Jón bóndi grímulaus

Jón Stefánsson frá MöðrudalÞað fer sjálfsagt ekki fram hjá neinum að nú er ungt grímuklætt fólk á ferðinni í forvarnarskini. Sagt hefur verið að sóttvarnir dæmalausu drepsóttarinnar gangi út á að vernda þá viðkvæmu, ásamt því að sliga ekki heilbrigðiskerfið. Áður fyrr var ungt fólk sem ekki hafði orðið sér út um sóttina litið hornauga. Í því sambandi minnir mig móðir mín hafa drifið  okkur systkinin í heimsókn þar sem mislingar voru, illu væri best aflokið og á ungdómsárunum væri pestin léttvæg. Nú í seinni tíð hefur komið í ljós að eina leiðin til að vera öruggur með ónæmi gagnvart mislingum er að hafa fengið þá.

Gengið yfir fjöllin 1940 heitir frásögn Guðmundar Helga Þórðarsonar frá Hvammi á Völlum í 23. Múlaþingi. Þar segir hann frá gönguferð sem menntaskólanemar á Akureyri fóru að vorlagi að loknum skóla heim til sín austur á land. Einnig lítillega frá öðrum slíkum gönguferðum 1941 og 1943. Þar kemur fram að 1943 gengu mislingar og var þá sótthræðsla við unga ferðamenn.

"Síðasta vorið gengu mislingar á Akureyri en við félagarnir höfðum ekki fengið mislinga og gátum því verið hættulegir umhverfinu, borið veikina með okkur. Við fórum að vanda gangandi á milli Grímstaða og Möðrudals. Veður var fremur kalt, hafði snjóað um nóttina og gekk á með éljum en ekki vindur að ráði. Við höfðum nesti með okkur og fórum heim að Víðidal og hugðumst fá þar húsaskjól, meðan við borðuðum. Við hittum bóndann úti við. Hann færðist undan að heilsa okkur með handabandi og innti okkur eftir, hvort við hefðum fengið mislinga. Þegar svo reyndist ekki vera, sagðist hann ekki geta boðið okkur í bæinn, en vísaði okkur á fjárhús þar í túninu, þar sem við mættum borða nestið. Hann fór síðan inn í bæ og sótti kaffi og meðlæti, setti það í garðann og sagði okkur að gera svo vel. Að svo búnu fór hann upp á þak og talaði við okkur í gegnum þakgluggann á meðan við snæddum. Að lokinni máltíð sendum við honum þakklæti í gegnum gluggann og héldum áfram ferðinni.

Þegar við komum í Möðrudal, kom í ljós, að Jón bóndi hafði ekki fengið mislinga, en hann var þá komin á efri ár. Það gat því verið hættulegt fyrir hann að hitta okkur, og voru því gerðar ráðstafanir til að hann kæmist ekki í hópinn. Fengum við ríkulegar veitingar að vanda. Var okkur vísað til stofu, en Jón hafður í öðru húsi. Gekk nú allt eftir áætlun fram eftir kvöldi, en skömmu eftir kvöldmat birtist Jón skyndilega öllum að óvörum. Rauk beint í orgelið og upphóf hljóðfæraslátt og söng, og héldu honum eftir það engin bönd. Var svo spilað og sungið fram á nótt. Sem betur fór reyndist engin okkar með mislinga, svo Jón slapp. Þetta atvik sýnir áþreifanlega, hvað Jón í Möðrudal hafði mikla unun af því að taka á móti gestum." 

Áður hafði komið fram í frásögn Guðmundar Helga hversu höfðinglegar mótökur þeir ferðafélagarnir höfðu fengið í Möðrudal vorið 1940; "Okkur var fyrst boðið til kaffidrykkju og síðan í mat, og veitingar höfðinglegar og viðmót allt hið elskulegasta. Milli máltíða skemmti Jón okkur með orgelleik og söng og tók hópurinn undir. Þess á milli sagði hann okkur frá lífi sínu og athöfnum. Hann hafði verið organisti í Möðrudalskirkju, samið lög og að sjálfsögðu sungið. Hann hafði rödd sem lá hærra en þær raddir, sem við höfðum áður heyrt. Og fannst sumum nóg um. Auk þess fékkst hann við myndlist og sýndi okkur myndir eftir sig. Hann var smiður á tré og járn og söðlasmiður og fleira."

IMG_0192

Hafi þeim Guðmundi og félögum þótt Jón í Möðrudal kominn til ára sinna árið 1940 og vernda þyrfti hann fyrir drepsótt 60 ára gamlan, þá átti Jón eftir að afreka miklu sem eftir var ævi. Hann byggði m.a. nýja kirkju í Möðrudal út í eigin reikning til minningar um Þórunni Vilhjálmsdóttur Oddsen konu sína og málaði í hana einstaka altaristöflu. Allir sem eiga ferð yfir Fjöllin ættu ekki að láta hjá líða að skoða einstök verk lífskúnstnersins Jóns í Möðrudal.

Til er upptaka sem Stefán Jónsson fréttamaður og rithöfundur ásamt fleiru, faðir Kára Stefánssonar, tók við Jón bónda í Möðrudal. Þar má heyra hann segja frá því hvernig hann fór að við byggingu kirkjunnar auk þess að syngja og leika á orgelið. Einnig er skemmtilegt viðtal, á meðfylgjandi youtube klippu, við athafnamanninn Einar frá Hvalnesi í Lóni þar sem hann vandar ekki hagfræðingunum kveðjurnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Sæll Magnús.  Það er gaman að hlusta á þessi viðtöl.  Einhverntímann var mér sagt að altaristaflan í kirkjunni í Möðrudal væri af jesú að renna sér á rassinum niður Herðubreið og vissulega er tiltölulega auðvelt að sjá það út úr myndinni 

Þú hefur líklega lesið bókina Líklega verður róið í dag eftir Stefán Jónsson.  Þar er kafli um Einar í Hvalnesi, eða Tröllið úr Eystra Horni eins og kaflinn heitir.  Þar er einmitt komið inn á þennan innilega hlátur Einars og segir orðrétt: " Ég hef þekkt hann eins lengi og ég man eftir mér.  Ég man eftir honum þegar hann var 160 kíló, bein, vöðvar og andlit, og átti smávöxnustu hryssuna á Austurlandi.  Hann stóð á hlaðinu heima í Rjóðri og hló og blágrýtishamrarnir við Berufjörð bergmáluðu hláturinn og einhver sagði að þegar Einar á Hvalnesi færi að hlæja, þá yrðuþau líka að gera það tröllin í hinum fjöllunum. 

Stefán segir líka að þessi hlátur sem heyrist í lokin á einmitt þessu viðtali í myndbandinu hafi hann lánaðerlendum útvarpsmönnum, ásamt lauslegri þýðingu, til þess að brúka sem niðurlag á útvarpsþáttum um íslensk efnahagsmál.

Hvern og ein getur svo velt því fyrir sér hvort þetta á við enn þann dag í dag.  Annars segir Stefán líka að hann efist um að Einar frá Hvalnesi hafi nokkurn tímann yrt á mann án þess að koma honum í gott skap ellegar þá að minnsta kosti að gera hann hissa en það er það næsta sem sumir menn komast góðu skapi.

Bestu kveðjur frá Djúpavogi.

S Kristján Ingimarsson, 3.12.2020 kl. 08:52

2 identicon

Algjört yndi að lesa, sjá og heyra.

Og athugasemd S Kristjáns af sama tagi.

Bóndinn í Hákoti lyftist allur til andans af lestri allra þinna skemmtilegu pistla.  Og veitir ekki af á þessum fjandans harðindatímum.

Bestu þakkir.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2020 kl. 12:09

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdirnar Kristján og Símon Pétur og takk fyrir söguna Kristján.

Nei ég hef ekki lesið bókina hans Stefáns Líklega verður róið í dag, verð greinilega að útvega mér hana. Stefán var mikill frásagnameistari og hafði nef fyrir litríku fólki sem auðgaði samtíma sinn og gerir enn þann dag í dag. Bækurnar  hans Gaddaskata og Ljós í rófunni segja frá skemmtilegu fólki á einstakan hátt, svo ekki sé talað um Að breyta fjalli, óð Stefáns til æskustöðvanna á Djúpavogi.

Þessar útvarps upptökur eru náttúrulega hreinar gersemar sem undirstrika einstakar persónur. Þó svo að þetta sé broslegt í dag þá er þetta svo miklu, miklu meira, þetta lýsir tíma þegar fólk þorði feimnislaust að vera það sjálft. 

Sjálfur fer ég varla um Möðrudal án þess að hringganga kirkjuna og líta eftir handbragðinu hans Jóns. Möðrudalskirkja samsvarar sér fullkomlega og Jón er sagður hafa smíðað hana án allra teikninga annarra en hann geymdi í kollinum. Og ekki minnkaði áhuginn fyrir kirkjunni þegar ég komst að því að hann hafði byggt hana í minningu Þórunnar konu sinnar.

Það var samt ekki fyrr en núna í sumar sem við Matthildur mín komumst í fyrsta skipti inn í kirkjuna til að skoða hana að innan og einstaka altaristöfluna. En hún var þá opin fyrir ferðafólk hvernig sem það er nú hægt því undanfarin ár hefur varla verið hægt að þverfóta í Möðrudal fyrir erlendum ferðamönnum. 

Magnús Sigurðsson, 3.12.2020 kl. 13:50

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk.

Kveðja úr kófinu í neðra.

Ómar Geirsson, 3.12.2020 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband