þaðan í þorpið. 

Þær eru margar flækjurnar í mannlegum samskiptum sem komu upp þegar framsalið á kvótann var gert löglegt. Ég man eftir bónda og bílstjóra sem keyptu sér trillu í bríaríi til að fiska í soðið yfir sumartímann og upp í kostnað við kaupin.Síðar réðu þeir sjómann sem vildi vera meira heima en á úthafinu til að róa á trillunni upp á hlut. 

Það kom að því að bílstjórinn vildi komast út úr útgerðinni enda ekkert nema vesenið upp úr henni að hafa. Þá var sjómanninum sem réri á trillunni boðið að kaupa hlut bílstjórans, en hann afþakkaði það því það var lítið annað en aukin kostnaður sem taka þyrftir af sjómannshlutnum.

Þannig að bláfátækur bóndinn, sem aldrei fór á sjó, sat á endanum uppi með allt vesenið. Sjómaðurinn hélt áfram að róa á trillunni sæll og ánægður upp á sinn hlut. Svo allt í einu kom framsalið, og á trillunni varð til múltí milljóna kvóti, ekki ef hann var veiddur, heldur ef hann var seldur. Bóndinn var stundum kallaður arðræninginn eftir það.

Fiskur hefur ekki bara batnað sem markaðsvara við seinnitíma kvótameðhöndlun. Skemmst er að minnast þess hvernig íslenskir  raunvísindamenn úr fáviskufabrikkunum eiðlögðu margra alda gott orðspor íslensks saltfisks. Það dettur ekki einu sinni óskemmdum íslending í hug að kaupa óskapnaðinn sem er í boði í dag, frekar en silung úr Lagarfljótinu.

Með kólgu kveðjum úr efra.

Magnús Sigurðsson, 2.12.2020 kl. 14:42

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Minnstu ekki á það ógrátandi Magnús hvernig hin löggilta græðgi íblöndunarefna eyðilögðu íslenskan saltfisk, þar tala ég frá fyrstu hendi, þessi þrjú ár sem ég rak saltfiskverkun á tíunda áratugnum með miklum snillingum, þá sögðu matsmenn SÍF að þeir kæmu til okkar í Austfisk til að fá sér kaffi og slappa af, gáfu okkur svo 100% fyrsta flokk, þessi örfáu fiskar sem goggstungur og annað skemmdu, og áttu að vera færðir niður, þeir voru aðeins undantekningin sem sannaði regluna.

Ég hef alltaf talið Kalla Sveins merkismann eftir að hann neitaði að taka þátt í svindlinu og hætti að framleiða saltfisk, en mér þótti hann reyndar merkilegur fyrir.

Kannast við svona fjölskylduharmleiki, en sannleikurinn er samt sá að flestir trillukarlar fengu rétt fyrir skuldum, plúss eitthvað sem þeir hefðu fengið fyrir báta og veiðarfæri fyrir daga kvótakerfis.

Ómar sagði Daddi Herberts einu sinni við mig þegar við ræddum þessi mál, þú borgaðir okurfé fyrir manndrápsfleytur, þannig var kvótinn eða auðlindarentan komin inní kerfið.  Vissi hvað hann var að segja, hafði fiskað og fiskað, og átti þannig séð aldrei krónu, það fór allt í að borga af bát, síðan stærri bát og síðan Sævari sem var 11 tonna súðbyrðingur og Daddi notaði á snurvoð.  Átti þá loksins pening.

Ég stríddi honum á móti og sagði að það ætti enginn að öfunda þessa fyrrum stoltu veiðimenn sem eyddu deginum í að vafra um, með sífelldar áhyggjur af því hvort peningar þeirra inná bók ávöxtuðust ekki nógu mikið.

Og að stríðninni slepptri þá var líf þeirra ekki öfundsvert, en það neyddi þá enginn til að selja, þeir bara seldu.

Hins vegar með gæðin og annað, þá þekki ég þetta frá fyrstu hendi, sem og ég veit hvað kynslóð sona minna hugsar.

Við rífumst ekki við framþróun tímans Magnús, en við getum haft áhrif á hana.

En gerum ekki því við rífumst alltaf við fortíðna.

Þess vegna stjórnar jú hugmyndafræði þess í neðra, fólk snýr ekki bökum saman gegn henni.

En ég stend við þá kenningu mína, sem ég fattaði mjög löngu seinna, að við vorum heppin að vera svona snemma með kvótakerfið, þess vegna voru ítök peningapunga ekki orðin eins mikil og hún varð seinna.

Við héldum þó einhverju, algjör markaðsvæðing hefði tekið allt.

Og það er markmið þeirra sem berjast fyrir uppboði veiðiheimilda.

Þá umræðu treysti ég mér að taka við hvern sem er, og hafa betur.

Því lífið og hagfræði lífsins hefur alltaf betur þegar glímt er við dauðann og þann í neðra.

Þess vegna lifir jú lífið af.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2020 kl. 16:47

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir athugasemdina Ómar.

Ég get ekki orðað þetta betur en þú gerir, eða verið meira sammála varðandi uppboð á veiðiheimildum. Þarf ekki einu sinni að skrifa um það skáldsögu. Fiskimiðin í kringum landið eiga að vera þeirra til að nýta sem þess nenna og búa við þau, samkvæmt almennum markaðslögmálum en ekki sérhagsmunum falskra fjármuna.

Norðmönnum virðist hafa gengið betur að verja rétt minni byggða, sérstaklega hvað fiskveiðar varðar. Þess varð ég sjálfur áskynja þegar ég bjó í Noregi. Kemur þar til "frjáls" krókaveiði og ívilnanir tengdar við búsetu. Þessu hefur verið öfugt farið hér á landi ef frá eru taldar strandveiðarnar sem settar voru til að bjarga fólki út úr hruninu.

Með meinhægum kveðjum að ofan.

Magnús Sigurðsson, 2.12.2020 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband