Kominn tími til að tjarga og fiðra

Ámátlegir hafa þeir verið söngvar Satans þennan veturinn, næðandi að neðan og norðan í skelfingu lostinni skinhelginni fölri og flárri, másandi napurri mæðunni ofan í hvert hálsmál á meðan freðin fordæðan fýkur yfir holt og hæðir forn og grá af fjósbitum Sæmundar, rammflækt og rauðglóandi í grásprengdu nornahári fjölmenningarinnar.

Já þeir hafa hvorki verið margir né miklir steypu dagarnir í vetur, ekki einu sinni verið hægt að verða almennilega óður, en nú rekur hver steypan aðra við vorsins blæ undir bláum himni, og síðuhöfundur auk þess búinn að taka fram hjólið til sinnar þjónustu, enda lengist sífellt leiðin á steypunnar byrjunarreit fyrir fótafúinn jálk.

Nú er kominn tími til að tjarga og fiðra viðvaranirnar gulu, feysknar og fláar, blása þeim síðan út í buskan eins og hverri annarra biðukollu, safna á sig vítamíni þeirrar gullnu einu og sönnu, vafra hjálmlaus út á tún og ana út um þúfur með fíflum og farfuglum í glampandi sól og brakandi blíðu eins og álfur út úr hól.

Gleðilegt sumar vildi ég sagt hafa lesandi góður.

Austri SR steypa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Römm er sú taug, sem steinsteypan á í þér kæri Magnús. Vonandi vel kominn undan vetri og megir þú eiga gleðilegt sumar. 

 Kærar þakkir fyrir góðan pistil eins og vanalega og megi sú gula verma þér og landsmönnum öllum, fram á haust. 

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 22.4.2021 kl. 00:16

2 identicon

Óska þér og Matthildi og fjölskyldu þinni allri gleðilegs sumars, steypu- og sagnameistari góður.

Alltaf eykur það mér gleðina að lesa pistla þína.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.4.2021 kl. 12:39

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka fyrir kveðjurnar og óskir um gott sumar, Halldór og Pétur Örn.

Þjóðsögur herma að hér áður fyrr hafi verið heilladrjúgt að hnýta saman fúkyrðum til að losa sig við ófögnuð, -fara með rímur, -mæla fram möntru eða jafnvel hafa yfir bænir.

Ég er bestur í steypu.

Magnús Sigurðsson, 22.4.2021 kl. 17:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband