12.3.2021 | 06:00
Tæknilýsinga blað yfir eldgos
Því hefur verið velt upp hvaða nafngift hæfði eldgosinu á Reykjanesskaga. Ómar Ragnarsson benti á það á bloggi sínu að gosinu verður helst að ljúka áður en því verður gefið nafn. Í fréttinni sem hann bloggaði við er stungið upp á Sundhnjúkagígaröð eða Þráinsskjaldarhrauni sem nokkurskonar Eyjafjallajökuls tungubrjóti fyrir útlendinga.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og varaformaður örnefnanefndar sagði í samtali við mbl.is í sömu viðtengdu frétt að þau nöfn yrði í öllu falli ólíklega fyrir valinu og benti á hversu snúið væri að ákveða nafn áður en raunverulegt eldgos hæfist.
Það virðist samt engin fara í grafgötur með það að um eldgos sé að ræða. Enda gaus fyrir rúmri viku sviðsmynd í beinni í þó nokkurn tíma á hættustigi í Skógarhlíðinni og Víðir hlýðir hóf náfölur að loka vegum þó svo að hann væri alls ekki búin að ná sér eftir drepsóttina. Á meðan sveimaði þyrla Landhelgisgæslunnar yfir sviðmyndinni og leitaði rammvilltra fræðinga sem sniffuðu gas úr óróapúlsinum.
Annars var þetta alls ekki það sem mér er efst í huga núna, heldur það að í gær var ég beðin um af vinnuveitenda mínum að útvega tæknilýsinga blað yfir vikurstein. En svoleiðis steinar hafa verið notaðir sem byggingarefni á Íslandi og víða um heim áratugum saman.
Málið var að við verkefni sem fyrirtækið er að vinna var teiknaður eldvarnarveggur hlaðinn úr 15 cm þykkum vikursteini. En vikursteinn er í stöðluðum stærðum og hefur ekki verið framleiddur í 15 cm þykkt, þannig að við stungum upp á í 20 cm, -enda nóg plássið.
En viti menn þá bað verkfræðistofan, sem bæði hannar og hefur eftirlit með verkinu, um tæknilýsingu yfir 20 cm stein og ég átti að útvega blaðið. Ég sagði vinnuveitenda mínu að af því fífli gerði ég mig ekki, þessir steinar hefðu verið notaðir til húsbygginga áratugum saman m.a. í innveggi, útveggi og eldstæði, -og ef blessaðir bjálfarnir gerðu sér ekki grein fyrir muninum á 15 og 20 cm, þá skildu þeir bara loka stofunni.
En svo þegar ég rakst á bloggið hans Ómars Ragnarssonar þá datt mér í hug að það væri sennilega kominn tími á að gefa út staðlað tæknilýsinga blað yfir eldgos svo bæði þeir í Skógarhlíðinni og fjölmiðlar fari ekki með almannavanir endanlega út í móa vegna sviðsmynda úr spálíkönum.
Athugasemdir
Við öllu þessu hugur hrýs,
hrossabrestir bulla,
upp úr kjafti Ómars gýs,
alls kyns hraun og drulla.
Þorsteinn Briem, 12.3.2021 kl. 09:38
Þakka þér fyrir samhuginn og vel orta vísuna Steini, þó ekki sé hún beint falleg.
Magnús Sigurðsson, 12.3.2021 kl. 12:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.